Steve Jobs dáinn

Það er skrýtið að hugsa til þess að það hafi áhrif á mann þegar að framkvæmdastjóri fyrirtækis í Kaliforníu deyr, en Steve Jobs var jú enginn venjulegur framvkæmdastjóri.

Ég hef notað Apple vörur í nærri því 20 ár. Allt frá því að ég eignaðist Macintosh Classic tölvu þegar ég var 13 eða 14 ára. Síðan þá (með smá hléi í framhaldsskóla) þá hef ég notað Apple tölvur á hverjum degi. Frá því að fyrsti iPod-inn kom út hef ég ekki notað annað tæki til að hlusta á tónlist á ferðinni. Frá því að fyrsti iPhone-inn kom á markað hef ég ekki geta notað aðra síma og frá því að iPad kom út hefur mér ekki dottið í hug að kaupa spjald-tölvu frá öðru fyrirtæki. Ég var Apple nörd þegar það var ekki tísku að vera Apple nörd og ég þurfti að berjast við skóla og vinnustaði um að fá að nota Apple vörurnar mínar í stað PC tölva.

Það gera margir grín af okkur Apple nördum fyrir aðdáun okkar á Steve Jobs. Hann birtist okkur einu sinni eða tvisvar á ári, sýnir okkur á ótrúlega áhrifaríkan hátt nýjustu vöruna sína og við getum svo ekki beðið eftir því að fá að afhenda Apple peningana okkar til að kaupa nýjasta dótið.

En Steve Jobs var einfaldlega einstakur. Hann var ótrúlega góður sölumaður og hann hafði einstaka sýn á það hvernig tölvur og önnur tæki ættu að virka og líta út. Hann vildi að tölvurnar væru einfaldar og fallegar. Áður en iMac kom út voru allar tölvur beislitaðar og ljótir kassar. Áður en iPhone kom þá hataði ég alla síma sem ég hafði átt. Steve Jobs var ekki eini starfsmaður Apple, en það var augljóst að allt fyrirtækið vann eftir hans höfði. Það er alveg klárt mál að tölvur og símar væru umtalsvert ljótari og flóknari tæki í dag ef Steve Jobs hefði ekki stofnað Apple.

Hans verður saknað.

WWDC eftir hálftíma

Keynote hjá Steve Jobs byrjar eftir hálftíma.  Raunhæfi óskalistinn minn lítur svona út:

  • Númer 1,2,3,4,5:  Flögg / Stjörnur í tölvupóstinum: Ég er að flippa yfir því að geta ekki flaggað skilaboð í póstinum á símanum mínum.  Ekkert fer meira í taugarnar á mér við símann minn.
  • Númer 6 Sameiginlegt svæði fyrir skjöl á milli iPhone iPad og Makka.  Ég vinn á tveimur Apple tölvum, iPhone og iPad.  Ég vildi að ég þyrfti ekki að hugsa hvar skrárnar mínur eru.
  • Númer 7: Að tilkynningar séu ekki svona viðbjóðslega pirrandi – hvort sem um er að ræða nýtt sms, nýja wi-fi stöð og svo framvegis.

Ég er vongóður um að allt þetta verði í iOS 5.

 

iPhone forrit, sem ég nota

Ég hef lengi ætlað að skrifa smá um þau forrit, sem ég nota á iPhone símanum mínum.

iPhone er auðvitað stórkostlegasta tæki veraldarsögunnar. Ég gæti ekki lifað án þessa síma. Allavegana, ég ætlaði að taka saman þau forrit, sem ég er með á tveimur fremstu skjáunum mínum (eiginlega allt sem ég nota). Ég nenni ekki að finna til linka, en það ætti að vera auðvelt að google-a öll þessi forrit, eða að finna þau með leit í App Store.

Á fyrstu síðunni er slatti af Apple forritum sem allir, sem eiga iPhone, eiga. Þarna er auvitað sms forritið, klukka, myndavél, Google maps, reiknivél, dagatal og Apple remote, sem ég nota til að stjórna Apple TV og tölvunni minni heima.

(smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu).

Einnig eru þarna **Skype**, **Facebook** og **Twitter**, sem að allir ættu að þekkja. Skype forritið er snilld og ég nota það mikið. Facebook forritið er í lagi og Twitter forritið er mjög gott og ég nota það mikið. Ég hef prófað að nota önnur Twitter forrit, en enda alltaf í þessu.

