Ferðadót uppfært

Eftir ferðalag undanfarinna mánuða ákvað ég að uppfæra aðeins heimskortið, sem ég [skrifaði um í janúar 2004](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/25/13.37.20/). Síðan þá hef ég heimsótt fjögur lönd: Svíþjóð, Tyrkland, Tékkland og Pólland. Hef ég því komið til 35 landa.

Kortið lítur því svona út:

**Norður-Ameríka**: Kanada, Mexíkó, Bandaríkin

**Suður-Ameríka**: Argentína, Bólivía, Brasilía, Chile, Kólumbía, Ekvador, Paragvæ, Perú, Urugvæ, Venezuela

**Evrópa**: Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Lúxembúrg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bretland

**Afríka**: Ekkert

**Mið-Austurlönd**: Tyrkland

**Asía**: Ekkert

35 lönd


Einnig uppfærði ég Bandaríkjakortið mitt, þar sem ég ferðaðist talsvert um Bandaríkin í fyrra. Núna hef ég heimsótt 30 ríki af 50.

Alabama, Arizona, Arkansas, California, colorado, Cinnecticut, DC, Florida, Georgia, Illinois, Indiana, Kansas, Kentucky, Louisiana, Maryland, Massachusetts, Michigan, Minnesota, Mississippi, Missouri, Nevada, New Hampshire, New Jersey, New Mexico, New York, Tennessee, Texas, Utah, Virginia, Wiscounsin.


Einnig uppfærði ég færsluna um [undir heimsins](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/04/17.49.57). Þar er ég núna kominn uppí 17, en þar hafa bæst við gamli bærinn í Prag, Hagia Sofia og Topkapi höllin í Istanbúl.

Kominn heim frá Istanbúl

Ferðin til Istanbúl var *stórkostleg*.

Ætla að reyna að setja inn ferðasögu hérna, en þangað til það gerist þá er hér [stutt myndband af Liverpool stuðningsmönnum syngjandi You’ll never walk alone](https://www.eoe.is/stuff/never-walk-ataturk.avi) í lok leiksins. Ógleymanleg stund. Röddin mín var algjörlega ónýt á þessum punkti, þannig að ég fæ sennilega engin verðlaun fyrir söng þegar ég kem inní lagið. En mikið var þetta yndislegt 🙂

Hef nánast ekkert sofið undanfarna daga. Dagurinn í vinnunni í dag var því alveg hræðilegur. Gat aðeins lagt mig eftir vinnu, þannig að ég er smám saman að ná heilsunni aftur.

Norðurlöndin geta líka verð ágæt

Ég er kominn til Gautaborgar eftir tvo fína daga í Stokkhólmi. Stokkhólmur er æði – ekki láta fólk segja ykkur annað.

Ég veit ekki hver er ástæðan, en ég hef alltaf haft netta fordóma gagnvart Stokkhólmi og Svíum. Var sannfærður um að Stokkhólmur væri bara önnur útgáfa af Osló og að Svíar væru leiðinlegir. Jæja, ég get staðfest að Stokkhólmur er sko ekki Osló, svo mikið er víst.

Stokkhólmur er með fallegri borgum, sem ég hef heimsótt. Veðrið var æðislegt báða dagana og ég eyddi mestum tímanum í að rölta í sólinni um borgina. Í gær labbaði ég um gamla bæinn í rólegheitunum, horfði á vaktaskipti í konungshöllinni og slappaði svo af í Kungstragarden.

Í dag gerði ég meira af því sama. Kíkti reyndar á Vasa safnið, sem er byggt utan um gamalt herskip, sem fannst á hafsbotni fyrir um 50 árum. En fyrir utan þá safnaferð, þá eyddi ég tímanum í rólegheitunum á labbi um borgina og dáðist að fegurð hennar. Gamli bærinn og reyndar allir miðbærinn er ótrúlega fallegur.


Núna er ég kominn til Gautaborgar og sit hérna uppá hótelherbergi og reyni að berja saman kynningu, sem ég á að halda á fimmtudaginn. Á fundi hérna bæði á morgun og á þriðjudaginn, en á miðvikudag fer ég aftur til Stokkhólms á ráðstefnu. Er nokkuð viss um að þar verði kvöld prógramm, svo sennilega mun ég sjá eitthvað meira af Stokkhólmi. Allavegana, þá er borgin vel virði heimsóknarinnar.

