Skýrslur

Er það ekki æðislegt að ríkisstjórnin sé byrjuð að taka mark á skýrslum um íslenska hagkerfið, núna þegar þær eru orðnar [jákvæðar](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1199491)?

* * *

**New rules**

Snillingur Bill Maher er með innslag í hverju þætti, sem hann kallar “new rules”. Þar leggur hann til nýjar reglur fyrir þjóðfélagsumræðuna. Ég ætla að apa þetta eftir.

Ég vil leggja til þessa meginreglu í íslenska þjóðfélagsumræðu: *Fólk, sem á jeppa, má ekki kvarta yfir bensínverði. Eingöngu þeir, sem keyra um á sparneytnum bílum mega tjá sig.*

Hvernig getur þjóð, þar sem meirihluti fólks keyrir um á jeppa, kvartað yfir bensínverði? Hlustum við á það þegar að alkohólistar kvarta yfir háu verði á brennivíni?

Önnur regla: Allir jeppaeigendur ættu að [lesa þessa grein](http://www.gladwell.com/2004/2004_01_12_a_suv.html). Hún er frábær. Prentið hana út og lesið hana.

Hlutabréf á Google

Nýja [financial síðan hjá Google](http://finance.google.com/finance) er hreinasta snilld, sérstaklega hvernig hlutabréfaverð eru sett fram í línuriti og merkja fréttir af fyrirtækinu inná það.

Fyrir þrem árum var ég svo sannfærður um að iPod myndi slá í gegn að ég ætlaði að kaupa hlutabréf í Apple fyrir allt spariféið mitt. En ég sleppti því. [Því miður](http://finance.google.com/finance?q=apple&btnG=Search&hl=en).

Rangfærslur

Stjórnarformaður KB-Banka [segir](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1191139):

>Kaupþing banki hefur aldrei verið sterkari en nú, og eina hættan sem að honum steðjar og hann hafi ekki verið viðbúinn eru rangfærslur eða misskilningur á bankanum sem skjóta upp kollinum aftur og aftur. Þetta sagði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, m.a. í ræðu sinni á aðalfundi bankans sem haldinn var í dag.

Mikið væri ég til í að eiga fyrirtæki, þar sem að “eina raunverulega hættan” gagnvart rekstri er sú að fólk útí bæ misskilji fréttir af rekstrinum. Það hlýtur að vera ljúft.

McD búningar

Þetta er stórkostlegt: McDonald’s [ætlar að eyða **80 milljónum bandaríkjadala** í að fá hip-hop tískufyrirtæki einsog SeanJohn, Tommy Hilfiger, Fubu](http://www.suntimes.com/output/news/cst-nws-mac06.html) og fleiri til að hanna nýja búninga á starfsfólk staðanna.

Ég hannaði Serrano búningana með einhverjum gaur hjá bolafyrirtæki á svona 15 mínútum og að mínu mati eru þeir umtalsvert smekklegri en McDonald’s búningarnir, þannig að þetta ætti að vera auðvelt verk.

Bannað að gagnrýna!

Þetta er nokkuð magnað: McDonald’s sues ‘slow food’ critic. McDonald’s á Ítalíu hefur kært gagnrýnanda fyrir að tala illa um matinn þeirra.

Ímyndið ykkur hvernig heimurinn yrði ef McDonald’s ynnu!

Af hverju í ósköpunum er ég að blogga seint á laugardagskvöldi? Það er helvíti langt síðan ég hef verið einn heima á laugardagskvöldi. Mikið djöfull er það leiðinlegt! Mig hlakkar hins vegar alveg hrikalega mikið til að fá loksins að sofa út á morgun.

Ef þessi gaur, sem er með uppistand á boxkeppninni er fyndnasti maður landsins, þá er ég fluttur til Færeyja.

Honda auglýsing

Þegar ég var á Players á miðvikudaginn að horfa á Arsenal ManU, þá kom þessi Honda auglýsing í hálfleik. Þetta er einhver sú allra magnaðasta auglýsing, sem ég hef séð og það var nærri dauðaþögn á staðnum allan tímann.

Það ótrúlega við auglýsinguna er þó að það var ekki notuð nein tölvugrafík við gerð auglýsingarinnar, heldur þurfti til 605 tökur til að fá allt til að ganga upp. Ótrúlega magnað.

Og hvað?

Sem áhugamaður um markaðsmál þá finnst mér alveg ótrúlega sorglegt hvernig Tal og Íslandssíma hefur nú verið breytt í Og Vodafone.

Alveg frá byrjun hefur mér fundist TAL hafa staðið framar flestum fyrirtækjum á Íslandi í markaðssetningu. Nafn fyrirtækisins, vörumerki, auglýsingar og allt kynningarefni hefur ávallt verið frábært. Ég efa það að annað fyrirtæki á Íslandi geti státað af jafn flottri og samhæfðri markaðsstefnu og TAL.

Og núna á að henda öllu þessu efni og fara að “döbba” breskar Vodafone auglýsingar. Það þykir mér frekar sorgleg þróun. Hefði ég ráðið einhverju hjá Íslandssíma og TAL hefði ég einfaldlega sameinað bæði merkin undir nafni TAL.