**OmniFocus** er mikilvægasta forritið í mínu lífi. Allt, sem ég geri í vinnunni, byrjar sem færsla í OmniFocus. Forritið á iPhone er verulega gott. Það syncar við Mac forritið mitt og í þessu forriti skrifa ég (eða tala inn) allar hugmyndir, sem ég fæ.

**Evernote** nota ég til að halda utanum öll skjölin mín. Þar safna ég saman úrklippum, skönnuðum skjölum og minnispunktum. Syncar líka við Evernote á tölvunni minni.

**Translator** forritið tengist Google Translate og ég nota það til að þýða sænsk orð.

**Podcaster** er nokkuð nýtt þarna. Ég hlusta mikið á podcast þætti. Allt frá kvöldfréttum á RÚV til morgunfrétta hjá Svenska Radio og bandarískra þátta. Ég notaði áður Podcast fídusinn í iTunes, en var orðinn þreyttur á að þurfa alltaf að tengja símann við tölvuna til að fá nýja þætti. Podcaster tékkar á nýjum þáttum á ákveðnum tímum og hleður þeim niður á símann. Forritið er ekki fullkomið, en það er margfalt þægilegra en iTunes lausnin.

**Reeder** er svo langsamlega besta RSS forritið á iPhone. Ég hef prófað þau mörg, en Reeder ber af. Ég nota það til að fylgjast með öllum bloggum, sem ég les.

Á næstu síðu eru forrit, sem ég nota aðeins minna.

**Instapaper** er snilld – bæði á iPhone og iPad. Með því forriti getur maður vistað texta á vefsíðum og lesið þær eftir hentugleika á símanum eða iPad. Ég les nánast allar lengri greinar á netinu í Instapaper.

**Tada** notum við Margrét til að halda utanum innkaupalista fyrir matarinnkaup.

Svo eru þarna möppur með Serrano tenglum og tölvuleikjum. Af leikjunum get ég mælt með Astronut *(sic)*, The Incident, Doodle Jump, Plants vs Zombies og Angry Birds. Það eru allt leikir, sem ég hef elskað.

**1Password** nota ég til að halda utanum öll mín lykilorð og viðkvæmar upplýsingar bæði á tölvunni minni og símanum.

**ScoreCenter** frá ESPN nota ég til að fylgjast með stöðunni í fótbolta og NBA.

**Convert** nota ég til að reikna út gengi, þyngdir og slíkt. **Dropbox** og Notes þarf svo sem ekki að kynna.

**Gowalla** nota ég af einhverjum furðulegum ástæðum. Ekki spyrja mig af hverju.

**Yr.no** er betra veðurforrit en Apple veður forritið. **WOD** nota ég til að skrá CrossFit árangurinn minn.

**Screens** er frábært VNC forrit, sem ég get notað til að stýra tölvunni minni úr símanum. Og að síðustu er það **Momento**, sem tekur twitter statusana mína, Facebook statusana mína, Gowalla tékk-inn og aðra punkta, sem ég set inn og býr til nokkurs konar dagbók. Mjög sniðugt.

Þetta er það sem ég nota langmest á símanum. Af forritum, sem ég nota minna þá get ég mælt með **Runkeeper** (ég er ekki að hlaupa úti núna, þannig að það er ekki á fremstu síðunum) sem er algjörlega frábært forrit til að halda utanum hlaup eða hjólaferðir).

Ef þið eruð með einhverjar sniðugar tillögur að öðrum forritum, sem ég á að kíkja á, þá endilega setjið inn komment

Fyrstu dagarnir með iPad

iPad-inn minn
Ég er búinn að eiga iPad í um þrjár vikur.  Vinkona mín keypti einn slíkan fyrir mig í Bandaríkjunum og kom með hann hingað til Stokkhólms.  Það er eflaust hægt að finna milljón greinar um iPad, en ég ætla samt að bæta aðeins við þá flóru og taka saman nokkra punkta um mínar tilfinningar gagnvart þessu tæki.

Einsog öllum, sem lesa þessa síðu reglulega, ætti að vera ljóst er ég forfallinn tækjasjúklingur og hef notað Apple vörur í áratugi (úff, ég fékk mína fyrstu Macintosh Plus tölvu þegar ég var 10-11 ára).  Ég er Apple-nörd og ég geri mér alveg grein fyrir því hversu fáránlegt það er að kaupa iPad þegar að maður á nú þegar iPhone og Apple fartölvu.

