Indlandsferð 4: Thar eyðimörkin

Í annað skiptið á ævinni er ég núna að drepast í löppunum eftir úlfaldaferð. Ég fór í eftirminnilega ferð á úlfalda í Jórdaníu og núna sitjum við Margrét á veitingastað og jöfnum okkur eftir tveggja daga úlfaldaferð í Thar eyðimörkinni rétt hjá landamærum Pakistan. Við erum að bíða eftir því að kveikt sé á heita vatninu á gistiheimilinu okkar svo við getum loksins farið í sturtu.


Ég skrifaði síðast af þaki gistiheimilsins okkar í Jodhpur með útsýni yfir Mehrangarh virki. Við heimsóttum það síðan á sunnudaginn. Virkið er í dag safn, sem er viðhaldið af kónginum yfir Marwar, sem hefur í dag engin raunveruleg völd. Við fórum um það með audiotúr í eyrunum, sem var skemmtilegur og fræðandi. Mehrangarh virkið er gríðarlega stórt og það er auðvelt að sjá hvers vegna engum óvinaher tókst að sigrast á því. Inní því er konungshöllin, sem er undirstaða safnsins og svo er hægt að labba um virkisveggina, sem bjóða uppá frábært útsýni yfir Jodhpur.

Útsýni yfir bláu borgina, Johdpur

Við vorum hrifin af borginni þótt hún glími vissulega við sömu vandamál og aðrar indverskar borgir – skít, hávaða, umferð og gríðarlega mengun. Gamla borgin er einsog völundarhús af litlum götum og bláum húsum (ansi mörg húsanna í borginni eru máluð blá – það kælir þau og ver þau gegn flugum). Við eyddum ágætum tíma á markaðinum og borðuðum svo bestu máltíð ferðarinnar á frábærum veitingastað og drukkum með henni indverskt rauðvín og viskí.


Frá Jodhpur tókum við rútu hingað til Jaisalmer, sem liggur við Thar eyðimörkina. Öll húsin eru gul, byggð úr sandlitum múrsteinum og líkt og Jodhpur þá er stórt virki miðpunktur borgarinnar. Virkið hérna í Jaisalmer er reyndar miklu minna en í Jodphur, en á móti kemur að í virkinu hér er ennþá búið. Þar búa um 2.000 manns og auk þess eru fjölmörg hótel. Fjöldi hótela hefur valdið vandræðum því að fráveituvatn frá þeim hefur byrjað að síjast oní jörðina undir virkinu og ógnað stöðugleika þess. Ferðahandbækur mæla því sumar gegn því að fólk gisti innan virkisveggjanna.

Fyrsta daginn okkar í Jaisalmer skoðuðum við virkið, safn inní virkinu, markaðinn og keyptum okkur nokkra hluti, sem við þurftum fyrir eyðimerkur-ferðina, svo sem slæður til að verjast sólinni.

Flestir þeir, sem koma hingað til Jaisalmer fara héðan í ferð á úlfalda útí Thar eyðimörkina. Við vildum ekki vera öðruvísi og pöntuðum okkur tveggja daga ferð. Ég mundi það vel eftir Jórdaníu hversu þreyttur ég var eftir þriggja klukkutíma setu á úlfalda, en flestir mældu með þessari lengd á ferð. Við vorum í 6 manna hóp með pari frá Póllandi og pari frá Kanada/USA. Fyrst vorum við keyrð í jeppa að Bada Bagh, þar sem við skoðuðum minnismerki um dána kónga og síðar keyrði jeppinn okkur áleiðis að eyðimörkinni þar sem að hópur úlfalda tók á móti okkur ásamt gædunum okkar.

Margrét á úlfalda

Við tók svo 6 tíma labb inní eyðimörkina á úlfalda, sem var brotið upp með löngum hádegismat undir tré einhvers staðar á leiðinni þar sem við borðuðum hefðbundinn indverskan mat – blómkál, kartöflur og Chapati brauð, sem að sumir Indverjar borða með öllum mat -ekki ósvipað og Mexíkóar gera með tortillur. Um 6 leytið komum við svo að sandgryfjum, þar sem við gistum um nóttina.

Það tekur verulega á að sitja á úlfalda svona lengi. Úlfaldar eru það stórir að ístað myndi sífellt nuddast inní þá og því situr maður á úlfalda með hangandi lappir. Það setur gríðarlega pressu á innanverð læri og eftir nokkra klukkutíma verður verkurinn frekar slæmur. Við vorum því verulega þreytt þegar við komum að sandgryfjunum í gærkvöldi. Við borðuðum þar Dahl (linsubaunir) og Chapati í kvöldmat og eftir að hafa setið við varðeld sváfum við á þunnri dýnu á sandinum undir berum og stjörnubjörtum himni. Það var orðið verulega kalt þegar við fórum að sofa – veðrið var ekki það gott um daginn – og því var búið um okkur í svefnpoka og með 3 teppum oná, þannig að okkur yrði ekki kalt.

Thar eyðimörkin

Í morgun vaknaði ég frekar stirður – eyðimörkin er ekki gott rúm – og auk þess var ég stífur eftir úlfaldalabb gærdagsins. Við löbbuðum svo í um 4 tíma í dag í áttina að Jaisalmer. Veðrið var fallegra í dag og á tíma þegar við vorum að labba í gegnum gróðurinn í sólinni, þá var útsýnið ótrúlega magnað. En þreytan í líkamanum var orðin slík að eftir hádegismat þá vorum við alveg komin með nóg af úlföldum. Úlfaldarnir okkar voru nokkuð góðir, fyrir utan það hversu mikið þeir reka við framan í úlfaldann á eftir sér – sérstaklega úlfaldinn hennar Margrétar, sem var á undan mér. Einnig voru úlfaldatemjararnir með einn auka úlfalda, sem þeir voru að þjálfa (hann er sjö ára, hinir sem við vorum á eru 10-12 ára), sem að gaf frá sér mikil öskur þegar þeir voru að fá hann til að setjast niður.


