Kappræðurnar

Ég horfði á kappræðurnar milli Bush og Kerry um helgina. Samkvæmt [könnunum Newsweek]( http://www.msnbc.msn.com/id/6159637/site/newsweek/), þá eru yfir 60% kjósenda á því að Kerry hafi unnið kappræðurnar. Ég get ekki annað en verið þeim hjartanlega sammála.

Ég reyni alltaf að sannfæra sjálfan mig um að vanmeta ekki George W. Bush með því að halda að hann sé vitlaus. En þegar maður horfir á hann í 90 mínútur, endurtakandi 4 punkta, sem aðrir skrifuðu greinilega fyrir hann, þá getur maður ekki að því gert að halda að hann sé ekki heill. Einsog Newsweek [benda á](http://www.msnbc.msn.com/id/6152186/site/newsweek/), þá er ágætis ástæða fyrir því að Bush heldur nánast aldrei blaðamannafundi. Hann er hreinlega ekki uppá sitt besta þegar öll spjót beinast að honum. 90 mínútur af George W. eru ansi langur tími.

Á tíðum var nær óbærilegt að horfa á Bush. Þegar hann var spurður hvort Írak væri virði þeirra bandarísku lífa, sem hann hefur fórnað, þá komhann með einhverja 2 mínútna ræðu um að hann hafi hitt einhverja ekkju í Norður Karólínu og hvernig hann hafði huggað hana, í stað þess að svara spurningunni. Bush var einnig greinilega ákveðinn í að hamra á því, sem hann heldur að sé sinn stærsti kostur, það er að hann skiptir aldrei um skoðun. Sama hversu vitlaus hans stefna hans er, þá álítur hann það algjörlega nauðsynlegt að skipta ekki um skoðun. Það að skipta aldrei um skoðun verður í mínum augum aldrei mannkostur.

Bush hamraði á því að Kerry skipti oft um skoðun varðandi stríðið í Írak. Bush er auðvitað að skjóta úr glerhúsi, því Bush sjálfur hefur skipt um ástæðu fyrir stríðinu margoft. Fyrst voru það gereyðingarvopn, svo að útrýma pyntingarklefum Saddam, svo að koma með lýðræði og kosningar til Írak og núna væntanlega eitthvað nýtt.

Það eina, sem ég skil ekki eftir þessar kappræður er það hvernig í ósköpunum fólk gat í upphafi sagt að þetta hafi verið jafnt. Kerry vann þetta með yfirburðum! Hvernig getur fólk séð þetta öðruvísi? Er ég orðinn svona blindaður af áliti mínu á George W. Bush að ég sjái ekki eitthvað, sem aðrir sjá? Kannski. En ég hef aldrei á ævinni verið jafnviss í pólitík og ég er í þeirri sannfæringu minni að John Kerry verði betri forseti en George W. Bush. Við skulum bara vona að þessar kappræður hafi verið upphafið á nýrri sókn Kerry.

Já, og eitt að lokum: [You forgot Poland](http://www.youforgotpoland.com/)

9 thoughts on “Kappræðurnar”

 1. Andskotans Ríkissjónvarpið! Er ég sá eini sem horfði ekki á þetta af því að þetta var hvergi auglýst??

  Í alvöru … ég bjóst við að þetta yrði sýnt á Ríkis og ákvað að skoða blöðin, sjónvarp.is og textavarpið til að sjá hvenær þetta yrði sýnt. Það kom hvergi fram að þetta væri á dagskrá, þannig að ég hugsaði með mér að kannski mættu þeir ekki sýna þetta þar sem þetta væri í beinni á CNN á Fjölvarpi Norðurljósa.

  Og ég er ekki með Fjölvarpið þannig að ég fór bara að sofa í staðinn. Vaknaði daginn eftir, fór út úr húsi og komst að því að það voru allir nema ég búnir að vaka nóttina áður og horfa á þetta.

  Helvítis.