  • Ég borgaði um 550 dollara fyrir iPadinn (500 + skattur), sem eru um 4.300 sænskar.  Það er minna en flestar Netbook fartölvur kosta hérna í Svíþjóð.  Ég hef einmitt keypt tvær Windows netbook fartölvur fyrir Serrano og þær eru báðar fokking drasl.
  • iPad hefur ekki breytt lífi mínu og ég gæti vel lifað án iPad.   Þetta er kannski ekki merkar yfirlýsingar, en ég gæti hins vegar sagt að iPhone-inn minn hafi algjörlega breytt því hvernig ég virka dags daglega og þegar ég hef reynt að lifa án hans í nokkra daga þá finnst mér allir símar og öll tæki vera ómöguleg.  iPad er ágæt viðbót, en alls engin bylting einsog iPhone hefur verið í mínu lífi.
  • Ég nota iPad nánast eingöngu þegar að ég sit í sófanum og er að lesa blogg, lengri greinar eða tölvupóst.  Ég held að án efa sé þetta besta tækið, sem ég hef fundið fyrir slíkt.  Að nota forrit einsog NetNewsWire (RSS lesari) og Instapaper (sem vistar lengri greinar og gerir þær auðlæsilegri) er algjörlega frábært.  Það að halda á skjánum og hafa hann fyrir framan sig er einfaldlega miklu þægilegra en að lesa á fartölvu.  Plús það að iPad hitnar nánast ekki neitt, öfugt við til dæmis fartölvuna mína.
  • iPad held ég að myndi aldrei nokkurn tímann koma í staðinn fyrir tölvu á heimilið.  Hann er ágætis viðbót, en ég gæti varla mælt með kaupum á iPad nema ef að fólk hugsar sér hann sem viðbót við núverandi tölvu.
  • Það er ferlega tímafrekt og leiðinlegt að skrifa á iPad skjá lyklaborðið.  Ég er í raun mun fljótari að skrifa á iPhone-inn minn með þumlunum.  Að vissu leyti er það 3- ára reynsla af iPhone, en svo er bara eitthvað óþægilegt við iPad lyklaborðið og stærðina á því.  Auk þess eru íslenskir stafir óþægilegir (það þarf að halda niðri D til að fá Ð og svo framvegis) sem hægir enn frekar á skrifunum.  Ég nenni varla að skrifa meira en 1 línu email á iPad.
  • Það er ótrúlega þægilegt að horfa á vídeó á iPad – stundum finnst mér þægilegra að gera það en á sjónvarpi.  Youtube forritið er algjör snilld, en það er frekar pirrandi að maður þurfi að synca sjónvarpsþætti úr iTunes til að horfa á þá.  Ég er bara með 16 gb minni á mínum iPad og það dugar skammt.  Betra væri ef hægt væri að stream-a efni úr iTunes safninu mínu, svo að ég þyrfti ekki alltaf að tengja iPadinn við tölvuna mína til þess að fá nýja þætti.  Ég trúi ekki öðru en að einhver hjá Apple sé sammála mér.
  • Helsti gallinn við iPad enn sem komið er er aðallega að það eru ekki nógu mörg spennandi forrit til.  Ég fór í gegnum þetta og það eru ekki nema 5 forrit, sem ég hef keypt mér og nota reglulega: NetNewsWire til að lesa blogg, Instapaper fyrir lengri greinar, Dropbox til að færa skrár inná iPadinn, Twitteriffic til að lesa Twitter og ESPN Score center til að skoða ESPN.  Fleira er það varla.  Ég er jú með Evernote, Gowalla og eitthvað fleira þarna inná, en ég nota þau forrit mun meira á iPhone en iPad.

    Þetta mun þó væntanlega breytast.  Ég get til að mynda ekki beðið eftir því að fá SVT (sænska ríkissjónvarpið) forrit á iPadinn.  Þeir eru með algjörlega frábært forrit fyrir iPhone (sem virkar því á iPad), en myndgæðin eru of léleg til að njóta á iPad.

  • Ég hef ekki enn prófað skemmtilega eða spennandi leiki á iPadinum, en ég er viss um að þeir muni koma. Flestir sem ég var spenntur fyrir (Plants vs Zombies t.d.) eru leikir, sem passa einhvern veginn alveg jafn vel á iPhone.