En núna erum við semsagt komin aftur inná hótel dauðþreytt eftir ævintýri síðustu daga, með sand útum allt. Við ætlum að eyða nóttinni hérna í Jaisalmer og seinni partinn á morgun tökum við svo næturlest til Jaipur. Þaðan er planið að heimsækja Ranthambore þjóðgarðinn, þar sem við gerum okkur veika von um að sjá tígrisdýr.

Skrifað í Jaisalmer, Indlandi klukkan 18.20

Indlandsferð 3: Götuhundar og heilagar kýr

Mehrangarh virkið í Jodphur

Fyrir ferðina hingað til Indlands keypti ég mér þráðlaust lyklaborð. Það lyklaborð tengi ég með bluetooth við iPhone símann minn og get ég því skrifað bloggfærslur beint inná símann. Þetta gerir mér kleift að sitja hérna uppi á þaki gistiheimilsins í Jodhpur með bara lyklaborð í fanginu og blogga um atburði síðustu daga. Í stað þess að hanga inná rykfylltu internetkaffi, þá sit ég hér úti í sólinni og blogga.

Hótelið okkar í Jodhpur er í gamla miðbænum og fyrir framan mig sé ég Meherangarh virkið gnæfa yfir borginni. Í fjarska heyri ég bænaköll frá þremur ólíkum moskum og í húsi rétt hjá var áðan brúðkaupspartí með tilheyrandi söng.

* * *

Glöggir lesendur taka eflaust eftir því að þessi færsla heitir “Indlandsferð” en ekki því metnaðarfulla nafni “Suður-Asíuferð”. Fyrir því er auðvitað ástæða. Upphaflega var planið að eyða 2 mánuðum á Indlandi, Nepal, Bútan og Bangladess, en okkur þótti það á endanum of mikið og við kipptum Nepal út. Þegar við tókum aðeins saman hvað okkur langaði að sjá á Indlandi þá ákváðum við á endanum að sleppa Bútan líka. Landið er gríðarlega dýrt og okkur fannst Indlands-yfirferðin of hröð til að ná inn nokkrum dögum í Bútan. Þannig að við munum halda okkur við Indland, með smá stoppi í Bangladess. Einnig höfum við hætt við Suður-Indland – við ætluðum að enda á Goa – og enda þess í stað á hinum afskekktu Andaman eyjum, sem eru í Bengal flóa nálægt Myanmar. Þar er lítið annað en blár sjór, hvítar strendur og kóralrif.

* * *

Við komum hingað til Jodhpur í gærkvöldi með taxa frá Udaipur. Við tókum taxa hingað til þess að geta stoppað á leiðinni á tveimur merkum stöðum. Fyrst í Kumbalgarh virkinu um 80 km fyrir norðan Udaipur. Þetta er eitt stærsta virkið á Indlandi, byggt á 15. öld. Í kringum það er 36 kílómetrar af múr, sem leigubílstjórinn sagði okkur að gerði hann að næst-stærsta múr í heimi. Ég veit ekki hversu áreiðanlegar heimildir hann hefur fyrir því. Næsta stopp var svo hjá Ranakpur hofinu. Ranakpur er Jain hof, sem var byggt árið 1439 og inní því eru ótrúlega miklar og fallegar marmaraskreytingar. Hofið er á fallegum stað í dal ekki svo langt frá Kumbalargh.

Hofið er byggt af fólki, sem tilheyrir Jain trúarbrögðunum, sem um 1% Indverja aðhyllast. Þrátt fyrir að vera ekki stærri þá eru þessi trúarbrögð nokkuð áberandi og mörg falleg hof standa þeim til heiðurs enda voru þau vinsælli meðal Indverja áður. Þau eru ekki ósvipuð Hindúisma (og margir sem áður aðhylltust Jain hafa fært sig til Hindúisma) – í þeim er mikil áhersla á friðsemi og mega iðkendur ekki drepa neinar lifandi verur. Þeir borða ekki kjöt, reyna að forðast að drepa skordýr og svo framvegis. Áður en við fengum að fara inní hofið þurfti ég að taka af mér leðurbeltið mitt.

Á milli Ranakpur og Jodhpur stoppuðum við á miðjum sveitavegnum til þess að hyllla Mótorhjólaguðinn. Fyrir einhverjum 30 árum lést þar mótorhjólakappi. Stuttu eftir andlátið tók mótorhjólið hans uppá því að keyra sjálft aftur á slysstað og auk þess fjölgaði slysum í nágrenninu mikið. Hinn látni mótorhjólakappi birtist bróður sínum í draumi og tilkynnti honum að bílstjórar þyrftu að reisa sér til heiðurs skríni og byrja að tilbiðja sig og mótorhjólið. Þannig að í dag stendur þarna blómaskreytt hjólið og skríni tileinkað mótorhjólaguðnum. Bílstjórar votta því virðingu sína annaðhvort með því að stoppa, hella viskí á skrínið (gott að vita að allir bílstjórar hafi viskí á sér) eða flauta vel og lengi þegar þeir keyra þarna framhjá.

