Uppáhaldsbækurnar mínar

Eftir að ég útskrifaðist úr skóla hef ég verið alltof latur við að lesa. Þannig að sennilega litast þessi listi mikið af þeim bókum, sem ég las í háskóla og á ferðalögum, sem ég hef verið á undanfarin ár.

10. Faust – Goethe – Nei, reyndar þá fannst mér hún hrikalega leiðinleg. Ég er bara ennþá stoltur að hafa komist í gegnum hana og skilið allavegana meirihlutann.
9. Nóttin- Eli Wiesel
8. Veröld ný og góð – Aldous Huxley
7. Dagur í lífi Ivan Denisovich – Aleksandr Solzhenitsyn
6. 1984 – George Orwell
5. Eugene Onegin – Aleksandr Pushkin – Ég hef aldrei verið hrifinn af ljóðum. Samt er þessi bók í uppáhaldi hjá mér, en hún er skáldsaga í ljóðaformi. Þurfti að lesa hana fyrir bókmenntatíma og það tók mig óratíma að komast í gegnum hana, en hún var þó sannarlega vera þess virði.
4. Bjargvætturinn í grasinu – J.D. Salinger
3. Glæpur og Refsing – Fyodor Dostoevsky – Reyndi þrisvar að klára bókina en komst aldrei nema á blaðsíðu 50. Tókst loksins að klára hana fyrir um ári og varð heillaður. Dostoevsky skyggnist á ógleymanlegan hátt inní hugarheim morðingja.
2. Lygn streymir Don – Mikhail Sholokov – Er eiginlega í jafn miklu uppáhaldi hjá mér og 100 ára einsemd. Stórkostleg bók, sem kveikti áhuga minn á Rússlandi svo um munaði. Samt virðist bókin vera alveg gleymd. Hún fæst nánast hvergi. Kennarinn minn í rússneskum bókmenntum þurfti að ljósrita bókina fyrir okkur, því hún var hvergi fáanleg!
1. 100 ára einsemd – Gabriel Garcia Marques – Engin bók hefur fengið mig til að gersamlega gleyma öllu í kringum mig líkt og 100 ára einsemd. Las hana þegar ég var á ferðalagi um Suður-Ameríku. Ótrúlegasta bók, sem ég hef nokkurn tímann lesið. Hrein snilld!

Eflaust er þessi listi litaður um of af bókum, sem ég hef lesið í tengslum við skólann (og kannski full rússneskur), þannig að bækur, sem ég las mér meira til skemmtunnar á árum áður fá minna vægi. En svona lítur þetta allavegana út í dag.

Stórkostlegar Breytingar – Myndablogg

Jæja, ótrúlegt en satt þá er meira en ár síðan ég breytti síðast um útlit á þessari síðu. Það hlýtur að segja mér að nokkuð vel hafi tekist upp með þetta útlit, allavegana er ég ekkert búinn að fá ógeð.

En ég ákvað að breyta smá. Ég bætti við þriðja dálkinum til vinstri (aðeins á aðalsíðunni). Í honum er komið myndablogg.

Ég er nýkominn með T610 síma og langaði því að setja þetta uppá síðuna mína. Þetta er ekkert í tengslum við Landssímann eða þetta dót, heldur nota ég bara Bluetooth File Exchange á Makkanum (takk Tobbi) og keyri þetta svo í gegnum Movabletype.

Ok, en allavegana veit ekki alveg hvert ég stefni með þessu myndabloggi. Gæti líka hugsað mér að nota myndir úr digital vélinni minni, það kemur bara í ljós. Eflaust verða alltof margar myndir af mér og alltof fáar athyglisverðar myndir. En ég meina hey.

Allavegana, myndabloggið verður hérna vinstra megin. Þið getið smellt á myndirnar til að sjá stærri myndir og kommentað á þær ef ykkur langar til.

Hárið mitt

Getur einhver sagt mér af hverju ég er alltaf langánægðastur með hárið á mér þegar ég er einn heima á kvöldin og veit fyrir víst að ég á ekki eftir að hitta neinn það sem eftir lifir kvölds?

Einnig finnst mér hárið á mér alltaf geðveikt flott morguninn eftir fyllerí. Þar sem ég hef vaknað einn eftir flest undanfarin fyllerí, þá er enginn til að njóta þess með mér hvað hárið er flott þá. Stundum hefur mig langað til að sleppa sturtunni og bara fara út til að sýna öllum hversu flott það er. En einhvern veginn held ég að reykinga- og bjórfýlan frá deginum áður myndi ekki heilla marga. Hmmm…

Annars þegar ég var í Noregi horfði ég á einhverja norska MTV stöð. Þar sá ég oft myndband með laginu She’s So High, sem mér fannst eiga voðalega mikið við mig þá (og þessa) dagana. Allavegana, ég hélt að ég væri að uppgötva einhverja nýja stjörnu en ég komst síðan að því að lagið er sungið af þessum gaur: Kurt Nilsen. Þessi gaur vann víst norska útgáfu af American Idol. Ja hérna!

Æji, ég gleymdi að ég var búinn að lofa að hætta að segja “Ja hérna”. Þessi Kurt er þó greinilega snillingur, enda frá Bergen og þaðan koma engvir nema snillingar.