Semsagt, iPad er frábært tæki í vissum tilfellum.  Ég tek ekki lengur fartölvuna heim með mér úr vinnunni, heldur skoða ég frekar póst og RSS á iPad-inum einfaldlega vegna þess að það er skemmtilegra og þægilegra.

Og þetta tæki hefur öll tækifæri til að verða enn frábærara þegar að forritin verða betri.  Þetta kemur ekki í stað fyrir heimilistölvuna, en er frábær viðbót fyrir þá sem eru jafn tækjasjúkir og ég.

Græjur og hátalarar til sölu

Ég er að selja gömlu græjurnar mínar heima á Íslandi.

Þetta er eftirfarandi: Pioneer VSX-LX50 magnari – og Jamo A 402 HCS 12 hátalarakerfið með bassaboxi. Ætli það sé ekki bara best að fólk bjóði í þetta hérna í kommentakerfinu, ég leyfi þessu að vera til kl 10 á mánudagskvöld (íslenskum tíma) og sá sem hefur boðið hæst þá fær græjurnar (þær eru staðsettar í túnunum í Reykjavík). Ég hef ekkert lágmarksboð.

Þetta eru frábærar græjur, en þær hafa þó verið í geymslu síðustu árið – en ég veit ekki til annars en að þær virki alveg einsog þær eiga að gera.

Apple tablet pælingar

Apple mun á miðvikudaginn sennilega kynna “tablet” tölvu. Tölvu, sem verður væntanlega í laginu einsog stór iPhone með um 10 tommu skjá. Í að minnsta kosti 2-3 ár hafa verið í gangi miklar sögusagnir um að Apple muni kynna “tablet” tölvu og nú eru menn fullvissir um að á miðvikudaginn sé komið að því að sýna þessa nýju græju. Þar sem ég er forfallinn Apple nörd og les daglega slatta af síðum á netinu um Apple, þá hef ég auðvitað fylgst vel með slúðrinu í kringum þessa kynningu.

Það hafa verið í gangi miklar pælingar varðandi þessa tölvu (sjá hérna fínar pælingar hjá John Gruber, sem skrifar besta Apple bloggið). Það sem menn eru nokkuð sammála um er að þetta verður snertiskjátölva með um 10 tommu skjá. Á henni verði hægt að horfa á vídeó, lesa bækur, tímarit og dagblöð, sörfa á netinu og keyra forrit svipuð og eru á iPhone. Flestir halda að tölvan muni keyra einhvers konar útgáfu af því stýrikerfi sem að iPhone og iPod Touch nota, því það sé mun hentugra fyrir snertiskjái heldur en hefðbundin stýrikerfi.

Einsog sönnum Apple nörd þá er ég orðinn gríðarlega spenntur fyrir þessari vöru sem að enginn, nema starfsmenn Apple, veit einu sinni hvernig lítur út. Það hafa mörg fyrirtæki reynt að hanna tablet tölvur en þær hafa flestar klikkað þar sem að stýrikerfið (oftast Windows) hefur ekki hentað fyrir snertiskjái. Menn sjá nokkra hluti sem að munu hugsanlega gera Apple kleift að gera vænlega söluvöru úr tablet tölvu, sem að engum hefur tekist áður.

– Þeir gera samninga við dagblöð og tímarit, þannig að þú getir keypt áskriftir í tablet tölvuna þína af þínum uppáhalds dagblöðum eða tímaritum (sjá hérna skemmtilegar pælingar á því hvernig að íþróttablað gæti litið út).
– Tölvan mun vinna vel saman við iTunes. Þannig að þú getir í henni þráðlaust horft á myndir, sem þú átt í iTunes eða hlustað á tónlistina þína.

Ég held að þetta gæti orðið frábær græja ef hún er rétt gerð. Ég sé sjálfur fjölmarga möguleika á því hvernig maður myndi nota svona tablet tölvu í staðinn fyrir hefðbundna fartölvu.