* * *

Við vorum í Udaipur í 4 daga og dvölin þar var frábær. Udaipur er ótrúlega falleg borg, sem liggur við Pichola vatn. Frægast í Udaipur er sennilega hin hvíta Vatnshöll, sem er á miðju vatninu.

Udaipur varð pínu fræg þegar að stór hluti James Bond myndarinnar Octopussy var tekin upp þar. Sú mynd er sýnd á hverju gistiheimili í borginni á hverju kvöldi og við ákváðum að sjá hvernig borgin kæmi út í henni. Ég man að sirka 8 ára gömlum Einari Erni fannst Octopussy vera stórkostleg mynd. Hún hefur hins vegar elst með ólíkindum illa og er í dag frekar illa leikin della. Þeir sem muna eftir myndinni vita auðvitað að enginn hluti hennar gerist í Udaipur, heldur í Delhi. Semsagt, sá hluti myndarinnar sem gerist í Delhi er tekinn uppí Udaipur – þrátt fyrir smáatriði einsog þau að í Delhi er ekkert stöðuvatn. Framleiðendurnir gerðu greinilega ekki ráð fyrir að fólk vissi mikið um Indland.

Við tókum því frekar rólega í Udaipur. Við skoðuðum hina mögnuðu Borgarhöll, sem að er bústaður kónganna úr Sisodia fjölskyldunni, sem er sennilega sú konungsfjölskylda sem hefur setið hvað lengst – núverandi kóngur er ættliður númer 67 í röð konunga. Völd þeirra eru þó lítil í dag. Höllin er að hluta til safn og hún er gríðarlega falleg.

Við fórum líka í bátsferð á Pichola vatni, sigldum þar framhjá Vatnshöllinni (það má ekki fara á land þar í kjölfar Mumbai hryðjuverkanna – einungis hótelgestir mega vera þar) og stoppuðum svo á eyjunni þar sem að Jag Mandir höllin er (þar sem að Octopussy og gellurnar hennar bjuggu).

Við borðuðum líka ótrúlega góðan mat á fallegum veitingastöðum með útsýni yfir vatnið og svo lærðum við að elda indverska grænmetisrétti á stuttu matreiðslunámskeiði sem við fórum á heima hjá konu eigenda gistiheimilisins.

* * *

Einna eftirminnilegast frá Udaipur var svo heimsókn okkar á dýraspítala í nágrenni borgarinnar. Spítalinn er rekinn af bandarískum hjónum og hýsir hundruði veikra og slasaðra götudýra frá Udaipur. Mest er þarna af götuhundum, sem hefur verið keyrt yfir og af veikum götubeljum. Kýr eru jú heilagar hérna á Indlandi og því eru þær ekki drepnar. Þegar að mjólkurkýr geta ekki mjólkað almennilega er þeim oft bara sleppt. Þær enda inní borgum þar sem enginn þorir að gera þeim neitt og éta þar mat af ruslahaugum.

Þær átta sig ekki á því að plastpokar eru ekki matur og því enda þær með tugi plastpoka í maganum, sem gerir þeim smám saman lífið óbærilegt. Einsog eigandi spítaland orðaði það við okkur þá er virðing Indverja fyrir kúnum að stóru hluta fólgin í því að þeir eru ekki vondir við þær – en þeir eru ekkert sérstaklega góðir við þær heldur. Það er ekki keyrt á þær, en þær lifa sennilega heldur ekki mjög góðu lífi í stórborgunum.

Götuhundar eru önnur saga – á þá er keyrt og fáum þykir sérstaklega mikið til þeirra koma. Þeir eru flestir úrkynjaðir og borða af ruslahaugum. Flestir þeirra hunda sem eru á spítalanum eru annaðhvort með meltingarsjúkdóma (sem þýðir að þeir geta engan mat borðað) eða hafa lent undir bíl og eru því annaðhvort án fóta eða geta ekki labbað almennilega af öðrum ástæðum (hundurinn á myndinni hér að neðan var ekki með neina afturfætur). Við buðumst til að vinna þarna sem sjálfboðaliðar (eitthvað sem mér hefði ekki dottið í hug án Margrétar) og okkar verk var að sitja í nokkra klukkutíma úti með nokkrum hundum og klappa þeim.

Þetta hljómar furðulega, en þessir hundar hafa alist upp við að fá enga umhyggju, sem þeir virðast þrá, því við þurftum bara að vera þarna í nokkrar mínútur áður en þeir voru orðnir okkar bestu vinir og kepptust um að láta klappa sér. Það var með ólíkindum hversu lítið við þurftum að gera til að gera þá glaða í smá stund. Það eru oft svona hlutir, sem manni hefði aldrei dottið í hug að gera, sem gera svona ferðalög svo skemmtileg og gefandi.

*Skrifað í Jodhpur á Indlandi klukkan 17.40*

Indlandsferð 2: Hellar og Udaipur

Þegar við Margrét vorum í taxa á leið frá flugvellinum hérna í Udaipur, á leið uppá gistiheimilið þar sem ég er núna, þá var það með ólíkindum róandi upplifun eftir geðveikina í Mumbai og Aurangabad. Í Udaipur er miklu minni mengun, færri bílar og minni læti. Hérna sér maður til fjalla og vötnin fallegu í kringum þessa vatnaborg eru svo sannarlega velkomin tilbreyting frá Aurangabad og Mumbai.

* * *

Rútuferðin frá Mumbai til Aurangabad var skrautleg. Lestarmiðar til Aurangabad voru uppseldir og því neyddumst við til að taka rútu. Það tók rútuna okkar 12 klukkutíma að fara þessa 400 kílómetra leið á milli borganna. Það þýðir að rútan var að meðaltali á 33 kílómetra hraða og miðað við hvernig ferðin gekk þá þykir mér það bara nokkuð gott.