  Vitiði nokkuð hvort það er hægt að nálgast þetta á netinu? Ég er að drepast úr forvitni að sjá þessar kappræður, og Gvöð veit að ég verð vakandi á fimmtudaginn kemur!

  Einnig: hvenær gleymdi hann Póllandi? Care to elaborate?

 2. Það má nálgast kappræðurnar á C-Span, nánar tiltekið á [þessari síðu](rtsp://cspanrm.fplive.net/cspan/project/c04/c04093004_debate1.rm). Ef þetta virkar ekki núna, fariði bara á C-span.org, þetta er þarna undir Video Library (Politics/Elections).

  Bush minntist tvisvar á Pólland til að sýna að bandalag hans fyrir árásina á Írak var ekki bara hann og Bretland. Það var einmitt gert mjög skemmtilegt grín að þessu í Daily Show þættinum, sem ég benti þér á, Kristján.

 3. Málið er bara að Kanar kjósa ekki endilega þá sem þeir telja hæfasta heldur þá sem þeim finnst “þægilegastir” fullt af fólki finnst Bush þægilegur af því að hann talar eins og það. Enginn óþarfa orðaforði o.s.frv.

  Þar að auki finnst mörgum, hvort sem þeir eru Bush eða Kerry stuðningsmenn að Kerry sé of fastur í að gagnrýna Bush, frekar en að koma með uppbyggilegar hugmyndir. Sem er náttúrulega örugglega alltaf málið með menn sem fara á móti ríkjandi forseta….. just my 10cents….

 4. mér hefur einmitt fundist bush gera lítið annað en að skjóta á kerry… alltaf að minnast á það hvað hann breyti nú oft um skoðun…

  bush gerir náttúrulega ekki svoleiðis…??? t.d. með osama bin laden… sagði í marga daga að hann væri efstur á forgangslista bandaríkjastjórnar… að það yrði að finna manninn og leiða hann fyrir dóm… svo ákvað hann allt í einu að osama skipti bara engu máli… hann hefði ekki hugmynd um hvar hann væri og væri í raun alveg sama… það var greinilega ekki hans skoðun lengur að osama væri mesta ógnunin við bandaríkin…

  ég get bara ekki ýmindað mér að heimurinn muni gera neitt annað en að halda áfram að versna ef bush heldur áfram að stjórna þessu landi… 🙁

 5. Mér finnst þetta vera hæpið hjá þér Erna varðandi að fólk sé þreytt á því að Kerry sé að skjóta á Bush.

  Það, sem mér fannst einmitt áberandi meðan ég var úti var að kosningabaráttan snérist eingöngu um árásir á Kerry. Bush hefur ákaflega lítið til að monta sig af eftir þessi 4 ár og þess vegna snérist baráttan um árásirnar á Kerry.

  Að mínu mati eiga kosningar, þar sem núverandi forseti er í framboði, einna helst að snúast um árangur hans og hvort fólk vilji halda áfram á sömu braut. Repúblikanar hafa hins vegar forðast það einsog heitan eldinn að fjalla um árangur Bush. Í stað þess hafa þeir ráðist á Kerry með ómálefnalegum hætti og dregið fram einhverja ímyndaða mannkosti Bush, einsog þá að hann skipti aldrei um skoðun.

 6. Takk fyrir linkinn. Nú er ég búinn að horfa á þetta og ég verð að segja að það kom mér á óvart … eftir allt umtalið … að Bush var ekki svo slæmur í þessum kappræðum.

  Hann er ekki vitlaus. Kerry var vissulega nákvæmari, skipulagðari og virkaði traustari, öruggari og ákveðnari. En Bush er sniðugur, hann talaði til þjóðarinnar, hélt sig á almennum nótum og talaði mikið um “the people” og “the loved ones” og “how’s that gonna support the troops?”. Þetta eru allt saman stikkorð sem fólkið í Bandaríkjunum hlustar á.

