Helgin – St. Louis

Það verður eitthvað lítið að gerast í kvöld hjá mér. Stelpurnar eru allar að fara á White Stripes tónleika og Dan er eitthvað að vesenast.

Á morgun erum við Katie hins vegar að fara til St. Louis, sem er um fimm tíma akstur frá Chicago. Þar sem rúðuþurrkurnar í bílnum mínum virka ekki, þá erum við að fara á gömlum Oldsmobile, sem amma Katie á. Það verður rokk, enda enginn smá bíll.

Við ætlum að vera þar fram á mánudagskvöld. St. Louis er í Missouri ríki og er m.a. heimaborg uppáhaldsbjórsins minns og Gateway Arch. Eina slæma er að Cardinals eru að spila í San Diego og því mun ég ekki sjá neinn baseball um helgina.

Prentvilla

Á síðunni hans Tobba rakst ég á slæma innsláttarvillu. Þar segir

These people and I teamed up after a strong election to make the best Verzlunarskolabladid (the College’s largest in school magazine) ever to be done

Auðvitað á að standa þarna “second best”. Allir vita að besta blaðið kom út árið áður með ódauðlegum greinum einsog tildæmis <- (vinstri)

Annars á ég að vera farinn að sofa. Ég er frekar þreyttur og ruglaður.

Trackback

Glöggir lesendur hafa sennilega tekið eftir því að fyrir neðan hverja færslu er tengill, sem heitir Trackback. Þetta er rosalega sniðugt nýtt kerfi, sem hönnuðir Movabletype hönnuðu. Þetta verður þó ekki ýkja gagnlegt fyrr en að fleiri íslenskir vefleiðarar fara að nota MT eða að þetta verði til fyrir Blogger notendur. Ég ætla samt að vera frumkvöðull og hafa þetta þarna niðri og vonandi að fleiri muni nýta sér þetta í framtíðinni.

Það er dálítið erfitt að útskýra þetta kerfi, en ég ætla að reyna það með smá sögu.

Gefum okkur að allir Bloggarar noti þetta kerfi. Ég les á síðunni hans Ágústs Flygenrings að hann er að vitna í einhverja skemmtilega grein, sem mér langaði að skrifa frekar um. Ef hann væri með Trackback virkt myndi ég geta smellt á Trackback takkan hjá honum og fá Trackback url fyrir viðkomandi færslu.

Ég færi svo í mitt kerfi og skrifaði inn færslu, þar sem ég minnist á færsluna hans Ágústs. Ég myndi svo setja inn URL-ið fyrir færsluna hans Ágústs í box hjá mér, sem er merkt “URL’s to PING”. Þegar ég væri búinn með mína færslu þá myndi strax koma á síðunni hans Ágústs tengill yfir á mína færslu og smá úrdáttur úr minni færslu í Trackback glugganum. Þannig myndu allir geta séð hverjir hefðu skrifað meira um færsluna hans Ágústs. (sem dæmi má nefna að þessi færsla, sem ég er að skrifa núna vísar á færslu á annarri Trackback síðu: Skoða)

Lang skemmtilegast væri ef íslensku pólitísku vefritin myndu líka setja þetta inn. Þá gætu færslur á Múrnum alltaf haft fullt af tenglum yfir á fólk, sem skrifar meira um þá færslu.

Vonandi að sem flestir nýti sér þetta.

Síðustu dagar

Það er nóg búið að gerast hér í Evanston síðustu daga. Ég bý núna hjá Dan vini mínum en ég þurfti að skila íbúðinni minni í byrjun mánaðarins. Ég er að ganga frá öllum mínum málum og að vinna nokkur vefsíðuverkefni á milli þess, sem maður skemmtir sér með vinunum.

Allavegana, þá var síðasta vika skemmtileg. Fyrstu dagana eftir að ég kom til Bahamas var ég í smá stressi við að laga smá í þeim netmálum, sem ég á að sjá um og svo á kvöldin hékk ég með Dan, Katie, Kristinu og Elizabeth.

Á fjórða júlí voru stelpurnar með grillveislu og mættum við Dan þar með nóg af bjór og hamborgurum, en stelpurnar eru allar grænmetisætur. Við eyddum svo deginum útí garði, grillandi grænmetis- og nautaborgara, drekkandi bjór og spjallandi saman, einsog sennilega flestir Bandaríkjamenn gerðu á þessum degi. Um sjö leytið var bjórinn búinn og því þurftum við að fara útí búð og kaupa meira. Eftir það fórum við svo niður að Northwestern ströndinni, þar sem við horfðum á Evanston flugeldasýninguna, sem var eiginlega betri en sú í Chicago. Eftir sýninguna löbbuuðum við heim til stelpnanna, þar sem við spiluúm eitthvað fram eftir morgni.

