Nýja Sigur Rósar platan

Ok, til að byrja með ætla ég að heita einu: Ég skal lofa því að ég ætla að kaupa nýju Sigur Rósar plötuna útí næstu Skífubúð þegar hún kemur út. Ok? Ég lofa.


Ég gjörsamlega get ekki skilið plötufyrirtæki. Nýja Sigur Rósar platan, Takk, kemur út 12. september. Ef ég ætlaði að vera heiðarlegur og versla bara við plötufyrirtæki, þá þyrfti ég semsagt að bíða í mánuð í viðbót eftir því að fá að hlusta á plötuna.

En hvernig á ég að geta gert það þegar ég veit að það tekur mig svona 5 mínútur að nálgast fullkomið eintak af plötunni ókeypis á netinu? Ég elska Sigur Rós. Þeir tónleikar, sem ég hef farið á með hljómsveitinni hafa verið með [bestu tónleikum ævi minnar](https://www.eoe.is/gamalt/2003/11/06/23.18.29/). Ég man enn skýrt eftir því þegar ég heyrði Popplagið í fyrsta skiptið á ævinni á tónleikum í Chicago. Ég hef sjaldan verið jafnhrifinn.

Síðasta platan endaði einmitt á Popplaginu og því hef ég verið fáránlega spenntur yfir því að hlusta á nýjustu plötuna. Ég væri til í að borga sanngjarnt verð fyrir að eignast hana strax í dag. Fokk, ég væri ábyggilega til í að borga ósanngjarnt verð fyrir hana í dag. Svo spenntur er ég að hlusta á hana. En hvers vegna gera plötufyrirtækin mér svona erfitt fyrir? Af hverju er ekki hægt að kaupa plötuna útí búð eða á netinu *núna*?

Ég vissi að á endanum myndi ég ekki geta staðist freistinguna. Ég varð hreinlega að ná mér í plötuna strax. Ég get ekki beðið í einn mánuð vitandi af því að hún *er þarna* á netinu. Það geta allir með internet tengingu náð sér í plötuna á ólöglegan og ókeypis hátt. En þeir, sem vilja vera heiðarlegir þufa að bíða í mánuð í viðbót. Það er hreinlega ekkert vit í þessu.

Allavegana, ég gat ekki staðist freistinguna og náði mér í plötuna með BitTorrent. Kaupi svo diskinn þegar hann kemur út, þar sem að útgáfan á netinu er bara 192kb MP3 skrá, sem er ekki alveg nógu gott. Og við fyrstu tvær hlustanir, þá er hún allt, sem ég vonaðist til. Hljómar alveg yndislega. Ég get ekki sagt almennilega hvernig hún verður eftir nokkra daga, en allavegana þá mun hún fá að njóta sín næstu kvöld. Ef eitthvað er, þá hljómar hún betur en ( ) til að byrja með.

6 thoughts on “Nýja Sigur Rósar platan”

  1. Sammála sammála. Hún er að dansa betur í mínum eyrum en () gerði. Helvíti gott stöff.

    Síðan mæli ég með því að þú tékkir á The Angela Test með Leaves. Það er alveg suddalega góð plata.

  2. Tek undir þetta. Ég var hrifinn af ( ) en hún náði einhvern veginn aldrei sömu hæðum og Ágætis Byrjun fyrir mér. Við fyrstu nokkrar hlustanir finnst mér strax meira varið í Takk en ( ) og mér finnst hún vaxa með hverri hlustun. Verður gaman að sjá hvað mér finnst um plötuna eftir mánuð, þegar platan verður loksins gefin út.

    Ég er líka fyllilega sammála þér með þetta rugl í plötuútgáfum, þeir eiga bara að gefa plötuna út í stafrænu formi áður en þeir gefa hana út í Skífunni … ef ég gæti keypt plötuna á stafrænu formi núna og fengið með frítt eintak af gripnum út úr búð 12. sept. n.k. myndi ég gera það, en eins og er á maður ekki margra kosta völ nema að sækja hana ólöglega fyrst og kaupa svo ef maður fílar hana.

