Jólaveður í Stokkhólmi

Þetta er mynd tekin af mér rétt fyrir utan skrifstofuna okkar í gær. Ég var að bíða eftir Anders, sem vinnur með mér, þar sem við ætluðum að keyra til Sundbyberg til að tékka á stöðunni á nýja staðnum okkar.

Ég fer aldrei neitt hér á bíl, þannig að það var magnað að ég skyldi akkúrat vera í bíl í þessum snjóstormi.

Núna er Stokkhólmur ótrúlega jólaleg. Allt á kafi í snjó og verulega kalt, en veðrið í dag er samt þægilegt. Póstkortaveður, sem er fínt ef maður er bara vel klæddur. Ég er að klára flest vinnutengt hér í Stokkhólmi í dag en á morgun förum við Margrét heim til Íslands þar sem við ætlum að vera yfir jól og áramót.

Í dag þarf ég að klára jólagjafir handa starfsfólki og ýmis önnur mál. Í kvöld eigum við svo miða á 3D frumsýningu á Avatar, sem ég er verulega spenntur fyrir. Og á morgun er það svo flug heim.

Síðustu vikur…

Það er orðið svo langt síðan að ég bloggaði síðast að ég ætla að skrifa niður einhverja punkta. Margrét er að læra fyrir próf á bókasafni útí bæ svo ég er bara einn heima á sunnudagseftirmiðdegi.

* Við fórum á 2012 í gær. Það var furðuskemmtileg mynd. Mér hefur fundist allar myndirnar hans Roland Emmerich vera leiðinlegar, en þessi var bara nokkuð góð.
* Á Serrano erum við að vinna á fullu við stað númer 2, sem mun opna í lok janúar. Staðurinn er í Sundbyberg, sem er úthverfi, norðvestur af miðbæ Stokkhólms. Þessi staður verður mun stærri og glæsilegri en sá sem við rekum í dag. Fyrir það fyrsta þá verður þetta algjörlega okkar staður, en ekki staður sem við deilum með Subway einsog við gerum í dag. Alls er hann um 150 fermetrar og þarna verða sæti fyrir um 40 manns. Við fengum plássið afhent í síðustu viku og núna eru okkar iðnaðarmenn byrjaðir að vinna í bilinu. Ég tók myndir í síðustu viku, sem sýna stöðuna í dag. Þetta verður mjög spennandi á næstu vikum.
* Við höfum haft fulltaf fólki í heimsókn og síðast voru hérna Emil & Ella og svo Eva María á sama tíma. Það var mjög skemmtilegt. Emil og Ella voru hérna mjög stutt og auk þess að elda saman hérna heima, þá borðuðum við á Pet Sounds Bar með þeim öllum, sem er virkilega góður, lítill veitingastaður hérna á Söder. Svo fórum við á National Museum í fyrsta skipti með Evu Maríu.
* Um síðustu helgi eyddum við Margrét laugardeginum í að versla í miðbænum. Stokkhólmur er að lifna við með öllum jólaljósunum eftir að nóvember mánuður hafði verið einstaklega dimmur (það voru 14 tímar af sólskini allan mánuðinn). Við keyptum meðal annars jólaskraut og svo elduðum við kalkún samanum kvöldið sem tókst vel upp. Jólaskrautið er nokkuð merkilegur viðburður því þetta er í fyrsta skipti sem að mitt eigið heimili er skreytt jólaskrauti. Það er í raun mögnuð staðreynd miðað við aldur. Margrét er búinn að þrýsta á það að fá að spila jólalög síðan um miðjan nóvember og ég hef látið undan síðustu daga.
* Ég er kominn með nýja tölvu eftir að gamla tölvan mín dó. Þetta er 15″ Macbook Pro með möttum skjá. Ég ætla að skrifa um hana þegar ég er búinn að nota hana aðeins lengur, en fyrsta vikan með þessari tölvu hefur verið frábær. Þvílíkur munur á henni og þriggja ára gömlu vélinni minni.

Þetta er ágætt í bili. Ég ætla að reyna að vera aðeins duglegri við að uppfæra þetta blogg á næstu vikum.