Rútan var furðumikill lúxus. Hún var útbúin með litlum kojum í stað sæta, þannig að við gátum legið lengst af ferðinni. Það var þó ekki auðvelt að sofa, því að þjóðvegir á Indlandi eiga það sameiginlegt með borgarvegum að á þeim eru stanslaus læti og stanslaus umferðarteppa. Við lögðum af stað frá rútustöðinni í Mumbai um hálf tíu um kvöld og allt til klukkan hálf fjögur um nóttina var rútan í umferðarteppu. Sennilega tók það um tvo tíma að keyra útúr borginni og á þjóðvegunum var þetta lítið skárra. Vegirnir voru uppfullir af vöruflutningabílum, sem að flautuðu einsog óðir menn á hvorn annan. Það er sennilega ágætis trix svo að þeir haldi sér allir vakandi, en það gerði okkur ekki beint auðvelt með að sofa. Einhvern veginn tókst okkur þó að sofa síðustu 3-4 tímana í ferðinni.

Í Aurangabad fundum við okkur hótel í annari tilraun og skipulögðum strax ferð í Ellora hellana, sem eru í um hálftíma fjarlægð frá Aurangabad. Á svæðinu eru um 30 hellar, sem hafa voru skreyttir á magnaðan hátt á um 500 ára tímabili frá 600-1100. Þar sem að skreytingarnar spanna svo langan tíma þá spanna þau líka ólík trúarbrögð, sem voru ráðandi á Indlandi á þeim tímum – fyrst búddisma, svo hindúisma og síðast jain. Minni hellarnir eru fullir af útskornum búdda styttum og fleiru slíku, en hápunkturinn er Kailash hofið. Það var höggvið útúr berginu á um 100 ára tímabili frá árinu 770. 250.000 tonn af bergi var höggvið og fjarlægt og eftir stendur úthöggið hindúa hof, sem er með ólíkindum fallegt.

* * *

Þegar við komum frá hellunum skoðuðum við okkur aðeins um í Aurangabad, sem er eins ósjarmerandi og hægt er að hugsa sér. Allavegana sá hluti borgarinnar sem við vorum í. Mengunin var gríðarleg, sem var kannski ekki endilega útaf fjölda farartækja heldur einna helst af því hversu gömul þau eru. Rickshaw bílar eru ótrúlega léttir (á þrem hjólum), en þeir eru gamlir og útblásturinn frá þeim er hreinasti viðbjóður. Umferðin á stærstu götunni í Aurangabad var sennilega ekki mikið meiri en á meðalgötu á Íslandi, en mengunin var nánast óbærileg. Auk þess var malbikið ónýtt og því þyrlaðist upp ryk, sem gerði ástandið enn verra.

Að vissu leyti er þetta eins í Mumbai og svo líka hérna í Udaipur (þótt að það sé sannarlega betra hérna). Mengunin væri svo margfalt minni ef að bílarnir væru ekki svona rosalega gamlir. Eldgamlir rickshaw og Ambassador leigubílar eru útum allt í Mumbai, sem gerir umferðarteppur í borginni óbærilegar. Leigubílar, sem ábyggilega eru yfir 30 ára gamlir eru enn í fullu fjöri og halda áfram að skila frá sér ofboðslegu magni af mengun.

* * *

Fólkið í Auranbabad var þó frábært einsog alls staðar hingað til á Indlandi. Við römbuðum inní giftingu á laugardagskvöldinu þar sem okkur var tekið vel og allir höfðum mikinn áhuga á okkur.

Á sunnudeginum fórum við svo til Ajanta hellanna, sem eru aðeins meira afskekktir en Ellora. Ajanta hellarnir voru notaðir sem búddamusteri frá árunum 200-600 og þarna voru allt að 200 munkar þegar að best lét. Þeir féllu svo í gleymsku í mörg hundruð ár og voru ekki enduruppgötvaðir fyrr en árið 1819 þegar að menn frá Austur-Indíafélaginu rákust á þá þegar að þeir voru á tígrisdýraveiðum. Ajanta hellarnir eru þekktir fyrir ótrúlegar myndskreytingar inní hellunum, sem eru um 30 að tölu.

Við skoðuðum flesta hellana í gríðarlegum hita á milli þess sem að annarhvor Indverji vildi fá mynd af okkur (aðallega Margréti). Það er frekar skrýtið að bókstaflega allir vilji fá mynd af sér með okkur. Litlum börnum finnst við fáránlega skrýtin og fyndin og fólk á öllum aldri vill fá myndir af sér með okkur. Allt frá unglingum til virðugra eldri manna. Á fjölmörgum heimilum á Indlandi er núna eflaust verið að sýna myndir af ljóshærðu útlendingunum, sem að fólk hitti um helgina.

* * *

Frá Aurangabad flugum við svo til Mumbai, þar sem við fengum að sitja tvisvar í umferðarteppu (aaaaah, Mumbai) er við reyndum að endurheimta hattana okkar af alþjóðaflugvellinum án árangurs – en restinni af deginum eyddum við á domestic flugvellinum á meðan að við biðum eftir flugi til Udaipur.

*Skrifað í Udaipur, Indlandi klukkan 20.09*

Suður-Asíuferð 1: Mumbai

Það er búið að vara mig svo oft við Mumbai og Indlandi að það kom mér eiginlega á óvart hversu ekki-hræðileg Mumbai er. Hérna er ekki heimsins versta umferð og þetta er ekki heimsins ljótasta borg og svo framvegis. Langt því frá.

