Hugo Chavez

Atburðir síðustu daga í Venezuela hafa verið afar áhugaverðir. Ég ætlaði að skrifa um valdaránið en áður en ég komst í stuð hafði Hugo Chavez náð aftur völdum. Það kom á daginn að yfirmennirnir í hernum voru ekki mikið klárari í valdaránum en Hugo sjálfur.

Ég bjó í Venezuela, sem skiptinemi, árin 1995-1996. Síðan þá hef ég heimsótt landið einu sinni og fylgst með atburðum í gegnum netið og með bréfaskriftum við vini í Caracas.

Þegar ég bjó í Caracas var Rafael Caldera forseti. Caldera hafði verið forseti rúmum tuttugu árum áður en þá var hann frambjóðandi COPEI, aðal hægriflokksins í Venezuela. Á undan Caldera hafði Carlos Andres Perez, frambjóðandi AD, vinstriflokks, verið forseti.

Perez breytti nokkuð um stefnu eftir að hann var kosinn í seinna skiptið. Í stað þess populisma, sem hann predikaði í kosningabaráttunni þá tók hann u-beygju, svipað og Carlos Menem og Alberto Fujimori höfðu gert og tók upp frjálsa markaðsstefnu. Menem og Fujimori urðu gríðarlega vinsælir fyrir markaðsstefnu sína en ekki gekk eins vel hjá Perez. Mikið var um spillingu, sem leiddi á endanum til þess að Perez var látinn segja af sér.

Eftir að Perez sagði af sér átti arftaki hans, Rafael Caldera, í miklum erfiðleikum með að stjórna efnahaginum í landinu. Gengi bólivarsins féll á hverjum degi og því fylgdi óðaverðbólga, sem Caldera hafði enga stjórn á, þrátt fyrir tilraunir til að stjórna genginu með því að láta ríkið ákveða gengið. Þetta gekk þó lítið því fólk skipti peningum á svarta markaðnum, þar sem gengið jókst á hverjum degi og því þurfti Caldera að fella gengið reglulega.

Flokkakerfið í Venezuela

Flokkarnir tveir í Venezuela, COPEI og AD höfðu deilt með sér völdunum í fjóra áratugi eftir að þeir gerðu samkomulag, þekkt sem Punto Fijo. Þetta samkomulag var gert eftir að deilur flokkanna höfðu leitt til þess að herinn hrifsaði til sín völdin um miðja síðustu öld. Flokkarnir sömdu um að þeir skyldu deila með sér völdunum, sama hver ynni í kosningum. Þannig að ef COPEI ynni forsetakosninagrnar, þá yrði AD lofað sætum í ríkisstjórninni og svo framvegis.

Þetta samkomulag leiddi náttúrulega af sér mikla spillingu og takmörkun á lýðræði í Venezuela. Þessi spilling og getuleysi flokkanna í efnahagsmálum gerðu uppgang Hugo Chavez mögulegan.

Venezuela er næst stærsti olíuframleiðandi í heimi. Þrátt fyrir það lifa yfir 80% af þessari rúmlega 20 milljóna þjóð undir fátækrarmörkum. Hvernig stjórnmálamönnum hefur tekist að klúðra þessum olíuauðæfum er hin mesta ráðgáta. Flestir íbúar Venezuela telja sig þó vita svarið. Þeir telja að spillingu stjórnmálamanna sé um að kenna. Margir eru nefnilega sannfærðir um að þeirra bíði gull og grænir skógar ef spillingu stjórnmálamanna væri eytt og olíauðæfunum skipt bróðurlega á milli allra íbúanna.

Hugo slær í gegn

Hugo Chavez gerði sér fyllilega grein fyrir þessu og því var hans aðalbaráttumál að berjast gegn spillingunni, sem tengdist stjórnmálaflokkunum tveim. Kosningabaráttan 1998 var hin furðulegasta. Til að byrja með var Irene Saez, fyrrum ungfrú alheimur fremst meðal frambjóðenda. Hún gerði hins vegar mistök með að samþykkja að verða frambjóðandi COPEI. Um leið og hún var orðin tengd öðrum af hinum gerspilltu stjórnmálaflokkum hrundu vinsældir hennar. Það varð úr að hvorki AD né COPEI buðu fram í kosningunum heldur lýstu þeir báðir yfir stuðningi við mótframbjóðenda Hugo Chavez. Það breytti þó litlu því Chavez vann yfirburðarsigur.

