Iceland Express og DV

Hvaða bjánaskapur er þetta eiginlega?: [Iceland Express hættir sölu á DV og Hér & nú](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1146365)

Ég nenni ekki að blaðra um þetta Hér og Nú mál. [Stefán Pálsson](http://kaninka.net/stefan/012779.html) og [Badabing](http://www.badabing.is/arc/002755.html#002755) fjalla skemmtilega um það mál. En mikið afskaplega finnst mér þetta nú hallærislegt hjá Iceland Express.

Hvaða tilgangi þjónar þessi ritskoðun Iceland Express? Þeir eru að takmarka úrval í flugvélunum sínum en ákveða samt að auglýsa það upp í Morgunblaðinu. Hver er tilgangurinn með því? Eru þeir að reyna að skora stig hjá almenningi með því að vera flugfélag, sem er á hærra siðferðislegu plani en flestar matvöru- og bókabúðir í landinu?

Talsmaður IE segir:

>Birgir segir að Iceland Express selji vel yfir tvö þúsund eintök af DV á mánuði. “Farþegar okkar hafa enga valkosti um hvort þeir sjá forsíðuna eða ekki þar sem gengið er með blaðið um gangana. Við viljum þá frekar selja vöru sem fólki líkar betur og er þar af leiðandi betri fyrir okkur,

“viljum þá frekar selja vörur sem fólki líkar betur”!!! Tvö þúsund manns keyptu DV af Iceland Express af fúsum og frjálsum vilja, en nei nei, núna vilja IE bara selja fólki blöð, sem fólkinu sjálfu “líkar betur” við. Hvað voru þessir 2000 einstaklingar, sem keyptu DV, eiginlega að spá? Var þetta fólk að kaupa blað, sem því líkar illa við? Þetta er einhver allra mesta vitleysa, sem ég hef lesið.

Með þessu fordæmi er Iceland Express að fara inná afar vafasama braut ritskoðunnar, með því að selja einungis efni, sem að eigendunum líkar við, ekki efni sem fólkið vill kaupa. Þekkt dæmi um svipað athæfi frá útlöndum er til dæmis sú ritskoðun, sem [Wal-Mart stendur fyrir á geisladiskum og annarri vöru í sínum búðum](http://www.pbs.org/itvs/storewars/stores3_2.html#censor). Sú ritskoðun fer fram með nákvæmlega sömu formerkjum, það er að Wal-Mart þykist vera að gera það, sem að viðskiptavinirnir vilja. Sem er náttúrulega tómt bull. Eflaust er einhver hópur viðskiptavina, sem fer í fýlu yfir því að sumir hlutir séu til sölu, en það er ekki hægt að réttlæta ritskoðun með því. Ég vil til að mynda helst ekki að Man U bolir séu til sölu í búðum, en það myndi engum verslunum detta í hug að hætta að selja þær treyjur bara vegna þess að ég fæ sviða í augun þegar ég sé þær treyjur inni í versluninni.

Iceland Express er ekki að gera þetta til hagsbóta fyrir sína viðskiptavini. Svo einfalt er það. Ég vona að fólk sjái þetta bara fyrir það, sem það er í raun. Flugfélag ritskoðar það, sem það selur, og reynir svo að nýta sér ritskoðunina sér til hagsbóta með því að þykjast vera einhverjir sérstakir siðferðispostular.

14 thoughts on “Iceland Express og DV”

 1. Orðið “ritskoðun” kemur ansi oft fyrir í þessum pistli þínum. Ég get persónulega ekki séð neitt að því að einkaaðilar “ritskoði” það sem þeir bjóða upp á, sérstaklega ekki þegar þeir viðurkenna það og jafnvel auglýsa opinberlega.

  Verra er þegar ríkið er farið að ritskoða, en það er sem betur fer ekki tilfellið í þetta sinn. Þess vegna er ég mótfallin því að svona fréttaflutningur verði “bannaður” eitthvað frekar en er í dag, finnst hinsvegar í góðu lagi að fólk og félög mótmæli með þessum hætti.

  Frelsi fyrirtækjanna, var það ekki málið? 😉

 2. Ég get heldur ekki betur séð en að þú “ritskoðir” þína eigin síðu, sbr. klausuna hérna neðst.