Mumbai er auðvitað borg ótrúlegra andstæðna. Hér býr ríkasta fólkið á Indlandi í hverfum þar sem fasteignaverð er líkara New York en restinni af Indlandi. Hérna er Bollywood iðnaðurinn og Bollywood stjörnurnar búa hér og borða á fínum veitingastöðum og skemmta sér á næturklúbbum.

Og hérna eru líka stærstu fátækrahverfi í heimi. Yfir 55% allra íbúanna búa í fátækrahvefunum, svipuðum þeim og gerð voru fræg í Slumdog Millionaire. Það þýðir að yfir 10 milljón íbúa búa í hreysum án aðgangs að skólpi og rennandi vatni. Borgin sjálf er talin vera næst fjölmennasta borg í heimi með um 14 milljón íbúa, en á borgarsvæðinu öllu búa sennilega yfir 20 milljón manns.

* * *

Við Margrét komum hingað á þriðjudaginn eftir að hafa millilent í Zurich á leið okkar frá Stokkhólmi. Strax á flugvellinum byrjaði borgin að koma mér á óvart. Skipulagið þar var einsog best gerist, engir öskrandi leigubílstjórar, heldur allt skipulagt og enginn gat okrað á þreyttum ferðamönnum í nýju landi. Við gistum á sæmilegu hóteli í Colaba hverfinu, sem er í suðurhluta borgarinnar.

Mumbai var áður á nokkrum eyjum, sem hafa með árunum verið tengdar saman með landfyllingum gerðum að hluta til úr rusli. Colaba hverfið er syðst í borginni. Fyrir sunnan Colaba er svo Arabíuhafið, þannig að borgin getur bara vaxið í eina átt – norður. Colaba er túristahverfi og nokkuð vel stætt miðað við önnur hverfi Mumbai. Við höfum þó náð að skoða nokkrar hliðar á borginni síðustu daga.

Við eyddum fyrsta deginum í að skoða frægustu hlutina hérna í Colaba. Fyrst Gateway of India, minnismerki sem að Bretar reistu fyrir um 100 árum og þar við hliðiná Taj Mahal hótelið, sem var miðpunktur hryðjuverkaárásanna á Mumbai árið 2008. Einsog við var að búast voru göturnar í kringum hótelið að hluta til lokaðar og líktist aðkoman að mörgu leyti lúxuhótelum í Mið-Austurlöndum og Indónesíu. Hótelið er þó enn ótrúlega glæsilegt þarna við sjóinn.

Við Gateaway of India var nokkuð skemmtilegt að vera. Þetta er mikill samkomustaður Mumbai íbúa og þótt að flestir túristar fari þarna þá er hlutfall túrista svo lágt í borginni að við vorum þar mjög áberandi. Margrét leyfði æstum Indverjum að taka myndir af sér með þeim og sumum fannst meira að segja spennandi að fá mig með sér í fjölskyldualbúmin. Þetta var allt mjög skemmtilegt og móttökur Indverja frábærar.

Við skoðuðum svo Prince of Wales safnið, sem að heitir núna einhverju hindúsku nafni, sem ómötulegt er að muna eða bera fram. Hægri flokkurinn Shiv Shena hefur keppst við það að breyta öllum gömlum breskum nöfnum í hindúsk nöfn. Það skýrir hvers vegna borgin heitir núna Mumbai en ekki Bombay einsog hún gerði fyrir 1995. Þetta þýðir einnig til dæmis að “Prince of Wales safnið” (fínt nafn, auðvelt að muna) heitir núna “Chhatrapati Shivaji Maharaj Vastu Sangrahalaya”, sem ég get hvorki munað né borið fram.

Um kvöldið borðuðum við svo á Leopold’s Café, sem er nokkuð þekkt kaffihús hérna í Colaba hverfinu. Bæði er það þekkt sem aðalkaffihúsið í bókinni Shantaram og svo var Leopold’s líka einn þeirra staða, sem ráðist var á í árásunum 2008. Enn má sjá skotgöt á veggjunum og fyrir utan staðinn var brynvarður herbíll. Maturinn var góður, þótt að Rough Guide hafi sagt að hann væri bragðlítill og of dýr. Ef þetta var bragðlítill matur, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af framhaldinu.

Í gær skoðuðum við aðal-lestarstöðina, sem er gömul og falleg bygging og keyptum rútumiða til Aurangabad, sem er næsta stopp.

Aðalmálið í gær var þó ferð í Dharavi fátækrahverfið í úthverfi Mumbai. Fyrst fannst mér það ekki hljóma neitt sérstaklega spennandi að fara í túr um fátækrahverfi. Ég sá fyrir mér túr þar sem við myndum gapa útúr loftkældri rútu á fólkið sem væri að betla í kringum mann og við myndum taka myndir af eymdinni. Ég hafði lesið um slíka túra í Rio de Janeiro og fannst þeir ekki spennandi. En nokkrir höfðu mælt með þessum túr og við létum af því verða. Túrinn er skipulagður af hjálparsamtökum í Dharavi hverfinu. Þar vinnur fólk sem þar býr og allur peningurinn, sem kemur inn, fer í að byggja skóla fyrir hverfið.

