Klámfengin bjórauglýsing?

Ég ætlaði að skrifa um fréttina á Stöð 2 um bjórauglýsingu Faxe ([sjá frétt hér](http://media.gagna.net/uskefnistod2/clips/2004_12/1546/frett12.wmv)), þar sem talsmaður femínista sagði auglýsingu frá Faxe bjór vera að ýta undir klámvæðingu og að auglýsingin gefi í skyn að það sé í lagi að hella stelpur fullar til þess eins að ná þeim í bólið.

Ég er löngu hættur að furða mig á viðkvæmni femínista, en ætlaði þó að skrifa um þetta mál. Ég komst svo að því í morgun að [Stefán Pálsson skrifar akkúrat það, sem mig langaði að skrifa um málið](http://kaninka.net/stefan/011604.html). Ég mæli með grein hans.

Það er fáránlegt að túlka það svo að áfengi sé eitthvað, sem karlmenn noti bara til að ná til sín saklausum stelpum í bólið. Femínistar vilja alltaf túlka hlutina á versta veg, en heimurinn er ekki svo einfaldur.

Er það nefnilega ekki málið að stelpur nota áfengi til að losa um hömlur alveg einsog strákar? Ég hef ekki orðið þess var að það þurfi mikið átak hjá okkur körlum til að hella íslenskar stelpur fullar, þær sjá alveg fyrir því sjálfar. Ég veit að nokkur af þeim samböndum, sem ég hef verið í, hafa byrjað þegar áfengi hefur verið haft um hönd. Í nokkrum tilvika var það áfengi, sem hjálpaði viðkomandi stelpum að fá í sig kjark til að taka af skarið og einnig hefur það hjálpað mér.

Ég spyr þá, er eitthvað að því? Einsog Stefán [skrifar](http://kaninka.net/stefan/011604.html): *”Fólk má alveg hafa þá skoðun að æskilegast væri að öll pör kynntust í strætó eða yfir kakóbollum – en það er fráleitt að loka augunum fyrir veruleikanum.”*

8 thoughts on “Klámfengin bjórauglýsing?”

  1. Menning ungra íslenskra karlmenna í hnotskurn árið 2004 sést vel á þessari mynd:

    Hér er pistill sem ég skrifaði á sínum tíma um þá lágkúrulegustu og lymskulegustu bjórauglýsingu sem ég hef sjéð:
    Bjórauglýsing á reykjavik.com

    Ég hef ekki séð þessa brjóstahaldaraauglýsingu en mér heyrist að hún sé býsna saklaus miðað við það sem ég hef séð á Netinu… og auðvitað er miklu fólk í miklu betra standi við að leysa slík tæknileg stórvirki ef það er edrú. En ég vil benda á hve vímuefnaneysla er samofin þeirri sjálfeyðingarhvöt og taumlausri neysluhyggju sem einkennir íslenska æskulýðsmenningu í dag – sérstaklega menningu íslenskra karlmanna. Mér finnst þetta viðbjóðslegt og sjást best í árshátíðarlagi MR og svo í myndum frá karlakvöldi strákanna í Verkmenntaskólanum á Akureyri, sjá myndir hér:
    Myndir frá karlakvöldi VMA

    Er þetta karlmennskan í dag?
    Ég held reyndar ekki að þetta hafi breyst neitt sérlega mikið síðan ég var á þessum aldri nema þá voru brenndir drykkir þ.e. vodka í kók í staðinn fyrir bjórinn. En þetta er viðbjóðsleg menning og mannskemmandi. Ég íhuga nú að flytja frá Íslandi til að dóttir mín alist ekki upp í svona kúltúr. Einhver herkóngur sagði fyrir mörgum öldum að engin borgarmúr væri svo rammgerður að asni klyfjaður gulli kæmist ekki þar yfir. Kannski ætti frekar við í dag að segja að engin menning smáþjóðar sé svo sterk að estóniumaður með smokka fulla af dópi í innyflunum geti ekki sprengt hana í loft upp.

  2. Bíddu, Salvör, ég kem með nokkra punkta um það að stelpur séu nú ekki allra manna saklausastar í þessum málum og þá bendir þú á eitthvað bjórkvöld hjá VMA! Hvað á það að sanna? Að það eru til vitlausir krakkar á Íslandi í dag?

    Hvað hafa þessar bjórkvöldsmyndir með efnið mitt að gera? Auðvitað eru fullt af fólki, sem kann ekki að meðhöndla áfengi, en það þýðir þó ekki að stimpla alla.

    Þetta er nákvæmlega það, sem ég var að gagnrýna í boðskap femínista, það er að þið finnið alltaf verstu hugsanlegu hliðar á málunum og stimplið alla út frá því. Þannig að ef einhverjir krakkabjánar á Akureyri gera eitthvað á einhvern hátt, þá hlýtur það að gilda um alla og er auðvitað augljóst merki um hnignun íslensks samfélags. Eða hvað?

    Hvert ætlar þú að flytja með dóttur þína? Hvar er þetta svona miklu betra en á Íslandi? Ég hef nú kynnst ungmenningu í ansi mörgum löndum og sé engin merki neinnar sérstakar hnignunar á Íslandi umfram aðra staði.