  Nú er ég hætt! 😛

 3. Ég tek undir með Arndísi. Það er algjörlega réttur Iceland Express hvað þeir kjósa að selja í sínum flugvélum. Ef ég t.d. ræki íþróttavöruverslun myndi ég kjósa að selja ekki vörur tengdar Manchester United, þar sem ég gæti ekki með hreinni samvisku útvegað nokkrum manni svo ljótan klæðnað.

  Myndi ég græða meira á því að hafa Man Utd-vörur í búðinni minni? Já, ekki spurning, en ég fengi samviskubit sem væri ekki peninganna virði.

  Það er algjörlega þeirra réttur að ákveða hvað þeir selja og hvað ekki – dagblöðin og vikutímaritin eru þar engin undantekning. Og, í ljósi umræðna síðustu daga, held ég að það sé vel skiljanlegt af hverju þeir ákváðu að hætta sölu á þessum sneplum.

  Sama gildir um Wal-Mart. Þeir selja bara ritskoðaða og/eða “hreina” geisladiska (s.s. ekkert blót) og þótt það sé yfirgengilega asnalegt er það þeirra réttur. Ég bjó í Bandaríkjunum og ég heyrði aldrei einhvern Eminem-aðdáanda kvarta yfir því að þurfa að fara yfir í Hastings eða BestBuy til að kaupa plötu með kappanum …

 4. Ok, ég skal leggja þetta upp svona.

  Ef að eigendur Iceland Express væru hægri sinnaðir og Blað X væri mjög vinstri sinnað blað. Finndist ykkur í lagi að Iceland Express myndi neita að selja Blað X, þrátt fyrir að 2000 manns kaupi það að meðaltali í mánuði, bara vegna þess að Blað X er vinstri sinnað?

  Fyrir mér þá setur þetta verulega slæmt fordæmi. Iceland Express má hætta að selja DV vegna slæmrar sölu, en það er hæpnara þegar það er einungis vegna þess að eigendum þóknast ekki efnið. Það er voðalega auðvelt þegar þetta er blað, sem fólk er voðalega reitt útí akkúrat núna, en þetta setur slæmt fordæmi. Mjög slæmt. Það á að leyfa fólki að velja hvaða blað það vill lesa! Ef fólk hefur eitthvað á móti Hér & Nú þá á það að sleppa því að kaupa það, en endursöluaðilar eiga ekki að taka þær ákvarðanir fyrir okkur.

  Og af hverju þurftu þeir líka að augýsa að þeir væru hættir að selja blaðið?

 5. ég sem hélt þú værir svo algjör íslensku séní.. sá smá villu þarna hjá þér í ummælum… ath hvort þú rambir ekki á hana sjálfur 😉

 6. “Ef að eigendur Iceland Express væru hægri sinnaðir og Blað X væri mjög vinstri sinnað blað. Finndist ykkur í lagi að Iceland Express myndi neita að selja Blað X, þrátt fyrir að 2000 manns kaupi það að meðaltali í mánuði, bara vegna þess að Blað X er vinstri sinnað?”

  Mitt svar: Já, algerlega, einkum ef IE auglýsa það. Þá get ég, ef ég sem vinstrimaður móðgast svakalega, annaðhvort keypt vinstriblaðið X bara ÁÐUR en ég fer í flugið eða bara flogið með Hundleiðum.

  Ástæðan fyrir því að þeir auglýsa þess ákvörðun sína er sú sama og er fyrir því að þeir tóku hana: til að mótmæla.

  Niðurstaða: Í góðu lagi, hvernig sem á það er litið. Við getum enn keypt blaðið þó þeir kjósi að selja okkur það ekki.

  “Það er voðalega auðvelt þegar þetta er blað, sem fólk er voðalega reitt útí akkúrat núna, en þetta setur slæmt fordæmi. Mjög slæmt.”

  Slæmt dæmi fyrir hvað? Önnur fyrirtæki? Öll fyrirtæki í landinu mega fyrir mér hætta að selja þessi blöð, ja, eða vinstriblaðið X, ef þau kjósa að gera slíkt. Ég kaupi þau þá bara hjá framleiðanda, eða eitthvað.

  Ekki myndirðu þó vilja banna þeim að velja þær vörur sem þau selja?

 7. >Slæmt dæmi fyrir hvað?

