90% lán, kynlíf og brjáluð loforð

Skrítið að enginn virðist hafa spáð í þessu loforði framsóknarmanna um 90% húsnæðislán fyrr en eftir kosningar. Fyrir kosningar hafði fólk aðallega áhyggjur af því að auglýsingarnar fyrir lánin væru of fyndnar eða væru að hvetja til kynlífs hjá ungu fólki.

Ég verð að játa að ég hafði lítið spáð í því hversu vitlaus þessi hugmynd framsóknarmanna væri fyrr en núna. Jón Steinsson, sem ber af öðrum greinarhöfundum á Deiglunni skrifar í dag um þessa hugmynd:

Með þessum tillögum virðist félagsmálaráðherra algerlega hafa misst sjónar á tilgangi hins opinbera húsnæðiskerfisins. Á það virkilega að vera hlutverk hins opinbera að tryggja það að fólk geti keypt 20 milljón króna fasteignir? Nei! Tilgangur húsnæðiskerfisins á að vera að hjálpa ungu og efnalitlu fólki að eignast sína fyrstu fasteign. Kerfið á að ýta undir almenna húsnæðiseign, ekki almenna einbýlishúsaeign.

Nákvæmlega!! Af hverju fattaði þetta enginn fyrir kosningar?

Múrsrökleysa

Í dag skrifar Steinþór Heiðarsson ágætis grein á Múrinn um illmennið Efrain Rios Montt, fyrrum herforingja í Guatemala.

Steinþór endar hins vegar greinina á þessari málsgrein:

Margir fyrrverandi skjólstæðingar og bandamenn Bandaríkjahers í Mið- og Suður-Ameríku munu trúlega fylgjast með máli Efraín Ríos Montt af nokkurri athygli. Ef til vill mun Alvaro Uribe, núverandi forseti Kólumbíu, líka hafa augun opin. Bardagaaðferðirnar sem Kólumbíuher hefur tekið upp eftir að bandarísku „hernaðarráðgjafarnir“ komu honum til hjálpar í hernaðinum gegn FARC minna ónotalega á gereyðingarstríðið í Guatemala svo ekki sé meira sagt.

Hérna kastar Steinþór fram þeirri fullyrðingu að aðferðir Alvaro Uribe, forseta Kólumbíu líkist að einhverju leyti fjöldamorðum á óbreyttum borgurum í Guatamala 1982-1983.

Má ég biðja um rök fyrir þessari fullyrðingu?

Ég held að Steinþór sé dálítið blindaður af einhverri rómantískri ímynd af glæpafélaginu FARC, sem voru einu sinni Marxískir hugsjónamenn, en geta núna ekki kallast neitt nema morðingjar og glæpamenn. Barátta Uribe gegn þessum glæpamönnum hefur verið harkaleg á stundum, enda svífast FARC liðar einskins. Margir vinstri menn eru með veikan blett fyrir skæruliðahreyfingum í Suður-Ameríku. En menn verða að kunna að gera greinarmun á frelsishreyfingum líkt og Zapatistum í Mexíkó og glæpasamtökum líkt og FARC.

Það að líkja erfiðri baráttu Uribe við ósvífin glæpasamtök, saman við fjöldamorð á þúsundum óbreyttra borgara er fáránlegt.

Menem

Carlos Menem er ansi magnaður stjórnmálamaður. Allt í einu þegar maður hélt að hann gæti ekki hætt að koma mann á óvart, þá toppar hann sjálfan sig.

Menem hefur nefnilega dregið sig útúr seinni hluta forsetakosninganna í Argentínu. Hann var efsti maðurinn í fyrri hlutanum með um 24% atkvæða en sá fram á gríðarlegt tap fyrir hinum frambjóðendanum, Nestor Kirchner. Málið er einfaldlega að Menem nýtur stuðnings um fjórðungs Argentínubúa. Hins vegar þá myndi restin af íbúunum heldur vilja hafa Saddam Hussein sem forseta heldur en Menem.

