Small Earthquake in Chile. Not Many Dead

Jamm, ég vissi að það myndi koma grein á Múrnum, þar sem þeir myndu fara að kvarta yfir athyglinni, sem sjö látnir geimfarar frá Bandaríkjunum og Ísrael fengu í fréttum nú um helgina. Steinþór Heiðarsson tók að sér að skrifa grein, þar sem hann gagnrýnir athyglina og samúðina, sem geimfararnir og aðstandendur þeirra fengu.

Steinþór kemur svo með einhverja hallærislega upptalningu á því að fólk hafi dáið í öðrum löndum um helgina, án þess þó að það hafi talist fréttmætt. Þannig eigum við hin, sem vorum sjokkeruð þegar við sáum geimferjuna springa, að fá samviskubit yfir því að það sé fólk að deyja annars staðar í heiminum. Auðvitað eru slys misjafnlega fréttnæm. Það tekur líka meira á okkur að 10 Danir hafi dáið heldur en ef 10 Indverjar hefðu dáið. Það er bara fullkomlega eðlilegt. Það fengi líka meiri fréttaumfjöllun í Bangladesh ef 10 Indverjar hefðu dáið heldur en 10 Danir.

Ég leyfi mér líka að fullyrða að Steinþóri er nokkurn veginn sama um þá sem dóu í rútuslysinu í Zimbabwe. Hann hefði sennilega ekki hugsað meira um slysið nema vegna þess að honum vantaði eitthvað til að fylla þessa slysaupptalningu sína. Hann á því ekki að vera að setja sig á háan hest og skamma okkur hin fyrir að samhryggjast aðstandendum geimfaranna.

Uppfært: Sjá umræður hjá Bjarna um sama mál

4 thoughts on “Small Earthquake in Chile. Not Many Dead”

 1. Fyrrv. fréttamaður sagði mér einu sinni hvað væri (var) viðmiðið til að slys teldust “fréttir” á Íslandi. Það þurfti ákveðinn fjölda af þessum og hinum til að það væri “frétt”. Margföldunarstuðullinn hverfur auðvitað þegar svona “merkileg” slys eiga sér stað.

  Ekki það að þetta slys hefur lítil áhrif á mitt daglega líf :rolleyes:

 2. Það að geimferjan hafi sprungið hefði verið alveg jafn fréttnæmt þó svo að allir um borð hefðu lifað af (bara ekki jafn sorglegt). Það er einfaldlega meiri frétt í því að geimferja springi fyrir framan nefið á mönnum heldur en að rúta lendi í umferðarslysi. Það er ekki dauðinn sem er fréttnæmur heldur kringumstæðurnar, ég held að það eigi við allar slíkar fréttir.

 3. Jájá, auðvitað er miklu merkilegra að geimferja farist en minibus með 8 Ameríkönum.

  Lítil flugslys rata líka stundum í fréttirnar hérna. Það þykir merkilegt að nokkrir farist í flugslysi en bílslysi.

  Annars hef ég litlar áhyggjur af því að fólki finnist rútuslys mismerkileg eftir því hvar í heiminum þau verða.

  Mér finnst aftur á móti merkilegra að oft hafa mannskæðir jarðskjálftar og náttúruhamfarir ekki komist í fréttirnar hérna, þó jafnvel hundruðir hafi látist. NV-Kína og Mið-Asíu lýðveldin eru dæmigerð svæði þar sem fólk veit ekki einu sinni hvað löndin heita (nema þá þau hafi heyrt þau nefnd vegna frétta frá Afganistan). Því gæti flestum ekki staðið meira á sama um hvort tvö-þrjú hundruð manns farist í náttúruhamförum þar. Fréttir eru líka oft misvísandi frá þessum svæðum.

  Það segir kannski eitthvað um þetta þegar mannvitsbrekkurnar á íþróttadeildinni eru að reyna að lýsa Ólympíuleikunum (eða öðrum álíka viðbrögðum) og rembast við að lesa út úr furðuheitum á borð við Ússbikúss…eitthvað.

  Kemur geimferjuslysinu ekki mikið við en engu að síður er þetta af sama meiði og pælingin um “mismikið mikilvægi mannslífa”.

  Það sem við, sem höfum engan áhuga á (að því er virðist) tilgangslitlum geimferðum, verðum að sætta okkur við er að þetta þykir fréttnæmt. Rétt einsog það þykir ástæða til að undirleggja allt þjóðfélagið þegar “strákarnir okkar” keppa í handbolta.

 4. Jamm, titillinn á þessu pistli er einmitt tilvitnun í fræga fyrirsögn, sem var kosin leiðinlegasta fyrirsögnin í Times í kringum 1920.

  Það er bara fullkomlega eðlilegt að fólk hafi misjafnlega mikinn áhuga á slysum í öðrum heimshlutum og það fer í taugarnar á mér þegar einhverjir reyna að láta mann fá samviskubit yfir því að maður skuli ekki vera miður sín yfir einhverju rútuslysi í Zimbabwe.

  Þær slysafréttir, sem fá mest á mann eru þegar þær fjalla um staði, sem maður hefur heimsótt, eða þekkir. :confused:

Comments are closed.