Steve Jobs dáinn

Það er skrýtið að hugsa til þess að það hafi áhrif á mann þegar að framkvæmdastjóri fyrirtækis í Kaliforníu deyr, en Steve Jobs var jú enginn venjulegur framvkæmdastjóri.

Ég hef notað Apple vörur í nærri því 20 ár. Allt frá því að ég eignaðist Macintosh Classic tölvu þegar ég var 13 eða 14 ára. Síðan þá (með smá hléi í framhaldsskóla) þá hef ég notað Apple tölvur á hverjum degi. Frá því að fyrsti iPod-inn kom út hef ég ekki notað annað tæki til að hlusta á tónlist á ferðinni. Frá því að fyrsti iPhone-inn kom á markað hef ég ekki geta notað aðra síma og frá því að iPad kom út hefur mér ekki dottið í hug að kaupa spjald-tölvu frá öðru fyrirtæki. Ég var Apple nörd þegar það var ekki tísku að vera Apple nörd og ég þurfti að berjast við skóla og vinnustaði um að fá að nota Apple vörurnar mínar í stað PC tölva.

Það gera margir grín af okkur Apple nördum fyrir aðdáun okkar á Steve Jobs. Hann birtist okkur einu sinni eða tvisvar á ári, sýnir okkur á ótrúlega áhrifaríkan hátt nýjustu vöruna sína og við getum svo ekki beðið eftir því að fá að afhenda Apple peningana okkar til að kaupa nýjasta dótið.

En Steve Jobs var einfaldlega einstakur. Hann var ótrúlega góður sölumaður og hann hafði einstaka sýn á það hvernig tölvur og önnur tæki ættu að virka og líta út. Hann vildi að tölvurnar væru einfaldar og fallegar. Áður en iMac kom út voru allar tölvur beislitaðar og ljótir kassar. Áður en iPhone kom þá hataði ég alla síma sem ég hafði átt. Steve Jobs var ekki eini starfsmaður Apple, en það var augljóst að allt fyrirtækið vann eftir hans höfði. Það er alveg klárt mál að tölvur og símar væru umtalsvert ljótari og flóknari tæki í dag ef Steve Jobs hefði ekki stofnað Apple.

Hans verður saknað.