Halla og konurnar í Íran

Þessi grein eftir mig birtist í morgun á Vefritinu.

* * *

Í Morgunblaðinu á laugardaginn birtist viðtal við Höllu Gunnarsdóttur. Halla, sem varð þekkt fyrir að bjóða sig fram til formann KSÍ og hefur starfað fyrir VG, lýsir þar reynslu sinni úr ferð til Íran. Viðhorf hennar til munar ástöðu kvenna í Íran og á Íslandi er furðulegt. Í viðtalinu segir Halla meðal annars:

“Hugmynd margra er sú, að fyrir byltinguna í Íran hafi þar verið tiltölulega opið og lýðræðislegt samfélag, svo hafi verið gerð bylting og þá haf allt farið aftur til steinaldar.

Halla vill meina að þetta sé vitleysa og heldur áfram:

“Fyrir byltingunaltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltinguna segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.”

Þessi yfirlýsing er með ólíkinum. Hvernig getur Halla haldið því fram að kúgunin sé eins ef að ein tegund af klæðnaði sé bönnuð og þegar að ALLAR tegundir af klæðnaði í heimi, utan einnar, séu bannaðar? Er ekki munur á því hvort að gallabuxur séu bannaðar og því ef að allar konur yrðu skyldaðar til að vera í gallabuxum alla daga, alls staðar?

Það var vissulega svo að konur börðust fyrir því í írönsku byltingunni að þær mættu klæðast Hijab en hætt er við því að barátta þeirra hefði ekki verið svo öflug ef þær hefðu vitað að Hijab yrði í kjölfarið einu fötin sem þær mættu klæðast utandyra það sem eftir lifði ævi þeirra.

Gleymum því heldur ekki að við erum ekki að tala um gallabuxur heldur Hijab, sem í dag er lagt bann við að klæðast í Tyrklandi. Fyrir þá sem hafa ferðast til Íran og Tyrklands þá hlýtur að vera erfitt að halda því fram að það bann við einni tegund af fötum í Tyrklandi komist nálægt því að vera jafn kúgandi fyrir konur og það að þær séu skyldaðar af yfirvöldum í Íran til að klæðast eingöngu Hijab. Hijab er að mörgu leyti framlenging á þeirri hugsun að konan sé eign eiginmannsins og að enginn eigi að fá að njóta þess að horfa á hana nema eiginmaðurinn. Í Íran og nágrannalöndum eru konur neyddar annaðhvort af yfirvöldum eða karlmönnum í kringum þær til að klæðast Hijab þegar þær hætta sér út meðal annarra karlmanna. Hijab felur vöxt þeirra, hár og í mörgum tilfellum andlit líka.

* * *

Þess utan hef ég ekki heyrt marga halda því fram að staða kvenna í Íran fyrir byltinguna hafi verið góð (man reyndar ekki eftir neinum). Því sé ég ekki hvers vegna Halla þarf að afsaka Klerkastjórnina með því að halda því fram að hlutirnir hafi verið jafn slæmir áður en hún komst til valda. Þetta er sama ömurlega leiðin til réttlætingar á slæmum stjórnvöldum og mörgum vinstri mönnum er tamt að nota í tilfelli Kúbu, þar sem að afleitir stjórnarhættir Fidel Castro eru oft afsakaðir með vísun í það að ástandið hafi jú líka verið svo slæmt undir Batista.

* * *

Halla heldur í þessu stutta viðtali áfram.

“Konur alls staðar í heiminum eru kúgaðar. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það.”

Það er naumast.

Það er semsagt eingöngu stigsmunur á kúgun kvenna á Íslandi og í Íran.

Eflaust hefur Halla heillast af Íran í heimsóknum sínum þangað. Ég er sjálfur nýkominn úr ferðalagi um lönd í nágrenni Íran og verð að játa að ég er gjörsamlega heillaður af fólkinu í þeim löndum. Betra samansafn af vinalegu, gestrisnu og skemmtilegu fólki er erfitt að finna. En þótt að ég hafi fallið kylliflatur fyrir Sýrlendingum og Jórdönum, þá féll ég ekki fyrir því samfélagi sem að þessar þjóðir mynda. Jú, fólkið er yndislegt, en kúgun á kvenfólki er gríðarleg. Jú, fólkið er yndislegt en Sýrland er einræðisríki þar sem að ýtt er undir Gyðingahatur í skólum.