Á föstudaginn fór ég svo með Elizabeth á tónleika í Metro. Elizabeth hafði ætlað með bróður sínum, en hann komst ekki, svo hún bauð mér. Þetta voru nokkuð skondnir tónleikar en þeir voru til heiðurs The Smashing Pumpkins og spiluðu sjö “Tribute” hljómsveitir gömul lög með Pumpkins. Eftir tónleikana vorum fórum við útað borða og hittum svo fólkið.

Á laugardag fór ég með Katie niðrí miðbæ Chicago. Við byrjuðum á því að fá okkur burrito og svo fórum við í bátsferð um Chicago ána. Þessi bátsferð fór aðeins útá Michigan vatn, þar sem við gátum séð vel alla skýjaklúfana og svo fór hún upp Chicago ána í gegnum miðbæinn, mjög gaman. Eftir það kíktum við í bíó og sáum Men In Black 2 og svo fórum við útað borða á besta pizzu stað í heimi. Við kíktum svo heim til hinna stelpnanna.

Á sunnudag gerði ég nú ekki mikið. Ég og Katie fórum í göngutúr niður á strönd, þar sem við tókum því rólega og svo fórum við útað borða á Barcelona, sem er Tapas staður hérna í Evanston, sem ég hef alltaf ætlað mér að fara á, en aldrei látið verða af því þangað til núna. Við kíktum svo í bíó um kvöldið og sáum Minority Report.

MIIB og Minority Report

Ég sá tvær myndir um helgina, sem er svo sem ekki merkilegt, nema að önnur myndin var svo mikil snilld að ég er ennþá að pæla í söguþræðinum.

Allavegana, fyrri myndin var Men In Black 2, sem var ágæt. Mjög svipuð og fyrri myndin og sæmilega fyndin.

Seinni myndin var hins vegar hrein snilld, nýjasta mynd Steven Spielberg, Minority Report. Myndin gerist árið 2054 og fjallar um mann, leikinn af Tom Cruise, sem vinnur í deild, í Washington D.C. lögreglunni, sem handtekur menn áður en þeir fremja glæpi. Þeir geta séð fyrir um glæpi vegna þriggja ungmenna, sem geta séð framtíðina. Allt virkar þetta vel, þangað til að Tom Cruise er sjálfur sakaður um að ætla að drepa mann, sem hann hefur aldrei hitt.

Það borgar sig ekki að segja meira frá söguþræðinum, en sagan er mjög skemmtileg og fær mann til að hugsa eftirá. Annars bendir Jason Kottke á hugsanlega galla í handritinu. Við færsluna hans eru svo athyglisverðar pælingar um myndina. Þeir, sem hafa ekki séð myndina ættu þó að bíða með að lesa greinina.

Meira:
Roger Ebert gefur fjórar stjörnur.
Michael Wilmington hjá Tribune gefur fjórar stjörnur.

Gagnrýni á Bandaríkin

Þrátt fyrir að ég hafi oft varið Bandaríkin þá er ég ávalt fylgjandi góðri og málefnalrgri gagnrýni á landið, enda er hér mjög margt, sem má bæta.

Jón Steinsson, sem samkvæmt email addressu, stundar nám við hinn ágæta skóla Harvard, skrifar mjög góða grein á Deiglunni í dag: Byssur og innlent smjör.

Þar gagnrýnir Jón m.a. aukna styrki til bænda, bjánalegar skattalækkanir og annað klúður í skrítinni efnahagsstefnu George W. Bush. Góð grein, sem ég mæli með.

Múrinn og USA. Enn aftur…

Ég veit að ég ætti sennilega ekki að vera að pirra mig á Múrsskrifum um Bandaríkin. Hatur þeirra á Bandaríkjunum virðist vera ótakmarkað. En samt, þá verð ég að mótmæla því, sem er skrifað í dag. Í grein, sem heitir Hausinn af! skrifar Katrín Jakobsdóttir þegar hún talar um hugsanlega árás Bandaríkjanna á Írak:

Þá er við hæfi að rifja upp litla sögu. Einu sinni var maður við völd í Evrópu. Lífsspeki hans gekk út á að þjóð hans væri betri en aðrar þjóðir og ætti þess vegna að ráða mestu. Honum tókst að vekja almenna móðursýki með þjóðinni þannig að hún stóð með honum. Svo fór hann að leggja undir sig ríki en fyrst bara í Austur-Evrópu því að þá gat hann verið viss um að Vestur-Evrópu-þjóðirnar myndu láta hann í friði. En hann lét ekki staðar numið þar.

Þessi saga gæti minnt á núverandi ástand. Hegðun vestrænna þjóða virðist benda til þess að þeim sé sama um það að arabaþjóðir séu skotnar í tætlur. Þetta gæti stafað af djúpstæðum ótta við það sem er framandi og öðruvísi.

