Hræðsluáróður

Ég fjallaði fyrir nokkrum mánuðum um þessa bloggfærslu hjá Baldri McQueen. Í ljósi umræðunnar er ekki úr vegi að rifja hana upp. Í færslunni rifjar hann upp hræðsluáróður EES andstæðinga, sem þeir þuldu upp áður en við skrifuðum undir þann samning. Sami hræðsluáróðurinn er að mörgu leyti endurunninn í dag þegar að talað er um fulla aðild að ESB.

Vonbrigði dagsins eru án efa það að Vinstri Grænir haldi sig við fulla andstöðu sína við ESB aðild. Þeir sleppa því líka (að því er mér sýnist) algerlega að tala um gjaldeyrismál – einsog það sé ekki stærsta hagsmunamál Íslendinga. Tillaga Vinstri Grænna í ESB málum snýst um tvöfalda kosningu. Að við kjósum um það hvort að við ætlum að semja. Sú kosningabarátta verður án efa kostuleg. Hörðustu andstæðingarnir munu þar gera allt í sínu veldi til að sverta ESB og gera allt til þess að fólkið fái ekki að sjá hverjir raunverulegu kostirnir eru. Menn myndu fyrirfram gefa sér sínar forsendur fyrir niðurstöðum samningaviðræðna sem væru ekki einu sinni hafnar.

Það jákvæða er þó að Sjálfstæðismenn virðast vera að komast á þá línu að aðildarviðræður séu skynsamasta leiðin og svo að þjóðin fái að kjósa um aðildina. Það er auðvitað það eina réttmæta. Við eigum skilið einsog allar hinar Norðurlandaþjóðirnar að fá að kjósa um aðild að ESB.

11 thoughts on “Hræðsluáróður”

 1. Ég hef aldrei haldið því fram að við ættum ekki aðra kosti. Ég er bara á því að þetta sé laaaangbesti kosturinn.

  Að mínu mati jafnast þetta ekki á við blaðrið um að grimmir Spánverjar veiði allan fiskinn og að vondir Brussel bjúrókratar ákveði allt og að vondir útlenskir ríkir kallar eignist alla orkuna.

 2. Og einsog Egill segir á blogginu sínu:

  Hin tvöfalda atkvæðagreiðsla er óþarflega flókin aðferð til að nálgast þetta mál.

  Vinstri grænir ættu ekki að óttast að einfaldlega sé sótt um aðild og að þjóðin greiði atkvæði um niðurstöðuna.

  Það var gert í Noregi. Og fellt tvisvar.

  Nákvæmlega. Ég skil ekki af hverju Vinstri Grænir þora ekki að sjá hvað kemur útúr aðildarviðræðum. Það hlýtur að vera hagur Íslendinga að sjá hvað kæmi útúr slíkum viðræðum.

 3. Frá því að ég man eftir mér, hafa skoðanakannanir um ESB-mál verið tvíþættar. Fólk hefur verið spurt að því annars vegar hvort það vilji ganga inn í ESB en hins vegar hvort það vilji ganga til aðildarviðræðna. Síðarnefndi hópurinn hefur alla tíð verið stærri.

  Núna láta menn skyndilega eins og að seinni spurningin sé á einhvern hátt ómark eða fáránleg og að það yrðu einhver sérstök trúðslæti sem kæmu út úr því að spyrja hennar.

  Ég næ ekki alveg upp í rökin fyrir því. Þvert á móti finnst mér málflutningur VG í þessu máli vera rökréttur og nokkuð ábyrgur. Þeir árétta andstöðu við ESB, en viðurkenna að það sé sterk krafa um að fá botn í málið og leggja til þjóðaratkvæði.

  Þetta er með öðrum orðum hugmynd um að taka ESB-málið út fyrir sviga þegar kemur að þingkosningum – gefa t.d. ESB-sinnum í Samfylkingu og VG kost á að taka höndum saman (og að sama skapi andstæðingum í báðum flokkum). Nákvæmlega hvað er vont við það?

  Samanburður Egils við Noreg fellur á því að þar í landi var það sitjandi ríkisstjórn sem sótti um aðild – en sú ríkisstjórn hafði jú verið kosin til valda á grunni þeirrar stefnu að ganga inn í ESB. Ekkert slíkt hefur átt sér stað á Íslandi. Samfylkingin þorði varla að nefna ESB á nafn í síðustu kosningabaráttu.

  Ég skil reiðiviðbrögð Samfylkingarmanna við fregnum dagsins ef við gefum okkur að þeir hafi ekki raunverulegan áhuga á að ganga inn í ESB, heldur frekar að hagnast á slíku baráttumáli í skoðanakönnunum. En ef menn vilja í raun fara inn í bandalagið – hvernig geta menn á sett sig á móti almennum kosningum á sem flestum stigum? Við hvað eru menn hræddir?