Landakort

Í gesta/tölvu/lærdóms herberginu okkar hérna á Götgötunni er ég búinn að hengja upp heimskort og byrjaður að setja pinna fyrir þá staði, sem ég hef komið á (bláir pinnar fyrir mig, rauðir fyrir Margréti).

Ég hef lengi ætlað að framkvæma þessa hugmynd. Ég man alltaf eftir atriði úr The Mask (þessari frá 1985) þar sem að aðalkarakterinn hafði merkt inná Bandaríkjakort þá staði sem honum langaði til að heimsækja. Fyrir nokkrum árum fékk ég þá flugu í höfuðið að ég yrði að setja upp svona kort með þeim stöðum, sem ég hef komið á.

Þannig að ein af fáum kröfum mínum varðandi innréttingar hérna í íbúðinni var sú að setja í eitt herbergið upp svona kort. Ég pantaði það fyrir einhverjum vikum frá Bandaríkjunum og lét setja það á mjúkan bakgrunn hérna í Stokkhólmi og núna er það loksins komið upp.

Kortið er risastórt (sennilega um tveir metrar á lengd) og það er magnað að sjá hversu gríðarlega stóran hluta heimsins maður hefur aldrei komið nálægt. Ég hef heimsótt mjög stóran hluta Ameríku (flestallt merkilegt í Bandaríkjunum og alveg niður til Buenos Aires í Argentínu – en þó lítið fyrir sunnan og norðan þá staði). Og svo hef ég heimsótt stóran hluta Evrópu. En utan þess hef ég ekkert komið til Afríku, langstærsta hluta Asíu, Eyjaálfu og allra litlu eyjanna í Kyrrahafi. Það er nóg eftir að sjá.

AIK, Dawkins, Wall Street og sænskt bíó

Já já já – punktablogg

  • Margrét bloggar um Så som i himmelen, mjög fína sænska mynd sem við horfðum á um þarsíðustu helgi.
  • Um þessa helgi leigðum við bíl og fórum í Skärholmen og svo í IKEA í Kungens Kurva.  Þegar þú kemur inní þá búð blasir við þér skilti þar sem þú ert boðinn velkominn í stærstu IKEA búð í heimi.  Ég veit ekki hverjum þykir það spennandi – ég er ekki einn af þeim.  En ég komst þó sæmilega heill úr þessari ferð.
  • Við keyptum tvær kommóður, aðra fyrir gesta/tölvu/lærdóms-herbergið og hina fyrir ganginn.  Þegar ég hafði baksað við það í nokkra klukkutíma að setja þetta saman þá komumst við að því að gólfið í ganginum (sem er upprunalegt trégólf) var svo skakkt að kommóðan getur ekki staðið nema að undir henni séu verulega þykk blöð.  Margrét bloggaði líka um þetta.
  • Annars horfði ég á sunnudaginn AIK verða Svíþjóðarmeistari í fótbolta.  Ég hef verið dálítið óviss um það hvaða lið ég styðji í sænska boltanum.  AIK er eina liðið sem ég hef séð spila og það fær mesta athygli hérna í Stokkhólmi.  Ég bý hins vegar á Södermalm og þar er meiri stuðningur við Hammarby (liðið sem að Pétur Marteinsson spilaði lengi með) en það lið er búið að vera hræðilegt í sumar og þeir enduðu tímabilið á því að falla úr efstu deild.  Núna vona ég bara að AIK komist inní riðlakeppni Meistaradeildarinar á næsta tímabili.  Það gæti verið skemmtilegt.
  • Í fyrradag horfðum við svo á fyrri hlutann á Root of All Evil?, sem er nokkuð skemmtileg sería þar sem að Richard Dawkins fjallar um trúarbrögð.  Ég las The God Delusion í Indónesíu og þetta er ágætis viðbót.
  • Við leigðum líka (erum reyndar í nokkurs konar Netflix klúbb sem heitir Lovefilm þar sem við fáum myndir sendar með pósti) Wall Street.  Ég horfði á hana fyrir allmörgum árum og datt í hug að það væri sniðugt að sjá hana aftur.  Hún eldist sæmilega vel.

