CrossFit er frábært!

IMG 2157Þegar ég var um helgina í hundraðasta sinn að mæra CrossFit þá fattaði ég að ég hef ekkert skrifað um CrossFit á þetta blogg. Það er með hreinum ólíkindum, því fátt hefur breytt lífi mínu jafnmikið og CrossFit og það er fátt sem ég tala meira um eða lofa jafn mikið.

CrossFit er einfaldlega besta og skemmtilegasta líkamsrækt sem ég hef nokkurn tímann prófað.

Síðan ég hætti að æfa fótbolta og handbolta þegar ég var 19 ára þá hef ég verið nokkuð duglegur við að hreyfa mig. Ég get nánast fullyrt að á þessum árum hafi ég alltaf æft að minnsta kosti 3-5 sinnum í viku. Ég hef verið smá í fótbolta og svo hefur líkamsræktin mín oftast falist í því að fara í World Class eða svipaða staði, hlaupa smá og lyfta lóðum. Ég hef prófað mestallt slíkri líkamsrækt. Ég hef verið með frábæra einkaþjálfara, ég hef verið einn og ég hef prófað fjarþjálfun.

En allan tímann þá hef ég aldrei haft neina sérstaka ánægju af þessari líkamsrækt. Ég mætti jú, því ég hef viljað vera í góðu formi og lifa heilbrigðu lífi. En mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklega skemmtilegt að mæta í World Class og sitja þar í einhverjum Hammer Strength tækjum og gera tvíhöfða- eða magaæfingar. Ég þurfti nánast alltaf að pína mig af stað í ræktina.

CrossFit hefur breytt því.

Ég prófaði CrossFit fyrst fyrir um einu og hálfu ári. Þá var bara einn staður í Stokkhólmi þar sem ég gat mætt í CrossFit tíma – í bardagaíþróttasal rétt hjá þar sem ég bý. En í maí á síðasta ári skipti ég yfir í CrossFit Nordic, sem er stöð þar sem bara er æft CrossFit. Stöðin er í eigu þriggja stráka, sem hafa kennt tímana. Stöðin er full, aðeins 190 manns komast þar að og þar er núna biðlisti. Þetta er frábær stöð og þarna æfir ótrúlega mikið af hressu fólki og þar á meðal nokkrir Íslendingar.

* * *

Fyrir þá sem aldrei hafa heyrt um CrossFit þá eru þetta hóptímar (hjá okkur eru um 12 manns í einu að æfa) þar sem teknar eru æfingar úr fimleikum, kraftlyftingum og annarri líkamsrækt og lögð áhersla á að æfa í stuttan tíma á gríðarlega háu tempói. Í okkar gym-i eru tímarnir byggðir þannig upp að fyrst er 15 mínútna upphitun, svo eru 20 mínútur þar sem farið er í gegnum tækni í ákveðnum æfingum og oft reynum við að slá okkar met í ýmsum lyftum. Og svo lýkur tímanum á WOD-i dagsins (workout of the day). Það er æfing, sem er oftast stutt (allt niður í 3-5 mínútur) en fer fram á gríðalega háu tempói. Fyrirfram veit fólk oftast ekki hvaða æfing er hvern dag og æfingarnar eru gríðarlega fjölbreyttar. Sem dæmi var æfing gærdagsins 21-15-9 af réttstöðulyftu og armbeygjum á haus og í síðasta tíma var blandað saman dýfum í hringjum og spretthlaupum. Mjög mikil áhersla er lögð á grunnæfingar í ólympískum lyftingum einsog réttstöðulyftu, hnébeygju, axlapressu og svo æfingar með líkamsþyngd, svo sem upphýfingar, armbeygjur og slíkt.

Þegar um er að ræða ólympískar lyftingar þá er alltaf gefin upp þyngd í æfingum dagsins, sem að fólk getur svo lækkað ef að það ræður ekki við hana. Þetta þýðir að nánast allir geta farið í gegnum CrossFit æfingar á góðum tíma – ef þú getur ekki tekið upphýfingu þá byrjarðu á að taka þær í gúmmíbandi þangað til að þú getur þær – armbeygjur á hnjánum, ketilbjöllur með léttum bjöllum og svo framvegis.

Það að allir gera æfingarnar á sama tíma og að fólk í ólíku formi getur verið að klára æfingarnar á sama tíma (með mismunandi þyngdum) veldur því að það er alltaf mikil keppni í CrossFit tímum. Þegar ég er að æfa þá ber ég mig oftast saman við svona 5 manna hóp af strákum, sem ég veit að eru í svipuð formi og ég (fólk skrifar tímana uppá töflu, þannig að maður getur borið sig saman við fólk sem er að æfa á öðrum tímum dags). Það heldur mér alltaf við efnið því mér er hroðalega illa við að vera með lélegri tíma en þeir. Þegar maður er einn í líkamsræktarsal þá er mjög auðvelt að láta sig liltu varða hvort maður sé að bæta sig – en í CrossFit er maður alltaf í keppni – annaðhvort við sjálfan sig eða aðra. Auk þess er til íslensk síða – WOD.is þar sem maður getur skráð tímana sína í svokölluðum benchmark æfingum. Það eru æfingar, sem allir gera eins með sömu þyngdir og því getur maður borið tímana sína saman við vini sína og líka þá allra bestu í heiminum.  Það eru líka ekki alltaf þeir sömu sem eru bestir í tímunum.  Það virkar kannski ekki sanngjarnt að ég sem er 75 kíló eigi að taka sama og maður sem er 95 kíló, en mjög oft þá geta þeir léttari bætt upp þyngdarmuninn með því að vera betri í æfingum með líkamsþyngd eða hlaupum.  Þeir sem eru bestir í CrossFit eru ekki bara sterkir, heldur í gríðarlega góðu alhliða formi.