Síðan hann var kosinn hefur Chavez reynt að breyta mörgu í Venezuela. Hann lagði niður þingið og bauð síðan til kosninga, þar sem ný stjórnarskrá var samþykkt. Það kom þó andstæðingum hans dálítið á óvart að hann virti ávallt fjölmiðlafrelsi og vilja meirihlutans. Hvað það varðar þá hefur hann verið mjög ólíkur stórvini sínum og baseball félaga, Fidel Castro. Svo ég vitni nú í sjálfan mig úr ritgerð, sem ég skrifaði fyrir rúmum mánuði (vá, hvað ég er góður spámaður).

In Venezuela, the future of democracy depends on Hugo Chavez. Up until now he has followed the will of the majority, but he really has not been tested because of his majority support. Today, however, he is supported by less than 40% of the population. The question is, whether he will continue to respect the will of the majority. If he does, then democracy should be relatively safe. If he does not, he risks military intervention and the end of Venezuelan democracy.

Í efnahagsmálum hefur Hugo Chavez þó mistekist algerlega, þrátt fyrir að hann hafi fylgt Múrsskólanum varðandi efnahagsstefnu. Hann hefur tekið upp stjórnmálasamband við Írak, Lýbíu og aukið samstarf við Kúbu. Hann hefur hafnað ráðum frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum og Bandaríkjunum og þess í stað hefur hann til að mynda reynt að ná völdum í stærsta olíufyrirtækinu í Venezuela. Þessar aðgerðir Chavez hafa þó nánast ekkert hjálpað hans helstu stuðningsmönnum, sem eru þeir allra fátækustu í Venezuela.

Þrátt fyrir það, þá nýtur Hugo í dag töluverðs stuðnings. Stuðningur hans hefur þó minnkað úr yfir 60 prósentum niður fyrir 35 prósent. Hans hörðustu stuðningsmenn halda þó tryggð við hann einfaldlega vegna þess að þeir sjá ekki að neinn annar muni sinna þeirra vandamálum eða sé jafn annt um þeirra vandamál einsog Chavez. Fyrir þeim þá var valdaránstilraunin tilraun til þess að færa sig aftur í tímann, aftur til þess tíma þegar flokkarnir tveir réðu öllu. Þetta fólk hefur enga ástæðu til að þrá afturhvarf til þess tíma.

Valdaránið

Í nýlegri ritgerð, sem ég skrifaði hélt ég því fram að lýðræðið í Suður-Ameríku væri á viðkvæmu stigi en þrátt fyrir það væri það sterkara en oftast áður. Besta dæmið um það er ástandið í Argentínu. Þrátt fyrir hrikalegt ástand þá óttaðist fólk aldrei að herinn myndi taka við völdum. Fyrir 15 árum hefði verið öruggt að herinn hefði gripið inní. Því kom það manni auðvitað dálítið á óvart að herinn skyldi grípa inní í Venezuela. Það mátti þó búast við þessum atburðum því yfirmenn í hernum hafa verið ósáttur í meira en ár. Aðalmálið fyrir þá var að hermenn voru látnir vinna í vegavinnu og í að hjálpa þeim fátæku. Einnig hafði Hugo Chavez stutt skæruliða í Kólumbíu, sem gerði ástandið við landamærin erfitt.

Mikið hefur verið gert úr þátti Bandaríkjanna í hinni misheppnuðu valdaránstilraun fyrr í þessum mánuði. Þeir á Múrnum gengu svo langt að líkja stuðningi Bandaríkjanna við valdarán, sem framin voru gegn Allende í Chile og Arbenz í Guatemala. Það er þó fáránlegur samanburður. Í þeim tilfellum var CIA öflugur þáttakandi í valdaránunum. Í Venezuela var hins vegar eina sök Bandaríkjamanna að fordæma ekki strax valdaránið. Ég skal þó taka fram að þrátt fyrir að ég verji Bandaríkjamenn í flestu, sem þeir Múrsmenn gagnrýna þá fyrir, þá fannst mér viðbrögð Bandaríkjamanna í þetta skiptið ekki vera til fyrirmyndar. Þeir hefðu auðvitað átt að taka strax fram að þeir myndu ekki viðurkenna valdaránið.

Það er þó ljóst að dagana fyrir valdaránið brást Hugo Chavez þegnum sínum. Í fyrsta skipti voru mótmæli barin niður og fjölmiðlum var lokað. Mótmælin fyrir og eftir valdarán sýna augljóslega hversu gríðarlega mikið bil er á milli stuðningsmanna og andstæðinga Chavez. Hann gerir sér þó grein fyrir því í dag að hann er ekki nærri því jafnvinsæll og hann var fyrir fjórum árum.

Hugo Chavez hefur mistekist að bæla niður spillingu eða bæta efnahaginn. Því hefur hann algjörlega brugðist stuðningsmönnum sínum. Það er ljóst að ef að ástandið breytist ekki fljótlega í Venezuela munu jafnvel hörðustu stuðningsmenn Chavez yfirgefa hann.