 4. Við hvað eru menn hræddir?

  Við það að kosningabaráttan verði með ólíkindum ómálefnaleg þar sem menn gefa sér forsendur um hræðilega niðurstöðu viðræðanna til þess að forðast þess að menn fari útí þær yfir höfuð. Ég tel það augljóst að í þeirri kosningabaráttu yrði mikið um hræðsluáróður um tap á yfirráðum yfir auðlindunum og öðru slíku.

  Ég tel þó að ef t.d. Íhaldið breytir ekki stefnu sinni að eina leiðin sé að Samfylkingin hætti í ríkisstjórninni og boði til kosninga. Þá verður væntanlega niðurstaðan þessi tvöfalda kosning til þess að við getum gengið í ESB. Ég tel þó þann kost betri en þann að hafna ESB algjörlega.

  En ég spyr aftur á móti: Af hverju eru menn svo hræddir við það að fara útí aðildarviðræður?

  Hverju getum við tapað á því?

 5. Rosalega finnst mér óþægilegt að lesa þau rök notuð í fullri alvöru gegn þjóðaratkvæðagreiðslu að hún yrði á lágu plani og með ómerkilegum rökum. Ég held reyndar að þetta sé versti tíminn af öllum til að taka þá línu að betra sé að fela hinum skynsömu og ábyrgu atvinnustjórnmálamönnum að ákveða hlutina en ekki vitlausa almúganum.

  Ég trúi því reyndar ekki að þú meinir þetta í fullri alvöru.

  Samfylkingin mun hins vegar ekkert boða til kosninga eitt eða neitt. Kjósi hún að sprengja stjórnina í febrúar, þá er það Geir Haarde sem hefur stjórnarmyndunarumboð. VG hefur reyndar lýst því yfir að flokkurinn muni ekki mynda ríkisstjórn með öðrum flokkum, nema þá tímabundið fram að kosningum sem yrði að flýta.

  En þá er eftir Framsóknarflokkurinn sem vill eflaust ekkert síður en kosningar í bráð. Endurnýjuð ríkisstjórn B og D er líklegasti kosturinn ef Samfylkingin sprengir.

 6. Einsog ég sagði, ef að þetta er eina leiðin inní ESB, þá er þessi tvöfalda leið betri en ekki neitt. Og já, þetta er rétt hjá þér með kosningarnar. Þó trúi ég því varla fyrr en að ég sé það að D & B myndu mynda stjórn án þess að flýta kosningum.

  En ég spyr aftur: Af hverju eru menn svo hræddir við það að fara útí aðildarviðræður?

  Hverju getum við tapað á því? Endanleg ákvörðun verður alltaf hjá þjóðinni.

 7. Aðildarviðræður án þess að hafa til þess fulltingi þjóðarinnar og einarðan stuðning getur leitt til glundroða í þjóðfélaginu. Ríkisstjórn sem færi af stað með slíkt verkefni án nauðsynlegs baklands væri óstarfhæf.

  Þjóðin vill viðræður og mun eflaust kjósa með því. En það er þá eins gott að staðfesta þann vilja með þjóðaratkvæðagreiðslu því það er eina leiðin til að þeir sem eru ósammála niðurstöðu sætti sig þó að minnsta kosti við að hún sé lýðræðisleg.

  Svona í óskyldum þá þarf að koma Sjálfstæðisflokknum í burtu. Þessi frjálshyggjumeinsemd sem hefur hreiðrað um sig með tilheyrandi spillingu um allt fjármálakerfið og stjórnmálakerfið er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og kjósenda hans.

  Hressandi umræður, hvet þig Einar til að íhuga framboð…

 8. Við sem þjóð höfum litlu að tapa af því að fara beint í aðildarviðræður, en andstæðingar ESB missa sterkt vopn úr hendi sér. Ef við skoðum hvernig kosningabarátta um aðildarviðræður myndi fara fram, þá myndu ESB-sinnar básúna allt það besta sem mögulega gæti fengist út úr viðræðum á meðan andstæðingar myndu hamra á verstu mögulegu niðurstöðu fyrir land og þjóð. Ef andstæðingarnir sigra eru þeir lausir allra mála og aldrei fæst svar við því hvað hefði komið út úr aðildarviðræðunum. AF ÞVÍ AÐ VIÐ FÖRUM EKKI Í ÞÆR.

  Ef niðurstaðan er sú að það eigi að fara í aðildarviðræður standa hins vegar þeir sem eru hlynntir inngöngu í ESB frammi fyrir því að það “best case scenario” sem þeir lofuðu í fyrri kosningabaráttunni var kannski of gott til að vera satt. Og þar með er veruleg hætta á að niðurstöður aðildarviðræðnanna verði vonbrigði fyrir marga og andstæðingarnir standi með pálmann í höndunum í seinni kosningunum. Þeir geta hamast á aðildarsinnum og týnt út allt það sem þeir bjuggu til vonir um í fyrri kosningunum en ekki tókst að ná fram.