Síðustu dagar

Síðustu vikur hafa verið nokkuð annasamar. Það er mikið í gangi varðandi Serrano hérna í Svíþjóð og auk þess höfum við Margrét verið með gesti.

Mamma Margrétar og litli bróðir eru nýfarin heim til Íslands. Eiginlega um leið og það gerðist uppgötvaði Margrét að í íbúðinni voru einhverjir maurar byrjaðir að éta sig í gegnum fötin hennar. Ég kippti mér ekkert sérstaklega upp við það enda á hún nóg af fötum, en það endaði þó þannig að við eyddum megninu af gærdeginum heima, hreinsandi öll föt útúr skápum, ryksugandi íbúðina og annað skemmtilegt.

Heimsókn mömmu og bróður Margrétar var skemmtileg. Jón Jökull litli bróðir Margrétar kom hingað fullur sjálfstraust og lét einsog það væri ekkert sjálfsagðara en að segjast styðja Manchester United inná mínu heimili. Ég lét auðvitað ekki bjóða mér það og við tók sjö daga æfingabúðir, þar sem honum var gerð grein fyrir því að Liverpool sé besta lið í heimi. Hann fékk til að mynda ekki að spila Fifa nema með því að lofa því að velja aldrei Manchester United.

Ekki versnaði málstaður minn við það að ég fór ásamt honum og Villa á O’Learys þar sem við sáum Liverpool niðurlægja United. Eftir nokkra vikna leiðindi var þetta ótrúlega kærkominn sigur.

* * *

Við túristuðumst aðeins með þeim um Stokkhólm. Margrét hafði þó aðeins meiri tíma þannig að ég var eitthvað minna með þeim. Á laugardaginn löbbuðum við um Gamla Stan og miðbæinn, fengum kaffi í Kulturhuset og fleira. Um kvöldið fórum við svo á tónleika með Muse í Hovet.

Það eru sex ár síðan að ég og Friðrik sáum Muse í Laugardalshöllinni. Það voru frábærir tónleikar. Tónleikarnir í Hovet voru líka góðir. Muse er ekki í alveg jafn miklu uppáhaldi hjá mér núna og þeir voru þá, en þeir eru samt fínt tónleikaband. Þeir tóku nokkur gömul lög og svo 5-6 lög af nýju plötunni.

Green Day og fleira

Ég var að fatta það að ég hef nánast ekkert skrifað hingað inn af viti síðan að ég kom frá Íslandi. Þar sem að ég er einn heima þá ætla ég að reyna að bæta úr því. Ég var að koma inn eftir hausthreingerningu hérna í húsinu þar sem við gengum frá sumarhúsgögnunum, settum grillið niður og ég reytti ósköpin öll af arfa á milli þess sem ég spjallaði við nágrannana.

Helgin er annars búin að vera róleg. Ég og Margrét fórum útað borða á litlu argentísku steikhúsi hérna á Söder í gærkvöldi, þar sem við fengum fínan mat. Ég var furðu hress miðað við hversu leiðinlegur Liverpool leikurinn fyrr um daginn hafði verið.

Síðasta helgi var nokkuð skemmtilegt. Emil var hérna í heimsókn í fyrsta skipti síðan í vor. Við eyddum slatta tíma á flakki um borgina til að skoða þær staðsetningar sem koma til greina fyrir nýja Serrano staði. Á laugardagskvöldinu fórum við svo útað borða með nokkrum vinkonum Margrétar á East. Við höfum farið áður á þann stað og verið gríðarlega ánægð, en vorum óheppin í þetta skiptið. Eftir það fórum við svo á djammið á Ambassadeur, sem er fínn klúbbur sem er ólíkur flestum klúbbum í Stokkhólmi að þar er (ótrúlegt en satt) stundum góð tónlist spiluð. Margrét og ég vorum reyndar tvö á djammi á þessum sama klúbbi helgina áður þar sem var meiriháttar gaman.

