Ríkisstjórnin með Sjálfstæðisflokknum

Mörður Árnason, skrifar mjög góðan pistil um ábyrgð Samfylkingarinnar á hruninu: Ábyrgð er ábyrgð. Nokkrir punktar úr henni.

>Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin komast nefnilega ekki hjá því að skoða eigin þátt í hruninu. Þar skipta máli verk ráðherranna í ríkisstjórn, og ekki síður það sem þeir gerðu ekki. Þar koma líka við sögu stefnuáherslur flokksins bæði árin fyrir stjórnarmyndinuna 2007 og meðan á stjórnarsamstarfinu stóð. Og það þarf líka að skoða samræður í flokknum á tímabilinu 2007 til 2009, hvernig forystumenn hans fóru að því að hlusta ekki á flokksfólk og stuðningsmenn og létu sér nægja að messa yfir liðinu á skrautfundum (og eimir kannski enn eftir af þeim sið, Jóhanna og Dagur?) allt fram að Þjóðleikhússkjallarafundinum fræga – og þráuðust reyndar við nokkur dægur líka eftir þá niðurstöðu.

og áfram:

>Þótt utanríkisráðherra beri ekki lagalega ábyrgð á bankamálum eða hagstjórn getur formaður Samfylkingarinnar í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum ekki skorast undan pólitískri og siðferðilegri ábyrgð. Ingibjörg Sólrún ber samkvæmt íslenskri hefð ábyrgð á verkum allra samflokksráðherra sinna – þar á meðal viðskiptaráðherrans. Eitt af því sem fólk þarf reyndar að fara að vita er hvernig samskiptum eirra tveggja var háttað. Er það rétt að bankamálaráðherranna hafi ekki fengið að vera með á fundum utanríkis- og forsætisráðherrans með Seðlabankastjóranum um stöðu bankanna? Af hverju hafði Ingibjörg Sólrún það þannig? Og hvernig í ósköpunum fór Björgvin Guðni að því að sætta sig við þetta?

>Annað: Ég held einsog Ingibjörg Sólrún að einhver helstu mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 hafi verið að ganga inn í hana án þess að hafa þar nein áhrif á efnahagsmál og hagstjórn. Ég var reyndar einn af þeim sem lögðu að formanni flokksins að krefjast fjármálaráðuneytisins við stjórnarmyndunina. Skilaboðin sem við fengum voru að þar hefði verið mikil fyrirstaða. Ég er ekki viss um að nógu mikið hafi verið reynt.

>Forystumenn Samfylkingarinnar lögðu þessa stjórnarmyndun einfaldlega þannig upp að íhaldið ætti áfram að ráða efnahagsmálunum – Samfylkingin fengi fyrir sinn snúð ýmsar velferðarumbætur

Ég mæli með greininni allri.

Ég fór aldrei í felur með þá skoðun að árið 2007 taldi ég að besta ríkisstjórn sem að Ísland gæti fengið væri stjórn Jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokksins, en ég verð að játa það að ég var fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að sjá hvernig skipting ráðuneyta var, hverjir urðu ráðherrar fyrir Samfylkinguna og hvernig Samfylkingin kastaði ESB umræðum fyrir bí.

Kannski voru stærstu vonbrigðin þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk að halda þeim ráðuneytum sem mest höfðu með efnahagsmál að gera, forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á meðan að einu bætur Samfylkingarinnar voru að fá utanríkisráðuneytið. Þetta voru gríðarleg mistök af hendi Ingibjargar Sólrúnar. Ég sagði það við félaga mína strax eftir að þetta væri tilkynnt að þetta gæti reynst dýrkeypt. Samfylkingin fékk öll “mjúku” ráðuneytin á meðan að Sjálfstæðismenn stjórnuðu áfram efnahagsmálunum.

Og þetta varð dýrkeypt því að Samfylkingin virtist kasta í burtu öllum sínum áherslum í efnahagsmálum (sem voru vel útlistuð af Jóni Sigurðssyni fyrir kosningar) og Sjálfstæðismenn fengu að halda sinni stefnu áfram. Seinna meir gerðu auðvitað helstu forystumenn flokksins fjölmörg mistök í aðdraganda bankahrunsins, en upphaflegi glæpurinn var klárlega þessi eftirgjöf til Sjálfstæðismanna í stjórarmyndunarviðræðunum.

Hrunið í efnahagsmálum var ekki vegna þess að ríkisstjórnin fylgdi eftir stefnu jafnaðarmanna í efnahagsmálum, því að forysta Samfylkingarinnar gaf þá stefnu algerlega eftir í upphafi.

2 thoughts on “Ríkisstjórnin með Sjálfstæðisflokknum”

  1. Ábyrgð Samfylkingarinnar liggur ekki í að “gefa eftir” ákveðin ráðuneyti. Þetta er miklu flóknara en svo.

Comments are closed.