Chicago

Chicago borg er alveg æðisleg í svona góðu veðri. Það er búinn að vera um 25 stiga hiti hérna síðustu daga, sem er ekki mjög gaman þegar maður er í próflestri, en ég var búinn í bili í gær og því fórum við Hildur niður í bæ. Við löbbuðum um miðbæinn og nágrenni og fengum okkur svo að borða á Pizzeria Uno en þar voru einmitt búnar til fyrstu deep-dish pizzurnar og voru þær mjög góðar. Við fórum svo í bíó.

Reyndar þurftum við að bíða í 3 klukkutíma því það var uppselt á næstum allar sýningar á myndinni, sem við ætluðum að fara á, Gladiator. Við fengum þó loksins miða á ellefu sýningu. Myndin er frábær. Endilega sjáið hana þegar hún kemur heim til Íslands.

Rosaleg vika

Þetta er búin að vera rosaleg vika. Ég er búinn að vera í þrem miðsvetrarprófum og einu skyndiprófi í þessari viku. Ég er búinn að komast að því að það er ekki gaman að vera inni og lesa hagfræði í þessum hita. Það er öllu skárra að liggja niðri hjá Michigan vatni og lesa rúsneska snilld.

Ég er búinn að vera í sögu Sovétríkjanna á þessari önn og er þetta einn skemmtilegasti tíminn, sem ég hef verið í hérna í Northwestern. Prófessorinn, Irwin Weil, er alger snillingur. Hann hefur kennt við moskvuháskóla og hann veit allt um Rússland. Hann var meira að segja viðstaddur útför síðasta keisarans. Ég hef lært gríðarlega mikið í þessum tímum. Kannski einna merkilegast er að ég hef sannfærst enn frekar um að það er ekki með nokkru móti hægt að afsaka voðaverk bolsjévika. Það er í raun óskiljanlegt að sjá fólk í kröfugöngum með Sovéska fánann.

Ég set ekkert útá það að fólk trúi ennþá á kommúnisma, en að lýsa stuðningi við stjórnarfar Sovétríkjanna er óskiljanlegt.

Bókin, sem ég las fyrir fyrsta prófið, Quiet Flows the Don, eftir Mikhail Sholokov er sennilega næstbesta skáldsaga, sem ég hef lesið. Eina bókin, sem er í meira uppáhaldi hjá mér er Hundrað ára Einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez.

jæja, nóg um bókmenntir, ég er farinn niðrí miðbæ Chicago.

Tónleikar á Íslandi

Ég var að pæla í því um daginn af hverju það koma svo sjaldan almennilegar hljómsveitir til Íslands. Hérna í Chicago hef ég farið á allmarga tónleika og voru þeir flestir haldnir í sölum, sem eru ekki stærri en Laugardalshöllin.

Reyndar voru tónleikar með Metallica og Rage against the Machine, sem ég fór á með um 35.000 áhorfendum, en flestir tónleikarnir hafa aðeins verið með um 3-5.000 áhorfendum.

Ég fór t.d. fyrir tveim vikum á tónleika með Oasis og Travis, þar sem voru um 3.000 áhorfendur. Það þarf enginn að segja mér að það yrði erfitt að fylla Laugardalshöllina með þessum sveitum.

Eins fór ég á Smashing Pumpkins þar sem voru um 5.000 manns. Wyclef Jean spilaði fyrir um 2000 manns og sama gerðu Method Man/Redman. Manic Street Preachers spiluðu á smá klúbbi enda þekkir enginn þá hérna.

Málið er að ég trúi því ekki að það væri erfitt að fylla Laugardalshöllina með þessum sveitum. Hvernig stendur þá á því að til að mynda í fyrra voru engir almennilegir stórir tónleikar á Íslandi?

Ebay

Björgvin Ingi er að tala um Ebay uppboð á heimasíðunni sinni í dag. Ég sá þetta mál í fyrsta sinn á CNN um helgina að mig minnir. Á Ebay er nefnilega til sölu flekinn, sem Elian Gonzales á að hafa komið á til Bandaríkjanna.

