Tölvudót

Nokkrir tæknitengdir hlutir, sem ég elska þessa stundina.

  • Gmail. Hljómar kannski fáránlega, en ég hef verið að uppgötva Gmail alveg uppá nýtt á síðustu dögum. Við keyrum allan Serrano póstinn á Gmail og höfum gert það lengi. Ég hef hins vegar notast við Mail.app á Makkanum og talið það á einhvern hátt vera betra en Gmail notendaviðmótið. Það var blekking hjá mér.

    Ég fékk mig fullsaddan í vikunni og ákvað að skipta yfir í Gmail viðmótið. Ég náði mér í Mailplane (sem að einfaldar hluti einsog “drag & drop” viðhengi og samskipti við Address book í Mac OSX, auk þess sem það býður uppá samhæfingu við OmniFocus) og tók mér smá tíma í að lesa um flýtiskipanirnar í Gmail – og eftir 15 mínútna grúsk er ég farinn að vinna svona 10 sinnum hraðar í Gmail heldur en ég var í Mail.app.

  • Text Expander. Ég er líka byrjaður að nota Text Expander á Makkanum mínum, sem er yndislegt forrit. Það sem það gerir er að þú getur sett inní það ákveðin textabrot, sem eru svo virkjuð úr hvaða forriti sem er með því að skrifa inn ákveðin orð. Þannig að til dæmis get ég skellt inn nafninu á fyrirtækinu okkar, fullu heimilisfangi og sænskri kennitölu (eitthvað sem ég er alltaf að nota í tölvupóstum) bara með því að skrifa inn “snltdk”. Þetta hljómar kannski ekki merkilegt, en þegar maður hefur komist uppá lagið með að nota þetta forrit þá skilur maður ekki hvernig maður komst af án þess.
  • iPhone. Og ég elska líka nýja símann minn. Það er svo sem ekki mikill munur á nýja iPhone og þeim sem ég rústaði heima á Íslandi. Einna helst er það GPS tækið í símanum, sem hefur hjálpað mér allnokkrum sinnum að undanförnu á labbi mínu um borgina.

    En málið er að aðstæður mínar hafa breyst umtalsvert hérna í Stokkhólmi og með því notkun mín á símanum. Í vinnunni minni hérna útí Stokkhólmi er ég talsvert meira á ferðinni og þegar ég er á ferðinni þá er ég ekki við stýrið á bílnum mínum einsog heima, heldur sit ég í strætó eða lest. Það gefur mér ótrúlega mikið af stuttum tímabilum þar sem ég get til að mynda skoðað nokkur email, lesið lengri greinar eða slíkt. Fyrir allt þetta er þessi sími ómetanlegur. Í raun myndi ég segja að minna en 10% af notkun símans míns væri til þess að hringja. Hin 90% eru til að skoða kort, svara tölvupóstum eða annað.

  • Gyminee. Já, og svo elska ég Gyminee til að halda utan um allar æfingarnar mínar. Langbesta kerfið, sem ég hef séð til að geta haldið utanum lyftingar, hlaup og alla aðra líkamsrækt.

6 thoughts on “Tölvudót”

Comments are closed.