    Og eitt enn, er það eitthvað sérstakt takmark femínista að [ergja](http://www.feministinn.is/umraedur/viewtopic.php?t=571) fólk? Væri ekki frekar takmarkið að reyna að vera með vitræna umræðu í stað þess að eyða púðrinu í að reyna að ergja aðra? Hvers vegna þarf að taka það fram að ég er sá, sem stjórnaði Yorkie herferðinni? Er það til þess að tryggja að mínar skoðanir séu lesnar með ákveðnum gleraugum?

  3. Hvernig var nú aftur málshátturinn með rónann og áfengið…?

    Annars finnst mér verst við áfengisauglýsingar, sérstaklega erlendar, hversu vitlausar þær eru. Þetta er auðvitað ekkert einskorðað algjörlega við áfenga drykki. Hver leitar ekki að fjarstýringunni þegar Mountain Drew er auglýstur með brimbrettaeldgosum? Það versta við þessar auglýsingar er að þær eru svo vitlausar. Það er hægt að auglýsa áfengi með skemmtilegum, óvitlausum hætti. Lítið á THULE! Absolut vodkinn var líka með velheppnaða herferð hérna um árið í blaðaauglýsingum þar sem m.a. flöskurekki Duchamps var endurgerður.

  4. Ég móðgaðist alveg rosalega mikið þegar ég sá þessa auglýsingu!

    Ég er karlmaður í sambúð með konu og ég hef aldrei lent í vandræðum með að opna smelluna á bakhlið brjóstahaldara konu minnar. Ég get gert það með tveimur fingrum, tveimur höndum og jafnvel þótt ég sé edrú.

    Því fannst mér verið að tala allsvakalega niður til mín með því að gefa það í skyn að ég, sem ungur karlmaður á Íslandi árið 2004, þyrfti (a) lítinn hjálparsvein eða (b) Faxe bjór til að geta losað um brjóstahaldara konu minnar.

    Mér þykir leitt hvernig talað er jafnan niður til karlmanna þegar kemur að kynlífi í fjölmiðlum og víðar í nútímanum. Það virðast vera sjálfgefin tengsl á milli kynlífs karls og konu og þess að viðkomandi karlmaður lendi í vandræðum með eina litla, einfalda smellu. Hér er greinilega lítið gert úr vitsmunum karlmanna og því þori ég að fullyrða að fyrrnefnd bjórauglýsing hljóti að hafa verið gerð af kvenfólki sem hefur áhuga á að gera lítið úr vitsmunum karlmanna, sem og stjórn þeirra á eigin fingrum!

    Vissulega eru einhverjir karlmenn sem lenda í vandræðum með þessa blessuðu smellu á brjóstahöldurum. Sumir fullorðnir karlmenn kunna líka ekki að beygja sögnina ‘að hlaupa’ og segja ‘ég hleypti’ í þátíð – en það er ekki þar með sagt að allir karlmenn eigi við þennan vanda að stríða!

    Mig langar að koma þeim skilaboðum á framfæri við auglýsendur á Íslandi, vinsamlegast, að hætta að gera lítið úr gáfum karlmanna, að hætta að fella okkur alla undir sama hatt og hætta að gera ráð fyrir því að við kaupum hvaða vöru sem er, svo lengi sem stórbrjósta kona í bikiní hampi henni í auglýsingu.

    Ég er móðgaður Salvör. Skilurðu hvað ég meina?

  5. Ekki skil ég hvernig nokkur maður getur skilið þessa auglýsingu sem persónulega aðdróttun að hann geti ekki opnað brjóstahaldara. Mér finnst það hreinlega absúrd. Skilurðu þá næstu auglýsingu, þar sem hann er í marki í fótboltaleik þannig að það sé verið að ráðast á hæfileika karlmanna (nú eða kvenna, sjitt maður, ekki væri það betra) til að spila fótboltaspil? Sigh..

  6. Mummi, nema að ég hafi misskilið hann Kristján stórkostlega, þá var þetta ætlað *sem djók* hjá honum. Mér fannst það nokkuð augljóst, er það ekki? :confused:

  7. Er það ekki augljóst?

    Mitt point var bara það að ef menn vilja geta menn lesið hvað sem er út úr svona auglýsingu. Ef þú ferð í gegnum auglýsingar í dag ákveðin(n) í því að finna vísbendingar/sannanir um kúgun karla í þjóðfélaginu þá geturðu auðveldlega gert það. Þannig er hægt að segja að það sé verið að tala niður til gáfnafars karla í hvert sinn sem fáklædd kona hampar vöru í auglýsingu, að með því sé verið að gefa það í skyn að við getum ekki ákveðið okkur nema að sílíkonbrjóst hjálpi okkur með það.

    Það var nú bara það sem ég var að reyna að benda á.

  8. Ég biðst afsökunar. Þegar kemur að “klámfengnum” auglýsingum og viðbrögðum fólks við þeim finnst mér öll viðbrögð og engin vera augljóst grín.

Comments are closed.