Kosningarnar í Bandaríkjunum

Það er með eindæmum gaman að lesa pistla Águsts Flygering um Bandaríkin og málefni þessa ágæta lands. Águst, sem kallaði bandarískan almenning einfaldan fyrir nokkru, fer aftur á kostum í umfjöllun sinni um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í tveim pistlum. Ég er með nokkrar athugasemdir:

Það er til marks um vanþekkingu Bush á utanríkismálum að hann kýs ávallt að varpa ábyrgðinni á aðra. Ef að utanríkisilðið hans er svona gott, af hverju eru þeir ekki í framboði? Já, og “svarta konan” er Condoleze Rice.

Varðandi fóstureyðingar þá getur Bush ekki bannað þær. Hann getur (og mun) hins vegar skipað hæstaréttardómara, sem eru að sínu skapi (menn einsog Clarence Thomas). Næsti forseti getur nefnilega skipað nokkra hæstarettardómara og ef Bush verdur vid völd getur hann náð meirihluta í hæstarétti og sá meirihluti getur fellt Roe/Wade úrskurðinn úr gildi og þar með bannað fóstureyðingar.

Varðandi Al Gore, þá HEFUR hann barist fyrir sínum málum undanfarin 8 ar. Það, sem Águst virðist ekki gera sér grein fyrir er að í Bandaríkjunum hefur þingið völd (ólikt því, sem gerist á Íslandi). Þar sem Repúblikanir hafa verið með meirihluta í þinginu í 6 ár hafa þeir fellt mikið af baráttumálum Clinton og Gore.

Varðandi netið þá sagði Al Gore ALDREI að hann hefði fundið upp internetið. Staðreyndin er hins vegar sú að Gore átti hins vegar mikinn þátt í því að í þinginu fóru í gegn lög, sem auðvelduðu uppbyggingu netsins.

Gore er ekki á móti því að fólk geti valið um skóla. Lausn Bush er sú að ef skólarnir eru lélegir, þá eigi fólk að fá “voucher”, sem þeir geti notað, svo barnið fari i einkaskóla. Þessi stuðningur nægir þó aðeins fyrir hluta af skólagjoldunum. Því verða þeir fátækustu alltaf eftir. Það, sem Gore vill gera er að ef skólarnir standa sig ekki, þá vill hann loka þeim og opna aftur með nýju starfsliði. Þannig verður enginn skilinn eftir.

Gore er umhverfisverndarsinni, en ekki umhverfisverndarofstækismaður, það er alltof neikvætt orð til ad lýsa honum. Í staðinn fyrir að eyðileggja nátturuperlur í Alaska fyrir olí, eins og Bush vill, þá vill Al Gore frekar eyða peningum í rannsóknir á öðrum orkulindum. Kosningarnar i Bandarikjunum snúast ekki um hvalveiðar, en ég er þó fullviss að bæði Gore og Bush eru á móti þeim.

Að mínu áliti snúast kosningarnar í Bandaríkjunum um hvor sé klárari og betri leiðtogi. Á því leikur enginn vafi. Al Gore er rétti maðurinn.

Figo

Þessi málsgrein er úr frétt af mbl.is.

Framkomu stuðningsmanna Barcelona má aðallega rekja til óánægju þeirra með Luis Figo og ákvörðun hans að yfirgefa Barcelona fyrir Real Madrid í sumar. Stuðningsmennirnir blístruðu og öskruðu að honum ókvæðisorð í hvert sinn sem hann snerti boltann, en það sem þykir alvarlegast er að þeir fleygðu ýmsu lauslegu inná leikvöllinn. Plastflöskur, kveikjarar og tveir farsímar voru meðal þeirra hluta sem kastaðir voru að leikmönnum Real Madrid en samkvæmt dómara leiksins varð enginn fyrir hlutunum.

Ég hata Luis Figo, alveg einsog flestir stuðningsmenn Barcelona, en ég efast þó um að ég myndi kasta farsímanum mínum í hann.