*Skrifað í Gautaborg, Svíðjþóð klukkan 21:42*

Túristast um Varsjá

Leigubílstjórinn, sem keyrði mig að Kastalatorginu í morgun var ekki beinlínis yfirsig ástfanginn af Varsjá. Óspurður sagði hann að Varsjá væri “depressing city” og að þar væri ekkert að sjá. Ég veit ekki hvort ég er sammála honum, en þó hefur borgin yfir sér einkennilegan brag. Ég myndi sennilega ekki eyða mörgum dögum hérna sem túristi, en hún hefur vissulega uppá fullt af áhugaverðum hlutum að bjóða fyrir stutt ferðalag líkt og mitt.

Ég vann í morgun en var kominn út um hádegið. Fékk leigubíl til að keyra mig uppað gamla miðbænum. Sá miðbær var algjörlega eyðilagður eftir Varsjár uppreisnina við lok Seinni Heimsstyrjaldarinnar, en borgarbúar tóku sig til og endurbyggðu bæinn í sinni gömlu mynd eftir stríð. Sú endurbygging tókst svo vel að bærinn [er á lista Unesco](http://whc.unesco.org/pg.cfm?cid=31&id_site=30).

Miðbærinn er mjög heillandi. Ekki ósvipaður gamla miðbænum í Prag, þrátt fyrir að vissulega sé hann ekki jafn tilkomumikill. En byggingarnar bera þess engin merki að vera eftirlíkingar af þeim byggingum, sem þarna stóðu fyrir 200 árum.

Ég labbaði þarna um í góðan tíma, tók myndir og fylgdist með mannlífinu.


Labbaði því næst nokkur hundruð metra að minnismerki um [Varsjár uppreisnina](http://www.warsawuprising.com/) (Síðan, sem ég bendi á inniheldur mikið af góðum upplýsingum um uppreisnina, þar með talið myndefni. Mæli með henni ([The Pianist](http://www.thepianist-themovie.com/), sem er *frábær* bíómynd fjallar einnig um þessa atburði)). Uppreisnin fór fram 1944 þegar illa búnir Varsjárbúar réðust á þýska herliðið í borginni. Upphaflega gekk uppreisnin vel og bjuggust Varsjárbúar við að Sovétmenn, sem voru staðsettir í rétt fyrir utan borgina myndu hjálpa þeim. En Sovétmennirnir komu aldrei til hjálpar, heldur biðu þeir á meðan að Þjóðvernarnir drápu yfir 250.000 borgarbúa.

Pólverjarnir gáfust að lokum upp og voru sendir í fangabúðir. Eftir að allir Varsjárbúar voru farnir hófu Þjóðverjarnir kerfisbundna eyðileggingu borgarinnar. Engin bygging fékk að standa.

Því er dálítið merkilegt að labba þarna um miðbæinn. Varsjárbúar notuðust við allt, sem þeir gátu, til að endurbyggja borgina. Þannig að í húsunum sem standa þar í dag eru notaðir múrsteinar, sem voru grafnir uppúr rústunum eftir alla eyðilegginguna. Magnað til þess að hugsa. Það verður ekki hjá því komist að dást að dást að Pólverjum þegar maður hugsar til þess hvað þeir hafa gengið í gegnum.


Eftir að hafa labbað um miðbæinn rölti ég tilbaka í átt að hótelinu. Skoðaði minnismerki, sem hafði verið reist um Páfann og rölti meðfram aðalverslunargötunni.

Eldsnemma fyrramálið á ég flug til Stokkhólms, þar sem ég verð fram á sunnudagskvöld. Ætla að fá mér einn bjór á barnum á 40. hæð fyrir svefninn.

*Skrifað í Varsjá, Póllandi klukkan 21.11*

Hótelherbergi í Varsjá

Ég veit ekki hvað það nákvæmlega er, en ég elska að gista á góðum hótelum! Sumir kvarta endalaust yfir því að þurfa að dvelja á hótelum, en mér finnst það alveg yndislegt. Sumir geta ekki sofið í hótelrúmum, en ég sef aldrei eins yndislega vært og í góðum hótelrúmum.

Kannski er það vegna þess að frá fyrri ferðalögum mínum er ég vanur að dvelja á alveg einstaklega viðbjóðslegum hótelherbergjum. Allt frá því að gista í fyrrum fangelsi í Perú til kakkalakkabæla í Venezuela og því að lenda í mýfluguárás í St. Pétursborg. Kannski að allt þetta fái mig til að meta góð hótel svo mikils og njóta verunnar á þeim.

Ég elska sápur í litlum pökkum. Ég elska að það sé tekið til eftir mig og ég elska að geta sett skyrturnar mínar í poka og fengið þær svo nokkrum tímum hreinar og straujaðar. Það er einhver sérstök tilfinning við að vera á hótelum.