Carlos Menem var þó alls ekki alslæmur forseti. Á fyrra kjörtímabili hans var hann uppáhald Alþjóðabankans, vegna þess að honum tókst að ná gríðarlega góðum árangri í stjórnun efnahagsmála. Hann hafði boðið sig fram sem vinstrisinnaður Perónisti, en breyttist á einum degi í gallharðan hægrimann og tók að einkavæða ríkisfyrirtæki. Honum tókst meira að segja að ná niður verðbólgunni með því að taka upp dollarann.

Það má segja að fall hans hafi komið til vegna valdagræðgi hans. Ólíkt Íslandi er nefnilega sett takmörk fyrir því hversu lengi menn geta verið forsetar í Argentínu. Menem var ekkert sáttur við að hætta eftir tvö kjörtímabil og því hóf hann miklar aðgerðir til að reyna að breyta stjórnarskránni. Hann reyndi að koma sínum mönnum að í hæstarétti og svo fór hann að eyða peningum í alls kyns vitleysu.

Á sama tíma var allt efnahagslífið að fara til fjandans, og þegar Menem gafst uppá að verða forseti áfram, þá var landið í rúst. Stuttu eftir að hann hætti hrundi efnahagskerfið, gengið var fellt um meira en helming og núna býr stór hluti þjóðarinnar undir fátæktarmörkum.

Það er því ágætt að Menem er hættur við, því ég hefði svo sem alveg getað trúað því að hann hefði getað logið því uppá Argentínubúa að hann væri sá eini, sem gæti bjargað landinu. Ég er hins vegar alls ekki viss um að perónistinn Nestor Kirchner sé rétti maðurinn til að bjarga þessu frábæra landi. Það er þó vonandi að hann geti bjargað einhverju.

Stórkostlegur sigur Sjálfstæðisflokksins

Stjórnmálamenn geta verið magnaðir. Hvernig fara menn að því að túlka sjö prósenta tap, sem sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Munurinn á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki var fyrir fjórum árum var 14,1%. Hann er í dag 2,7%.

Allir flokkar töpuðu í kosningunum, nema Frjálslyndir og Samfylking. Frjálslyndir bættu við sig 3,2%, Samfylking bætti við sig 4,2%. Samfylkingin er sigurvegari kosninganna. Punktur.

Annars þá tala menn um að Framsóknarmenn séu með öll völdin í höndunum. Mér finnst að Davíð og Ingibjörg ættu að taka valdið úr þeirra höndum og mynda Viðreisnarstjórn. Þá væri gaman að lifa 🙂

Það er allt að fara til helvítis!!

Ó já, Davíð blessaður stóðst ekki freistinguna og spáði því að ef vinstri stjórn myndi komast til valda þá myndi allt fara til andskotans.

Annars var lokaræðan hjá Steingrími í kappræðunum rosalega flott. Verst að ég skuli vera svo ósammála honum um stjórnmál. Stundum langar mig að vera sammála honum, því hann er svo ótrúlega sannfærandi í umræðuþáttum. Parturinn um að þú værir einn í kjörklefanum og að hvorki atvinnurekandinn né Davíð gætu gert neitt var flottur. Ingibjörg var ágæt en Guðjón Arnar var hörmulegur. Ég bara hreinlega skil ekki af hverju einhver ætti að kjósa þann flokk.

Annars, þá leyfi ég mér að fullyrða að sólin muni koma upp á mánudaginn, jafnvel þótt að ríkisstjórnin falli.

Vá maður, pældu í þessum Úngu Sjálfstæðismönnum!

Ungir sjálfstæðismenn eru þjóðflokkur, sem fer oft alveg óheyrilega mikið í taugarnar á mér á stundum.

Þrátt fyrir að ég sé hægri maður og telji mig oft vera sammála þessum krökkum, þá er margt sem rýrir trúverðugleika þessa fólks.