Línuskautar

Ég og Hildur erum búin að eyða deginum á línuskautum meðfram Lake Michigan. Enda er veðrið ennþá alveg frábært. Það var ótrúleg traffík af fólki á hjólum og línuskautum þarna.

Annars er ég ekki alveg viss hvað ég ætla að gera í kvöld. Ég ætlaði upphaflega að djamma hérna á skólalóðinni en ég er frekar þreyttur, þannig að ég er ekki alveg viss.

Smashing Pumpkins

Smashing Pumpkins halda tvo lokatónleika í Chicago í enda nóvember. Ég var núna áðan að redda mér miðum á fyrri tónleikana, sem verða í United Center. Oh my God hvað það verður gaman! Ég sá hljómsveitina á tónleikum hérna í Chicago í maí síðastliðnum og voru þeir frábærir.

Kappræður

Annars var ég að horfa á kappræðurnar milli Bush og Gore á þriðjudaginn. Það er alveg makalaus að Bush skuli hafa forskot í baráttunni. Al Gore sýndi það hvað eftir annað að hann hefur yfirburðar þekkingu á öllum málefnum.

Bush svaraði mörgum spurningum með lélegum bröndurum, eða með einhverju rugli. Til dæmis þá kom ein spurning um landbúnað og þá kom berlega í ljós að Bush veit ekki neitt um það mál. Það sem hann svaraði var eitthvað á þessa leið: “Ég vil að bandarískir bændur séu áfram þeir bestu í heimi, því án þeirra þá fáum við ekkert að borða”. Þvílík ótrúleg speki. Ég er heldur ekki ennþá farinn að trúa því hvað hann var stoltur yfir því að þrír menn hefðu verið líflátnir í Texas. Það er eins og þetta sé bara allt einn stór leikur fyrir hann.

Gore tók loksins almennilega á Bush, og hann sýndi það að hann er einfaldlega mun gáfaðri en Bush.

5-0

Við voru að keppa við Northern Illinois University í DeKalb og unnum þá örugglega 5-0, þrátt fyrir að við höfðum verið einum færri í fyrri hálfleik, vegna þess að strákar, sem voru á einum bílnum villtust á leiðinni.

Helgin

Helgin var bara mjög fín. Á föstudaginn fórum við á djammið á Dragon Room, sem var flottur klúbbur, reyndar ekki alveg einsog við bjuggumst við en samt fínt. Á laugardag gerði ég lítið. Við Hildur fórum með Dan og Ryan að borða á thailenskum veitingastað og svo fórum við í bíó að sjá Meet the Parents, sem er frábær.

Á sunnudag fór ég með fótboltaliðinu til Indiana, nánar tiltekið að Purdue háskólanum. Þar spiluðum við um morguninn við Purdue. Leikurinn var mjög góður og skoraði ég þrennu, sem var frábært. Við unnum leikinn 5-2. Í seinni leiknum töpuðum við fyrir Grand Valley State frá michigan. Ég átti stoðsendinguna að eina markinu okkar, sem Serge, belginn í liðinu okkar, skoraði.

Djamm

Jæja, þá er maður á leiðinni á djammið. Hildur á afmæli í dag og því fórum við út að borða áðan á Olive Mountain, sem er snilldar staður með mat frá Líbanon. Við erum að fara á djammið með Kára, sem er hérna í mastersnámi í hagfræði.

Annars var Buena Vista Social Club alger snilld.

Buena Vista

Við erum að fara að sjá Buena Vista Social Club í Chicago Theatre í kvöld. Ég var að horfa á Wim Wenders myndina um þessa kalla og þetta er alveg ótrúleg sveit. Allir komnir vel yfir sextugt og þeir elstu er eldri en 90 ára. En þetta eru algerir snillingar á hljóðfæri. Þetta verður sennilega mjög ólíkt þeim tónleikum, sem ég hef farið á hingað til.