Ég er semsagt núna á Marriott hótelinu í Varsjá. Nánar tiltekið á 21. hæð með stórkostlegt útsýni yfir Varsjá og “[Palace of Culture](http://travel.yahoo.com/p-travelguide-2788553-palace_of_culture_warsaw-i)”. Þrátt fyrir að Pólverjum þyki sú bygging hræðileg (sennilega vegna tengingarinnar við Sovétríkin) þá þykir mér hún æðisleg. Kannski hef ég svona skrítinn smekk, en mér þykja þó líka [systurnar hans Stalíns í Moskvu](http://www.architecture.about.com/library/weekly/aa090501k.htm) vera ótrúlega sjarmerandi byggingar.


Stundum getur lífið verið ótrúlega skrítið og fullt af einkennilegum tilviljunum, sem beina manni á ákveðna staði á ákveðnum tímum. Aldrei hefði mér til dæmis dottið í hug að ég myndi eyða miðvikudagskvöldi á pólskum sportbar, styðjandi Manchester United. En þetta gerðist í gær.

Ég kom hingað til Varsjár með flugi frá Svíþjóð (eftir að hafa látið mér leiðast á flugvellinum í Stokkhólmi í *7 klukkutíma*). Þegar ég kom uppá hótelherbergi sá ég að það var sportbar á neðstu hæðinni, sem var að sýna frá enska boltanum. Þannig að ég hljóp auðvitað niður og fékk mér bjór yfir boltanum. Ég treysti á sigur Manchester United, þar sem það hefði komið vonum Liverpool um Evrópufótbolta vel. En auðvitað, loksins þegar ég hélt með viðbjóðinum í Man U, þá töpuðu þeir. Alveg gjörsamlega típískt og óhætt að segja að óbeit mín á því liði hafi ekki farið minnkandi við þetta.


Er búinn að sinna vinnunni í mest allan dag. Fyrst útí bæ og svo hérna heima á hótelherbergi, þar sem ég er með net aðgang. Held að ég sé kominn nógu langt svo ég megi eiga von á því að geta aðeins túristast á morgun.

*Skrifað í Varsjá, Póllandi klukkan 22:15*

Dagdraumar

Ég náði að klára slatta af verkefnum í dag og var því nokkuð sáttur við sjálfan mig þegar ég settist niður til að horfa á landsleikina með Englandi og Íslandi.

Ég hafði ekki setið lengi þegar ég fékk þessi skilaboð á MSN: *”Keypti miðann til Beirút áðan”.*

Og ég fékk sting í magann. Mig langar svo að fara að ferðast að ég er að deyja. Sá, sem sendi mér skilaboðin var [herra Flygenring](http://www.semsagt.net/kairo/), sem býr í Kaíró þessa dagana.

Við fórum eitthvað að spjalla um ferðalög og Ágúst benti mér á vefsíðu hjá [þessari stelpu, Siggu Víðis](http://siggavidis.blogspot.com), sem hefur ferðast mikið um Asíu. Ég fékk hreinlega í magann þegar ég skoðaði [myndirnar](http://jonssonfamily.com/gallery/view_album.php?set_albumName=sigga/), því mig langar svo mikið að fara út núna.

Þessi stelpa hefur nefnilega ferðast mikið um Suðaustur Asíu, en þangað langar mig að fara í haust. Hef pælt svona lauslega í því hvernig ferðalag ég gæti farið og er spenntastur fyrir að fara allavegana til Kambódíu, Tælands og Búrma (Myanmar). Sigga talar einmitt gríðarlega fallega um Búrma og það virðist hafa verið alveg einstök lífsreynsla að hafa farið þangað.

Ég las einhverja Lonely Planet bók um það land fyrir nokkrum mánuðum og þar var fólk frekar hvatt til að ferðast til Búrma, þar sem að ferðalagið myndi að öllum líkindum hafa það jákvæð áhrif á landið að það myndi vega upp þá staðreynd að mikið af peningunum, sem ferðamenn eyða, fara til herforingjastjórnarinnar. Það heillar mig einfaldlega gríðarlega að ferðast til staða, sem eru ósnertir af vestrænni menningu.

En það er alltof langt til haustsins, heilir 5 mánuðir og því má ég ekki hugsa of mikið um þetta því þá kemst ekkert annað að hjá mér. En ætla samt aðeins að leyfa mér að dreyma pínu.

