Serrano Hringbraut opnar

Jæja, okkur tókst víst að opna Serrano. Opnuðum klukkan 5 mínútur yfir 10 í morgun. Það er nokkur framför, því þegar við opnuðum Kringluna þá opnuðum við 5 tímum á eftir áætlun. Í morgun stóðst þetta hins vegar nokkurn veginn.

En það tókst líka með því að fólk var að vinna alla nóttina. Endalaust vesen með iðnaðarmenn olli því að við fengum í raun ekki staðinn útaf fyrir okkur fyrr en um 3 leytið á föstudaginn og höfðum því lítinn tíma til að innrétta staðinn, þrífa og elda mat fyrir næsta dag.

Ég var þarna allan daginn og svo var Emil og eitthvað af starfsfólkinu líka alla nóttina. Ég ákvað þó að fara að sofa um klukkan 2, en var mættur aftur á svæðið klukkan 8 og var þarna þegar við opnuðum. Ég get ekki séð annað en að þetta byrji mjög vel og það hefur verið gott að gera í allan dag. Ég er svona kominn yfir allra mesta stressið, en þori ekki ennþá að láta símann mjög langt frá mér. Hann hefur verið nánast límdur við eyrað á mér undanfarna daga.

Útlitið á staðnum er gjörbreytt frá því sem er í Kringlunni og ég er alveg fáránlega ánægður með það. Ég hannaði þetta með Vatíkaninu og hefur þetta að mínu mati heppnast ótrúlega vel. Núna þurfum við bara að fara í endurbætur á Kringlunni svo hún líti jafn vel út. Maturinn er enn sem komið er óbreyttur, en þó stendur til að prófa nýja rétti á næstunni.

En það er allavegana spennandi að vera búinn að opna og gaman að vita til þess að maður geti farið að sofa klukkan 1 á laugardagskvöldi vitandi að það sé ennþá opið á Serrano. Kringlan hefur auðvitað verið takmarkandi að því leyti að þar er lokað klukkan 7 á kvöldin og því nánast enginn kvöldmatur, en á nýja staðnum verður opið til 11 virka daga og 3 föstudaga og laugardaga, svo það er ekki lengur vandamál.

18 thoughts on “Serrano Hringbraut opnar”

 1. til hamingju! kæró minn fór áðan og keypti fyrir mig burrito af því ég er lasin heima

  mmmm mjög gott!

  ég ætlað koma við þarna á leiðinni heim af æfingum og svona :laugh:

 2. Ég tók einmitt eftir því hvað þú hélst fast í símann í kvöld. :laugh:

  Annars, til hamingju. Staðurinn leit mjög vel út og staðsetningin er frábær fyrir nema í H.Í. eins og mig. Ef þú segir að útlit og framkoma staðarins muni batna enn frekar hlakka ég til að koma næst.

  Svo er þetta einfaldlega besti hraðbiti á Íslandi. Svo einfalt er það nú bara. 🙂

 3. Fór og fékk mér þynnku-burrito þegar ég vaknaði í dag. Til hamingju með staðinn! 😉

 4. Erum tvær á lokaspretti uppí HÍ og erum hér framá kvöld flesta daga. Frábært að fá veitingastað nálægt skólanum, kíktum þarna í gær og mjög gott!

 5. Til hamingju.

  Ég held að ég hafi aldrei borðað á Serrano…evör. Geri það í sumar. Skal taka alla fjölskylduna með.

 6. Takk kærlega allir. Takk takk 🙂

  Halli, þú sleppur þar sem þú býrð í New York. En þú verður að koma að prófa þegar þú kemur til Íslands næst.

 7. hey, til hamingju með nýja staðinn.

  Með hverjum mæliru annars ? Kannski ég nái að draga Húlíó með mér á morgun 🙂

 8. Til hamingju með opnunina Einar.

  Eins og Halli þá hef ég ekki heldur borðað á Serrano (enda líka búsettur í NY). Ég borðaði alltaf á “mömmunni” þangað til ég fór til Mexico síðasta sumar. Þar borðaði ég yfir mig af mexíkóskum mat og hef ekki mikið smakkað hann síðan eiginlega. HINSVEGAR ætla ég að borða á nýja staðnum ykkar þegar ég kem heim í vor.

  That’s a promise!!

 9. Sko, Maja – ég mæli með quesadillas með kjúklingi. Það er ótrúlega gott, en kannski ekki alveg jafn hollt og kjúklingaburrito. Ég fæ mér mjög oft quesadilla með osti, kjúklingi, maís, nachos flögum og bbq sósu og svo sýrðum rjóma oná.

  Það er kannski ekki alveg jafn hollt og burrito, en rosalega gott. Svo í burrito-unum fæ ég mér oftast bbq burrito (gott ef þér finnst bbq sósa góð) eða grískan burrito (gott ef þér finnst feta ostur góður) eða fajitas burrito.

  Og Sigurjón, hlakka til að sjá þig á nýja staðnum. 🙂

Comments are closed.