Framsókn í stjórnarandstöðu

Valgerður Sverrisdóttir spyr:

„Það verður því fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum sjálfstæðismanna við heimatilbúnum ágreiningsmálum og skeytasendingum Samfylkingarinnar, s.s. frestun vatnalaga, frumvarpi um skipun hæstaréttardómara, hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar sem auðveldi þátttöku í yfirþjóðlegu samstarfi eins og innan Evrópusambandsins, o.s.frv. Hversu lengi kyngir Sjálfstæðisflokkurinn slíkum sendingum?”

Það má umorða þessa setningu svona:

“Hversu lengi sættir Sjálfstæðisflokkurinn sig við það að Samfylkin sé áfram sjálfstætt stjórnmálaafl, í stað þess að renna alveg inn í Sjálfstæðisflokkinn einsog við framsóknarmenn gerðum áður?”

Voðalega er þetta slappt.

RVK

Hæ hó jibbí jei! Mikið afskaplega var gleðilegt að fara inná mbl.is um 6 leytið og sjá þetta. Ég var alveg úr tengslum við fréttir í allan dag og því kom þetta dásamlega á óvart.

Villi út og Dagur inn – og það algjörlega vegna klúðurs hjá Sjálfstæðistflokknum.  Gæti ég beðið um e-ð meira?  Ætla bara rétt að vona að Frjálslyndir séu ekki með einhverjar gloríur um að uppfylla kosningaloforð sitt varðandi það að flugvöllurinn verði hér áfram.

Stjórnmálapunktar

Ég eyddi meirihluta helgarinnar á Landsþingi Ungra Jafnaðarmanna. Það var nokkuð skemmtilegt. Auðvitað var fínt partí á laugardeginum og svo var málefnavinnan góð. Ég sat í tveimur hópum, annars vegar um utanríkismál þar sem við [ályktuðum](http://politik.is/?i=15&b=5,1335&offset=&offsetplace=&expand=4) um að við vildum ganga í ESB og fleira skemmtilegt og svo sat ég í hópi sem fjallaði um jafnrétti og kvenfrelsi. Það var einnig mjög skemmtilegt. Ályktanirnar voru [góðar](http://politik.is/?i=15&b=5,1334&offset=&offsetplace=&expand=4). Hvet alla til að lesa ályktanir beggja hópanna, þar sem þetta er guðdómlegur sannleikur.

* * *

Þetta REI mál er alveg stórkostlegt. Einsog einn félagi minn benti á þá er það alveg ótrúlega fáránlegt að ákvörðun um einkavæðingu á stóru fyrirtæki sé tekin til þess eins að friða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

* * *

Á DV.is rakst ég á [þessa frétt](http://dv.is/frettaauki/lesa/1217):

>Erlendi starfsmaðurinn starfar hjá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík, en talsverður fjöldi útlendinga starfar þar ár hvert yfir sláturtíðina. Nú í haust eru alls 55 erlendir starfsmenn hjá fyrirtækinu í tengslum við sláturtíðina, eða um tæplega 70% af því fólki sem ráðið er til starfa vegna hennar. Eru starfsmennirnir frá um fjórtán þjóðlöndum.

Þarna á svo að fara að byggja álver. Hvort ætli útlendingum fjölgi eða fækki við það?

* * *

Annars er ég bara hress.

Ég er að horfa á þennan þátt, sem ég actually keypti mér á iTunes. Um þennan þátt og Rock of Love ætla ég að skrifa lærðan pistil á þessa síðu enda orðið alltof langt síðan ég skrifaði um drasl sjónvarp á þessa síðu. Já, og hárið mitt. Ég fór í klippingu í dag og er bara nokkuð sáttur.

Fundur

Mæli með þessum fundi, sem ég hef verið að skipuleggja:

>Á miðvikudaginn kemur (19.september) verður opinn fundur á vegum Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík um umhverfismál. Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, mun mæta og ræða við gesti um umhverfismál. Sérstaklega verður tekið á umhverfismálum, sem hafa ekki verið mikið í umræðunni á Íslandi, einsog bílaeign Íslendinga, útþensla höfuðborgarsvæðisins, endurvinnsla og það hvernig ríkið getur hvatt fyrirtæki og einstaklinga til að sinna umhverfisvernd betur.

>Allt áhugafólk um umhverfisvernd er hvatt til að mæta.

>Fundurinn verður í húsnæði Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg og hefst stundvíslega kl. 18.00.

