Mitt val í forsetakosningunum

Ég hef lengi ætlað að skrifa eitthvað um þessar forsetakosningar á Íslandi, en af ólíkum ástæðum hefur það reynst mér erfitt. Þess vegna hef ég látið duga að tala um þær við vini mína og deila á Twitter og Facebook einstaka greinum eftir fólk sem ég er sammála.

Fyrir mér snúast þessar kosningar fyrst og fremst um það hvort að núverandi forseti, Ólafur Ragnar, eigi að sitja áfram. Það er fyrsta spurningin sem allir verða að gera upp við sig. Þegar og ef maður hefur svarð þeirri spurningu neitandi þá getur maður haldið áfram með þá næstu, það er hver eigi þá að taka við.

* * *

Ólafur Ragnar hefur verið forseti í 16 ár. Þegar að hann var kosinn forseti var ég skiptinemi í Venezuela, þá 18 ára gamall. Í dag er ég 34 ára gamall. Á ævi minni hafa verið á Íslandi þrír forsetar, þar af bara tveir sem ég man eftir. Ég man hins vegar vel eftir 5 Bandaríkjaforsetum – Reagan, Bush eldri, Clinton, Bush yngri og Obama. Þegar að Ólafur Ragnar tók við var Clinton forseti Bandaríkjanna, allir notuðu Windows 95 og ég hlustaði á Gangsta’s Paradise með Coolio og What’s the Story Morning Glory með Oasis, sem var þá nýkomin út. Það voru enn nokkur ár í að ég keypti minn fysta gsm síma, ég átti enn eftir að prófa internetið í fyrsta skipti og þegar ég kaus í forsetakosningunum á skrifstofu í Caracas þá voru einu upplýsingarnar sem ég hafði um frambjóðendurna nokkrar blaðaklippur, sem að mamma hafði sent mér í pósti. Einstaklingar, sem eru 33 ára í dag hafa aldrei getað kosið raunhæfan valkost við Ólaf Ragnar í forsetakosningum.

Það hafa verið skrifaðar ótal svona greinar til að lýsa því hversu ofboðslega lengi Ólafur Ragnar hefur verið forseti og ég ætla svo sem ekki að bæta einni við. En aðalatriðið í kosningum, þar sem að svo þaulsetinn leiðtogi er áfram í framboði, hlýtur að vera hvernig hann réttlætir það að hann eigi að sitja áfram. Ólafur Ragnar ætti að geta gefið okkur góðar ástæður fyrir því af hverju við eigum að blanda okkur í hóp með Zimbabwe og Úsbekistan og hafa sama manninn forseta í 20 ár eða meira (hvernig eigum við að vita að hann láti 4 ár duga ef hann vinnur? Það hefur ekki verið mikið að marka hans yfirlýsingar um þau mál hingað til). Af hverju er Ólafur Ragnar svo ómissandi fyrir Ísland að enginn annar geti komið í hans stað?

Í allri þessari kosningabaráttu hef ég ekki heyrt eina sannfærandi ástæðu fyrir því að Ólafur Ragnar eigi að sitja áfram. Hann hefur sjálfur í sinni neikvæðu kosningabaráttu talað um að Ísland sé að fara inní eitthvað sérstakt hættuástand og að þjóðin þurfi á honum að halda til að komast í gegnum næstu ár. Hefði ég þá haldið að ef slík óvissa væri uppi að það væri kannski ráð að skipta út forsetanum sem hefur verið við völd síðustu 16 ár. Ég get ekki skilið í hverju aðstoð Ólafs Ragnars á að felast til að koma okkur í gegnum þessa óvissutíma. Fyrir þá sem hata núverandi ríkisstjórn þá er gaman að geta þess að á næsta ári eru þingkosningar, þar sem menn geta reynt að koma sínum flokki til valda. Forsetakosningarnar eiga ekki að snúast um það hvort ríkisstjórnin er vinsæl eða óvinsæl.