– Það er þægilegra að lesa lengri texta með skjáin lóðréttan í stað þess að hann sé láréttur einsog á fartölvum. Maður les alltaf bækur, dagblöð og tímarit þannig. Ég held að það væri gríðarlega þægilegt að lesa flestallar heimasíður með slíkum skjá.
– Ef að Apple menn væru sniðugir (sem þeir eru) þá væri hægt að sjá fyrir sér að hægt væri til dæmis að vinna ljósmyndir úr iPhoto á tablet tölvunni. Það held ég að gæti verið gríðarlega skemmtilegt og þægilegt að geta notað snertiskjá til að laga til og skoða ljósmyndir.
– Ef að á henni væri myndavél framaná, þá væri þetta snilldar tölva til þess að tala við fólk í gegnum Skype eða iChat með vídeói.
– Og það að þetta sé bara eitt stykki skjár myndi gera fólki auðveldara að lesa tölvupósta og blogg og annað uppí sófa. Mér finnst til dæmis oft þægilegra að lesa blogg á pínkulitla iPhone skjánum mínum heldur en að burðast með fartölvu. Ef að skjárinn væri aðeins stærri en jafn meðfærilegur og á iPhone þá held ég að þetta væri orðin gríðarlega sniðug græja.

En allavegana, þetta kemur í ljós á miðvikudaginn. Hluti af því af hverju okkur Apple nördum finnst svona gaman að pæla í fyrirtækinu er einmitt það að oftast höfum við litla hugmynd um það hvað þeir kynna næst. Þeir komu öllum gríðarlega á óvart með því hversu iPhone síminn var frábær (og nú 3 árum seinna er hann enn klárlega besti síminn á markaðinum) og ég held að kynningin á miðvikudaginn eigi líka eftir að verða spennandi.

Já, og svo eru einnig pælingar um að þeir muni kynna iPhone stýrikerfi 4. Ég hef ekki yfir mörgu að klaga í iPhone-inum. Það eina sem ég vil í raun sjá er þráðlaus uppfærsla á podcast þáttum. Það er verulega pirrandi fyrir mig að þurfa að tengja iPhone-inn við tölvu í hvert skipti sem að ég vil hlusta á nýjan fréttaþátt, sérstaklega þar sem að sync á iPhone tekur lygilega langan tíma. Já, og svo verða þeir að bæta póstforritið og leyfa manni að flagga tölvupósta. Það er lygilega pirrandi að geta ekki gert það. Það er nokkuð magnað að það sé ekki fleira sem ég hafi yfir að klaga varðandi þennan síma.

Tölvan mín deyr

Síðustu 3 ár hef ég notað sömu fartölvuna, 15 tommu Macbook Pro (sjá mynd). Ég hef notað hana í vinnunni á hverjum einasta degi í marga klukkutíma og hún hefur reynst mér alveg fáránlega vel – hún hefur aldrei bilað (ég hef skipt um batterí í henni einu sinni) og eftir að ég setti upp Snow Leopard á henni og hreinsaði hana algjörlega í september þá hefur hún verið alveg fáránlega spræk. Helsti galli hennar var að rafhlaðan entist bara í um klukkutíma, sem er auðvitað fáránlega stutt.

Fyrir akkúrat viku var ég á leið heim úr vinnunni og hafði eftir smá áfengissmökkun þar tekið með mér flösku af margaríta mixi til að prófa betur heima (þetta var í alvöru vinnutengt). Það fór ekki betur en svo að mixflaskan opnaðist í töskunni og yfir tölvuna mína flæddi um líter af margarítu mixi. Ég hljóp heim og reyndi að þrífa hana, en það fór svo að ég gat ekki kveikt á henni aftur. Ég fór því með hana í viðgerð á mánudaginn í Apple búð nálægt skrifstofunni minni, en í dag fékk ég svo símtal um að tölvan væri beisiklí ónýt. Skjárinn er ónýtur, lyklaborðið, minnið og eitthvað fleira (einhver sænsk tækniorð sem ég skildi ekki alveg). Viðgerðin átti að kosta umtalsvert meira en ódýrasta fartölvan frá Apple kostar ný útúr búð. Gögnunum tókst þó að bjarga, enda var harði diskurinn í lagi.

Því er nú komið að því að kaupa nýja fartölvu í fyrsta sinn í þrjú ár. Ég er auðvitað búinn að vera forfallinn Apple nörd megnið af mínu lífi þannig að annað kemur ekki til greina. Ég þekki auðvitað allar tölvurnar frá þeim og hef verið að hugsa síðustu mánuði um að kannski væri kominn tími til að uppfæra tölvuna, aðallega vegna þess hve batteríin í nýju vélunum eru orðin góð.