Dharavi hverfið er magnaður staður. Á um 2 ferkílómetra svæði býr og vinnur 1,1 milljón manns. Nánast allir eru þar með vinnu við að endurvinna rusl. Gríðaregt magn af plasti og öðru rusli er flutt í hverfið, þar er það sorterað, þurrkað og svo að lokum brætt í einingar, sem eru seldar. Við fengum að sjá alla vinnsluna og þetta var merkilegt. Í túrnum var bannað að taka myndir og fólkið hafði meiri áhuga á að vinna vinnuna sína en því að pæla í gestunum. Það voru helst litlu börnin, sem voru æst í að heilsa okkur. Dharavi hverfið var notað sem tökustaður í nokkrum atriðum í Slumdog Millionaire og þaðan komu nokkur af litlu börnunum, sem léku í myndinni. Við skoðuðum líka híbýli fólks, sem voru með ólíkindum lítil. Heilu fjölskyldurnar bjuggu í herbergjum, sem voru ekki mikið stærri en tveir fermetrar.

Í dag tékkuðum við okkur útaf hótelinu og skoðuðum svo Crawford markaðinn, gamla skrifstofu Gandhi og löbbuðum svo um Chattoway ströndina. Á eftir er það svo næturrúta til Aurangabad, þrátt fyrir að ég hafi fengið heillandi boð bæði um að koma á sýningu á Bollywood mynd í kvöld og frá öðrum aðila boð um að leika aukahlutverk í *tveimur* myndum á morgun. Frá Aurangabad ætlum við svo að skoða Ajanta og Ellora hellana.

*Skrifað í Mumbai, Indlandi klukkan 18:32.*

Næsta stopp: Indland

Í gær var ég í slagveðri á Íslandi, í dag í 15 stiga frosti í Stokkhólmi og á morgun er það svo Mumbai, þar sem er um 30 stiga hiti.

Við Margrét eyddum helginni á Íslandi þar sem að pabbi hennar hélt uppá fimmtugs afmæli sitt. Þrátt fyrir að þetta væri stutt heimsókn var hún ótrúlega skemmtileg og við náðum að gera mikið og hitta marga.

Í dag höfum við svo verið á fullu að undirbúa Indlandsferðina. Á morgun er það flug héðan til Zurich og svo þaðan til Mumbai. Ef allt gengur ættum við að vera í Mumbai um kl 10 annað kvöld.

Við getum ekki beðið.

Aftur af stað… Indland, Nepal, Bútan og Bangladess

Þá er komið að því að við Margrét ætlum á langt ferðalag á ný. Ég tók mér nánast ekkert frí á síðasta ári. Tók að ég held 5 frídaga, en restin af ferðalögunum voru öll til Íslands þar sem ég vann allan tímann. Þannig að núna eigum við inni slatta af fríi og ætlum að byrja að nýta okkur það. Margrét er í utanskóla námi á þessari önn og getur því tekið sér frí.

Hugmyndin er sú að fara til Suður-Asíu. Grunn hugmyndin er að heimsækja flest/öll þessi lönd: Indland, Nepal, Bútan og Bangladess. Við höfum annaðhvort 6 vikur eða 8 vikur – það fer aðeins eftir því hvort okkur finnst við ná öllu á þeim tíma.

Við erum búin að skoða þetta talsvert, en ég hef mikinn áhuga á að lesa reynslusögur frá fólki, sem hefur farið til þessara landa og fá þeirra hugmyndir.

Okkar grunnhugmynd var svona: Byrja í Mumbai, færa okkur svo upp til Udaipur, Jaipur, Agra (Taj Mahal), svo uppí Norð-Vestur hlutann – Amritsar, Dharamsala og svo einhvern veginn koma okkur austur til Varanasi. Koma okkur svo upp til Nepal, þar sem við myndum skoða svæðið í kringum Kathmandu. Við höfum sennilega ekki tíma fyrir lengri gönguferðir í Nepal, þannig að við látum Annanpurna bíða til betri tíma (ég er vongóður um að við munum aftur fara þangað). Svo aftur inn til Indlands og þaðan í stutta ferð til Bútan (kannski 4-5 dagar – við þyrftum þó að fljúga þangað samkvæmt því sem ég hef lesið). Þaðan í gegnum Indland inní Bangladess, þar sem við myndum skoða Dhaka og Sundabans. Síðan var hugmyndin að fljúga annaðhvort frá Kalkútta eða Dhaka yfir til vesturstrandar Indlands og eyða einhverjum tíma í Goa og Kerala.

Eftir megni viljum við forðast stórborgir, nema þær sem hafa eitthvað spennandi uppá að bjóða.

Það eru nokkrar spurningar í þessu, sem við erum að velta fyrir okkur.

1. Ættum við að fara til Norð-Vestur Indlands? Ég veit að sumir hlutar þar eru ófærir á þessum tíma árs – við verðum í mars (t.d. Leh, Dal vatnið í Kasmír og svo framvegis) Það tæki talsverðan tíma, en ég veit ekki hvort það sé þess virði. Maður þyrfti kannski að blanda inn heimsókn til Pakistan, sem ég er óviss um að sé sniðugt. Semsagt, eigum við að heimsækja eitthvað fyrir norðan Delhi?
2. Ég tel bara upp helstu borgirnar og túristastaðina, en ef einhver veit um góða staði á milli (við munum sennilega taka mun þéttara plan – ekki bara þessi higlight), þá er það frábært.
3. Hefur einhver reynslu af Bútan?
4. Erum við að sleppa einhverju augljósu? Ég veit að maður gleymir alltaf einhverju þegar maður byrjar að skipuleggja og plön breytast þegar maður kemur á staðinn.
5. Er þetta of þétt plan miðað við tíma?

