Serrano í Smáralind opnar

Síðustu dagar eru búnir að vera magnaðir. Framkvæmdirnar við Serrano í Smáralind voru lærdómsríkar og erfiðar, en að lokum tókst þetta og ég er gríðarlega ánægður með niðurstöðuna.

Upphaflega ætluðum við að opna staðinn 1.nóvember, því var svo breytt til 8.nóvember og að lokum sættumst ég og verktakinn á að opna á föstudaginn, 9.nóvember. Ég tók þá dagsetningu sem heilaga ritningu og auglýsti meðal annars opnunina í Fréttablaðinu. Til að bæta aðeins oná stressið ákváðum við svo að halda uppá 5 ára afmæli Serrano daginn fyrir opnunina inná staðnum í Smáralind.

Á fimmtudaginn mætti ég uppí Smáralind um morguninn og fékk nett sjokk því það var mikið verk óunnið. Um hádegið var ég orðinn frekar stressaður, því ég vissi að við þurftum að henda iðnaðarmönnunum út, tæma staðinn, halda partíið og fá svo iðnaðarmennina aftur inná staðinn til að klára verkið fyrir opnun. Ég tók því ákvörðun og fékk Emil til að halda afmælið heima hjá sér. Það gekk eftir og við áttum þar frábæra stund með vinum, ættingjum og samstarfsaðilum. Á fimmtudagskvöldið kíkti ég svo uppí Smáralind og leist þokkalega á það að ætla að opna daginn eftir.

* * *

Á föstudagsmorgunn var ég mættur eldsnemma ásamt nokkuð mörgum starfsmönnum, sem byrjuðu að undirbúa opnunina. Klukkan 9.30 var byrjað að elda mat fyrir opnunina, en ég sá þó að það var gríðarlega margt óklárað. Til dæmis voru engin borð komin í salinn, rafmagnið í salnum var ófrágengið, listaverkið ekki komið upp og svo framvegis. Við ákváðum á endanum að fresta opnuninni til kl 12, svo til 15, en um eitt leytið áttaði ég mig á því að best væri að kyngja mistökunum og fresta opnuninni fram á laugardag svo við gætum klárað hlutina almennilega.

Það var að ég held skynsamleg ákvörðun og gerði okkur kleift að klára flest málin. Ég fór heim til mín um 8 leytið á föstudagskvödinu og var algjörlega uppgefinn þegar ég lagðist uppí sófa. Klukkan 3 um nóttina fékk ég svo sms skilaboð frá verktakanum, þar sem hann sagði mér að þeir væru hættir og óskaði mér til hamingju með staðinn.

Á laugardagsmorgunn vaknaði ég svo aftur snemma og var mættur ásamt verslunarstjóranum og öðrum starfsmönnum um kl 8 uppí Smáralind. Í raun var allt tilbúið og bara smá þrif eftir, sem tókust léttilega fyrir opnun. Klukkan 11 opnaði ég svo staðinn formlega. Síðan þá hefur gengið mjög vel. Það eru enn nokkur smáatriði eftir (vantar t.d. að tengja hljómtæki), en þetta er að mestu komið.

* * *

Það hefur frá upphafi verið draumur minn að vera með Serrano í okkar eigin húsnæði, en ekki hluta af stærra konsepti (einsog hann er á Stjörnutorgi og inná N1). Núna eru við loksins komin með þann stað. Í ágúst fór ég í það verkefni að leita að hönnuði til að teikna upp nýtt útlit á Serrano og eftir nokkur viðtöl samdi ég við Leu Galgana, sem hefur nokkra reynslu af hönnun á veitingastöðum. Ég mataði hana nokkurn veginn á því hvernig við sæjum Serrano fyrir okkur. Við viljum að Serrano sé skyndibitastaður í þeim skilningi að fólk fær matinn fljótt og að hann er ódýr. En við sjáum Serrano sem hefðbundinn veitingastað í þeim skilningi að umhverfið eigi að vera í toppstandi og að þér eigi að líða einsog þú sért á þokkalega fínum veitingastað þegar þú borðar á Serrano.

