Leitin að hinu jákvæða við kreppuna

Þessi grein eftir mig birtist líka á Vefritinu.

Ég nenni ekki að skrifa mikið um Davíð.  Ég er alinn upp af Íhaldsfólki og fílaði Davíð alveg þangað til að ég varð nógu gamall til að mynda mér nokkuð sjálfstæðar skoðanir og ég hafði upplifað heiminn utan Íslands.

Vandamálið við Davíð er einfaldlega að ég var *fimm ára* þegar að Davíð varð borgarstjóri.  Ég var nýfermdur þegar að hann varð forsætisráðherra og síðan þá hefur hann stjórnað umræðunni á Íslandi.  Kærastan mín er nokkrum árum yngri en ég og hún man einfaldlega ekki eftir öðrum tímum en þeim sem að Davíð hefur stjórnað öllu á.

Ég er einfaldlega búinn að fá nóg.  **John Major** var forsætisráðherra í Bretlandi þegar að Davíð tók við á Íslandi.  George Bush **eldri** var forseti í Bandaríkjunum þegar að Davíð tók við sem forsætisráðherra okkar.  Síðan þá eru Bandaríkjamenn búnir að fá 8 ár af Bill Clinton, 8 ár af George W. Bush og horfa núna bjartsýnum augum fram á nýja tíma undir stjórn Barack Obama.

Bandaríkjamenn hafa Obama.  Við erum hins vegar föst í umræðunni um Davíð.

Ef ég mætti biðja um eitt í íslenskum stjórnmálum, þá væri það að umræðan myndi byrja að snúast um eitthvað annað en það hvort að Davíð Oddson hafi rétt eða rangt  fyrir sér.  Ég var fjórtán ára þegar sú umræða byrjaði og ég er orðinn **31 árs** gamall í dag.  Ég er orðinn þreyttur á þessu.  Ísland þarf á einhverju nýju og fersku að halda.  Það er enginn stjórnmálamaður svo ómissandi að allt þurfi að snúast um hann í 26 ár.  Ekki Bill Clinton, ekki George W Bush, ekki Tony Blair og ekki heldur Davíð Oddson.

* * *

En það er hálf kjánalegt að kvarta yfir of mikilli umfjöllun um Davíð Oddson með því að skrifa grein, sem fjallar eingöngu um Davíð Oddson.

Það er erfitt þegar svona stóratburðir gerast á okkar tímum bloggsíða og netmiðla að skrifa eitthvað, sem hefur ekki verið skrifað áður.  Ég held að það sé ástæðan fyrir því að margir af mínum uppáhaldsbloggurum hafa nánast ekkert skrifað um kreppuna.  Sumir vinna jú á viðkvæmum stöðum, en ég held að það sé líka svo gríðarlegt framboð af bloggpistlum og greinum að það er nánast bókað að maður gerir lítið annað en að endurtaka eitthvað, sem að einhver Moggabloggari eða Egilskommentari hefur skrifað áður.

Ég ætla því að gera tilraun til að skrifa um eitthvað jákvætt við þetta ástand.  Já, Davíð er enn í Seðlabankanum.  Já, bankarnir eru farnir á hausinn.  Já, Sjálfstæðisflokkurinn ræður enn öllu.  Já, við skuldum núna öll upphæðir sem við gerum okkur ekki almennilega grein fyrir.  En eitthvað hlýtur bara að vera hægt að tína til.  Til að byrja með ætla ég að nefna einn punkt:  Vonandi mun kreppan losa okkur við þá stórfyritækjadýrkun, sem hefur grasserað að undanförnu á Íslandi.

* * *

Ég hef oft borið saman mismun á viðhorfum stjórnmálamanna á Íslandi og þeirra í Bandaríkjunum til smærri og stærri fyrirtækja.  Vissulega hygla þeir í Bandaríkjunum ansi oft stórfyritækjum en í bandaríski stjórnmálaumræðu er það alveg á hreinu að litli fyrirtækjaeigandinn, “small business owner” er kóngurinn.  Hann er drifkrafturinn í efnahagslífinu og hann er sá sem að allir stjórnmálamenn tala um á hátíðsdögum.  Litli fyrirtækjaeigandinn er í betra sambandi við starfsfólkið sitt.  Hann gerir sér grein fyrir að fyrirtæki hans hefur áhrif á samfélagið og honum er oft annt um að láta gott af sér leiða.  Á sama tíma er stórfyrirtækið alþjóðlegt, eigendur og æðstu stjórnendur eru í nákvæmlega engum tengslum við almenning og fjarlægð eigenda frá starfsemi gerir það oft að verkum að gróðasjónarmið verða einu sjónarmiðin í rekstrinum og ofurlaun og bónusar stjórnenda eru í litlu samhengi við mikilvægi starfa þeirra.

Á Íslandi er ekki talað á jafn jákvæðan hátt um litla fyrirtækjakallinn eða konuna.  Oft er talað á niðrandi hátt um eigendur lítilla fyrirtækja.  Þetta eru “sjoppukallar” og “smákóngar”.  Stjórnmálamenn hafa á síðustu árum lagt litla áherslu á að hjálpa þessum aðilum.  Helsta afrekið hefur verið að lækka skatta á fyrirtæki, en það hjálpar langmest stærri og arðbærari fyrirtækjum (einsog t.d. bönkunum) en ekki þeim sem eru að hefja rekstur og þurfa oft að glíma við taprekstur.