Svíðþjóð

Ok, ég er að fara til Svíþjóðar í apríl í viðskiptaerindum. Það lítur út fyrir að ég þurfi að fara bæði til Gautaborgar og Stokkhólms. Ég hef sennilega möguleika á að bæta við dvöl yfir helgi í annarri hvorri borginni.

Og þá er spurningin, í hvorri borginni á ég að eyða helginni? Ég hef aldrei komið til Svíþjóðar og veit harla lítið um túrisma í landinu. Hefði viljað kíkja á næturlífið og túristast eitthvað skemmtilegt. Einhvern veginn grunar mig að það sé meira að sjá í Stokkhólmi, en er samt ekki viss. Hefur einhver komið á báða staði og getur gefið mér hint? Er kannski eitthvað spennandi stutt frá annarri hvorri borginni? 🙂

Waiting on the Pizzle, the Dizzle and the Shizzle

Á stundum spyr ég mig af hverju ég horfi á fótbolta. Ég var í góðum fíling í mat og bjór hérna í miðbæ Breda þegar ég skyndilega stökk upp og áttaði mig á því að Holland (mínir menn) væru að spila við Englendinga í fótbolta. Ég ákvað því að finna mér stað til að horfa á leikinn… sem var einmitt hörmung. Þvílík leiðindi hef ég ekki þurft að þola lengi.

Allavegana,

Ég veit ekki hvort ég hafi lent í einhverju twiligth zone um kvöldmatarleytið í gær hérna í Hollandi. Ég fór nefnilega á Subway, hvar ég fékk mer það allra óhollasta á matseðlinum. Það skiptir ekki máli, en það sem skiptir máli er að stelpan sem afgreiddi mig var alveg ótrúlega falleg. Þegar ég var ekki að horfa á hana búa til samlokuna mína gat ég svo virt fyrir mér stelpuna, sem var ein með mér í röðinni, sem var einmitt líka gull, gullfalleg.

Ok, ég fæ samlokuna og fer með hana heim á hótel. Þegar ég er að labba framhjá einhverju húsi er stelpa að opna hurðina, sem brosir fallega til mín. Ég sver að hún var fallegri en Metro stelpan, sem ég sá í Caracas um árið.

Er það eðlilegt að fara útúr húsi að kvöldi til og að allar, já allar stelpurnar sem maður sér séu svona fallegar? Ég sannreyndi það í dag að þessi statistík á ekki við allar konur í Hollandi þannig að ég er búinn að útiloka þann möguleika.

Ok, ætti ég kannski að fara að sofa?

Allavegana, ég á flug heim á morgun. Fæ að bíða á Schiphol í einhverja fimm tíma, sem hlýtur að vera skemmtilegt enda vita allir að flugvellir eru skemmtilegustu staðirnir á þessu jarðríki.


Eftir fundinn í dag var farið með allt fólkið á skauta á svell hér í borg. Ég hef ekki farið á skauta síðan ég fór með fyrrverandi kærustu á skauta í Chicago, sem var að ég held annað skiptið á ævinni, sem ég hef farið á skauta. Í minningunni var ég snillingur á skautum, en það reyndist þó ekki vera alveg svo. Það var þó einhver kall, sem að sagði mér til og eftir smá tíma var ég farinn að geta skautað sæmilega. Skautaði í klukkutíma án þess að detta, sem mér finnst vera meiriháttar afrek! Svei mér þá, það er bara gaman að vera á skautum. Reyndar set ég þann fyrirvara að ég fíla ekki þær íþróttir þar sem mér er rústað af 8 ára gömlum stelpum.

Að lokum langar mig til að vitna aðeins í textann á uppáhaldslaginu mínu:

>So don’t change the dizzle, turn it up a little
I got a living room full of fine dime brizzles
Waiting on the Pizzle, the Dizzle and the Shizzle
G’s to the bizzack, now ladies here we gizzo

Jammmm, ég veit, [þetta](http://www.lyricstop.com/d/dropitlikeitshot-snoopdoggfpharrellwilliams.html) er SNILLD!

*Skrifað í Breda, Hollandi klukkan 0:04*

Gullni túlípaninn og helgi í Prag

Núna er ég kominn til Hollands eftir helgi í Prag. Er á hóteli, sem heitir því yndislega hollenska nafni “Gullni Túlípaninn” í bænum Breda við landamæri Belgíu. Hérna kom ég um 5 leytið og verð hér næstu tvo daga á námskeiði tengdu vinnunni.