* * *

Við Margrét fórum svo á Green Day tónleika í Globen á sunnudaginn. Margrét gerir tónleikunum ágæt skil á síðunni sinni. Þetta voru frábærir tónleikar. Síðustu tónleikar sem ég fór á í Globen voru með Oasis og munurinn á þessum tveim hljómsveitum var gríðarlegur. Oasis nenntu þessu varla og virtust bara vilja klára settið sem fyrst. Green Day höfðu hins vegar gaman af þessu. Þeir spiluðu öll sín bestu lög (hérna er hægt að sjá set-listann (26 lög – geri aðrir betur) – ég hefði í raun bara bætt Jesus of Suburbia við) og þeir virtust njóta hverrar mínútu. Spilamennskan var frábær og Billie Joe gerði allt sem hann gat gert til að ná stemningunni upp eins mikið og hægt er í Globen, sem er ekki auðveldasti staður í heimi til að halda tónleika á.

Það eru sennilega einhver 14 ár síðan að ég heyrði fyrst í Green Day þegar að Björn Arnar, sem var samferða mér í Verzló flesta daga spilaði diskinn fyrir mig. Ég hlustaði gríðarlega mikið á þann disk og svo á Insomniac, sem kom á eftir. En svo missti ég áhugann og í fleiri ár hlustaði ég lítið á sveitina. Alveg þangað til að ég keypti mér American Idiot nokkrum mánuðum eftir að sú plata kom út. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér enda algjörlega frábær plata. Nýja platan, 21st century breakdown er svo líka fín, þótt hún nái ekki sömu hæðum og American Idiot – en lög einsog 21 guns eru frábær.

Þessir tónleikar voru allavegana allt sem ég hafði vonast eftir

* * *

Annars er haustið komið hérna í Stokkhólmi, það var verulega kalt í síðustu viku en það hefur lagast um þessa helgi og núna er úti sól og ekki svo mikill kuldi. Við eigum svo von á slatta af fólki í heimsókn frá Íslandi. Mamma Margrétar og litli bróðir hennar koma í næstu viku og svo Eva María vinkona hennar þar á eftir – sömu helgi og Emil & Ella koma líka í heimsókn. Það verður fjör.

Íslandsferð og síðustu dagar

Það er pínu skrýtið að vera kominn aftur til Stokkhólms eftir öll ferðalagin að undanförnu. Núna sit ég inní stofu á meðan að Margrét lærir með vinkonu sinni inní eldhúsi. Ég var að klára að horfa á ManU-ManC (sem var kennslustund í því hvernig er hægt að troða 7 mínútna uppbótatíma á leik þar sem ekkert réttlætir slíkt) og horfi núna á Chelsea-Tottenham með öðru auganu. Það er ágætt að hafa ekki mikið meira á planinu núna eftir hasarinn að undanförnu.

Við vorum semsagt að koma úr stuttri Íslandsheimsókn á þriðjudaginn (eftir ferðir til Færeyja og San Francisco nokkrum dögum áður). Tilgangurinn var að fara í brúðkaup Emils og Ellu, sem var haldið í Hafnarfirði síðasta laugardag. Brúðkaupið var frábært og í raun var öll ferðin frábær. Við Margrét héldum partí fyrir vini á föstudagskvöld, fórum í skírn og brúðkaup á laugardaginn og fórum auk þess í heimsóknir til vina okkar og í matarboð. Einsog við mátti búast þá var dagskráin fáránlega þétt.

* * *

Ég þurfti líka að klára nokkra hluti í vinnunni heima og því var mánudagurinn fullur af fundum og látum. Á föstudaginn opnuðum við nefnilega sjötta Serrano staðinn á Íslandi. Þetta er í fyrsta skiptið sem að ég er ekki viðstaddur opnun á Serrano stað og það var dálítið furðulegt og einnig gaman, því það er hressandi að sjá að hlutirnir ganga jafn vel upp þegar ég er ekki á Íslandi.

