Macy Gray

Þá eru bara þrír skóladagar eftir hjá mér. Helgin er búin að vera mjög fín. Við fórum á fimmtudag á tónleika með Macy Gray, sem voru í Aragon Ballroom. Það kom mér dálítið á óvart að það var greinilega ekki uppselt á tónleikana, en það kom ekki að sök. Fyrst kom fram rappari, sem kallar sig Common og var hann mjög góður. Eftir dálítinn tíma kom svo loks Macy Gray fram á svið. Þessir tónleikar komu mér alveg gríðarlega mikið á óvart. Ég bjóst ekki við miklu en þessir tónleikar voru alveg frábærir. Það er náttúrulega dálítið öðruvísi að fara á tónleika með listamanni, sem hefur bara gefið út eina plötu, en það kom ekki að sök hér. Macy Gray hefur náttúrulega alveg einstaka rödd og sviðsframkoma hennar var frábær. Auk þess var hún með 12 manna hljómsveit, sem fór á kostum.

Á föstudagskvöldið fórum við Hildur svo að sjá “6th Day”, nýju Schwartzenegger myndina, sem var bara fín. Á laugardeginum, eftir að hafa svo horft á Northwestern taka U of Illinois í nefið fórum við svo niður í bæ, þar sem jólavertíðin var að byrja. Við fórum á Michigan Avenue, þar sem verið var að kveikja á öllum jólaljósunum og svo var einhver Disney skrúðganga, sem við horfðum á. Það var rosalega mikið af fólki og var lokað fyrir alla umferð á götunni. Við enduðum svo á að fara útað borða á Papagus, sem er frábær grískur veitingastaður.