Semsagt, þetta verður fundur um umhverfismál, þar sem verður talað um önnur umhverfismál en stíflur.

VG og Sjálfstæðisflokkurinn

Samkvæmt yfirskúbbaranum og Liverpool aðdáandanum Steingrími Sævarri þá eru hafnar stjórnarmyndunarviðræður á milli VG og Íhaldsins. Þetta hljóta að verða magnaðar viðræður.

Ég ætla að gerast svo góður og flýta fyrir þessum viðræðum milli flokkanna með því að gera hér fyrsta uppkast að stjórnarsáttmála flokkanna.

Stjórnarsáttmáli VG og Sjálfstæðisflokksins

1. gr Við erum Á MÓTI ESB!
2. gr Íslenska landbúnaðarkerfið er fullkomið!
3. gr Stefna í öðrum málum er óljós / of flókin.
4. gr. Við viljum EKKI ESB aðild. Alls alls ekki!
5. gr. Kratar eru asnalegir!

Sko, þetta var nú ekki svo flókið. Þetta verður ábyggilega æðisleg ríkisstjórn.

Ríkisstjórn með minnihluta atkvæða

Einar Örn fyrir 5 dögum:

Ég segi það enn að ef þessi ríkisstjórn heldur velli þá mun hún sitja áfram, sama hversu meirihlutinn er naumur. Það er bara óskhyggja að halda það að framsókn hafni völdum.

Sjálfstæðis- og framsóknarmenn, plís sýnið fram á að ég hafi ekki alltaf rétt fyrir mér!

Gærdagurinn

Úff!

Ég trúi ekki að þessi blessaða ríkisstjórn hafi haldið velli. Þessi kosningavaka var eiginlega of mögnuð.

Gærdagurinn var annars frábærlega skemmtilegur. Ég byrjaði um morguninn á því að fara í líkamsrækt. Þegar ég var svo staddur í umferðarteppu í miðbænum útaf því að Risessan var í sturtu, þá fékk ég símtal og var beðinn um að koma í fótbolta líka. Sem ég gerði. Kom heim í 5 mínútur og dreif mig svo útí Hagaskóla þar sem ég kaus Samfylkinguna.

Kíkti svo við uppí kartöflugeymslur þar sem útskriftarsýning LHÍ var í gangi. Þórdís vinkona mín og snillingur var þar með verk á sýningunni. Ákvað síðan að fara uppá Serrano og hjálpaði þar til í nokkra tíma. Kom svo heim þar sem ég var með partí fyrir fólk í stjórn UJR þar sem við horfðum á Eurovision með öðru auganu og ræddum um kosningarnar. Síðan rétt fyrir 10 var farið á kosningavöku Samfylkingarinnar á Grand Hótel og þar var ég til klukkan 4.

Þessi kosningavaka var alveg mögnuð. Ég skemmti mér stórkostlega og spennan var á tímabili óbærileg. Gleðin í upphafi var gríðarleg, en þegar á leið kvöldið varð þetta verra, svo betra, svo verra, svo betra og svo verra aftur. Ég var orðinn hálf ruglaður á að líta reglulega á sjónvarpið og sjá að Gummi Steingríms var inni, svo út, svo inni. Ríkisstjórnin hélt, svo féll hún og svo hélt hún aftur. Um fjögur leytið var ég búinn að fá nóg og dró nokkra með mér niðrí bæ þar sem ég eyddi restinni af kvöldinu á Ölstofunni. Frábærlega skemmtilegt kvöld.

* * *

Hvað varðar árangur okkar jafnaðarmanna, þá er ég auðvitað ekkert sérstaklega sáttur við allt. Ég er stoltur við mín verk í kosningabaráttunni og við þá útgáfu sem ég kom nálægt. Við í UJ rákum málefnalega baráttu. Engar auglýsingar með áróðri gegn mótherjum okkar einsog hjá Framsókn og einnig ekki stanslaus hræðsluáróður, einsog Mogginn og Sjálfstæðismenn stóðu fyrir síðustu dagana. Og það má segja að kosningabaráttan hafi virkað. Í kringum landsfundinn vorum við minni en Vinstri Græn, en endum núna rúmum mánuði seinna sem nærri tvöfalt stærri flokkur. Allt tal um að Samfylkingin sé misheppnuð eða e-ð slíkt er auðvitað bara froða. Við erum næst stærsti flokkur landsins og eini flokkurinn, sem getur ógnað einokum Sjálfstæðismanna.