* * *

Ef marka má frásagnir þeirra ferðamanna, sem ég hef hitt, þá eru Íranir líkt og Sýrlendingar yndislega gestrisið og gott fólk. Það breytir því ekki að, hvort sem það er Klerkastjórninni eða Shah að kenna, þá er kúgun kvenna í Íran meðal annars svo háttað í dag:

  • Baráttukonur fyrir kvenréttindum hafa ítrekað verið handteknar í landinu. Í fyrra komst það í fréttirnar þegar að 26 baráttukonur voru handteknar nokkrum dögum fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna og sátu tvær þeirra í einangrun í 15 daga.
  • Karlmenn eiga að taka allar ákvarðanir inná heimilinu og þeir fá ávallt forræði yfir börnum í skilnaðarmálum. Fóstureyðingar eru nánast allar ólöglegar í Íran, meira að segja þegar um nauðgun er að ræða.
  • Konur eru neyddar til að hylja allan líkama sinn utan andlits og þær mega ekki nota snyrtivörur. Kvenhatur klerkanna hefur gert konur einar að sökudólgi fyrir kynferðislega löngun og því þarf þær að hylja. Konur máttu eftir yfirtöku Klerkastjórnarinnar giftast 9 ára gamlar þótt margir hefðu viljað hækka þann aldur í 14 ár.
  • Ríkisstjórn Ahmadinejad hefur gert margt til að reyna að aðskilja konur og karla enn frekar (í viðbót við að vera til dæmis aðskilin með öllu í skóla), meðal annars með því að setja upp kynjaskiptar lyftur í opinberar byggingar meðan hann var borgarstjóri í Tehran.
  • Í íranska réttakerfinu eru ótal dæmi um það að konur séu taldar óæðri verur. Til að sanna framhjáhald þarf til að mynda vitnisburð tveggja karlmanna eða fjögurra kvenna.

* * *

Einnig segir Halla í viðtalinu af því sögu þegar að eiginmaður í Íran ákvað að svara sjálfur öllum þeim spurningum sem var beint til eiginkonu hans á meðan að eiginkonan bar fram te! Höllu fannst það þó ekki dæmi um “kúgunarsamband” þar sem að konan hafði gifst 15 ára gömul og því hefði sambandið alltaf verið svona!

Þetta er furðulegt dæmi um tilhneigingu margra vinstri manna til að afsaka kúgun kvenna í Múslimalöndum.

* * *

Þess má líka að lokum geta að á Íslandi hlaut Halla sjálf gríðarlega athygli og stuðning þegar að hún bauð sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands.

Þar til fyrir tveim árum máttu konur í Íran ekki einu sinni horfa á fótboltaleiki.

Það væri gaman að sjá hversu langt kúgun á kvenfólki þarf að ganga til að Halla telji að eðlismunur sé á henni og kúgun kvenna á Íslandi. Dæmin í Íran eru öll um kúgun á kvenfólki, sem er sprottin af einstöku kvenhatri og kvenfyrlitningu. Skoðanir sem byggjast á þeirri trú að konur séu líkamlega, gáfulega og siðferðilega óæðri karlmönnum.

Að kalla muninn á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi eingöngu “stigsmun” gerir, af engu tilefni, lítið úr kúgun kvenna í Íran.

8 thoughts on “Halla og konurnar í Íran”

  1. Ég sá þessa grein á Vefritinu og má til með að koma með athugasemdir:

    Í fyrsta lagi þá má ef til vill færa rök fyrir því að opinbert bann á höfuðklútum hafi í reyndinni virkað sem jafnmikil kúgun og skyldan til þess að bera þá. Athugaðu, í reyndinni, ekki hugmyndafræðilega séð. Staðreyndin er nefnilega sú að þegar konum var bannað að hylja sig á þennan hátt var mörgum þeirra haldið í hálfgerðu stofufangelsi þar sem feður þeirra, bræður eða eiginmenn sáu þann kostinn einan til þess að hindra að þær kæmu fyrir almenningssjónir. Við byltinguna í Íran fengu trúaðar konur frelsi til þess að fara út meðal fólks og fara í háskóla, sem var breytt í íslamska háskóla.
    Auðvitað er það stórkostlegt vandamál þegar karlar telja sig eiga konur -en það er samt ekkert skrítið ef trúaðar konur upplifðu byltinguna sem nokkurs konar frelsun fyrir sig. Veraldlega sinnað fólk, bæði karlar og konur, urðu hins vegar undir í byltingunni. Bæði kynin urðu, og eru, fórnarlömb tvískinnungs sem við fyrstu sýn mætti halda að væru körlum algjörlega í hag, en virkar samt ekki þannig nema að litlu leyti. Til dæmis er mikill meirihluti ungs menntafólks í Íran konur, enda er krafan ströng á karlmenn að þeir vinni fyrir fjölskyldum sínum og því eiga þeir ekki alltaf eins gott með að stunda langskólanám.

    Í öðru lagi skilst mér að almennur skilningur á orðinu Hijab sé höfuðslæðan. Niqab og Búrkur hylja hins vegar bæði höfuð, andlit og líkama. Höfuðslæðan er reyndar ekki eina skyldan í klæðaburði kvenna í Íran þótt þeim sé ekki skylt að klæðast búrkum.

    Í þriðja lagi er töluverður munur á því að skrifa fræðiritgerð um stöðu kvenna í Íran og þess að ferðast um landið. Ég er ekki að segja að það sem þú segir sé úti úr kortinu, en ef til vill þarf að rýna betur í gögnin sem Halla aflaði áður en ályktað er að hún sé á villigötum.

    Hins vegar er ég alveg sammála því að það er ekki hægt að tala um lög og reglur í trúveldum eins og Íran sem annað en kvenfjandsamleg. Gallarnir við trúveldi (theocracy) eru margir en þetta er það versta við þau. Það er eins og að ef um leið og valdsmenn þykjast fara eftir tilmælum hins óskeikula “guðs”, þá grípi þeir hvert tækifæri sem gefst til þess að halda konum niðri-af því að þeir geta það. Þess vegna ætti öll kvenfrelsisbarátta alls staðar í heiminum jafnframt að vera barátta fyrir veraldarhyggju. Það finnst mér allavega.

  2. Varðandi fyrsta punktinn: Ég gerði mér grein fyrir þessu varðandi vandamálið með að mega ekki klæðast hijab utanhúss fyrir byltinguna. Þetta er sama og er að gerast í Tyrklandi í dag. Ég er þó einfaldlega ósammála því að bönnin séu sambærileg. Punkturinn sem þú bendir á er þó auðvitað mikilvægur.

    Það mætti vel hugsa sér að bannið gegn því að klæðast Hijab og chador utanhúss væri gert til þess að minnka þá kúgun sem að þessi klæðnaður felur í sér, einsog margir hafa notað til að réttlæta bannið í Tyrklandi. Það hefur þó auðvitað líka í för með sér að allra kúguðustu konunum er ekki hleypt útúr húsi.

    Í öðru lagi skilst mér að almennur skilningur á orðinu Hijab sé höfuðslæðan

    Það er að rétt. Ég notaði Hijab orðið kannsi full frjálslega. Í Íran er konum ekki eingöngu gert að klæðast Hijab, heldur er þeim líka skylt að klæðast lausum frakka (chador). Ég hefði kannski átt að tala um Hijab og Chador. Þetta er góð ábending hjá þér. Ég varð þó var við það í þeim löndum sem ég heimsótti að Hijab var oft notað sem orð sem náði yfir bæði Hijab og frakkann.

    Og varðandi þriðja punktinn, ég veit ég vel að ég hef ekki lesið þessar greinar hjá Höllu. En 99% fólksins sem las viðtalið við hana í Mogganum mun heldur ekki gera það. Ég dæmdi orð hennar því út frá þessu viðtali. Miðað við viðtalið þá eru skoðanir hennar einkennilegar. Það er hæpið að afsaka viðtalið með því að manneskjan í viðtalinu hafi hugsanlega skrifað eitthvað miklu upplýstara um efnið, sem að allir sem ætli að gagnrýna viðtalið, ættu að lesa.