Ég er nokkuð ákveðinn í að kaupa mér Macbook Pro – ekki Air. Ég nota tölvuna 99% bara í vinnunni og myndir og slíkt er á heimilistölvunni, þannig að ég hef svo sem ekki mikla þörf fyrir mikinn kraft – en ég bara er ekki að fíla að Macbook Air sé bara með 2gb af minni. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér þeim möguleika að setja Flash drif í staðinn fyrir venjulegan harðan disk. Ég hef lesið nokkuð mikið um það og þeir sem hafa gert slíkt segja að það sé algjör bylting því að forrit hlaðist upp á sekúndubrotum. Þar sem þetta er bara vinnutölva og engar myndir eða tónlist á henni þá ætti mér að nægja 128gb (það er líka stærðin á disknum á ónýtu tölvunni og það var í fínu lagi – held að aðeins 50gb hafi verið full). Mér sýnist þó Apple selja sín SSD drif ansi dýrt. Ég sá strax Intel X25-M 160gb drif á um helmingi lægri upphæð en Apple selur sitt SSD drif. (ég mislas verðin hjá Apple – þau voru ekki svo slæm).

Núna er ég aðallega að velta því fyrir mér hvort ég eigi að kaupa tölvu 13″ eða 15″ skjá. Ég hef vanist að nota 15″, en sú tölva er stærri og þyngri (2,5kg vs 2) en 13″ vélin og þar sem ég er með tölvuna á mér mestallan daginn (og tek hana heim með mér) þá skiptir þyngdin máli. Kostur við stærri tölvuna er líka að hana er hægt að fá með möttum skjá, sem ég held að ég muni fíla betur (gamla tölvan var með möttum skjá).

Aperture vs Light Room – á ég að skipta?

Ég er að rembast við að klára að merkja og laga myndirnar mínar úr Indónesíuferðinni og uppúr því fór ég að spá í hvaða forrit ég ætti að nota við þetta verk. Ég nota Aperture og hef gert síðasta árið, en það forrit er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Sérstaklega finnst mér leiðinlegt viðmótið þegar að ég er að skýra og tag-a mikið af myndum. Þegar ég skýri myndirnar þá reynir Aperture alltaf að giska á hvað ég ætla að skýra hana, sem er ÓÞOLANDI og svo eru aðrir litlir böggar farnir að fara í taugarnar á mér.

Nú spyr ég – er einhver þarna úti sem hefur prófað bæði forrit og getur gert upp á milli þeirra? Nú er slatti af Makka-Nördum sem að notar Light Room (Gruber hjá Daring Fireball t.d.), sem hlýtur að vera hrós þar sem Apple framleiðir Aperture. Ég er að spá í að skipta, en það er eflaust slatta mál og ekki er forritið ókeypis, þannig að ég vil ekki skipta nema að ég sjái kostina. Þegar ég reyni að google-a eitthvað um samanburð á forritunum, þá finn ég fátt nema einhvern eldgamlan samanburð.

Síminn minn

iPhone símanum mínum var stolið í Indónesíu fyrir næstum því tveimur mánuðum. Síðan þá hef ég verið að nota Nokia 2760, sem er lélegur sími.

Lélegur er eiginlega ekki rétta orðið. Hryllilegur væri betra orð. Svo hryllilegur að ef ég fengi svona síma gefins með Stjörnumáltíð á McDonald’s, þá er ég ekki viss um hvort ég myndi halda honum. Það ískrar í sjálfum símanum þegar ég opna hann, ég annaðhvort heyri ekki í fólki eða þá að það er einsog það sé að tala í gjallarhorn 3cm frá eyranu mínu og svo framvegis. Á hverjum degi langar mig til þess að dúndra honum í næsta vegg. Ég meira að segja passa mig á að hafa hann ekki nærri mér þegar ég er að horfa á Liverpool af ótta við að hann myndi fjúka útum gluggann ef að mínir menn myndu klúðra góðu færi.

Síðan að ég kom heim hef ég verið með mál í gangi hjá sænska tryggingafélaginu mínu til að fá iPhone símann bættann. Þeir báðu um lögregluskýrslur og slíkt, sem ég hafði vissulega frá Indónesíu. Í dag fékk ég loksins í póstinum bréf frá tryggingafélagina þar sem mér var tjáð að þeir myndu bæta mér símann upp að fullu og ég gæti því farið útí Telia og keypt mér nýjan iPhone. Ég nánast trylltist af gleði, faðmaði Margréti og labbaði útí Telia búð áðan.

