Múrinn??

Múrinn er vanalega afskaplega vel skrifað vefrit. Ég hef oft verið ósammála þeirra greinum, aðallega vegna þess að þeir telja slæma hluti bara geta gerst ef Bandaríkjamenn hafa eitthvað með málin að gera.

Allavegana, þá er í dag grein eftir Katrínu Jakobsdóttur, þar sem hún reynir að sannfæra lesendur um hinn illa kapitalíska markað. Ég vona að hún verði ekki reið þó ég vitni aðeins í greinina hennar.

“Vinur minn einn sem við skulum nefna Gunnar drekkur ekki bjór. Það er val hans í lífinu því að honum finnst bjór vondur. Eftir að bjór var leyfður hér á landi hefur hann öðlast gríðarlegar vinsældir og nú er svo komið að yfirleitt er boðið upp á bjór í öllum boðum – og oft ekkert annað. Gestgjafar vita að flestir drekka bjór og bjóða því ekki upp á neitt val. Gunnar neyðist til að vera edrú; ekki vegna þess að hann vilji vera edrú heldur vegna þess að hann er hindraður í því að vera fullur.

Annar vinur minn sem við skulum nefna Njál hefur ákveðið að nýta reiðufé fremur en plastkort. Þetta er afar þægilegt fyrir hann og tryggir að hann eyði aldrei meiru en hann á. Um daginn ætlaði Njáll að kaupa svokallað Miðborgargjafarkort vegna þess að hann var að fara í afmæli hjá Gunnari. Þá var honum tjáð að það væri aðeins hægt að greiða fyrir slíkt kort með plastkorti. Þegar Njáll spurði hvort peningar hefðu verið lagðir niður sem gjaldmiðill fékk hann engin svör en honum fannst eins og hann heyrði í fjarska óm af hlátri. Hann var einhvern veginn svona: „Mouahahahahaha.“

Ég þykist vita að hláturinn hljómi kunnuglega fyrir lesendur. Þetta er holur hlátur markaðsins sem horfir með ánægju á alla steypta í sama mót.

Verið er að þvinga Gunnar og Njál, í nafni frelsisins, til að gera eins og hinir, þó að það sé þeim á móti skapi. Er þetta frelsi? Eða eru þetta boð og bönn markaðsins sem dulbýr sig sem frelsara? Svari nú hver fyrir sig”

Katrínu vantar greinilega öll rök fyrir því að taka upp hennar draumaútgáfu af sósíalisma, þannig að hún ætlar að sannfæra okkur um það að þegar gestgjafi í boði býður bara uppá bjór, en ekki allar tegundir af áfengi, þá sé það einhvern veginn hinum frjálsa markaði að kenna. Ja hérna!