Staðurinn er við Höfðatorg – við erum fyrsta fyrirtækið sem að flytur inní nýju bygginguna þar. Með opnuninni erum við að breyta nokkrum hlutum á Serrano, sem við höfum verið að skoða síðustu mánuði. Fyrir það fyrsta þá er þetta stærsti staðurinn okkar með sætum fyrir um 40 manns, hann er svipaður að útliti og staðirnir okkar í Hafnarfirði og Smáralind með nokkrum litlum útlisbreytingum þó.

Stærsta breytingin, sem að viðskiptavinir taka eftir, er sennilega sú að við notum venjulega margnota diska, glös og hnífapör í stað einnota hluta á hinum stöðunum. Þetta er nokkuð sem við ætlum að taka upp á þeim stöðum sem við getum og einnig á nýjum Serrano stöðum hérna í Svíþjóð. Einnig verðum við með barnamatseðil í fyrsta skipti heima.

* * *

Helgin hérna í Svíþjóð er búin að vera góð. Veðrið er ennþá nógu gott til að labba um bæinn á stuttermabol og við vorum búin að sakna Stokkhólms mikið á öllu þessu flakki. Við Margrét fórum á föstudaginn á [Halvgrek +Turk](http://www.halvgrekplusturk.se/), sem er grískur veitingastaður í Östermalm. Það er enginn skortur á grískum stöðum hérna í Stokkhólmi og þessi var afskaplega góður. Ég eyddi svo stærstum hluta gærdagsins í að skipuleggja hlutina í gesta/vinnuherberginu okkar hérna í íbúðinni auk þess að horfa á [Liverpool vinna West Ham](http://www.kop.is/2009/09/19/18.25.32/). Í dag tókum við svo daginn snemma með ferð á Nýlistasafnið þar sem er í gangi sýning þar sem að [verkum Salvador Dalí og Francesco Vezzoli er blandað saman](http://www.modernamuseet.se/Templates/Pages/Exhibition.aspx?id=11187).

San Francisco-ferð

Ferðin til San Francisco var frábær. Ég er núna á síðustu 13 mánuðum búinn að fylgjast með tveim bestu vinum mínum frá háskóla-árunum giftast stelpum sem voru með okkur í skóla.

Í fyrra fylgdust við Margrét með brúðkaupi Ryan, fyrrum herbergisfélaga míns, og Kate – sem bjó með okkur á sama dorm-i fyrsta árið í skólanum. Það brúðkaup var frábært. Athöfnin fór fram undir berum himni í litlum bæ rétt hjá Boston. Athöfnin var einföld, einlæg og skemmtileg. Hún var ekki á neinum trúarlegum nótum – þannig að ekkert var lesið uppúr Biblíunni, heldur frekar fókuserað á að tala um brúðhjónin, fjölskyldur þeirra og slíkt. Ættingjar komu m.a.s. upp í athöfninni og héldu stuttar ræður. Lögin sem voru flutt í athöfninni voru svo skemmtileg dægurlög, sem að allir gátu sungið viðlagið við. Veislan var svo ótrúlega persónuleg og skemmtileg með frábærum ræðum (þar á meðal héldu brúðhjónin langa ræðu sem var stórkostleg) og dansi.

* * *

Dan var besti vinur minn í háskóla. Hann bjó aðeins neðar í ganginum í dorm-inu okkar. Á ganginum okkar voru aðallega strákar sem höfðu búið í dorm-inu í 2-3 ár. Við fjórir (herbergisfélagi Dan þar með talinn) vorum þeir einu á fyrsta ári. Við Dan urðum fljótlega mjög góðir vinir. Hann bjó svo annað árið með Ryan (á meðan að ég flutti með fyrrverandi kærustu minni í íbúð frá campus) og svo leigði hann sér íbúð síðustu tvö árin, þar sem að ég var tíður gestur – og bjó í raun með þeim síðustu tvo mánuðina mína í Bandaríkjunum.

Þetta voru vissulega frábærir tímar og þá sérstaklega síðasta sumarið þar sem að ég var ekki í vinnu, heldur naut bara lífsins með nokkrum vinum mínum.