  Með fordæminu þá á ég við að ef menn byrja að taka blöð einsog Hér og Nú úr sölu, þá er ekkert sem hindrar menn í að taka blöð úr sölu útaf öðrum ástæðum einsog blótsyrðum, stjórnmálaskoðunum og öðru.

  Og Hjördís, það eru ábyggilega fleiri en ein villa í þessu kommenti, þar sem það var skrifað á miklum hraða og er ekki mjög vel skrifað. Var eitthvað sérstakt, sem þú hafðir í huga? 🙂

 8. jú jú… ég var bara með finndist, sem á jú auðvitað að vera fyndist 😉

  ekkert stórvægilegt svo sem… bara smá gestaþraut svona :biggrin:

 9. Ég man nú eftir því að um daginn kom Office One í fréttirnar af því að þeir tóku þá afstöðu að selja ekki klámblöð í hillum sínum. Þar var þeim hrósað hástöfum og var þakkað fyrir gott framtak.

  Ég sé engan mun á því sem IE gerir og Office One. Þau hafa fullan rétt á þessu. Hvort þetta sé siðlaust, rangt, rétt, asnalegt og svo framvegis verður að vera okkar að hneykslast á, kvarta undan eða hrósa. En réttinn hafa þeir.

 10. Þetta sýnir bara sorpriti eins og DV að þú átt ekki að fokka í Bubba. Væri mun jákvæðara að taka Eirík Jónsson og hýða hann á almenningstorgi. Finnst líka vera þokkaleg ritskoðun að það sé ekki boðið uppá Playboy í millilandaflugi :tongue:

 11. Barbietec – já, ég veit að þeir hafa réttinn. Ég hins vera leyfi mér að hneykslast á þessu. Mér finnst það líka asnalegt að ef það er markaður fyrir klámblöðum í Office One að búðin selji þau ekki.

  Og þetta með Playboy í flugvélum eru náttúrulega mannréttindabrot.

  Annars gaman að heyra að þú ert á lífi, Genni 🙂

 12. Ég er eiginlega sammála báðum. Finnst frábært að flugfélagið þori yfirhöfuð að gera þetta og fara með það í blöðin í stað þess að finnast þetta súrt og gera ekkert….þ.e. ef þeir voru í alvöru ósáttir við umfjöllun blaðanna og eru ekki bara í PR stunti til að græða auka 15 farþega.

  En hey, er þetta ekki líka það sem við þurfum? Fólk sem þorir að mótmæla?

  Ætti hringveginum ekki að vera lokað af vörubílstjórum sem sturta niður hlassinu og keðja sig við dekkin? Eða 15.000 manns að hjóla upp Laugaveginn og inní Kringlu? Það hljóta ansi margir að vera fúlir yfir bensínverðinu, en það þorir bara enginn að gera neitt. Veit vel að við erum að tala um ritskoðun, en meginmálið er að einhver taki af skarið og tali a.m.k. nógu hátt svo aðrir heyri til og viðri líka sýna skoðun.

  Hvað músíkina varðar þá eru alflestir rappdiskar ritskoðaðir erlendis en einfaldlega gefnir út í tveimur útgáfum, dónó og ódónó. Sem neytendur ættum við að hafa jafnan aðgang að báðum útgáfum og velja sjálf hvora við viljum, en þá er málið bara að labba útúr þeirri verslun sem selur ekki okkar útgáfu og kaupa hana annars staðar, eða fljúga með öðru flugfélagi.

  En hvað ef Iceland Express hefði aldrei hafið sölu á Hér og Nú? Hefði fólk þá tjúllast?

  Og ef Grænn kostur vill ekki selja Lion Bar afþví hann er svo óhollur, er það ekki bara í lagi?

 13. Jammm, ég skil mjög vel afstöðu þeirra, sem verja þetta hjá IE. Ég er bara ekki sammála þeirri afstöðu. Undirstöðuatriðið var að 2000 manns voru að kaupa DV í hverjum mánuði hjá IE, þannig að eftirspurnin var raunveruleg. IE á að mínu mati að þjóna viðskiptavinum sínum sem best og það gera þeir með því að bjóða þeim uppá þá vöru, sem þeir vilja kaupa.

  Það er allavegana mín skoðun og ég held að ég verði bara að vera sammála um að vera ósammála ykkur hinum 🙂

Comments are closed.