Stjórnmálavitleysa

Ég er að fara til útlanda aftur á laugardaginn og verð í nærri tvær vikur í eintómu vinnu stússi. Nú er það ákveðið að ég fer til Kölnar, Frankfurt, Prag (nýtt land, Jibbíííííí) og svo til Amsterdam. Verð yfir helgi í Prag, þannig að ég get túristast. Er eitthvað, sem ég þarf nauðsynlega að gera í Prag?


Það skal enginn segja mér annað en að þessi [Birkir](http://www.framsokn.is/framsokn/kjornir_fulltruar/nordausturkjordaemi/birkir_jon_jonsson/) framsóknar-Alþingis-maður sé svona 10 árum eldri en ég! Lágmark! Ég neita að trúa öðru!!!

NEITA ÞVÍ!!!

(sjá [sönnunargagn A](http://servefir.ruv.is/dagskra/streaming/default.asp?channel=1&date=2005-01-24&file=4214482))


Úr sjónvarsfréttum RÚV:

>**Samfylkingin á Akureyri telur nauðsynlegt að næsti varaformaður Samfylkingarinnar verði af landsbyggðinni.**

*(Lemur hausnum í vegginn)*


Staksteinar í Mogganum er einhver alversta froða í íslenskum fjölmiðlum. Í síðustu viku birtist þessi snilld:

>**Í þeim kosningum var Ingibjörg Sólrun forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hún varð ekki forsætisráðherra.**

>**Það er hægt að færa rök að því, að þjóðin hafi hafnað Ingibjörgu Sólrúnu, sem forsætisráðherra í síðustu kosningum.**

HALLÓ! Í fyrsta lagi legg ég til að Mogginn hætti að hafa Staksteina á síðustu innsíðunni í blaðinu, því þá endar maður alltaf lesturinn reiður. Í öðru lagi, eru þeir ekkert að grínast með þessa vitleysu?

Það vill svo til að Ingibjörg Sólrún, Halldór Ásgríms og Davíð Oddson voru öll í framboði í sama kjördæminu, Reykjavík Norður. Hvaða flokkur skyldi hafa fengið [flest atkvæði í Reykjavík Norður](http://www.kosningar2003.is/web/NyttEfni?ArticleID=1067)? Var það kannski Framsókn? Nei, Framsókn og Halldór Ásgríms fengu bara 11% atkvæða. Nú þá hlýtur það að hafa verið Davíð og Íhaldið! Neibbs, Davíð fékk bara 35%. Ingibjörg, Össur og Samfylkingin fengu hins vegar 36%.

Samfylkingin var því stærsti flokkurinn í þessu kjördæmi. Má því ekki með sömu rökum segja að þjóðin hafi líka hafnað Davíð og Halldóri sem forsætisráðherraefnum?

Málið er auðvitað að þjóðin getur hvorki valið né hafnað forsætisráðherraefnum. Það er einmitt svo að maður, sem fékk 4.199 atkvæði í síðustu kosningum, er forsætisráðherrann okkar.

Lifi lýðræðið og lifi Moggalógík!


Annars er þetta búinn að vera [ljómandi fínn dagur](http://kaninka.net/sverrirj/011747.html).

6 thoughts on “Stjórnmálavitleysa”

 1. Birkir er samkvæmt nýjustu fregnum, 63 ára í anda og hugsun en hann er líka boðberi unga fólksins innan Framsókns, já sem og bleyðan Dagný.

  Fínn pistill á baksíðum Fréttablaðsins, þar sem ritað er um ungu þingmenn okkar.

 2. Amsterdam og Amsterdam Austur. Góð blanda. Tilviljun?

  Þú þarft nauðsynlega að fara út á lífið í Prag, helst fara og drekka Cesky Budeijoviesky (Budvar) ferskan ur tunnunum a barnum theirra og taka runtinn fra Kastalanum nidur ad hinni margfraegu bru yfir i gamla baeinn, kannski of mikid af turistum a leidinni en thess virdi. Bruinn er svo full af folki a kveldin lika, ungu fólki.

  Vona bara að hún komist á topp 10 listann þinn eftir þessa ferð. :confused:

 3. Takk fyrir þetta, Daði. Ég verð reyndar bara á ráðstefnu fyrir utan Amsterdam, svo þetta er algjör tilviljun.

  En er spenntur fyrir Prag. Hef heyrt svo rosalega marga góða hluti um borgina.

 4. Prag er auðvitað frábær. Reyndar ekki taktískt að segja það áður en þú ferð svona til að hæpa upp væntingar.

  Tékkar eru loksins búnir að fatta að það er mjög einfalt og hagkvæmt að svína á túristum. Maturinn alveg niðri í miðbæ er því orðinn verri og miklu miklu dýrari. Ef þú vilt fá gott að éta þá myndi ég hafa fyrir því að labba aðeins út frá Venselás, annað hvort til hægri upp frá safninu eða jafnvel taka lest uppeftir á Churchill (eða labba – frekar stutt) torgið, pínulítið torg við einn háskólann í borginni og rölta þar í kring. Þar eru venjulegir Tékkar, ungt fólk og almenningur. Ekkert brjálæðislega mikið af veitingastöðum en þeir eru talsvert ódýrari.

  Var að reyna að muna hvað skemmtistaðirnir hétu. Ef ég man rétt þá er <a href=" Radost”>http://www.radostfx.cz“>Radost svolítið sniðugur klúbbur. Var ekki alveg að koma upp í hugann þannig að ég fékk nokkrar hugmyndir hjá einum Mexíkóanum sem ég var með þarna úti. Þessi staður er nokkuð nettur Deminka. Svo er mecca.cz eitthvað sem margir eru hrifnir af og það er líklegt að hitta djammglatt og hresst lið þar. Lucerna er í svona hálfgerði verslunarmiðstöð, Slvoansky Dum, mér fannst hann frekar plebbalegur reyndar.

  Varðandi svona túristastöff er bara spurning um að taka kastalann, gamla bæjartorgið og jafnvel Karlsbrú á laugardegi. Þar eru oft tónlistaratriði og svoleiðis. Svo er skemmtilegur garður um með útsýni yfir bæinn, Letna. Svo er turn sem heitir Petrin sem er svona hálfgerður Eifel turn.

  Uppáhalds veitingastaðurinn minn var á Anglicka 15 og hét Ponte en ég held að hann sé farinn þaðan. Það er mjög stutt frá safninu á endanum á Venselás. Upp og til hægri og svo niður aðra götu til hægri næst. Mér sýnist hann vera búinn að opna aftur http://www.ponte-restaurant.cz/. Myndi bara tékka á einhverju eins og þessu Local Traditional Cuisine.

 5. Það er eitt öðru fremur sem fer í taugarnar á mér við staksteinana er:

  ,,nú myndu sumir segja að…”

  ,,nú myndu sumir halda fram að …”

  Hmmmm. Hljómar kunnulega?

  Sótt í smiðju spunalæknanna (æðislegt nýyrði) á Fox News (sbr. Outfoxed)

  ,,Now some would say that the economy has never been better”

  ,,Now some would say that all Iraqis are thankfull for us going in”

  Úff …upphaf fasisma!

Comments are closed.