Suð-Austur Asíuferð 1: Phát Thai

Úffff, Bangkok maður!

Ég hef upplifað margar stórborgir, en samt þá býr mann ekkert almennilega undir geðveikina í Bangkok. Öll þessi fáránlega umferð, endalausu læti og endalaust áreiti gera það að verkum að maður er hálf uppgefinn þegar maður skríður inná hótelherbergi í lok dags.

Ferðalagið hingað til Tælands var langt, en samt bærilegt. Ég byrjaði ferðalagið á miðvikudagsmorgun með því að labba með bakpokann minn útá Hótel Sögu rétt fyrir klukkan 5. Og því lauk þegar ég tékkaði mig inná hótel í Bangkok klukkan 21 á fimmtudagskvöldinu. Semsagt 31 tímar á ferðalagi og 7 klukkutíma tímamismunur. Ég stoppaði í 8 tíma í London og ákvað að eyða þeim tíma bara í rólegheitunum á Heathrow, þar sem ég lenti á Stansted og þurfti að koma mér yfir á Heathrow. Eftir þá bið tók svo við flug með Emirates, fyrst til Dubai og þaðan til Bangkok.

Þrátt fyrir að Emirates flugfélagið hafi stutt bjánalið einsog Chelsea og Arsenal, þá var ég fljótur að fyrirgefa þeim það þar sem þeir voru með sjónvarp í sætinu þar sem ég gat valið um einhverjar 300 bíómyndir “on-demand”. Það var snilld og náði ég því að horfa á “Inconvenient Truth” – sem er snilld og “Thank you for smoking” – sem var ekki svo mikil snilld. Eini gallinn á fluginu var sá að dúbaísk börn virðast vera þeim kosti gædd að geta grátið stanslaust í 6 tíma og 15 mínútur, sem er akkúrat sá tími sem að fyrra flugið tók.

Hérna í Bangkok gisti ég á litlu “hóteli” á frægustu bakpokaferðalanga-götu í heimi, *Khao San*. Þessi gata er auðvitað kapítuli útaf fyrir sig. Hérna eru samankomin hundruðir af bakpokaferðalöngum, sirka 2.000 götusalar – sem selja allt frá Phat Thai (ég hef verið einstaklega duglegur við að styrkja þá sölumenn) til sólgleraugna og svo um 100 Túk-Túk bílstjórar. Úr þessu verður svo til alveg yndislega hallærisleg blanda, sem ég held að ég þoli ekki í mikið meira en þá fjóra daga, sem ég ætla mér að vera hérna.

Ég er ekki búinn að gera mikið hérna í Bangkok. Ferðalagið og tímamunurinn situr ennþá eitthvað pínu í mér, allavegana hef ég sofið í 14 og 15 tíma fyrstu tvær næturnar hérna. Þó er ég nokkuð viss um að það er ekki þægilegu rúmi eða rólegu umhverfi að þakka. Gærdeginum eyddi ég á labbi um borgina og reyndi aðeins að fá tilfinningu fyrir lífinu hérna í nágrenninu. Það að fara í göngutúr í Bangkok er þó ekki auðvelt. Fyrir það fyrsta er mengunin sennielga nóg til að fá lungnakrabba innan nokkura daga. Auk þess þá er umferðin stórhættuleg. Nú hef ég upplifað umferðina í borgum einsog Buenos Aires, Istanbúl og Mexíkóborg þar sem menn virðast ekki hafa fyrir því að fara í ökuskóla. En Bangkok nær að toppa þessar borgir, mest vegna fjölbreytileika ökutækja. Því auk hefðbundinna bíla eru hér milljón mótorhjól og eitthvað annað eins af Túk-túk töxum, sem geta sveigt sér í allar þær mögulegu eyður, sem venjulegir bílar skilja eftir sig.

Bætum svo því við að hérna eru nánast aldrei umferðarljós við göngubrautir og því verður þetta háspennuleikur í hvert skipti, sem maður þarf að labba yfir götu. Bangkok búar virðast ekkert kippa sér upp við þetta – en ég er ennþá að venjast þessu. Á labbi niðrí Kínahverfið var stoltið mitt þó aðeins sært þegar að gömul kona leit á mig, þegar ég hafði staðið einsog hræddur álfur við götuna í sirka mínútu, og stökk svo útá götu beint fyrir leigubíl sem stoppaði fyrir henni. Ég hugsaði með mér að ef hún væri ekki hrædd við að deyja, þá væri ég það ekki heldur og stökk á eftir henni en hélt mig þó hægra megin við hana svo að hún myndi fá mesta skellinn ef að brjálaður Túk-túk bílstjóri myndi keyra okkur niður.