Það er eitthvað karneval í gangi hérna í bænum og eru því allir bæjarbúar klæddir í búninga og drekkandi Heineken á pöbbum bæjarins. Ég var þó frekar þreyttur og ákvað að það væri indlælt að eyða kvöldinu inná hótelherbergi, glápandi á Dismissed og aðra eðalþætti í boði MTV.


En allavegana, ég eyddi helginni í Prag. Leifur, fyrrverandi bekkjarfélagi minn býr þar ásamt tékkneskri kærustu og Ragga vini þeirra í gullfallegri íbúð í miðhluta borgarinnar, þar sem ég fékk að gista á sófanum. Ég ákvað með nokkuð stuttum fyrirvara að fara til Prag. Hluti af ástæðunni var vinnutengd og hluti vegna þess að ég átti fund á föstudegi í Þýskalandi og næsta miðvikudag í Hollandi og hafði lítið að gera heima á Íslandi yfir helgina.

En allavegana, Prag er skemmtileg borg. Kuldinn spillti aðeins fyrir enda nær 10 stiga frost í borginni, þrátt fyrir að sólin hafi skinið allan tímann. Ég eyddi þarna fjórum dögum í rólegheitunum, í að skoða túristastaði, drekka bjór og slappa af. Frábært helgarfrí.

Einsog flestir túristar eyddi ég öllum tímanum í gamla hluta Prag, sem er umtalsvert meira heillandi en kommúnistablokkirnar sem rísa í hæðunum utan við miðborgina. Gestgjafarnir fóru með mér í heljarinnar túristarúnt um alla helstu staðina í borginni: kastalann, Karlsbrúna, Petrin turninn, gamla torgið og gyðingahverfið. Allt æði. Allt voða gaman.

Miðborg Prag er í raun alveg einstök. Það er sennilega erfitt að finna að finna fallegri miðborg, sama hversu víða maður leitar. Yndislega fallegar byggingar og allt iðandi af mannlífi. Víst að mannþröngvin var einsog hún var í 10 stiga frosti í febrúar, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig hún er í júlí. Og það er svosem ekki erfitt að skilja hvað fólk sér við borgina.

Gamla torgið og Karlsbrúin eru yndisleg og Gyðingahverfið er magnaður staður, sem ég held að margir túristar láti framhjá sér fara. Samanstendur af mögnuðum kikjugarði og nokkrum bænahúsum, sem eru annaðhvort virk sem slík eða söfn. Vel þess virði að skoða.

Við kíktum út öll kvöldin og skiptumst á að drekka Pilsner Urquell og Budweiser í miklu magni. Budweiser fær mitt atkvæði og svei mér þá, ég held að ég hafi sjaldan fengið betri bjór en Budweiser beint af krana í Prag. Lengsta djammið var á laugardeginum þegar við fórum á Karlovy Lazné klúbbinn við Karlsbrúna, sem kallar sig stærsta klúbb í Mið-Evrópu. Klúbbarnir eru byggðir fyrir túrista og því fleiri stelpur frá Manchester heldur en Prag á dansgólfinu. Þegar að DJ-inn spilaði tékkneskt lag, þá var kærastan hans Leifs sú eina, sem tók við sér. Allir hinir inná staðnum voru útlendinegar, sem er vissulega eilítið sorglegt. Og þar er í raun stærsti galli Prag. Það sést alltof lítið af Tékkum á helstu stöðunum, allt er fullt af útlendingum og það hefur leitt af sér hátt verðlag í miðborginni, sem fælir innfædda frá.

En það spillir þó ekki fyrir því að það er stórkostleg reynsla að sjá Prag í fyrsta skipti. Að keyra yfir Vltava ána að kvöldi til og sjá kastalann upplýstann, sem og að labba í fyrsta skipti um nýja hliðargötu eða inná torgið í gamla bænum (eða einsog ég kýs að kalla það: Staromestske Namestí), er algjörlega ógleymanlegt. Á torgið í gamla bænum vantar bara styttu af Milan Baros til að fullkomna verkið.

Þrátt fyrir að ég hafi skemmt mér vel í Prag, þá voru greinilega ekki allir vinir mínir jafn ánægðir með að ég væri að djamma í Prag. Til að mynda sendi ég einum vini mínum eftirfarandi SMS skeyti á laugardagskvöld: **”HEY, ég er að djamma í Praaaag! Hvernig var Gísli Marteinn?”** Ég fékk hins vegar ekkert svar.


Með þessari ferð til Prag, þá er ég er kominn uppí [15](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/04/17.49.57/)! Ég set myndir frá ferðinni inn seinna.

*Skrifað í Breda í Hollandi klukkan 22.10*