Þetta var að mörgu leyti erfið barátta og hart sótt að flokknum. Og ekki hjálpar það til þegar að guðfaðir flokksins og fyrrverandi pólitískt átrúnaðargoð mitt og ansi margs fólks í ungliðahreyfingunni var farinn að hvetja fólk til að kjósa Íslandshreyfinguna! Ég er á því að það fylgi þess flokks hafi aðallega komið frá Samfylkingunni, enda var stefnuskráin nánast ljósrit af stefnu Samfylkingarinnar. Munurinn á stefnunni var sá að í Samfylkingunni er líka fólk úti á landi, sem vill stóriðju, en Íslandshreyfingin komst hjá því vandamáli með því að hafa engan stuðning útá landi yfir höfuð.

Í gær leit á tímabili út fyrir að það yrði ekki mynduð ríkisstjórn án Samfylkingar, en þessi lokasprettur Sjálfstæðismanna opnaði á tvo nýja möguleika þar sem að ríkisstjórnin hélt og Sjálfstæðisflokkurinn varð nógu sterkur til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og VG yrði raunhæfur möguleiki.

Enn trúi ég samt ekki öðru en að Samfylkingin verði í ríkisstjórn. Ég neita að trúa því fyrr en ég sé það að ríkisstjórnin ætli að stjórna hérna áfram með minnihluta stuðning þjóðarinnar. Ef við notum svipaðar reiknikúnstir og Sjálfstæðismenn notuðu eftir síðustu forsetakosningar, þá má segja að aðeins 40% þjóðarinnar hafi stutt ríkisstjórnarflokkana. Og einnig trúi ég því varla að VG og xD myndi stjórn. Hver yrði stefna þeirrar stjórnar í einkavæðingarmálum, heilbrigðismálum, utanríkismálum og svo framvegis? Einu raunhæfu kostirnir eru Viðreisn eða R-lista stjórn. Ég vil auðvitað sjá Viðreisn, þar sem hún væri líklegri til að koma í gegn þeim málum sem eru mér hugfangin, en að mörgu leyti tel ég að R-lista stjórn væri betri kostur fyrir flokkinn.

En allavegana einsog ég sagði þá er ég stoltur af því í dag að vera jafnaðarmaður og af því að styðja Samfylkinguna. Það var frábært að standa með þessu fólki í gær og ég er staðráðinn í að gera mitt besta til þess að flokkurinn verði enn sterkari í framtíðinni. Sambland af andlegri og líkamlegri þynnku og spennufalli gærkvöldsins breytir engu þar um.

* * *

p.s. Getur einhver sagt mér af hverju Hannes Hólmsteinn er fenginn í sjónvarpsviðtöl? Í dag endurtók hann í sífellu þvælu um að Norræna velferðarmódelið stuðli að stöðnun í efnahagslífinu og blah blah blah. Þvílík ótrúlegt kjaftæði. Og máli sínu til stuðnings laug hann því að atvinnuleysi í Svíþjóð væri 15%. Það þarf einhver að benda prófessor Hannesi á að atvinnuleysi í Svíþjóð er ekki 15%, heldur 6,7%. Á því er talsverður munur. En Hannes er sennilega ekkert alltof hrifinn af staðreyndum og eina leiðin til að styðja undir auman málstað er að fara með ósatt mál.

Kjósum Samfylkinguna

Fyrir fjórum árum skrifaði ég hérna pistil [þar sem ég lýsti því yfir að ég ætlaði í fyrsta sinn að kjósa Samfylkinguna](https://www.eoe.is/gamalt/2003/05/01/18.36.10). Í gegnum ævina hef ég að vissu leyti fylgt merkum ráðleggingum Irwin Weil prófessors við háskólann minn, Northwestern, sem bað okkur í síðasta tímanum að hafa ávallt þroska til þess að geta skipt um skoðun.

Sem krakki var ég mikill hægri maður og lýsti ítrekað yfir aðdáun á þeirri frjálshyggju, sem að Hannes Hólmsteinn boðaði. Eftir að hafa búið í nær tvö ár í Suður-Ameríku breyttist eitthvað innra með mér. Ég sá hvað frjálshyggjan hafði gert þeirri álfu og réttlætiskenndin varð sterkari þegar ég sá eymdina rétt fyrir utan stofugluggann.