Rómarferð 2: Punktar um Róm og trúlofun

Margrét og ég, nýtrúlofuð

Einsog ég skrifaði í fyrri hluta bloggsins um Rómarferðina, þá er nánast ómögulegt að skrifa ferðablogg þegar maður er kominn heim.  Það á enn meira við núna þegar yfir mánuður er liðinn frá sjálfri ferðinni.  Ég ætla að reyna að koma þessu frá mér með punktabloggi.

  • Það skemmtilegasta við Róm er ekki Vatíkanið eða Colosseo, heldur að labba um endalausar götur, horfa á mannlíf, borða ís og njóta þess að vera í Róm.  Bestu stundirnar okkar í Róm voru þannig.  Róm hefur auðvitað alla þessa heimsþekktu túristastaði, en auk þess er yndislegt að bara vera í borginni.
  • Maturinn í Róm er frábær.  Við borðuðum nokkrar máltíðir, sem ég myndi telja með þeim betri sem ég hef borðað á ævinni.  Reyndar fannst mér aðalrétturinn oftast sísti hluti máltíðarinnar.  Forréttir og pasta voru vanalega betri.  Guð minn góður hvað pastað var gott.
  • Villa Borghese er stórkostlegt listasafn.  Á ferðalögum fær maður oft óþol fyrir málverkum og listaverkum eftir að hafa heimsótt 2-3 söfn.  En það er hreinlega ómögulegt að verða ekki heillaður af höggmyndum Bernini í Villa Borghese.  Þær eru stórkostlegar.  Það að sjá Appollo og Daphne á ljósmynd er ekki svo merkilegt, en að sjá þessar höggmyndir fyrir framan sig er stórkostlegt.
  • Ís í Róm er æðislegur.  Ef ég byggi í Róm væri ég eflaust 150 kíló af öllu þessu pasta og ísáti og allri þessari víndrykkju.  Allavegana ef ég hegðaði mér einsog túristi sérhvern dag.  Sem Ítalir sennilega gera ekki.
  • Laugardagskvöldið í Róm var eitt besta kvöld ævi minnar.
  • Við Margrét borðuðum stórkostlegan mat á veitingastað rétt hjá hótelinu.  Svo löbbuðum við um nágrennið og á tómri götu rétt hjá Spænsku Tröppunum bað ég hana að giftast mér.  Hún sagði já.
  • Við löbbuðum yfir á næsta veitingastað, pöntuðum þar kampavínsflösku, drukkum fyrsta glasið á veitingastaðnum og tókum svo flöskuna með okkur og drukkum kampavín á Spænsku Tröppunum.  Þetta var svoooo skemmtilegt.
  • Margrét er auðvitað skemmtilegasta, klárasta, sætasta og besta stelpa í heimi.  Og nú er hún mín.  Brúðkaup verður auglýst síðar.

*Skrifað í Stokkhólmi*

Rómarferð 1: Vatíkanið og forna Róm

Þegar ég hef skrifað ferðasögur á þessari síðu þá hef ég vanalega gert það meðan á ferðalaginu stóð. Það er svo auðvelt að skrifa ferðablogg þegar maður er enn á staðnum og allar minningar eru ferskar. Það er erfiðara að gera það þegar maður kemur heim og frábær helgi í Róm virðist eiga lítið sameiginlegt með hversdagsleikanum í Stokkhólmi.

En Róm er svo stórkostleg borg að það væri synd að segja ekki eitthvað um ferðina. Ég og Margrét vorum þarna um miðjan ágúst í fjóra daga og ferðin var algjörlega frábær.

Fyrir það fyrsta er ágætt að minnast á tímasetninguna á ferðinni. Róm í ágúst getur nefnilega verið smá erfið. Flestir Rómarbúar velja þann mánuð til að fara í frí uppí sveit eða á ströndina og því eru ansi margir veitingastaðir, hótel og slíkt lokuð. Hitinn getur líka verið nánast óbærilegur ef að planið er að labba um borgina. En á móti ef maður er heppinn með veður (sem við vorum því hitinn varð aldrei svo óþægilegur nema síðasta daginn) þá er það vissulega þægilegra að labba um Róm þegar að aðeins færra fólk er á ferli, því þrátt fyrir að þetta væri “low-season” í borginni þá eru samt allir túristastaðir troðfullir af fólki.

* * *

Dögunum í Róm skiptum við á milli hverfa. Einn dagur fór í að skoða Vatíkanið, einn dagur í að skoða elsta hluta Rómar, einn dagur í Trastevere og miðbæ Rómar og síðasti hálfa deginum eyddum við svo á Villa Borghese.  Ég ætla því að skipta þessari ferðasögu uppí þá hluta.  Ég bæti svo við smá um matinn, enda var hann magnaður.

Vatíkanið

Jafnvel þótt maður sé trúlaus, þá er erfitt að hrífast ekki af stórfengleika Vatíkansins. Eftir mörg ár á ferðalögum þá hef ég smám saman orðið meira og meira þreyttur á því að heimsækja kirkjur. Kirkjur eru oftast fallegar og tengjast sögu borga sterkum böndum, en ég er nú þegar búinn að sjá Las Lajas í Kólumbíu, St. Basils í Moskvu, Sagrada Familia í Barcelona, St. Patricks í New York, Holy Sepulchre í Jerúsalem, Westminster í London, dómkirkjuna í Köln og Notre Dam í París. Þannig að kirkjur þurfa að vera verulega spennandi til þess að ég vilji eyða miklum tíma í að skoða þær.