Fyrst og fremst sú staðreynd að þeir gleyma alltaf sannfæringu sinni, hugmyndafræði og sjálfstæði nokkrum vikum fyrir kosningar. Þá ákveða ungir sjálfstæðismenn að þeirra hugmyndafræði skipti engu máli, heldur byrja þeir að apa upp eftir Davíð og þeirra helsta baráttumál verður að gefa ungu fólki bjór til þess að það kjósi örugglega flokkinn.

Einnig er það krónískur fylgikvilli þess að vera ungur sjálfstæðismaður að þegar viðkomandi kemst í áhrifastöðu, þá fá menn væg einkenni Alzheimer og gleyma öllu því, sem þeir hafa áður staðið fyrir, og breytast í gallharða íhaldsmenn. Þannig er Sigurður Kári strax búinn að gleyma því að hann studdi einu sinni frjáls viskipti og hefur þess í stað ákveðið að styðja ríkisábyrgðir og ríkisframkvæmdir Davíðs.

Helsta framlag ungra Sjálfstæðismanna í kosningabaráttuna í ár er svo núna fáránlegur hræðsluáróður í garð ESB aðildar. Þessi auglýsing er ótrúleg!!.

Í henni er gefið í skyn að Evrópusambandsaðild þýði að það verði jól á hverjum degi fyrir spænska, skoska og portúgalska sjómenn. Auglýsingin gefur í skyn að Ísland muni afsala sér öllum rétti yfir fiskinum í sjónum. Þetta er svo mikil della að það er ekki fyndið! Samfylkingin hefur ítrekað (kannski ekki nógu oft fyrir unga sjálfstæðismenn, þeir eru of uppteknir af hneykslast á því að Samfylkingin vilji að stjórnvöld eigi ekki að skipta sér af fyrirtækjum á Íslandi) sagt að grundvallarskilyrði fyrir aðild Íslendinga að ESB séu áframhaldandi áhrif yfir auðlindinni. Ef ekki tekst að semja um það, þá verður ekkert samið.

Þessi auglýsing endar á orðunum: Sumir stjórnmálaflokkar á Íslandi vilja ganga í Evrópusambandið. Pældu í því.

Ég ætla að búa til fleiri slagorð á svipuðum nótum, sem ungir sjálfstæðismenn gætu notað.

  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að veita einu fyrirtæki ríkisábyrgð fyrir 20 milljarða. Pældu í því!
  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að nokkrir áhrifamiklir kallar ákveði það að Ísland skuli styðja stríð í öðrum heimshluta. Pældu í því!
  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að setja kínverskt fimleikafólk í fangelsi á meðan að ríkisstjórnin tekur á móti kínverskum kommúnistaleiðtogum. Pældu í því!

Stórkostlegt!

Já, í tilefni 1. maí, þá ætla ég að brjóta elstu og helgustu reglu þessarar heimasíðu: Ég ætla að birta niðurstöður úr könnun, sem ég tók á netinu:

konnun.gifJamm, þetta er magnað. Ég er bara helvíti nálægt Nýju Afli. Kannski að ég kjósi þá bara. Nei, annars þá finnst mér stjórnmálaflokkur með gamlan framsóknarmann, sem talar um það að lækka útgjöld til utanríkisþjónustu, sem einhverja patent lausn á flestum vandamálum, ekki ýkja heillandi.

Samt, þá hefur mér alltaf fundist hinn kallinn, Jón Magnússon held ég að hann heiti, frekar sannfærandi í þáttum einsog Silfri Egils. Svona Sjálfstæðismaður, sem er óhræddur við að mótmæla skoðunum flokksforystunnar (en þeir menn eru nánast útdauðir).

Annars hélt ég að ég myndi skora hærra hjá Sjálfstæðisflokknum, en ég gerði. Kannski er það stefnan í skattamálum, sem vegur þungt enda er ég á móti þessum róttæku skattalækkunum íhaldsins. Það er annars skrítið að það er enginn einn flokkur, sem sker sig úr hjá mér. Kannski er könnunin byggð upp þannig. Svei mér þá, ef ég væri ekki svo ósammála Framsókn í landbúnaðarmálum, þá hefðu þeir ábyggilega bara verið efstir hjá mér. Það hefði sennilega leitt til þess að ég hefði fengið áfall.