  Og sagan hans af Missy í Norður-Karólínu átti bara að koma einu á framfæri: Ég er Bush forseti og ég er í góðu sambandi við þegna Bandaríkjanna.

  Og það tókst.

  Þannig að þótt Bush hafi gert mistök í þessum kappræðum, þótt hann hafi verið talsvert lakari aðilinn, þá kom það mér á óvart eftir allt umtalið að hann var ekki verri en raun bar vitni.

  Ég held að það sem hafi komið áhorfendum mest á óvart í þessum kappræðum hafi verið það hvað Kerry var góður. Hann var algjört súper í þessum kappræðum! Hann stútaði “flip flop” ásökunum Bush á fyrstu 20 mínútunum, og samt hélt Bush áfram að skjóta út í loftið að hann skipti alltaf um skoðun.

  Hann var rosalega öruggur, málefnalegur og sterkur fannst mér í þessum kappræðum. Meðal sterkustu punkta Kerry voru:

  1: “I made a mistake in evaluating the WMDs. The President made a mistake in invading Iraq. Which is worse?”

  2: “I’ve been working with these foreign leaders for over 20 years now – longer than the president has – and I know what they’re saying about this war today!

  3: “As a person who’s been to war, I can’t understand how you could go to a pre-emptive war in Iraq the way this President did!”

  4: “He has not held one summit! You need to include the nations of this world in a major event like this, and this President has not done that!”

  5: “The President sent ten-times as many troops to Iraq as he sent to Afghanistan. Yet Osama Bin-Laden is still out there, uncaptured. Does that mean Saddam Hussein is ten-times as important as Osama Bin Laden in the war on terror?”

  Átsj!

  Þetta fannst mér allavega sterkustu punktarnir hans. Hlakka til að sjá næstu kappræður. 🙂

 7. Einar, það sem ég er að segja er bara það sem ég heyri frá Bandaríkjamönnum í kringum mig. Málið er bara að Bush kemst einhvern veginn upp með hluti sem enginn annar gerir, það er oft eins og að fjölmiðlarnir vinni með honum en ekki á móti.

  Ég vinn með hörðum Kerry stuðningsmönnum, og þeim finnst hann gera of mikið af því að segja hvað Bush gerir vitlaust, og ekki fókusa nóg á hvað hann ætlar að gera sjálfur.

  Fólk hefur líka mikið gagnrýnt Kerrý fyrir að hafa sagt á flokksþingi Demókrata að hann ætlaði að vera á jákvæðu nótunum í kosningabaráttunni, en að hann hafi svo á innan við viku verið kominn á fullt í “Bush bashing”.

  Persónulega er mér alveg sama hvort Kerry gagnrýni Bush eða ekki, en hins vegar hef ég heyrt fleiri en einn óákveinn kjósanda segja að þeim finnist Kerry of neikvæður.

  Það verður gaman að sjá orrustuna á milli þeirra í næstu kappræðum, því að hryðjuverkarstríðið er sterkasta hlið Bush. Gallinn er hins vegar bara sá að síðustu tvær kappræðurnar hljóta venjulega ekki mikð áhorf, a.m.k. ekki miðað við þær fyrstu.

  En hver veit, það er óvenju mikill áhugi á kosningunum hér núna, þannig að það gæti í raun hvað sem er gerst…..

 8. Erna, er ekki löngu sannað að eina leiðin til að ná eyrum fólks í USA (og þá meina ég ekki hugsandi minnihlutans) sé að vera með extreme áróður. Þess vegna fílar fólk Mike Moore og Fox News.

  Mín tilfinning er amk. sú að ótrúlega mikill fjöldi fólks hegði sínum ákvörðunum eftir því hvað stendur á forsíðu News Of The World. Kerry er búinn að ná til þeirra sem hugsa. Bush-Bashing gengur út á að ná til hinna :o) Pæling í morgunsárið

Comments are closed.