* * *

Við Margrét komum á miðvikudaginn til San Francisco eftir gríðarlega langt ferðalag frá Stokkhólmi. 9 tímar til Philadelphia, 3 tímar þar og svo 5 tímar til San Francisco. Strax daginn eftir að við komum var svo haldið steggjapartí fyrir Dan. Ég var sóttur á hótelið okkar klukkan 7 og við keyrðum svo 5 strákar í norð-austur framhjá Sacramento og að rafting stað, þar sem við fórum á rafting niður American River. Ég hef áður farið með góðum vinum í rafting á Austari Jökulsá, en þessi rafting ferð var allt öðruvísi. Fyrir það fyrsta var veðrið æðislegt, um 25 stiga hiti og við gátum því verið bara í stuttbuxum og bol. Auk þess var þessi á mun rólegri og því var þetta frekar afslappandi ferð, við dýfðum okkur í ána ekki vegna þess að bátnum hvolfdi, heldur eingöngu vegna þess að okkur var svo heitt.

Um kvöldið fórum við svo útað borða á mjög vafasaman þýskan veitingastað, sem heitir Schnitzel Haus, þar sem að bjórinn var drukkinn í allt að tveggja lítra stórum glösum (einsog stígvél í laginu) og á klósettinu voru ælubitar á setunni. Þaðan héldum við svo á klúbbarölt, sem best er að segja ekki mikið meira frá. Ég afrekaði þó í fyrsta sinn á ævinni að ferðast um í limósínu. Það var ágætis tilfinning að keyra um San Francisco á slíku farartæki.

* * *

Restina af tímanum í San Francisco nutum við svo lífsins. Tommi vinur okkar býr þarna og við hittum hann þrisvar. Fórum á djammið á föstudeginum, löbbuðum hálfa borgina með honum á laugardeginum og svo hittum við hann á mánudagskvöldinu á California Pizza Kitchen, sem var eini keðju-veitingastaðurinn sem ég þurfti nauðsynlega að fara á, enda eru þar bestu pizzur í heimi.

Auk þess löbbuðum við um borgina, frá Mission til Castro, um miðbæinn og á ströndinni. Borðuðum burrito á Mission taqueríu og fleira. Á laugardagskvöldið var svo rehearsal dinner á mexíkóskum stað í miðborginni þar sem að flestir brúðkaupsgestir mættu.

* * *

Brúðkaupið var svo á sunnudeginum. Ég var grooms-man í brúðkaupinu. Brúðkaup í Bandaríkjunum eru á marga vegu ólík þeim heima. Fyrir það fyrsta þá eru vinir brúðhjónanna virkari þáttakendur í undirbúningnum og athöfninni. Dan var með fjóra grooms-man og Carrie með fjórar brides-maids, sem hjálpuðu þeim. Ég sem grooms-man mætti á æfingar fyrir brúðkaupið á föstudeginum, hjálpaði við að skipuleggja bachelor partíið og svo vorum við fjórir allir í því að hjálpa Dan á brúðkaupsdaginn. Við hittumst fyrir brúðkaupið, héldum honum félagsskap fyrir brúðkaupið og reyndum að draga úr stressinu. Í sjálfri athöfninni stóðum við svo við hlið þeirra brúðhjóna.

Einsog athöfnin hjá Kate og Ryan var þessi skemmtileg. Pabbi Dan og systir sungu í athöfninni gamalt Stevie Wonder lag (og allir sungu með). Í veislunni var svo mikið dansað. Ég hélt ræðu, sem fékk góðar undirtektir og fólk hló mikið – sem að var ótrúlega gaman (auk þess sem ég fékk mikið hrós á eftir). Eftir veisluna vorum við svo langt fram eftir nóttu í partíi á einu hótelherbergi.

Frábært brúðkaup og frábær ferð.

Skrifað í flugvél yfir Bandaríkjunum klukkan 12.51 – 8.september 2009.

1 ár

Um helgina var eitt ár frá því að við Margrét fórum á okkar fyrsta stefnumót.