Fjögurra ára hagfræðinám í Bandaríkjunum breytti mér svo enn frekar. Ég sannfærðist um að hægri stefna einsog er iðkuð þar í landi í dag leiðir ekki til þjófélags, sem ég vil búa í. Þegar ég kom aftur heim eftir nám var ég ekki alveg viss hvar ég stæði í pólitíkinni. En smám saman varð ég sannfærðari um að velferðarþjóðfélög Norðurlandanna kæmust næst mínum óska þjóðfélögum. Ég kaus Samfylkinguna fyrir fjórum árum kannski fyrst og fremst af því að hún var skásti kosturinn. Ekki fullkomin, en sá flokkur sem komst næst mínum skoðunum.

* * *

Ég er jafnaðarmaður.Ég trúi því að allir eigi að fá jöfn tækifæri til að mennta sig, óháð efnahag. Ég trúi því að konur og karlar eigi að sömu laun fyrir sömu vinnu. Ég tel það ekki vera hlutverk ríkissins að selja orku á gjafverði til stórfyrirtækja. Ég trúi því heldur ekki að okkar kynslóð hafi einhvern rétt til þess að nýta alla orku landsins í sína þágu. Það er stórkostleg frekja.

Ég trúi því að ríkið eigi ekki að skapa störfin, né að þingmenn eigi að koma með tillögur að nýsköpun, því ég er sannfærður um að í réttum skilyrðum muni almenningur sjá um nýsköpunina. Ríkið á einungis að skapa hér tækifæri til þess að atvinnulífið og þá sérstaklega minni fyrirtæki geti blómstrað. Það er erfitt í efnahagskerfi þar sem ríkja miklar gengissveiflur og okurvextir einsog á Íslandi í dag.

[Ég vil að Íslendingar sækji um aðild að ESB](http://eoe.is/gamalt/2007/04/10/21.34.38) og taki upp evru sem gjaldmiðil. Krónan er ónýtur gjaldmiðill, sem er haldið uppi aðallega útaf tilfinningarökum. Gengissveiflur og vaxtaokur er fyrirtækjum og einstaklingum mikill baggi. Ég vil að Íslendingar skilgreini sín samningsmarkmið við ESB, sæki um aðild og leggi svo aðildarumsóknina í dóm kjósenda. Allar aðrar Norðurlandaþjóðir hafa fengið slíkt tækifæri nema við. Það er ósanngjarnt.

Ég trúi því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé líklegust til að setja þau mál í forgang, sem ég tel mikilvægust. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er ófær um að viðhalda stöðugleika í íslensku þjóðfélagi. Flokkurinn sem auglýsti sig eitt sinn undir orðinu “stöðugleiki” er nú sami flokkur og stjórnar í landi þar sem vaxtaokrið er með eindæmum, verðbólgan yfir takmörkum og viðskiptahallinn gríðarlegur.

* * *

Á þessu kjörtímabili hef ég verið svo heppinn að starfa örlítið innan Samfylkingarinnar. Jensi byrjaði að draga mig á fundi í flokknum stuttu eftir að ég kom heim úr námi og fyrir fyrir tæpum þrem árum gekk ég í flokkinn. Ári seinna var ég svo heppinn að starfa í hinum frábæra framtíðarhópi Samfylkingarinnar. Þar sat ég sem fulltrúi UJ í atvinnulífshópnum með góðu fólki og vann það sem ég taldi vera gott starf í þágu stefnumótunnar flokksins. Ég heillaðist strax af þeim vinnubrögðum, sem voru viðhöfð innan flokksins.

Og smám saman hef ég heillast meira af Samfylkingunni. Ég hef kynnst þarna afskaplega góðu fólki, sem hugsar svipað og ég. Ég hef á þessum árum innan flokksins sannfærst um að þetta er flokkur fyrir mig. Ég er sannfærður um að innan þessa flokks starfar gott fólk með sterka réttlætiskennd, sem vill að landinu sé stjórnað undir formerkjum jafnaðarstefnunnar. Og smám saman hef ég orðið stoltur af því að vera Samfylkingarmaður.

Ég er jafnaðarmaður og því mun ég kjósa Samfylkinguna á morgun. Ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.

xD á eBay

Þetta er athyglisvert E-Bay uppboð. Uppboðslýsingin hljómar svo:

Spilltur og þreyttur valdaflokkur, sem verið hefur í ríkisstjórn alltof lengi, fæst fyrir lítið fé – óskast sóttur. Varúð: getur reynst hættulegur öldruðum, öryrkjum, barnafólki og fátækum. Myndi sóma sér vel í flestum bananalýðveldum, enda þaulvanur í þjónkun við bandarísk stjórnvöld og aðra valdahópa.