  3. Ef þú ert að meina að klæðnaðurinn sé í eðli sínu, eða allavega í grunninn, kúgunartæki, þá er ég sammála. Ég skil líka fullkomlega þá Tyrki sem vilja viðhalda slæðubanninu. Það er þó ekki vandræðalaust því að frelsi til þess að ganga frjáls um göturnar og afla sér menntunar, með eða án höfuðslæðu, er sennilega eitthvað sem flestir myndu kjósa framyfir það að vera haldið föngnum á heimilum sínum. En það að karlar geti komist upp með að koma svoleiðis fram við konur er fyrst og fremst eitthvað sem þarf einnig að breyta, eins flókið og erfitt og það kann að verða. Þegar allt kemur til alls kýs ég mun frekar slæðubann heldur en slæðuskyldu og tel bönnin ekki vera sambærileg. En það að til sé fólk sem upplifir hlutina örðuvísi er nokkuð sem ég hef fullkominn skilning á -í ljósi þess sem ég nefndi.

    Ég veit að fæstir sem lesa moggann eru á leiðinni að lesa ritgerðina hennar Höllu og þegar blaðagreinar eru annars vegar á slíkt auðvitað ekki að þurfa. Margt í því sem hún nefnir í viðtalinu er ekki nægilega vel útskýrt -en ég er bara að benda á að þrátt fyrir allt er það sem hún segir niðurstaða gagna sem hún aflaði á staðnum og skrifaði lokaritgerð um. Allt það efni hefði aldrei rúmast í einu viðtali í mogganum þannig að einhvern veginn varð að gera þessu skil í mun styttra máli. Það sem ég er að meina er að niðurstaða hennar er ekki bara eitthvað sem henni finnst. Fólk á samt auðvitað ekki að þurfa að lesa ritgerðina til að gagnrýna viðtalið. Vandamálið við það er held ég fyrst og fremst það að þar er varpað fram fullyrðingum án nánari rökstuðnings. Greinin hefði átt að vera lengri.
    Reyndar set ég stórt spurningamerki við þá staðreynd að hún segir í viðtalinu að sambandið þar sem eiginmaðurinn svarar spurningunum sem beint var til konunnar og hún bar fram te, en að þar hafi ekki verið um kúgunarsamband að ræða útaf hefð.
    Ég fatta engan veginn þá röksemdarfærslu og finnst í raun ótrúlegt að femínisti skuli hafa látið svoleiðis út úr sér -og tekið þessu sem góðum og gildum rökum í lokaritgerð. Hefð, trú og menning eru afskaplega hvimleiðar og lélegar afsakanir á kvennakúgun. Í kvenfrelsisbaráttu hefur þetta oft verið notað sem mótrök: “Svona er þetta bara” eða “þetta er bara í okkar/þeirra menningu”, svona eins og það sé allt í lagi. Fyrir 93 árum tóku margir slíku sem góðum og gildum rökum gegn kosningarétti kvenna á Íslandi.

    Annars er ég almennt mjög áhugasöm um málefni kvenna í Íran og ástæðan fyrir því að ég tjái mig í svona löngu máli er kannski helst sú að ég hef tekið viðtöl við tvær íranskar konur. Önnur þeirra, Maryam Namazie, gerðist flóttamaður í byltingunni og er nú yfirlýstur trúleysingi og baráttukona fyrir réttindum múslimskra kvenna. Ég þarf varla að útskýra hvaða sögu hún hafði að segja. En hin, Afsar Sonia Shafie, er kvikmyndagerðarkona sem gerði heimildamynd um líf sitt, ömmu sinnar og mömmu. Þó svo að hún væri af hófsamri fjölskyldu virtist hún hafa upplifað byltinguna á allt annan hátt. Hún benti á að þó svo að í orði kveðnu hefðu réttindi kvenna verið meiri fyrir byltinguna hefði reyndin ekki alltaf verið sú þar sem fólk hafi oft ekki verið upplýst um réttindi sín. Og að þegar háskólarnir urðu íslamskir og slæðuskyldan komin á, hafi áður fangelsaðar stúlkur flykkst í nám.
    Ég er alltaf á bandi þeirra sem vilja algeran aðskilnað ríkis og trúar -en í ljósi þess sem þessar konur sögðu skil ég vel að Halla hafi fengið þessa niðurstöðu.