…þar sem mér var tjáð að iPhone væri uppseldur og að þeir vissu ekki hvenær hann kæmi aftur.

Ég hef komist að því á þessum vikum að ég var orðinn algjörlega háður iPhone símanum mínum. Hann er svo langsamlega besti síminn sem ég hef átt að það er nánast ekki fyndið. Ég nenni varla að fara útað hlaupa þar sem að ég get ekki notað GPS tækið í símanum mínum til að mæla hlaupið, ég meika varla langar lestarferðir lengur þar sem ég get ekki kíkt á póstinn minn – og ég enda alltaf á að bíða lengur útá lestarstöð þar sem ég get ekki notað símann til að sjá nákvæmlega hvenær næsta lest kemur. Ég hef misst af fundum þar sem ég hafði ekki dagatalið í símanum. Núna þarf ég að vera með iPod, síma og minnisbók í staðinn fyrir bara iPhone. Og svo framvegis…

Já, ég veit að þetta er væl, en ég sakna gamla símans míns.

Snow Leopard komið í hús

Ég er búinn að baksa við það þessa helgi að setja Snow Leopard inná tölvurnar hérna á heimilinu. Ég keypti stýrikerfið í Apple búð hérna í Stokkhólmi á föstudag.

Á fyrstu tölvunni, fartölvunni hennar Margrétar, var þetta ekkert mál. Sú tölva er ný og ekkert vesen á henni. Hins vegar lenti ég í talsverðum vandræðum með mína fartölvu. Hún er þriggja ára gömul og er farin að verða til vandræða á sumum sviðum, þó það sé í raun með ólíkindum hversu vel hún hefur reynst mér. Ég held að mér sé óhætt að segja að ég hafi notað hana í marga klukkutíma á nánast hverjum einasta degi síðustu 3 ár. Hún hefur ekki enn bilað (fyrir utan að ég skipti um rafhlöðu einu sinni). Þegar ég ætlaði að setja inn Snow Leopard lenti ég hins vegar í vandræðum þar sem að DVD drifið í vélinni er í einhverju rugli.

Ég nota DVD drifið nánast aldrei – held að ég hafi ekki notað það síðan að ég setti síðast inn einhver Apple forrit (sennilega iLife09). Drifið gat ekki almennilega lesið diskinn og hann festist í tölvunni í smá tíma. Eftir að hafa potað einhverjum vír inní drifið tókst mér þó að ná honum út og með smá basli (og aðstoð tölvunnar hennar Margrétar) þá tókst mér samkvæmt þessum leiðbeiningum(og Maclantic spjallborðinu, sem klikkar aldrei þegar maður er í vandræðum) að setja upp Snow Leopard á minni tölvu í gegnum utanáliggjandi harðan disk.

Hjá Margréti þá uppfærði ég stýrikerfið bara á eðlilegan hátt og þar virðist allt virka fínt. Tölvan er fljótari að keyra sig upp, en annars verður maður ekki var við miklar breytingar. Á minni tölvu ákvað ég hins vegar að strauja harða diskinn og byrja alveg uppá nýtt og setja bara inn forrit og skrár einsog ég þurfti (eftir að hafa tekið afrit yfir á utanáliggjandi disk).

Hjá mér kann tölvan greinilega vel við þessa fersku byrjun. Hún er mun fljótari að keyra sig upp og allt virkar hraðvirkara. Mín tölva er þó það gömul að hún getur ekki nýtt sér alla möguleikana í Snow Leopard (t.d. er skjákortið ekkert spes og því nýtur hún ekki OpenCL einsog nýrri tölvur).

Annars eru engar stórar breytingar sem ég finn fyrir. Preview (sem ég nota mikið) virkar betur og Quicktime forritið lítur betur út. Svo eru breytingar í Exposé þannig að ég er farinn að nota það í fyrsta skiptið í langan tíma.

Þessi uppfærsla kostaði þó bara 319 sek og því munu sennilega flestir drífa sig í að uppfæra. Ég held þó að flestar breytingarnar í Snow Leopard séu þess eðlis að maður mun ekki sjá þær gera gagn nema eftir einhvern tíma. Að mörgu leyti snýst kerfið um að uppfæra grunnstoðirnar þannig að forrit geti nýtt sér betur kraft tölvunnar í framtíðinni. En fyrir daglega vinnslu þá er ekki mikið sem breytist, nema jú að hraðinn er meiri.