Þessir túk-túk bílstjórar eru algjörar dúllur, því þeir taka hverja handahreyfingu sem viljayfirlýsingu um að maður vilji fá far með þeim. Hérna þarf ekki að kalla á þá, það er nóg einfaldlega að taka upp kort eða stoppa og horfa í kringum sig í 10 sekúndur. Í gær var ég að glápa á einhverja sæta stelpu, sem labbaði í veg fyrir Túk-túk bílstjóra, sem varð um leið sannfærður um að ég væri að horfa á hann og bauð mér því undireins far á afar góðu tilboðsverði.

Ég kíkti svo útá djammið hérna á *Khao San* í gærkvöldi. Kynntist stelpu frá Hollandi og strák frá Argentínu og sátum við saman á *Center Khao San* barnum. Seinna um kvöldið hittum við svo þrjár sænskar stelpur, sem við fórum með á dansklúbb hér nálægt. Þökk sé hinum gríðarlega óvinsæla forsætisráðherra Tælands, Thaksin Shinawatra, (sem ætlaði einu sinni að kaupa Liverpool FC), þá mega barir ekki vera opnir til lengur en 1, þannig að ég hafði ekki drukkið nema einhverja 10 Singha bjóra þegar að tónlistin stoppaði og allt var búið.

Deginum í dag hef ég svo eytt í Kínahverfinu í Bangkok. Kínahverfið er einsog önnur hverfi hérna í miðborg Bangkok, nema að það er bara *aðeins* geðveikara – og götumaturinn *aðeins* ógirnilegri. Þetta var þó skemmtilegt hverfi ég ég keypti mér m.a. úr og gæða sólgleraugu fyrir samtals 350 krónur.

Ég ætla að vera hérna í Bangkok fram á þriðjudagsmorgun. Á morgun er von á Friðrik og Thelmu (sem eru í brúðkaupsferð) hingað til Bangkok og ætlum við að hittast á mánudagskvöld í kvöldmat. Ég ætla að eyða morgundeginum í að skoða musterin hérna í Bangkok og svo stefni ég að fara á þriðjudaginn áleiðis til Siem Reap í Kambódíu, sem verða grunnbúðir fyrir ferðir til *Angkor Wat* musteranna.

(p.s. getur einhver snjall einstaklingur sagt mér af hverju forsíðan á eoe.is birtist með tælenskum stöfum, en ekki einstakar undirsíður)?

*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 19.05*

6 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 1: Phát Thai”

 1. Ég veit ekki hvort það er ástæðan en ég sé þann mun á þessum tveimur síðum að forsíðan er send með aukalegum skemmdum content-type header.

 2. Rakst á síðuna þína fyrir tilviljun. Mjög flott síða. Ég var einmitt í Thailandi- Bankok í Júní en ég fór í siglingu á fljótabát inn umm öll “ræsin” eða hvað sem þeir kalla þetta nú, og það var magnað. Einnig mæli ég með því að þú skoðir eitthvað af Búdda hofunum ef þú hefur tíma. Ef þig langar til að kaupa e-hvað til minningar um Bankok þá er mjög flottur markaður á hverri helgi, alveg risa stór með helling af allskonar stöffi.

 3. Saell kall. Eigum vid ad hittast a morgun kl. 19 a Rembrandt? Mig langar lika drullumikid ad kikja a muay thai bardaga ef thad er ekki of seint ..Sendu post a mig,
  kv, Fridrik.

 4. Borgar, hvaða lína er þetta nákvæmlega?

  Guðný, já ég er búinn að skoða hofin en nennti ekki að fara á helgarmarkaðinn – ákvað að láta Chinatown duga í bili. 🙂

  Og Friðrik, við hittumst auðvitað á eftir. 🙂

 5. Þriðja lína í forsíðuskjalinu er nú:

  Hún ætti sennilega að vera .

  Það er sumsé eitthvað undarlegt á seiði með gæsalappirnar þarna.

Comments are closed.