Þrátt fyrir að sjálfar WOD-æfingarnar séu oft undir 10 mínútum, þá er maður samt sem áður fullkomlega uppgefinn eftir flestar æfingarnar. Ég er miklu uppgefnari eftir 10 mínútna CrossFit æfingu en ég var eftir 60-90 mínútna venjulega æfingu í ræktinni. Þetta sparar manni tíma og gerir hlutina skemmtilegri því þegar maður er í CrossFit þá er maður á fullu allan tímann, en eyðir ekki tímanum sitjandi í einhverjum tækjum á milli setta.

CrossFit byggir líka á því að þú eigir að vera góður í nánast öllu. Þú ert ekki bara að æfa tvíhöfðann eða ná brjálæðislegum brjóstkassa með endalausri bekkpressu, heldur áttu að vera sterkur í löppum og höndum og baki. Þú átt að geta tekið spretti og hoppað hátt og unnið lengi.

* * *

Allt þetta hefur líka gert það að verkum að ég hef náð árangri sem ég ég taldi ómögulegan. Ég hef bætt mig í öllum ólympísku lyftunum um tugi prósenta, en einnig eru ótrúlegustu hlutir orðnir léttir núna. Í Fran æfingunni, sem er 21-15-9 af thrusters og upphýfingum þá verða 21 upphýfing í einu nánast einsog þægileg hvíld því thrusters æfingin er svo miklu erfiðari. Í kringum mig í CrossFit salnum sé ég fólk sem mætir í hræðilegu formi og nokkrum vikum seinna er byrjað að taka upphýfingar án aðstoðar. Það eru allir að bæta sig, alltaf.

Í stuttu máli sagt er CrossFit skemmtilegasta og besta líkamsækrin sem ég hef kynnst. Ég get ekki sagt nógu margt gott um CrossFit. Ég æfi CrossFit 5-6 sinnum í viku og mig hlakkar til hverrar æfingar. Klukkan 7.30 er ég mættur útá lestarstöð til að taka lest í annan borgarhluta og mæta á CrossFit æfingu. Og aldrei dettur mér í hug að sleppa úr æfingu. Þetta er einfaldlega of skemmtilegt til þess.

Eflaust passar CrossFit ekki fyrir alla, en í okkar gym-i er elsti CrossFitarinn sennilega á milli 50-60 ára gamall og stelpur eru ábyggilega 40% af meðlimum. Sérstaklega myndi ég þó mæla með CrossFit fyrir stráka, sem hafa æft íþróttir og leiðist líkamsrækt þar sem hún býður ekki uppá sömu keppnina einsog keppnisíþróttirnar. Slíkir aðilar ættu að elska keppnis-hlutann í CrossFit. En ég held að CrossFit passi klárlega alveg jafn vel fyrir stelpur. Margrét unnusta mín æfir CrossFit 4-5 sinnum í viku og elskar það.

Á Íslandi eru nokkrar stöðvar, sem bjóða uppá CrossFit og fólk byrjar oftast á byrjendanámskeiðum þar sem betur er farið í tæknina. Ég hef æft af og til í CrossFit Reykjavík og það er mjög góð og skemmtileg stöð. Tímarnir eru byggðir upp öðruvísi þar en í minni stöð, svo að fólk getur borið saman stöðvar og fundið hvað hentar þeim best. CrossFit stöðvarnar eru flestar mjög minimalískar einsog sést kannski á myndinni af mér við þessa færslu. Í stöðinni okkar er bara gúmmígólf, stangir fyrir upphýfingar, 6 róðrarvélar, ketilbjöllur, sippubönd og lóð. Það er það eina sem þarf.

Íslendingar eru líka að ná gríðarlega góðum árangri í CrossFit. Um helgina fór fram Evrópu-undankeppnin í CrossFit games, sem er aðalkeppnin í CrossFit heiminum. Þar var íslensk stelpa, Annie Þórisdóttir, í fyrsta sæti (hún er hálfger goðsögn í þessum CrossFit heimi, enda er hún með ólíkindum góður íþróttamaður) og önnur íslensk stelpa komst líka áfram.  Einn Íslendingur komst svo inn í karlaflokki (af þremur, sem komust inn í allri Evrópu). Númi vinur minn lenti í sjötta sæti í Evrópu, en hann æfir einmitt í sama sal og við Margrét og hann er núverandi Svíþjóðarmeistari í CrossFit.   Íslenskt lið vann svo liðakeppnina.  Það er ekki slæmur árangur hjá Íslendingum í þessari nýju íþrótt.

4 thoughts on “CrossFit er frábært!”

  1. CR er mjög skemmtilegt, verð að taka undir það. Hef verið að æfa BootCamp í 2 og 1/2 ár og kynntist CR þar, finnst reyndar BC skemmtilegra, er pínu meiri geðveiki í gangi þar. En Cross Fit BootCamp er eina líkamsræktarstöðin í Evrópu sem á fulltrúa í ÖLLUM þremur keppnisflokkum á heimsleikunum í Cross Fit sem fara fram í LA í ágúst, ekki slæmur árangur það!

    Halltu áfram að vera hrikalegur!

  2. Já, ég prófaði Boot Camp fyrir einhverjum árum en fílaði það ekki af einhverjum ástæðum (fór þó bara á eina æfingu, snemma um morgun). En ég er viss um að það myndi höfða til mín í dag.

Comments are closed.