St. Louis

Helgin í St. Louis var góð. Við lögðum af stað á laugardagsmorgun í MiniVan, sem mamma Katie á. St. Louis er um 6 tíma akstur suður af Chicago. Við vorum komin þangað um 6 leytið. Við byrjuðum á því að labba um miðbæinn og horfðum á einhverja útitónleika, sem innflytjendur frá Jamaica stóðu fyrir. Því næst fórum við svo niður að gömlu höfninni við Mississippi, þar sem við borðuðum kvöldmat og sátum á bar fram eftir kvöldi.

Á laugardeginum fórum við svo niður að Gateway Arch, sem var byggður um miðja síðustu öld, sem minnismerki um landnema, sem héldu í vestur, en St. Louis var nokkurs konar miðstöð fyrir þá, sem hugðust halda til vesturríkjanna. Allavegana, þá er þetta hæsta minnismerki í Bandaríkjunum og nokkuð merkileg sjón. Við ákváðum að fara ekki uppí bogann, þar sem Katie hafði farið áður og var ekkert sérstaklega spennt. Við fórum því niður að Mississippi, þar sem við fórum í klukkutíma bátsferð um ána.

Eftir bátsferðina fórum við svo og kíktum á Busch Stadium, sem er heimavöllur St. Louis Cardinals, erkifjenda míns uppáhaldsliðs. Um kvöldið eyddum við svo dágóðum tíma að finna veitingahús en veitangastaðir í St. Louis eru ekki beinlínis hannaðir fyrir grænmetisætur einsog Katie.

Í gær fórum við svo í Anheuser Busch ölgerðina, þar sem við fórum í smá túr um staðinn, þar sem mest seldi bjór í heimi er búinn til og var það nokkuð fróðlegt. Síðan var endað inná bar, þar sem maður fékk ókeypis Michelob Light og Bud Light.

Eftir það keyrðum við svo aftur heim til Chicago.

Helgin – St. Louis

Það verður eitthvað lítið að gerast í kvöld hjá mér. Stelpurnar eru allar að fara á White Stripes tónleika og Dan er eitthvað að vesenast.

Á morgun erum við Katie hins vegar að fara til St. Louis, sem er um fimm tíma akstur frá Chicago. Þar sem rúðuþurrkurnar í bílnum mínum virka ekki, þá erum við að fara á gömlum Oldsmobile, sem amma Katie á. Það verður rokk, enda enginn smá bíll.

Við ætlum að vera þar fram á mánudagskvöld. St. Louis er í Missouri ríki og er m.a. heimaborg uppáhaldsbjórsins minns og Gateway Arch. Eina slæma er að Cardinals eru að spila í San Diego og því mun ég ekki sjá neinn baseball um helgina.

Síðustu dagar

Það er nóg búið að gerast hér í Evanston síðustu daga. Ég bý núna hjá Dan vini mínum en ég þurfti að skila íbúðinni minni í byrjun mánaðarins. Ég er að ganga frá öllum mínum málum og að vinna nokkur vefsíðuverkefni á milli þess, sem maður skemmtir sér með vinunum.

Allavegana, þá var síðasta vika skemmtileg. Fyrstu dagana eftir að ég kom til Bahamas var ég í smá stressi við að laga smá í þeim netmálum, sem ég á að sjá um og svo á kvöldin hékk ég með Dan, Katie, Kristinu og Elizabeth.

Á fjórða júlí voru stelpurnar með grillveislu og mættum við Dan þar með nóg af bjór og hamborgurum, en stelpurnar eru allar grænmetisætur. Við eyddum svo deginum útí garði, grillandi grænmetis- og nautaborgara, drekkandi bjór og spjallandi saman, einsog sennilega flestir Bandaríkjamenn gerðu á þessum degi. Um sjö leytið var bjórinn búinn og því þurftum við að fara útí búð og kaupa meira. Eftir það fórum við svo niður að Northwestern ströndinni, þar sem við horfðum á Evanston flugeldasýninguna, sem var eiginlega betri en sú í Chicago. Eftir sýninguna löbbuuðum við heim til stelpnanna, þar sem við spiluúm eitthvað fram eftir morgni.