Stærsta breyting næstu ára er jú væntanlega möguleg innganga í ESB, en sú innganga mun alltaf fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég get ekki séð hvernig að Ólafur Ragnar á að hafa áhrif á það mál á einn eða annan hátt. Ég sem stuðningsmaður aðildar tel það litlu skipta, þegar að kosningum um aðild kemur, hvort að Ólafur sé á Bessastöðum eða ekki. Ég tel að í þessu máli einsog kannski öðrum þá ofmeti Ólafur sitt eigið mikilvægi.

Aðrar ástæður fyrir áframhaldandi setu hefur Ólafur Ragnar varla gefið. Hann hefur nánast ekkert talað um afrek sín í starfi nema höfnun á Icesave 2 og stærstur hluti kosningabaráttu hans (allavegana einsog hún blasir við mér í Svíþjóð) hefur farið í því að gera stærsta keppinaut hans tortryggilegan fyrir litlar sakir og í það að byggja upp mynd af Íslandi sem landi á ógurlegum krossgötum og sem stefni inní mikið óvissutímabil.

* * *

Þegar að ég horfi í baksýnisspegilinn þá get ég viðurkennt eftirá Ólafur Ragnar gerði rétt þegar hann hafnaði Icesave 2 samningnum, en að mínu mati gerði hann rangt þegar að hann hafnaði Icesave 3 samningnum, enda taldi ég það vera góðan samning og um hann náðist nokkuð breið samstaða á Alþingi með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur Ragnar mun þó alltaf vera fyrst og fremst maðurinn sem fór um víðan völl og básúnaði um stórkostlega hæfni Íslendinga í viðskiptum. Um það er fjallað á mjög góðan og hlutlausan hátt í skýrslu rannsóknarnefndar um efnahagshrunið. Þann kafla ættu allir að lesa. Ólafur bjó til fáránlega sögu um það að víkingablóð og þétt samskipti okkar á milli gerðu okkur einhvern veginn færari til að reka banka en fólk frá öðrum löndum.

Þetta var auðvitað fáránlegt, ekki bara þegar maður hugsar til þess hvernig þetta allt fór og á hverju góður árangur var byggður. Þetta er jafn fáránlegt og að Svíakonungur myndi fara um allan heim og útskýra það hvernig að samvera við öll tréin í Svíþjóð gerði það að verkum að Svíar væru betri en allar þjóðir í að búa til ódýr húsgögn eða ódýr föt. Þetta dettur honum ekki í hug að gera þótt að frá Svíþjóð komi frábær fyrirtæki í þessum greinum. En þetta gerði Ólafur Ragnar fullur af þjóðernishroka og lofaði í lok ræðunnar You ain’t seen nothing yet.

* * *

Ólafur er búinn að vera forseti í 16 ár og var að mörgu leyti helsti fulltrúi útrásarinnar á Íslandi – maðurinn sem fór í einkaþotum með bankamönnum um allan heim, hélt þeim fín boð og hengdi á þá orður og ferðaðist um heiminn uppfullur af þjóðernisrembingi um það hversu frábærir Íslendingar voru. Ólafur Ragnar verður aldrei aftur forseti allrar þjóðarinnar. Hann verður aldrei forseti sem að allir geta sæst við. Hann verður alltaf umdeildur.

Þess vegna vil ég fá nýjan forseta. Ég vil fá forseta sem að öll þjóðin getur verið sátt við. Hógværan einstakling, sem elskar sitt land, en gerir sér um leið grein fyrir því að við erum ekki betri en aðrar þjóðir og myndi aldrei detta í hug að halda slíku fram. Mér er sama hvort sá forseti kemur úr atvinnu- eða menningarlífi, hvort að hann hafi einu sinni kosið Samfylkinguna, Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil að forsetaembættið sé skipað einstaklingi sem að vekur ekki upp reiði hjá helmingi þjóðarinnar. Þjóðmálaumræða á Íslandi er það leiðinleg að við þurfum ekki á því að halda að meira að segja forsetaembættið valdi líka eilífum deilum.