Þessir 12 mánuðir hafa verið stórkostlegir. Án efa þeir bestu á minni ævi. Ég hreinlega gæti ekki hugsað mér betri kærustu.

Til að fagna þessu bauð ég Margréti í stutta ferð um lítil þorp í nágrenni Stokkhólms. Við leigðum okkur bíl og byrjuðum á því að keyra til Oaxen, sem er lítil eyja hér í skerjagarðinum. Þar borðuðum við á Oaxen Krog, sem er einn af frægustu veitingastöðum Svíþjóðar og er m.a á S.Pellegrino listanum yfir 50 bestu veitingastaði í heimi. Staðurinn er heimilislegur og kósí staður á þessari litlu eyju og eftir matinn gistum við í lítilli káettu á bát sem var bundinn við bryggju nálægt staðnum. Við fengum þar afskaplega frumlegan og góðan mat, en matseðlinum er algjörlega breytt á hverju ári.

Frá Oaxen keyrðum við svo til Mariefred þar sem við gistum á elsta gistiheimili Svíþjóðar. Þessi litli bær er þekktur fyrir Gripsholms Slott, sem er einstaklega fallegur kastali. Í Mariefred tókum við því bara rólega, skoðuðum kastalann, löbbuðum um bæinn og nutum lífsins í frábæru veðri.

Ég setti inn myndir á Flickr.

* * *

Í síðustu viku vorum við Margrét svo með gesti þegar að Helga vinkona hennar og Kjartan kærastinn hennar voru hérna í nokkra daga. Þau voru fyrstu gestirnir sem fengu að nota gesta/drasl/tölvuherbergið okkar (aðrir höfðu gist í stofunni). Við Kjartan fórum m.a. á leik með AIK á Råsunda vellinum (á meðan að stelpurnar fóru á Britney Spears tónleika), sem var nokkuð skemmtilegt auk þess sem við sýndum þeim aðeins borgina og borðuðum góðan mat.

Núna eru bara þrír dagar í Indónesíuferðina. Ég er á fullu að klára hluti í vinnunni, svo að ég geti sleppt því að hugsa um vinnuna allan daginn í Indónesíu líkt og ég geri hér.

Hálfmaraþon

Fyrir um ári var ég í sögulegri útilegu í Úthlíð og var þar tæklaður af vini mínum svo illilega að ég gat ekki hlaupið í marga mánuði. Um jólin fór ég í fótbolta með nokkrum strákum og var þá svo slappur að ég sagði við Margréti þegar ég kom heim að ég yrði eitthvað að gera í málinu. Ég var vissulega í ágætis formi, enda hafði ég lyft reglulega, en það var alveg ljóst að hlaupaformið var orðið afleitt.

Janúarmánuður fór í að opna Serrano hérna í Stokkhólmi, en í byrjun febrúar byrjaði ég svo að hlaupa eftir prógrammi, sem að Margrét lét mig fá. Þetta er 13 vikna prógramm sem átti að undirbúa mann undir hálf maraþon. Ég byrjaði 4. febrúar og hljóp þá í 36 mínútur. 1 mínúta hlaup, 2 mínútur labb – 12 sinnum. Ég hljóp þetta á hlaupabretti og ætli ég hafi ekki farið um 3-4 kílómetra.

Prógrammið hélt svo áfram þrisvar í viku, alltaf blanda af labbi og skokki. Til að byrja með voru þetta vanalega 3-6 kílómetrar í hvert skipti. Ég þurfti nokkrum sinnum að taka mér hlé frá prógramminu. Ég fór í ferðalag til Frakklands í viku og svo fékk ég auðvitað heilablóðfall í lok mars. Síðasta hlaupið fyrir heilablóðfall var nokkrum dögum fyrir það og í kjölfarið tók ég mér um mánuð í frí samkvæmt læknisráði. Þegar ég byrjaði hins vegar aftur að hreyfa mig eftir heilablóðfallið þá var hlaup það fyrsta sem ég gerði, nokkru áður en ég byrjaði til að mynda að lyfta lóðum.