Á föstudaginn fór ég svo með Elizabeth á tónleika í Metro. Elizabeth hafði ætlað með bróður sínum, en hann komst ekki, svo hún bauð mér. Þetta voru nokkuð skondnir tónleikar en þeir voru til heiðurs The Smashing Pumpkins og spiluðu sjö “Tribute” hljómsveitir gömul lög með Pumpkins. Eftir tónleikana vorum fórum við útað borða og hittum svo fólkið.

Á laugardag fór ég með Katie niðrí miðbæ Chicago. Við byrjuðum á því að fá okkur burrito og svo fórum við í bátsferð um Chicago ána. Þessi bátsferð fór aðeins útá Michigan vatn, þar sem við gátum séð vel alla skýjaklúfana og svo fór hún upp Chicago ána í gegnum miðbæinn, mjög gaman. Eftir það kíktum við í bíó og sáum Men In Black 2 og svo fórum við útað borða á besta pizzu stað í heimi. Við kíktum svo heim til hinna stelpnanna.

Á sunnudag gerði ég nú ekki mikið. Ég og Katie fórum í göngutúr niður á strönd, þar sem við tókum því rólega og svo fórum við útað borða á Barcelona, sem er Tapas staður hérna í Evanston, sem ég hef alltaf ætlað mér að fara á, en aldrei látið verða af því þangað til núna. Við kíktum svo í bíó um kvöldið og sáum Minority Report.

Hæ hó jibbí jei, það er kominn…

Í dag er víst fjórði júlí hér í bandaríkjunum, sem og annars staðar. Ég tek náttúrulega þátt í fagnaðarlátunum enda eru Bandaríkin hið besta land.

Í gær var árleg flugeldasýning í Grant Park í Chicago. Ávallt í kringum fjórða júlí stendur yfir Taste of Chicago, sem er mikil hátíð, sem er haldin í garðinum, þar sem tugir veitingastaða úr borginni setja upp bása og bandaríkjamenn gera það, sem þeim þykir skemmtilegast, að borða óhollan mat.

Allavegana, þá fór ég með Elizabeth, Kate, Katie, Kristinu og Dan niðrí Grant Park í gær. Við byrjuðum á því að flakka á milli tjalda og smakka alls kyns góðan mat. Um níu leytið fórum við svo niður að Lake Michigan, þar sem flugeldasýningin var. Hérna var mikið talað um það að menn ættu von á árásum á fjórða júlí samkomur og því voru sennilega einhverjir, sem héldu sig heima. Það kom mér þó á óvart að það virtist vera alveg jafn margt fólk og í fyrra. Blöðin segja að um 800.000 manns hafi verið við sýninguna, sem verður að teljast nokkuð gott.

Eftir sýninguna fórum við svo uppað Loyola campusnum, þar sem við fórum í partí til vinkonu Elizabeth. Þar var náttúrulega bjór og léleg tónlist, einsog tíðkast í partíjum hér, en samt mjög gaman.

Í dag er ég svo að fara í grillveislu, þar sem ég hyggst drekka bjór og borða hamborgara að hætti innfæddra.

Útskrift

Útskriftin mín var fyrir tveim vikum, föstudaginn 20 og laugardagin 21. júní. Þetta var heljarinnar dæmi í kringum allt þetta.

Allt byrjaði þetta á föstudagsmorgninum þegar ég fór með mömmu og pabba á Orrington hótelið, þar sem hagfræðideildin var með samkomu. Alls voru um 250 manns að útskrifast úr deildinni en aðeins þeim, sem skrifuðu BA ritgerðir var boðið, en um 30 manns uppfylltu skilyrði til að skrifa ritgerð. Allir voru fengnir uppá svið og talaði Mark Witte, prófessor um ritgerð hvers og eins. Ég, ásamt fimm öðrum fékk Deibler verðlaunin fyrir bestu BA ritgerðirnar og fékk ég hagfræðibók að gjöf fyrir það.

Á föstudagskvöld var samkoma á fótboltaleikvanginum. Þar voru samankomnir allir útskriftarnemendur úr öllum Northwestern skólunum, þar með talið Kellogg, Medill blaðamannaskólanum og öllum hinum. Allir útskriftarnemendurnir sátu á sjálfum vellinum en áhorfendastúkan var full af veifandi foreldrum og vinum.
Continue reading Útskrift

Hvað er að gerast?