Á netinu sé ég einmitt að þeir sem heitast fylgja Ólafi Ragnari (í tilfelli fólks sem ég fylgist með oftast harðir hægri menn) virðast aðallega fylgja honum vegna þess að hann er akkúrat ekki sameiningartákn. Akkúrat ekki maður sem allir geta verið sáttur við. Nei, hann er kallinn sem er flottastur í kappræðum, sem að stingur uppí aðra frambjóðsendur og fjölmiðlamenn. Enginn efast um að Ólafur er bestur í að dóminera í kappræðum enda með áratuga langa reynslu úr stjórnmálum fyrir hina ýmsu flokka. En á það virkilega að vera helsti kostur forseta að hann sé góður í þessum hlutum? Gætum við þá ekki alveg eins kosið Davíð?

* * *

Af hinum frambjóðendunum hefur mér frá fyrsta degi litist vel á Þóru Arnórsdóttur.

Af því sem ég hef lesið á netinu þá sér fólk aðallega tvo galla við Þóru. Annars vegar er hún ekki jafn örugg í kappræðum og Ólafur Ragnar, sem er að mínu mati ósköp eðlilegt miðað við reynslu þeirra beggja. Hins vegar var hún einu sinni í ungliðahreyfingu Alþýðuflokksins. Í hálf truflaðri umræðu um pólitík eftir hrun er það allt í einu orðin dauðasök að hafa starfað í ungliðahreyfingum stjórmálaflokkanna. Hafandi starfað í ungliðahreyfingu flokks og kynnst þar bæði mörgum af mínum bestu vinum og óbeint eiginkonu minni þá get ég sagt að í þessu starfi er oft samankomið það fólk sem lætur sig mest varða framtíð þjóðfélagsins. Fólk sem hefur áhuga á að ræða um þjóðmál og hvernig það á að bæta þetta samfélag. Flestir sem að ég þekki úr þessu starfi vinna í dag á almennum vinnumarkaði og hafa aldrei þegið krónu tengda þessu starfi.

Það að allt þetta fólk sé dæmt úr leik af fólki er sorglegt. Það að Þóra Arnórsdóttir hafi 22 ára gömul starfað í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokk ætti fyrst og fremst að sýna að hún hefur lengi haft áhuga á þjóðmálum og bættu lífi á okkar landi.

Fyrir mér er kominn tími á nýtt fólk. Ólafur Ragnar verður 70 ára gamall á næsta ári. Þóra er 37 ára gömul. Kynslóð Ólafs Ragnars, Davíðs og félaga hefur stjórnað þessu landi frá því að ég fæddist og núna er einfaldlega kominn tími á breytingar, á nýja kynslóð og nýtt fólk.

Þóra hefur að mínu mati réttar hugmyndir um hvað forsetaembættið á að snúast. Forsetinn á að sameina þjóðina en ekki sundra henni. Við getum rifist um allan fjandann, en forsetinn á að vera einstaklingur sem að við getum sameinast um. Þóra er ung kona, móðir, vel menntuð, klár, kemur vel fyrir og yrði án efa frábær fulltrúi okkar unga lands útí heimi. Mér finnst það ótrúlega flott að kona með nýfætt barn sé óhrædd við að taka þetta starf að sér og það sýnir að mörgu leyti hversu framarlega við Íslendingar erum jú í jafnréttismálum.

Kosningarnar um næstu helgi gefa okkur enn eitt tækifærið til að komast yfir hrunið og velja einstakling, sem getur hjálpað okkur að sameinast og horfa fram á veginn í stað þess að þræta endalaust um atburði sem gerðust fyrir mörgum árum. Það er tækifæri sem við megum ekki missa af.