  4. Hildur segir:

    Ef þú ert að meina að klæðnaðurinn sé í eðli sínu, eða allavega í grunninn, kúgunartæki, þá er ég sammála

    Já, það er rétt skilið hjá þér. Samanber þetta sem ég skrifaði:

    Konur eru neyddar til að hylja allan líkama sinn utan andlits og þær mega ekki nota snyrtivörur. Kvenhatur klerkanna hefur gert konur einar að sökudólgi fyrir kynferðislega löngun og því þarf þær að hylja.

    Hildur segir:

    en ég er bara að benda á að þrátt fyrir allt er það sem hún segir niðurstaða gagna sem hún aflaði á staðnum og skrifaði lokaritgerð um.

    Ég er ekki sammála þessu. Mér fannst þetta viðtal meira vera svona almennar athugasemdir um hennar tilfinningu á ástandi mála í Íran og þeim “stigsmun” sem er á þeim málum og á Íslandi. Frekar lítið var vísað í ritgerðina að því er ég gat lesið útúr viðtalinu.

  5. En á þessari síðu var verið að taka viðtöl við fólk um lokaverkefni þeirra úr háskólanum þar sem það sagði hvaða niðurstöður fengust. Við hliðina á Höllu var viðtal við nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga sem höfðu rannsakað áhættuhegðun sprautufíkla og komist að því að flestir þeirra notuðu sprautunálar oftar en einu sinni. Ef til vill væri hægt að skilja þeirra orð sem svo að þetta væru bara almennar athugasemdir og tilfinning þeirra á ástandi sprautufíkla -en í ljósi þess að þær höfðu gert BS ritgerð hlýtur að liggja í augum uppi að að baki þessum niðurstöðum er rannsókn. Þetta er alveg sambærilegt.

  6. Ég skil þig ekki alveg, Hildur. Ertu að segja að hún hafi komist að því með rannsóknum að það sé aðeins stigsmunur á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi? Eða það að hijab bann og hijab skylda sé sama kúgunin?

    Mér finnst þetta einfaldlega vera hennar prívat skoðanir, en ekki einhverjar vísanir í flókna rannsóknarvinnu.

  7. Ég skildi þetta allavega þannig að það væri niðurstaða hennar í rannsókninni að slæðubann og slæðuskylda virkaði í reyndinni sem kúgun af svipuðum toga í Íran af áðurnefndum ástæðum. Að vísu er misjafnt hvaða hóp fólks er verið að kúga hverju sinni -en kúgun er kúgun sama hver það er sem verður fyrir henni.
    Pointið er að málið er skoðað með tilliti til samfélagsins sem við á. Þó svo að fyrir okkur liggi kannski beinast við að ímynda okkur slæðuskyldu vs. slæðubann á Íslandi og álykta réttilega að annað virkar í reyndinni sem mikil kúgun en hitt ekki, þá verður að taka tillit til núverandi veruleika í hverju samfélagi fyrir sig.

    Hitt er kannski óljósara varðandi stigsmuninn á kúguninni. Kannski komst hún að því í rannsókninni og rökstyður það þó svo að ég viti ekki alveg hvernig hún gerði það.
    Ég myndi allavega svona í fljótu bragði álykta að augljóslega væri eðlismunur en ekki stigsmunur á geistlegum og veraldlegum samfélögum. Þar sem vald og trúarbrögð fara saman er fólk kúgað og þá sérstaklega konur.
    En alltént las ég viðtalið hennar með það fyrir augum að hér væri verið að fjalla um lokaverkefni hennar og hvaða niðurstöðu hún fékk þar, alveg eins og með viðtalið við hjúkrunarfræðingana.

  8. finnst þetta áhugaverð comment hjá hildi. en verð að segja að þó svo halla hafi stundað rannsóknir á samfélagi írana í langan tíma, þá breytir það því ekki að það er ferlega klaufalegt orðalag að tala um stigsmun á stöðu íslenskra og íranskra kvenna, og engin ástæða til að reyna réttlæta það.

Comments are closed.