Liverpool eftir þrjá leiki

Þá eru þrír leikir búnir í enska boltanum og er Liverpool í öðru sæti. Ég er búinn að horfa á alla leikina í sjónvarpinu, nú síðast á Blackburn-Liverpool.

Ég veit ekki alveg við hverju ég á að búast á þessu tímabili. Ég tel ennþá að Liverpool vanti menn á vængina. Reyndar er Danny Murphy að koma inn gríðarlega sterkur á hægri vængnum og Riise er búinn að skora tvö mörg af vinstri vængnum. Hins vegar var það augljóst í leiknum á móti Blackburn að Damien Duff væri hin fullkomna viðbót við leikmannahóp Liverpool. Hvað eftir annað olli hann Xavier vandræðum á vinstri kantinum og hann átti þátt í báðum mörkum Blackburn.

Draumur minn er að sjá hann í Liverpool búning fyrir helgina, en mér finnst það afar ólíklegt. Ég er sáttur við 9 af 11 stöðum í liðinu. Það er erfitt að styrkja vörnina og sóknarmennirnir eru í heimsklassa. Miðjan er líka sterk með Hamann og Gerrard. Það er svo spurning hvort ekki sé hægt að kaupa sókndjarfa vængmenn. Ef það gerðist þá myndi ég verða talsvert bjartsýnnari.

Annars varðandi leikinn í kvöld, þá var ég sæmilega ánægður. Ég hélt að Liverpool myndi stela sigrinum þegar Riise skoraði seinna mark Liverpool en svo kom einhver óþekktur Ítalabjáni og jafnaði. Ég hafði hins vegar búist við því að þetta yrði erfiður leikur, þar sem Blackburn er með mjög sterkt lið. Ef að þeir halda sínum bestu mönnum ómeiddum, þá geta þeir unnið öll liðin í deildinni.

Á mánudaginn er svo annar erfiður leikur, á móti Newcastle á Anfield. Þá er spurning hvort einhverjir nýjir hafi bæst í hópinn, en frestur til leikmannakaupa rennur út um helgina.