  3. Já, mér finnst Takk æði, alveg einsog mér fannst Ágætis byrjun vera æði. Þær eiga það sameiginlegt að ég bjóst ekki við neinu í fyrsta skiptið sem ég heyrði þær. Ágætis byrjun var platan á eftir Vonbrigði, sem mér fannst frekar hræðileg, og Von, sem mér fannst skrýtin. Ég man að ég sá hvergi minnst á söngkonuna í umslaginu fyrir Vonbrigði, vissi ekki að það væri bara Jónsi.

    En, á eftir Ágætis byrjun kom svo () sem mér fannst hundleiðinleg, ég lofaði því meiraðsegja að fíla Sigur Rós aldrei aftur. Svo þegar ég sótti Takk með krumpaðan fýlusvip ýtti ég á play og var fullkomlega tilbúinn að finnast hún drasl. En ég þurfti ekkert að spóla áfram og ákvað bara að hækka og finnast hún góð.

    En hey, ég myndi ekki kaupa plötuna tvisvar, EN, ég væri vel til í að kaupa plötuna onlæn og fá í leiðinni umslagið í góðri upplausn til að prenta út sjálfur. Það er nefnilega það sem böggar mig alltaf mest, að eiga bara 72dpi skítaútprent af einhverri heimasíðu.

    Ekki að ég myndi nokkurntíma prenta umslagið út (ekki frekar en að ég brenni diska og setji þá í hulstur). En mér fannst þetta sniðug hugmynd fyrir 22 sekúndum.

    bla bla.

  4. Árni, isohunt.com

    Halli, ég reyndar ósammála þér um ( ). Mér finnst t.d. Popplagið og Njósnavélin vera frábær lög. Hún var ekki einsgóð og Ágætis byrjun, en samt fannst mér hún vera *virkilega* góð.

  5. Besta lausnin á þessu máli, fyrir mér, væri ef plötufyrirtækin myndu venja sig á að hafa tvo útgáfudaga. Einn fyrir netið og svo annan fyrir vöruna í búð. Þannig væri t.d. hægt að versla Takk með Sigur Rós á vefsíðunni þeirra frá og með 12. ágúst og gripurinn kæmi svo í verslanir þann 12. september.

    Þá væri hægt að hafa það svoleiðis að þeir sem versla plötuna á netinu ættu inni eintak sem þeir gætu sótt, mánuði seinna við útgáfudag, í Skífuna eða aðra slíka verslun, með því að framvísa kvittun um netkaupin. Og eins öfugt, ef menn versluðu plötuna útí búð fengju menn lykilorð eða e-ð álíka inní umslagi plötunnar sem gerði þeim kleift að sækja hana á netinu líka.

    Þetta væri svo einfalt og handhægt að það er ekki fyndið – tónlistin sjálf er tilbúin löööngu áður en búið er að framleiða fyrsta upplag af geisladiskum í umslögum, og netið gerir það að verkum að plata getur borist öllum heiminum á fimm mínútum, þannig að ólöglegir niðurhalarar munu alltaf hafa forskot á útgáfu plötunnar. Framleiðendur umslaga og diska geta einfaldlega ekki keppt við þá sem setja tónlist inn á netið!

    Þannig að af hverju ekki? Ef ég vissi að ég gæti nálgast plötuna á sigur-ros.com um leið og hún læki á netið myndi ég bara gera það. Ég þyrfti að borga fyrir, en það myndi allavega friða samviskuna og tryggja mér eintak af gripnum þegar hún kemur í verslun eftir mánuð. Þá þyrfti maður heldur ekki að vesenast í að finna ólöglegt eintak af henni á BitTorrent eða e-u öðru forriti, sem getur reynst mis-erfitt.

    Ég bara skil ómögulega af hverju plötufyrirtækin eru ekki löngu byrjuð á þessu. Það er orðið algjörlega ljóst að stafrænt form – og Internetið – eru framtíð tónlistar- og myndmiðlanna (sjá næstu mynd Steven Soderberghs, sem verður gefin út í bíó, á DVD og á vefsíðu SAMTÍMIS) og þess vegna þýðir ekkert að berjast á móti þessu. Frekar á að finna leiðir til að láta netið vinna með sér, en ekki að berjast á móti því.

Comments are closed.