Að mínu mati tókst Leu fullkomlega upp í hönnuninni. Staðurinn í Smáralind er (þó ég segi sjálfur frá) gríðarlega flottur. Litirnir, efnisvalið og allt auglýsingaefni (logo, matseðilsskilti) passa að mínu mati frábærlega saman. Afgreiðslan er mjög flott, sem og salurinn. Hægra megin í salnum er svo glæsilegt listaverk, sem að Hallmar á Vatíkaninu hannaði. Lea kom með upphaflegu hugmyndina að því hvernig formin í verkinu ættu að líta út, en við vorum alltaf í erfiðleikum með það hvað ætti að vera á verkinu. Svo komu þeir á Vatíkaninu með hugmynd, sem mér fannst skemmtileg. Í kjölfarið fann ég fullt af reference myndum á netinu, sem mér fannst passa inní þetta – ég vildi til dæmis tengja listaverkið Mexíkó og San Francisco (burrito-arnir sem við seljum eru svokallaðir San Francisco burrito-ar). Stuttu seinna kom svo önnur útgáfa af þessu frá Hallmari, sem ég var gríðarlega sáttur við og við enduðum á að notast við hana.

* * *

Þannig að núna er staðurinn okkar kominn af stað og þessi staður markar þáttaskil í okkar fyrirtæki. Í fyrsta skipti erum við með okkar eigin sal og núna erum við með hönnun á stað, sem við erum fullkomlega sáttir við og getum nýtt okkur á fleiri stöðum í framtíðinni.

24 thoughts on “Serrano í Smáralind opnar”

 1. Til hamingju með þennann áfanga, ég get rétt ímyndað mér hvað það er búið að vera mikið að gera hjá þér undanfarið við að koma þessu öllu saman.

 2. Hjartanlega til hamingju, af myndunum að dæma er staðurinn stórglæsilegur! Hefði skellt mér þangaði í hádeginu ef Smáralindin væri aðeins nær miðbænum, varð því að láta Hringbrautina duga.. en ég á eftir að prófa fyrr en seinna..

 3. Innilega til hamingju með staðinn, hann lítur mjög vel út, very classy….Fer þangað við fyrsta tækifæri þegar maður fer til Íslands.

  kv
  jhb

 4. Til lukku með staðinn. Verð að segja þetta er einn sá glæsilegasti skyndibitastaður sem ég hef stigið fæti á. Mikið lagt uppúr hönnun og hlýleika.

  Síðan skemmdi það ekkert að chicken casadillas-ið var sviksamlega ljúft!

 5. Til hamingju,
  Væri hins vegar gaman ef að næsti opnunarpóstur á Serrano væri um stað á Akureyri 🙂

 6. Jæja til hamingju… ég er nú búinn að njóta þess heiður að borða þarna 🙂 og var það í fyrsta skipti sem ég borða á Serrano… verð að segja að það verður ekki það síðasta… en gaman að segja frá því að prufa nýjan veitingastað er altaf kjánalegt.. maður fær svona nettan kjána hroll.. fyrir landsbúapakk eins og mig sem þekkir ekkert annað en shellsjoppuna og sveitta hamborgara 🙂 var svona svipað kjánalegt og þegar ég var að velja á minn fyrsta Subway.. en næst verður maður klárari hehe.. enn og aftur til hamingju 🙂

 7. Ég mætti fyrstur manna kl 11 á föstudaginn 9. nóvember en það var einhver smiður sem tjáði mér það að þið mynduð ekki opna fyrr en á morgun (laugardag?). Ég frekar vonsvikinn rölti í átt að bílnum mínum og keyrði heim. 🙁

  En innilega til hamingju með nýja staðinn, Einar. Ég kíki þarna við tækifæri. Alltaf jafn góður maturinn hjá ykkur.