Péturskirkjan í Róm er þó sannarlega þess virði. Við vorum mætt þangað snemma um morgun til þess að forðast mestu raðirnar og gátum því eytt talsverðum tíma í að skoða kirkjuna. Hún er stórkostleg. Allt frá Pieta eftir Michaelangelo til altaristjaldsins hans Bernini. Kirkjan er fyrir það fyrsta risavaxin og það er einstök upplifun að labba þarna um. Við skoðuðum alla ganga og listaverk í sjálfri kirkjunni og enduðum svo túrinn okkar á að labba uppá þak kirkjunnar, þar sem við blasir einstakt útsýni yfir Péturstorgið og stóran hluta Rómar.

Eftir kirkjuna skoðuðum við svo Vatíkansöfnin. Fyrir utan þau reyndist vera ansi löng biðröð og þar sem við nenntum varla að bíða í 2 tíma í steikjandi sólskini þá gleyptum við söluræðu ungrar stelpu, sem var að selja túra um söfnin. Með því að vera hluti af túr þá sluppum við nefnilega við biðröðina. Það eitt var sennilega evranna virði, því að túrinn sjálfur – með gamalli ítölsku konu sem túrgæd – endurnýjaði vantraust mitt á öllum skipulögðum túrum. Hún var hræðileg, babblaði á óskiljanlegri ensku og eftir að hafa farið yfir hluta safnsins með henni ákváðum við að stinga hana af.

Vatíkansöfnin eru í mörgum höllum Vatíkansins. Þar eru meðal annars stórkostleg verk eftir Raphael, Caravaggio, Da Vinci og fleiri. Svo endar túrin um söfnin í Sistínsku Kapellunni þar sem að stórkostlegar loftmyndir Michaelangelo eru.

Forna Róm

Áhrif Rómarveldis og umsvif voru ótrúleg. Á ferðalögum mínum að undanförnu hef ég séð talsverðan hluta af veldi þeirra, bæði í Egyptalandi og þó sérstaklega í Mið-Austurlandaferðinni minni á stöðum einsog Baalbek í Líbanon. Eftir að hafa séð þær rústir kemur það manni kannski smá á óvart að fornleifar í Róm skuli ekki vera enn magnaðri, en fyrir því eru þó ástæður.

Við Margrét eyddum góðum degi í elsta hluta Rómar. Við byrjuðum á því að labba frá miðbænum að fornu Róm, með smá stoppi við Trevi gosbrunninn þar sem við köstuðum klinki í von um að komast aftur til Rómar. Í fornu Róm byrjuðum við á því að skoða Forum og Palatino auk Capitoline safnsins.

Síðast var það svo frægasta bygging Rómar, Colosseo. Colosseo er auðvitað ein af þessum byggingum, sem maður hefur séð svo oft á myndum að maður kannast nánast við allt um leið og maður sér hana í fjarlægð. Við fórum inn og skoðuðum okkur þar um á áhorfendapöllunum og tókum myndir. Það er svo sem ekki miklu hægt að bæta við myndirnar, sem við tókum þar.

*Skrifað í Stokkhólmi*

Róm?

Ég og Margrét erum að fara til Rómar í næstu viku og verðum þar í fjóra daga. Ég veit svona nokkurn veginn hvað við eigum að gera varðandi helstu túristastaði (og við erum búin að panta hótel), en ef einhver er með tips um hvaða staði við eigum að fókusera á og sérstaklega á hvaða veitingastaði við eigum að fara á, þá eru allar tillögur mjög vel þegnar! Takk takk!

Markaðurinn í Mexíkóborg

Central de Abasto

Hjá Kottke rakst ég á þessa færslu þar sem fjallað er um aðalmarkaðinn í Mexíkóborg, Cental de Abasto.

Central de Abasto er risavaxinn markaður, alls um 3,3 ferkílómetrar að stærð.  Þar er hægt að fá nánast allt, sem manni getur dottið í hug.  Inná markaðinum eru 2.230 básar sem selja allt.  Markaðurinn hefur meira að segja sína eigin lögreglu með um 700 lögregluþjóna.

Ég hef afrekað það að vinna á þessum markaði á nánast hverjum degi eitt sumar þegar ég vann í Mexíkó.  Þá vann ég hjá sælgætisfyrirtæki og markaðurinn var mikilvægur söluaðili fyrir okkur.  Í Mexíkóborg er það nefnilega þannig að stór hluti af sælgæti er seldur af gríðarlegum fjölda sölumanna, sem að labbar um borgina eða situr á teppi og selur nokkrar tegundir af tyggjói, sígarettum og sælgæti.  Öfugt við Ísland þar sem oftast er nóg að tala við 2-3 aðila til að fá góðan markað fyrir nýjar vörur, þá þurftum við að höfða til þessara tugþúsunda sölumanna til að kynna okkar vöru.

Til þess vorum við með nokkrar stelpur, sem unnu á markaðinum á hverjum degi við að kynna okkar sælgæti.  Mitt hlutverk var að fara á markaðinn og sjá hvernig þeim gekk, hvernig þær seldu, og þjálfa nýtt sölufólk (sem voru alltaf stelpur).  Hálf vinnuvikan mín fór fram á Central de Abasto, en einnig heimsótti ég kynningarstelpur okkar sem unnu í öðrum búðum og mörkuðum í Mexíkóborg.  Þetta var einstaklega skemmtilegt starf (allavegana í minningunni) og þarna lærði ég ansi mikið um sölustörf, sem hefur nýst mér. Ég fékk að sjá ansi stóran hluta borgarinnar með þessu og ég kynntist annari hlið af Mexíkóborg en túristarnir gera.

Myndin við færsluna tók ég af sölubás í Central de Abasto árið 1997.