Annars, þá er eitt sem mér finnst athyglisvert við þá vefleiðaraskrifara, sem ég rekst á: Það er að það virðist enginn styðja Samfylkinguna!!!! (fyrir utan auðvitað meistara PR) Þetta eru allt Sjálfstæðismenn eða Vinstri-Grænir. Ég held hreinlega að nær allir stuðningsmenn Vinstri-Grænna á landinu haldi úti bloggsíðum. Eða þá að þeir eru svo sniðugir að ég rekst ávallt inná síður þeirra.

Ég efast um að ég gæti nefn einn starfandi vefleiðarahöfund, sem hefur lýst yfir stuðningi við Samfylkinguna! Þannig að ég ætla bara að verða fyrstur.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna í kosningunum í vor. Og hananú!

Femínistaumræðan

Ja hérna, ræðan hennar Gyðu og mótmæli gegn batman.is og tilverunni eru bara orðin efniviður í Kastljósþátt. Áðan voru Haukur, formaður Frjálshyggjufélagsins og einhver kona úr femínistafélaginu, sem ég þekkti því miður ekki, gestir þáttarins.

Allavegana, þá í fyrsta lagi þá fór lokakomment femínistans í taugarnar á mér. Það var eitthvað á þá leið að: “alls staðar, þar sem konur hafa staðið uppog barist, þar hefur verið mótmælt”. Þarna er verið að gera rosaleg fórnarlömb úr þessum félögum úr femínistafélaginu. Ég er á því að flestir hafi mótmælt vegna þess að aðferðir og tillögur femínistana hafa verið öfgafullar, ekki vegna þess að menn séu á móti baráttu femínista. Það að menn mótmæli því að femínistar útbýti refsingum án dóms og laga, er ekki það sama og þegar menn mótmæltu kröfum femínista um kosningarétt eða annað slíkt á árum áður.

Það er líka annað, sem fer í taugarnar á mér í jafnréttisumræðunni (og er í raun ótengt efni Kastljós þáttarins). Það er þegar er verið að tala um jafnhæft fólk. Þannig að oft er dæmt í málum á þann veg að umsækjendur hafi verið jafnhæfir vegna þess að þeir hafi sömu menntun/reynslu.

Málið er einfaldlega að það að ráða fólk í vinnu snýst um svo miklu meira en hvort fólk hafi rétta menntun og reynslu. Langoftast (að ég tel) er það hvernig fólk kemur fyrir, hvernig það sér hlutina og hvernig það talar, sem hefur mest áhrif á val á starfsfólki.

Í fyrra þá sóttu einhverjir 20 nemendur úr hagfræðideildinni minni um starf hjá sama fjárfestingabankanum. Þeir voru allir með sömu menntun og allir með svipaða reynslu. Sá, sem fékk starfið fékk það ekki vegna þess að hann væri svartur eða strákur, heldur vegna þess að fulltrúar fyrirtækisins kunnu betur við hann. Kannski var hann skemmtilegri, eða örlítið klárari, eða með skírari markmið heldur en hinir. Þessa þætti er ekki hægt að mæla og því er ómögulegt að staðhæfa að tveir umsækjendur séu jafn hæfir.

Annars, þá líður mér nú ekkert alltof vel að vera að hamast á femínistum. Ég veit að systir mín yrði ekkert alltof ánægð með það. Ég er sammála mörgum kröfum femínista, svo sem að ekki sé mismunað á grundvelli kyns. Ég held þó að þetta félag sé, að mörgu leiti, á villigötum.

Unnur skrifar frábæran pistil um félagið. Ég efast um að það séu bloggarar á Íslandi, sem eru jafn einlægir í skrifum sínum og hún.