Það er orðið nokkuð langt síðan eitthvað hefur verið skrifað á þessa síðu. Ég er búinn að vera upptekinn, var að útskrifast og svo fór ég með mömmu og pabba í ferðalag.

Ég ætla að reyna að fara að skrifa eitthvað um það, sem hefur verið að gerast síðustu daga. Mun smám saman reyna að koma þessu öllu frá mér. Ég er ekki mikið fyrir það að tala um einkamál eða tilfinningar á þessari síðu, en svona til að það verði eitthvað vit í færslunum, þá hefur það gerst að við Hildur erum hætt saman. Svona mál fá mann náttúrulega til að hugsa um hversu mikið maður vilji segja á netinu. Þrátt fyrir að þessi síða hafi verið nokkuð góð dagbók, þá hef ég sjaldan fjallað um tilfinningar né um viðkvæma hluti. Ég ætla heldur ekki að fara að byrja á því núna.

Flutningar

Það er búið að vera nóg að gera síðustu daga vegna þess að ég er að flytja úr þessari holu, sem ég hef kallað mitt heimili síðustu þrjú ár. Ég er búinn að vera að reyna að pakka öllu þessu dóti og hef hent alveg ógurlegu magni af drasli. Í dag fór ég svo á hjálpræðisherinn með 5 poka fulla af fötum.

Annars er lítið spennandi búið að gerast síðustu daga. Er búinn að vera að hanga með vinum á kvöldin og svo hefur maður horft á fótbolta fram eftir morgni. Því hafa svefn venjur mínar verið ansi skrítnar undanfarið.

Leti og djamm

Það er frekar góð tilfinning að hafa ekkert að gera. Þurfa hvorki að læra né vinna þessa vikuna. Þess vegna er ég búinn að eyða síðustu dögum horfandi á baseball og fótbolta, vinnandi í nýju síðunni minni og á djammi með vinum.

Á fimmtudaginn fór ég útað borða með Elizabeth vinkonu minni. Hún kom hingað nokkuð seint og því vorum við ekki búin að borða fyrr en um 11 leytið. Við fórum þá heim til Dan, þar sem partí var í gangi. Flest fólkið var búið að vera þarna nokkuð lengi og því voru flestir mjög drukknir. Þetta partí var ágætt og ég gat kvatt fulltaf fólki, sem var að fara eitthvað í sumar. Becky vinkona mín var að fara aftur til New York og svo gat ég kvatt Ryan, fyrrum herbergisfélaga minn, en hann ætlar að fara með kærustu sinni til Vermont, þar sem þau verða að vinna í sumar.

Á föstudag var ég að reyna að pakka einhverju af dótinu, sem ég ætla að senda með Eimskip heim til Íslands. Um kvöldið fór ég með Katie, Kristinu og Elizabeth í partí, sem var heima hjá vinkonu Elizabeth. Þar var auðvitað ókeypis bjór og var bara nokkuð gaman, þrátt fyrir að við höfðum ekki þekkt mikið af fólki þarna. Einhverjir strákar voru að horfa á fótboltaleikinn, Paragvæ-Þýskaland. Það er alltaf gaman að sjá bandaríkjamenn horfa og tala um fótbolta.

Allavegana, þá í gær, laugardag fór ég í útskriftina hennar Hildar, sem var haldin í kirkju rétt hjá Northwestern campusnum. Mark Kirk, sem er þingmaður fyrir Illinois var heiðursgesturinn og hélt hann ræðu, ásamt einhverjum nemendum. Hildur brilleðari í náminu og fékk hún m.a. Wall Street Journal verðlaun fyrir hæstu einkunn í viðskiptadeildinni, þannig að allir ættu að óska henni til hamingju.

Þegar ég kom heim horfði ég svo á England vinna Danmörk, sem var mjög gaman og svo horfði ég á Cubs vinna White Sox, sem var ekki síður skemmtilegt. Um kvöldið var ég eitthvað latur og ætlaði ekki að gera neitt. En svo hringdi Dan í mig og við ákváðum að skella okkur á “Pumping Company”, sem er bar í norðurhluta Chicago. Þar þurfti maður bara að borga $5 inn og svo fékk maður ókeypis bjór. Staðurinn var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir og við gáfumst upp rétt eftir klukkan 2. Við fórum þá á lítinn “diner”, þar sem ég fékk mér French Toast og svo tókum við strætó heim.