 8. Takk, Álfheiður.

  Og sorrí Gaui – það var bara ekki sjens að þetta tækist á föstudeginum. Við gerðum okkar besta, en því miður tókst það ekki.

 9. Þetta er glæsilegt. Til hamingju. Vonandi að maður sjái Serrano í nýju viðbyggingunni við verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri.

 10. Til hamingju með nýja staðinn. Ég verð að viðurkenna að ég var gríðarlega sáttur við þessa seinkun á opnun staðarins. Ég vinn hér rétt hjá Smáralindinni og var að vinna yfir alla helgina. Í hádeginu á laugardaginn ákvað ég því að prófa nýja staðinn. Og þar sem ég hélt að staðurinn hefði opnað á föstudaginn gerði ég ráð fyrir að ég þyrfti að greiða fyrir máltíðina “dýrum” dómum. Það kom mér því skemmtilega á óvart að ég var “rekinn út” með burrito-inn minn án þess að fá að greiða fyrir hann.

  Ég mætti svo í vinnuna aftur á sunnudaginn og skaust því út í hádeginu með peninginn sem ég hafði ætlað að eyða á laugardeginum og keypti mér annan burrito. Þetta er svo hrikalega gott. Og þess má geta að ég vinn í sama húsi og Culiacan en héðan í frá mun ég frekar gera mér ferð niður í Smáralindina til að ná mér í almennilegan hádegismat.

  Takk fyrir mig.

 11. Kári, ég er búinn að fá ansi margar hvatningar fyrir stað á Akureyri.

  Og Þröstur, mikið rosalega fannst mér gaman að lesa þetta komment! 🙂

 12. Til hamingju með nýja staðinn,
  verst að ég hef ekki prófað hann. Verð fastagestur þegar ég flyt heim aftur.
  Hér á Boston svæðinu sæki ég í burrito frá boloco, chipotle og qdoba. Getur þú sagt mér hver munurinn er á þeim stöðum og þínum, þú þarft ekki að segja mér að þinn er betri, því það er ég viss um.

 13. Sko, ég hef ekki smakkað Boloco.

  Við erum að mínu mati klárlega betri en Qdoba (borðaði þar síðasta sumar), en hvort við erum betri en Chipotle er smekksatriði. Ég dýrkaði Chipotle á háskólaárum mínum, þannig að sá staður er alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Að mínu mati (og ég er sennilega langharðasti gagnrýnandi Serrano – spurðu bara yfirkokkinn og meðeiganda minn) eru sumir hlutir betri á Serrano og sumir betri á Chipotle. Við erum þó alltaf að reyna að bæta okkur og til að mynda langar okkur að bæta við kjötúrvalið hjá okkur, sem er að mínu mati betra á Chipotle (carnitas, barbacoa).

  Helsti kostur okkar umfram Chipotle er úrvalið. Við bjóðum uppá blöndu af “tilbúnum” burrito-um einsog bbq, grískum, thai burrito og svo getur fólk einnig valið allt innihaldið í sinn burrito. Mér finnst til dæmis æðislegt að fá mér bbq burrito, sem ég gæti ekki fengið á Chipotle. Einnig er maturinn okkar umtalsvert hollari en á Chipotle. Við notum t.d. 10% feitan sýrðan rjóma, meðan þeir nota klárlega meira en 20%. Einnig er osturinn okkar fituminni, sem og hrísgrjónin sem eru nánast algjörlega fitulaus hjá okkur, en innihalda mikla olíu á Chipotle.

  Hefðirðu spurt mig fyrir 3 árum hvort staðurinn væri betri hefði ég sagt Chipotle, en í dag (sérstaklega eftir breytingarnar síðustu 2 mánuði) er þetta nokkuð jafnt að mínu mati, þótt eflaust séu mér einhverjir ósammála.

Comments are closed.