  En nú svara mér andstæðingar ESB-aðildar og segja “Hah – þið ESB-sinnar þurfið að ýkja til að fá þjóðina í aðildarviðræður!” En munum að andstæðingarnir þurfa aldrei að standa því reikningsskil hvort hryllingssögurnar og “worst-case scenario-ið” sem þeir munu nota í kosningabaráttunni séu raunhæfar eða ekki. Og þótt þeir tapi fyrri kosningum og niðurstöður aðildarviðræðnanna reynist betri en þeir spáðu; þá getur síðari kosningabaráttan um sjálfa aðildina aldrei snúist um það sem andstæðingarnir sögðu í fyrri baráttunni – hún mun alltaf snúast um niðurstöður viðræðnanna – sem er þá hægt að bera saman við “loforð” ESB-sinna sem notuð voru í fyrri kosningunum.

  Í grunninn sýnir þetta líka hvað svona kosningar um hvort eigi að fara í viðræður eru skrýtnar – það er verið að biðja fólk um að taka afstöðu til einhvers án þess að það sé í raun ljóst hvað það er. Tvær fylkingar munu “spá” því hvernig aðildarviðræðurnar fari fram og almenningi er ætlað að mynda sér skoðun út frá því. Mér finnst það einfaldlega skrýtið lýðræði.

 9. Það eru öfgar í báðar áttir. Í fyrri hópnum finnast þeir ófáir sem hafa lýst þeirri eindregnu skoðun sinni yfir að við eigum að fara í ESB. Í seinni hópnum eru þeir einnig ófáir sem hafa lýst þeirri eindregnu skoðun sinni að við eigum ekki að fara í ESB.

  Að fara í aðildarviðræður er aðeins stærri yfirlýsing en svo að síðarnefndi hópurinn muni sætta sig við það nema að undangenginni viðamikilli skoðun. Er það ekki augljóst?

  Það er erfitt að trúa því að þjóðin… eftir allt sem á undan er gengið, muni láta valta yfir sig með öfgakenndum málflutningi í aðra hvora áttina.

  Líklegra er að niðurstaða kosninga um að fara í viðræður mun verða samþykkt með yfirburðum? Er ekki öflugra að vera með slíkt bakland staðfest þegar farið er af stað?

  Ég skil nú ekki hvað ESB sinnar eru skeptískir á að þjóðin taki skynsamlega afstöðu í þessu máli? Eins skil ég ekki hvað “anti”-ESB sinnar eru áhyggjufullir að þjóðin kunni fótum sínum forráð.

  Því miður er það nú svo að fyrrgreindir hópar öfgasinna (í báðar áttir) hafa mikið hver til síns máls …en að ætla öðrum þeirra að hafa fullkomlega rétt eða rangt fyrir sér, er hættulegt því ekkert liggur fyrir um það.

  Það má vera að innan ESB sé okkur borgið, hverjum er ekki sama hvort það er Svíi eða Reyðfirðingur sem dregur lúðu úr sjó? (Jú, LÍÚ og íslenskum kvótagreifum, nánar tiltekið stuðningsmönnum Davíðs). En er ekki hugsanlegt að við missum spón úr aski þegar við getum ekki lengur samið við Kínverja og aðrar þjóðir um hagstæða samninga og þannig fengið hið besta úr báðum heimum (EES og restin af heiminum)?

  Það skýrist í viðræðum og þess vegna förum við auðvitað í þær …í sátt og samlyndi. Klúbburinn skynsemin ræður tekur völdin.

  Það er hins vegar alveg skelfilegt áhyggjuefni, og hefur sýnt sig með alveg ótrúlegum afleiðingum, hversu margir forystumenn þjóðarinnar hafa tekið einarða afstöðu í aðra hvora áttina án þess að hafa til þess nokkrar forsendur.

  Í mínum heimabæ var slíkt fólk kallað “fávitar”

  Margir vilja fá þann ágæta mann Þorvald Gylfason sem nýjan seðlabankastjóra. Þá spyr ég, er eitthvað betra að fá mann í seðlabankann sem er BÚINN að ákveða að Ísland eigi að vera í ESB …heldur en að vera með mann þar sem BÚINN að ákveða að Ísland eigi ekki að vera þar (afsakið arfaslakt dæmi, augljóslega væri allt betra en Davíð)

  Hvað með okkur hin sem viljum byggja skoðanir og ákvarðanir á upplýsingum innan skynsemismarka?

  Þessi skelfilega öfgahyggja sem hefur kristallast í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins þar sem orð Davíðs voru lög …ekki einasta flokksmanna, heldur þjóðarinnar allrar … hefur nú nánast gert útaf við efnahag þjóðarinnar allrar.

  Ég segi

  Ekki meira af trúarbrögðum
  Gagnrýnin hugsun á að ráða ferðinni

  En semsagt, hressandi umræða hér að venju :O)

Comments are closed.