Það tók mig smá tíma eftir heilablóðfallið að ná fyrra þoli, en það hefur smám saman komið og ég hef smám saman farið að hlaupa vegalengdir sem ég hafði aldrei áður hlaupið. Áður en ég byrjaði á þessu prógrammi þá hef ég sennilega hlaupið mest einhverja 10 kílómetra á bretti, en síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum náð að bæta það og lengst hljóp ég einhverja 12,2 kílómetra í gríðarlegum hita. Síðustu vikur hafa hlaup uppá 6-8 kílómetra verið afskaplega létt.

Í dag var svo síðasti dagurinn á þessu plani og planið var einfalt: 21,1 kílómetri. Það mesta sem ég hef hlaupið hingað til var 12,2 kílómetrar þannig að ég var ekki alveg viss um að ég gæti þetta. Ég sagði því engum nema fólki sem var hér í matarboði í gær. Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega, nema að ég borðaði talsvert meira af brauði í gær en ég geri vanalega. Í morgun vaknaði ég um 2 tímum fyrir hlaup, fékk mér að borða, hitaðið smá upp og byrjaði að hlaupa. Og þetta tókst.

half-marathon

Sjá kort hér á Google Maps.

Leiðin sem ég fór var mjög svipuð og er hlaupin í Stokkhólmsmaraþoninu (það er tveir hringir). Ég byrjaði reyndar hérna á Söder (vanalega er byrjað á Ólympíuleikvanginum), hljóp yfir Vesturbrúna yfir á Kungsholmen, þaðan niður í miðbæ, svo uppá Odengatan og Valhallarvägen. Þar eftir kemur sennilega leiðinlegasti kafli leiðarinnar þegar hlaupið er að Frihamnen og þaðan niður á Strandvägen á Östermalm. Strandvägen var svo frekar erfiður kafli leiðarinnar þar sem ég var kominn með slæman sting í bakið, auk þess sem þar var rosalega mikið af fólki, sem var að borða ís og njóta dagsins. Þaðan hljóp ég svo framhjá Konungshöllinni á Gamla Stan og þaðan aftur yfir á Slussen þar sem ég kláraði.

Tíminn: 1:51:56

Ég er nokkuð sáttur við það. Eina takmarkið hjá mér í þetta skiptið var að klára hlaupið og gera það helst á undir tveimur tímum. Það tókst. Það er aðeins verra að gera þetta einn. Maður hefur enga hvatningu og ég þurfti að halda á vatninu allan tímann. Auk þess þurfti ég stundum að bíða á rauðu ljósi, en það skipti ekki neinu svakalegu máli. Núna eru um tveir tímar síðan ég kom heim og ég er að sötra einhvern prótínsjeik og reyna að jafna mig í löppunum sem eru afskaplega þreyttar. Mér fannst aldrei reyna sérstaklega á lungun í hlaupinu, en þegar ég kom heim þá hóstaði ég mikið sem er búið að lagast núna. En það sem hefur verið að bögga mig fyrst og fremst í hlaupum að undanförnu hefur verið að lappirnar þreytast verulega. Það var þó ekki jafn mikið vandamál í dag og ég bjóst við.

Ég er afskaplega ánægður með þetta. Ég er dálítill nörd og ég verð að játa að það sem hefur haldið mér gangandi í gegnum þetta hefur verið að halda utanum árangurinn. Það að prenta út prógrammið og skrifa á það tíma og vegalengdir eftir hvert hlaup hefur hjálpað mér. Einnig er það að nota GPS tækið í iPhone-inum gríðarlega skemmtilegt þar sem maður hefur eitthvað til að keppa við. Ég er viss um að ég hefði ekki enst jafnlengi í þessu ef ekki hefði verið fyrir það. Einnig er Stokkhólmur alveg einstaklega falleg borg og hérna er alveg frábært að hlaupa. Hérna er endalaust af fallegum leiðum og það sem hjálpaði mér klárlega í dag var að ég var að hlaupa alveg nýja leið. Hafði t.a.m. aldrei hlaupið yfir Vesturbrúna, sem er algjörlega æðisleg.

Ég er sáttur.