Þarna er einnig hægt að kaupa teikningu eftir Elian. Hvar endar þessi vitleysa?

Tap og Eurovision

Það er nú ekki mikið að gerast núna. Það er nokkuð svekkjandi að vakna klukkan átta á laugardagsmorgni, fara í lest í klukkutíma niður í bæ á írskan bar og horfa svo á enska fótboltaliðið sitt tapa. Ekki gaman. Annars var ég að ná mér í íslenska Eurovision lagið á MP3. Lagið er ekki gott. Reyndar er það mjög lélegt. Ef við vinnum þá er heimurinn geðveikur.

Elian True

Dan vinur minn benti mér á þessa síðu, sem er alger snilld, Elian True. Þessi síða er sennilega enn fyndnari ef þú hefur séð auglýsingarnar, sem hún er byggð á. Þetta eru Whassup Budweiser auglýsingarnar, sem eru bestu auglýsingar, sem ég hef séð. Þær hafa verið sýndar hérna í Bandaríkjunum í vetur og verið gríðarlega vinsælar. Gaurarnir, sem leika í þeim eru orðnar stjörnur og Whasssup er orðin mjög algeng kveðja hérna. Til að sjá þessar frábæru auglýsingar farðu bara á Budweiser og smelltu Whassup

Ísland á netinu

Ég var eitthvað að leika mér á netinu þegar ég var í eyðu í dag. Mér datt í hug að leita upp Ísland á Google.com, sem mér finnst vera mjög góður leitarvefur. Allavegana þá númer 5 er þessi síða: I Like Iceland. Þessi síða er gerð af einhverjum gaur, sem segist elska Ísland án þess að hafa komið þangað. Mjög athyglisvert. Einnig er skemmtilegt að hann hefur link yfir á íslenska veðurspá. Ef ég væri að setja upp svæði, sem ætti að draga útlendinga til Íslands, þá væri veðurspáin það síðasta, sem ég myndi setja á þá síðu.

Framsóknarflokkurinn á netinu

Ég er búinn að eyða svo miklum tíma í að uppfæra ensku síðuna mín að ég get ekki uppfært þá íslensku, þannig að ég bendi fólki á ensku síðuna þar sem ég tala um lélegan tónlistarsmekk minn. Annars verður íslenska síðan ekki bara þýðing á þeirri ensku heldur verð ég oft með mismunandi umfjöllunarefni, þar sem ég held að fæstir Bandaríkjamenn hafi áhuga á að heyra álit mitt á Framsóknarflokknum

Gleðilega páska

Gleðilega páska.

Ég hef ekki mikið að segja enda gerist ekki mikið á páskunum. Hildur fékk þó páskaegg í póstinum og nýja Verzlunarskólablaðið, þannig að maður hefur eitthvað að gera því það er bannað að læra á páskunum.

Annars vil ég bara kvarta yfir því að það skuli ekki vera til annar í páskum hérna í Bandaríkjunum.

Aðalmálið hérna í Bandaríkjunum í

Aðalmálið hérna í Bandaríkjunum í dag er auðvitað Elian Gonzales. Í fréttunum í dag hafa verið stanslausar útsendingar frá Miami þar sem nokkur hundruð Kúbverskir flóttamenn hafa eitthvað verið að kvarta yfir því að lögunum hafi loksins verið framfylgt.

Langflestir bandaríkjamenn eru hlynntir því að Elian verði sendur aftur til Kúbu en minnihlutinn er nú oft mun háværari heldur en meirihlutinn. Núna í sjónvarpinu eru Miami ættingjarnir að væla yfir því að Elian hafi verið tekinn frá þeim. Ég get ekki mögulega skilið hvernig þeim finnst þau hafa rétt fyrir sér. Auðvitað á Elian að vera hjá pabba sínum. Að halda öðru fram er fáránlegt.

Þeir, sem eru fylgjandi því að Elian verði hérna áfram eru blindaðir af hatri sínu á Fidel Castro. Ég er enginn aðdáandi Fidel Castro en það er ógeðslegt að nota 6 ára gamlan strák til að sýna vanþóknun sína á honum.