Búinn

Þá er ég búinn í prófum. Vá, en skrítið. Er að fara að útskrifast eftir viku.

Annars byrjaði dagurinn hræðilega. Ég hafði ætlað að vakna klukkan 6 til að fara yfir smá hagfræði fyrir prófið. Málið var að ég og Dan höfðum verið að læra hérna til klukkan 2 og svo horfði ég á smá fótbolta. Allavegana, ég steinsvaf yfir mig. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum, þá fór þjófavörn á bíl af stað klukkan 10 mínútur í níu. Mér tókst að hlaupa niður í skóla og var mættur fimm mínútum of seint.

Prófið var leiðinlegt. Ekki meira um það. Ég er svo búinn að vera að stússast við ýmislegt í dag. Ég fór í klippingu, setti bílinn minn á sölu og talaði við mömmu og pabba úr almenningssíma á lestarstöðinni, þar sem síminn hérna heima virkar ekki.

Núna er klukkan 9 um kvöld og ég er á leiðinni að fara að hitta Elizabeth, vinkonu mína. Við ætlum að fara út að borða og svo erum við að fara í partí með fulltaf fólki seinna í kvöld.

Kæra dagbók

Jæja, þá er ég búinn að vera að lesa um hagfræði í meira en hálftíma og því kominn tími á pásu. Ætli ég skrifi ekki smá um síðustu daga enda hef ég lítið skrifað á netið og einnig hef ég ekki skrifað neinum tölvupóst lengi.

Byrjum á síðustu helgi. Á föstudeginum fór ég með Dan, Katie og Kristinu í partí, sem var haldið hérna rétt hjá. Þetta partí var í íbúð á þriðju hæð í blokk. Hvernig nágrannarnir gátu þolað þetta partí er mér mikil ráðgáta. Þarna var nefnilega búið að setja upp heljarinnar hljómkerfi og svo voru þrjár hljómsveitir að spila á miðju stofugólfinu. Lætin voru svo mikil að við þurftum að stija út á brunastiganum til að geta talað saman. En þarna var nokkuð gaman og auðvitað var ókeypis bjór og fjör.

Á laugardeginum fórum við Hildur niður á Rush street. Við byrjuðum inná bar, þar sem var verið að sýna fótbolta. Þar lenti ég á spjalli við Argentínumann en í sjónvarpinu var akkúrat verið að sýna Argentínu og Nígeríu (HM leikirnir hérna eru klukkan 1.30, 4.30 og 6.30 á morgnana). Ég var allavegana eitthvað að tjá honum að ég gæti ekki haldið lengur með Argentínu, þar sem að Juan Verón léki með Manchester United og svo var Batistuta eitthvað að gagnrýna Liverpool eftir að Roma tapaði fyrir þeim. Allavegana, þarna á staðnum var Jukebox og ég var voða sniðugur og keypti þrjú lög. Í staðinn fyrir að velja þrjú mismunandi lög ákvað ég bara að velja Freebird þrisvar. Það var gaman. Við ákváðum þó á endanum að yfirgefa staðinn og fórum yfir á Bar Chicago, þar sem við ætluðum að fara að dansa en þær áætlanid klikkuðu þó eitthvað, því við fundum aldrei blessað dansgólfið.

í þessari viku er svo búið að vera mikið að gera í skólanum. Ég er búinn að standa í verkefnaskilum og fleiru. Svo vorum við líka að spila til úrslita í innanskólamótinu í fótbolta og töpuðum við þeim leik og lentum því í öðru sæti af 40 liðum, sem var svo sem fínt.

Núna um helgina var svo aftur tekið frí frá lestrinum og við, Dan og Steve horfðum á Tyson-Lewis heima hjá mér. Bardaginn var á Pay-per-view og kostaði hann litla 55 dollara. En ég vann þó eitthvað af þeim pening tilbaka, því Dan veðjaði á að Tyson myndi vinna. Eftir bardagann fórum við svo í Co-op húsið en þar var heljarinnar partí. Eina við þetta var að fólk mátti bara vera í einni flík. Þess vegna voru stelpurnar flestar í kjólum og strákarnir berir að ofan. Þetta var hálf skrautlegt, en samt gaman.