Ég kýs Þóru og hvet þig til að gera það líka.

11 thoughts on “Mitt val í forsetakosningunum”

  1. Nota bene, það hafa einhverjir agressívir Viagra sölumenn herjað á síðuna mína síðustu vikurnar þannig að ansi mörg komment enda í spam síjunni. Ég reyni að samþykkja þau eins fljótt og ég get.

  2. Haha Ásgeir, ef ÓRG er orðinn að konu sem heitir Andrea, þá já 😀

  3. Sæll veistu ég öfunda þig af því að búa í Svíþjóð og þurfa ekki að upplifa þetta kjaftæði sem er í boði í dag hér heima. Ólafi og hans stuðningsmönnum er búið að takast að slátra þessari kosningabaráttu og gera hana svo sauruga að það hálfa væri nóg. Ég keypti einmitt Load diskinn sama dag og ég kaus 96 og þá kaus ég Guðrúnu Agnars hafði ekki geð í mér að kjósa Ólaf og hef aldrei kosið hann af prinsipp ástæðum. “Until it sleeps” var á repeat lengi vel og einhvern veginn er hægt að tengja þetta við Ólaf, bara þangað til hann hættir!! Ef að fólk vill breytingar þá á það að ganga til kosninga og kjósa bara einhvern annan en Ólaf hann er holdgervingur þess sem við fædd 74-80 erum búin að alast upp við, fyrirgreiðslupólitík og spilling það er bara þannig. Viljum við hafa þetta þannig? Viljum við að börnin okkar alist upp við svona bull?
    En hvað veit maður vitlaus sjómaðurinn??

  4. Ég held ég geti næstum sætt við allt sem mér hefur mislíkað við ÓRG, NEMA Það að skrifa ekki undir síðasta Icesave samninginn sem var samÞykktur með 2/3 hluta meirihluta á AlÞingi. þarna var kominn grundvöllur til að fólk færi að tala saman um mál á þingi, en með Því að hafna Þessu var fólki skotið aftur á kaf ofaní skotgrafirnar. Síðan þá hefur upplausnin hér verið að aukast og margir hafa hlakkað yfir Því. Upplausnin sem nú er og vanvirðing við lýðræðislega kjörin stjórnvöld skrifast að mjög miklu leyti á hans reikning.

    Mér finnst sorglegt hversu margir vilja fylgja Þessum öfgaöflum sem ala hér á ófriði. Ef Það tekst að fá inn nýja manneskju í embættið, er ég fullkomlega sannfærður um, að strax eftir nokkra mánuði verði ákveðnu fargi létt af Þjóðinni og að allflestum hér fari að líða betur í sálinni. Stuðlum að breytingum, okkur öllum til heilla !

  5. Er ennþá að leita að hörðum Samfylkingarmanni eða konu sem styður ekki Þóru. Síðan er sagt að hún sé ekki tengd Samfylkingunni.

  6. Samfylkingin mælist með um það bil 15% fylgi í skoðana könnunum. Þóra með um það bil 40%. Hvernig í ósköpunum er hægt að segja að hún sé tengd samfylkingunni.

    Er Ólafur Ragnar þá tengdur sjálfstæðisflokknum?

    Þetta eru engin rök.

    Það er kominn tími til að tengja og skipta um forseta.

  7. Það að Samfylkingarfólk og aðrir kratar styðji helst Þóru þýðir ekki að hún sé tengd Samfylkingunni (nema fyrir fólki með takmarkað ímyndunarafl). Það er raunar ekkert óeðlilegt við það að sá hópur sem málflutningur Ólafs Ragnars „sameiningartákns“ hefur hvað mest bitnað á, þ.e. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, sérstaklega ESB sinnar, vilji forseta sem beinir kröftum sínum að því sem sameinar í stað forseta sem gerir sig sífellt breiðari í andstöðu sinni við stjórnvöld og þjóðkjörna þingmenn.

Comments are closed.