Forystumenn geðþekkir, en tala slæma ensku. Öflugt tengslanet fylgir með, inniheldur helstu stjórnendur í íslensku viðskiptalífi og a.m.k. einn kvikmyndaleikstjóra og háskólaprófessor.

Höfundur er VG-kona

Annars virðast VG fólk vera orðið eitthvað hrætt við stjórnarsamstarf Samfylkingar og Íhaldsins. Ármann Jakobss skrifar grein á Múrinn þar sem hann rekur það hversu afleit sú stjórn yrði. Hann taldi hins vegar fyrir nokkrum mánuðum það vera fína hugmynd að mynda stjórn með VG og Sjálfstæðisflokknum.

Ég segi það enn að ef þessi ríkisstjórn heldur velli þá mun hún sitja áfram, sama hversu meirihlutinn er naumur. Það er bara óskhyggja að halda það að framsókn hafni völdum. Og ef ríkisstjórni fellur, þá verður mynduð vinstri stjórn. Þó er ég reyndar á því að sú ríkisstjórn sem væri langlíklegust til að standa fyrir framförum á Íslandi væri ný Viðreisn. En ég veit líka að ég er ansi langt til hægri í mínum flokki og ekki endilega margir sammála mér.

Ég er allavegana sammála Ármanni um að það yrði afleit staða ef að Sjálfstæðisflokkur hefði 40% fylgi og gæti ráðið nánast öllu eftir kosningar. Til þess að ný Viðreisnarstjórn yrði góð, þá má fylgisskipting milli flokkanna ekki vera of ójöfn.

3 dagar eftir

Stjórnmála-aðdáandinn ég er í góðu skapi í dag. Stóra málið í dag var auðvitað kappræðurnar á Stöð 2. Ég veit að allir segja að þeirra formenn hafi staðið sig best og því mun ég sennilega ekki sannfæra neinn um að ég sé hlutlaus dómari. Eeeeen, ég var allavegana stoltur af því að vera í Samfylkingunni eftir þennan þátt í kvöld. Ef ég hefði verið óákveðinn fyrir þennan þátt, þá hefði ég sannfærst um að Samfylkingin væri rétti kosturinn. Ég veit að ég mun seint sannfæra þá, sem hata Ingibjörgu Sólrúnu, um hennar ágæti, en það er akkúrat í svona umræðum þar sem hún er í essinu sínu. Ég vona innilega að hún verði næsti forstætisráðherra þessa lands.

Plús það að Samfylkingin fékk 30% í könnuninni fyrir þáttinn. Það er æði. Þetta er að koma og allt dómsdagstal í Sjálfstæðismönnum mun ekki breyta því. Annars var leiðari Moggans í morgun toppurinn á vitleysunni. Megininntak þess leiðara virtist vera viðvörun til fólks um að ef það kjósi vinstri flokkana, þá muni þeir actually reyna að mynda saman vinstri-stjórn, þar sem flokkarnir vilja actually reyna að ná fram sínum stefnumálum! No SHIT!

Í alvöru talað, eru engin takmörk fyrir vitleysunni? Ritstjórinn heldur áfram:

Efnahagsstefnan, sem Samfylkingin kynnti á fundi fyrir nokkrum vikum og var vel unnin og undirbúin er augljóslega samdráttarstefna og á að þjóna þeim tilgangi að bremsa af þann mikla hagvöxt, sem verið hefur í landinu og Samfylkingin telur að sé varasamur.

Á hvaða lyfjum eru menn? Samfylkingin hefur aldrei talað um að hagvöxtur per se sé varasamur. Það er fráleitt. Hins vegar eru fylgifiskar þessarar ofþenslu ansi varasamir, svo sem gríðarlega hátt vaxtastig og vöruskiptahalli. Samfylkingin telur að hátt hagvaxtarstig réttlæti ekki allt hitt sem miður hefur farið í efnahagskerfinu.

Staðreyndin er sú að það mun ekki allt fara á hliðina á Íslandi ef að vinstri stjórn tekur við völdunum eftir kosningar. Þessir flokkar eru ekki að boða byltingu, heldur boða þeir að áherslum verði breytt. Lagðar verða auknar áherslur á jöfnuð og velferðarmál, en minni áhersla á að keyra áfram hagvöxt með risaverksmiðjum.

Ég held nefnilega að kjósendur séu nógu skynsamir til að trúa ekki dómsdagsspám stjórnarflokkanna, sem eru hræddir um að missa loks tangarhald sitt á Íslandi.