Á Íslandi urðu stjórnmálamenn ástfangnir af bönknunum og stóru útrásarfyrirtækjunum.  Þeir voru svo hrifnir að því að við gætum loksins verið stórir kallar.  Við þurftum ekki lengur að vera með minnimáttarkennd.  Litla Ísland var komið með sín fyrirtæki á lista yfir stærstu fyrirtæki í heiminum.  Hvað er gaman að vera við opnun á lítilli búð á Laugarveginum þegar þú getur verið viðstaddur risaopnun á skrifstofu útrásarfyrirtækisins í Kaupmannahöfn?  Stóru fyrirtækin voru kóngarnir.

Og svona breyttist kúltúrinn.  Æðsti draumur flestra samnemenda minna í bandaríska háskólanum mínum var að eignast einn dag sitt eigið fyrirtæki.  Á Íslandi vildi fólk vinna hjá bönknunum.  Þannig drógu þeir besta fólkið til sín og minni fyrirtæki áttu ekki nokkurn möguleika á því að ráða til sín hæfasta fólkið vegna ofurlauna, sem tíðkuðust í bönkunum.  Það skiptir litlu máli fyrir lítil fyrirtæki að skattar á þeim séu lágir þegar að fyrirtækið getur ekki einu sinni mannað allar stöður almennilega.

* * *

Þegar ég kynnti viðskiptahugmynd mína um að opna veitingastað á Norðurlöndunum eftir að hafa í 5 ár rekið með góðum árangri sambærilegan veitingastað á Íslandi var mér sagt af bankanum að verkefnið væri einfaldlega of lítið.  Í alvöru talað, það var svarið sem ég fékk.  Þeir sögðu hins vegar á sama tíma frá verkefni, sem að faldist fólst í því að bankinn lánaði íslensku fyrirtæki í óskyldum rekstri pening til að kaupa 60 útibú af erlendri veitingakeðju.  Það þótti bankamönnum nógu spennandi og stórt.  Skuldsetta yfirtakan var flott – að byggja eitthvað upp frá grunni var “of lítið”.

Er ekki einhver von til þess að þetta breytist.  Allt klára fólkið hjá bönkunum mun ekki hætta að vera klárt þó það missi vinnuna hjá bönkunum og útrásarfyrirtækjunum.  Það finnur sér aðra hluti til að gera, sem hugsanlega skapar meiri og betri tækifæri fyrir Ísland.  Ég þekki fólk úr gömlu bönkunum, sem er strax byrjað að huga að því að stofna ný fyrirtæki.  Og ég þekki líka fólk, sem að vann í bönkunum við að kaupa og selja hluti sem það skildi ekki, einfaldlega vegna þess að bankarnir buðu bestu launin.  Þetta fólk á sér án efa drauma og hugmyndir, sem það getur vonandi komið í framkvæmd.  Það er fyrir öllu að við hlúum að okkar besta fólki, þannig að það geti nýtt sér sinn dugnað, kraft og hugmyndir.  Það hljómar kannski einsog klysja sem er notuð á tyllidögum að við þurfum að styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki.  En bara þótt að þetta sé endurtekið svona oft má þetta ekki tapa merkingunni.  Það er grundvallaratriði

Því tækifærin fyrir okkar litlu þjóð munu ekki felast í því að við öllum vinnum hjá þrem risaálbræðslum eða þrem risabönkum eða einhverju öðru risastóru nýju verkefni.  Nei, þau munu felast í því að við vinnum líka hjá fulltaf litlum fyrirtækjum í mismunandi atvinnugreinum, sem vonandi hafa gæfu til þess að skapa eigendum, starfsmönnum og okkur hinum bjarta framtíð.

7 thoughts on “Leitin að hinu jákvæða við kreppuna”

 1. Maður hefur nú heyrt frá mörgum að stór hluti manna sem hafi unnið í bönkunum hafi líka ekki verið hæfir til verksins.

  Það sem manni þykir líka leiðinlegt er að tveir ríkustu menn landsins stjórna umræðunni einnig að miklu leyti í gegnum blöðin sín.

  Mogginn fjallar bara um það hvað Glitnir er vondur banki, á meðan Fréttablaðið talar bara um það hvað Davíð og Seðlabankinn sé vondur.

  Svo vill stjórnarandstaðan kosningar, bara til að komast til valda. Efast um að þau hafi einhver ráð til að redda málunum.

  P.S. “faldist í því” er kannski rétt í einhverju tungumáli, en svo sannarelga ekki íslensku

 2. Sæll Einar,

  mjög góður pistill hjá þér. Ég hlakka til að sjá greinina þína um ESB.

  Með bestu kveðju,
  Óttar

 3. Bankaliðið er ennþá á sama stað – Það voru ekki topparnir sem misstu vinnuna í uppsagnahrinu síðustu vikna. Það var ekki fólk sem ber ábyrgð sem var látið fjúka. Nei, þeir sem bera ábyrgðina sitja enn sem fastast og gera sitt besta til að hylja eftir sig slóðina.

  Fyrir utan bankastjóra og bankaráð bankanna hefur ekkert breyst. Hver ætlar að rannsaka kaupréttarsamninga allra framkvæmdastjóra bankanna (líklega ca 10 framkvæmdastjórar í hverjum banka) og helstu undirmanna þeirra (líklega 30-50)?

  Enginn… bankaleynd – Snilld

  En eitt er á hreinu og það er að Davíð á ekkert erindi í framtíðina. Tími Davíðs er liðinn. Good riddance

 4. Ef efnahagsstefna Obama er svona góð, ef hverju er þá fjöldaframleiðsla á skuldum hins opinbera og peningum ríkisins ekki tímalaus og eilíf aðgerð til að “örva” hagkerfi? Úbbs, peningar falla víst líka í verði þegar magn þeirra er aukist, rétt eins og gildir um banana og ferðatölvur!

Comments are closed.