Það að líkja Bandaríkjunum og væntanlega George Bush við Hitler er ótrúlega lágt lagst. Það væri í raun fáránlegt fyrir mig að vera að telja upp ástæður fyrir því af hverju það er slappt að líkja Bush við Hitler.

Ég er ekki búinn að gera upp hug minn á því hvort ég sé fylgjandi árás á Írak. Ég, einsog sennilega margir Múrsmenn tók þátt í nokkrum mótmælum gegn viðskiptabanninu á Írak fyrir nokkrum árum. Ljóst er að það bann hefur aðeins styrkt Saddam Hussein í sessi. Þeir á Múrnum eru mér eflaust líka sammála um það að Hussein er hræðilegur forseti og að íbúar Íraks myndu vera mun betur af án hans. En þá er spurning hvað hægt sé að gera til að hjálpa saklausu fólki í Írak? Er árás kannski eina lausnin?

Hæ hó jibbí jei, það er kominn…

Í dag er víst fjórði júlí hér í bandaríkjunum, sem og annars staðar. Ég tek náttúrulega þátt í fagnaðarlátunum enda eru Bandaríkin hið besta land.

Í gær var árleg flugeldasýning í Grant Park í Chicago. Ávallt í kringum fjórða júlí stendur yfir Taste of Chicago, sem er mikil hátíð, sem er haldin í garðinum, þar sem tugir veitingastaða úr borginni setja upp bása og bandaríkjamenn gera það, sem þeim þykir skemmtilegast, að borða óhollan mat.

Allavegana, þá fór ég með Elizabeth, Kate, Katie, Kristinu og Dan niðrí Grant Park í gær. Við byrjuðum á því að flakka á milli tjalda og smakka alls kyns góðan mat. Um níu leytið fórum við svo niður að Lake Michigan, þar sem flugeldasýningin var. Hérna var mikið talað um það að menn ættu von á árásum á fjórða júlí samkomur og því voru sennilega einhverjir, sem héldu sig heima. Það kom mér þó á óvart að það virtist vera alveg jafn margt fólk og í fyrra. Blöðin segja að um 800.000 manns hafi verið við sýninguna, sem verður að teljast nokkuð gott.

Eftir sýninguna fórum við svo uppað Loyola campusnum, þar sem við fórum í partí til vinkonu Elizabeth. Þar var náttúrulega bjór og léleg tónlist, einsog tíðkast í partíjum hér, en samt mjög gaman.

Í dag er ég svo að fara í grillveislu, þar sem ég hyggst drekka bjór og borða hamborgara að hætti innfæddra.

Útskrift

Útskriftin mín var fyrir tveim vikum, föstudaginn 20 og laugardagin 21. júní. Þetta var heljarinnar dæmi í kringum allt þetta.

Allt byrjaði þetta á föstudagsmorgninum þegar ég fór með mömmu og pabba á Orrington hótelið, þar sem hagfræðideildin var með samkomu. Alls voru um 250 manns að útskrifast úr deildinni en aðeins þeim, sem skrifuðu BA ritgerðir var boðið, en um 30 manns uppfylltu skilyrði til að skrifa ritgerð. Allir voru fengnir uppá svið og talaði Mark Witte, prófessor um ritgerð hvers og eins. Ég, ásamt fimm öðrum fékk Deibler verðlaunin fyrir bestu BA ritgerðirnar og fékk ég hagfræðibók að gjöf fyrir það.

Á föstudagskvöld var samkoma á fótboltaleikvanginum. Þar voru samankomnir allir útskriftarnemendur úr öllum Northwestern skólunum, þar með talið Kellogg, Medill blaðamannaskólanum og öllum hinum. Allir útskriftarnemendurnir sátu á sjálfum vellinum en áhorfendastúkan var full af veifandi foreldrum og vinum.
Continue reading Útskrift

Hvað er að gerast?

Það er orðið nokkuð langt síðan eitthvað hefur verið skrifað á þessa síðu. Ég er búinn að vera upptekinn, var að útskrifast og svo fór ég með mömmu og pabba í ferðalag.

Ég ætla að reyna að fara að skrifa eitthvað um það, sem hefur verið að gerast síðustu daga. Mun smám saman reyna að koma þessu öllu frá mér. Ég er ekki mikið fyrir það að tala um einkamál eða tilfinningar á þessari síðu, en svona til að það verði eitthvað vit í færslunum, þá hefur það gerst að við Hildur erum hætt saman. Svona mál fá mann náttúrulega til að hugsa um hversu mikið maður vilji segja á netinu. Þrátt fyrir að þessi síða hafi verið nokkuð góð dagbók, þá hef ég sjaldan fjallað um tilfinningar né um viðkvæma hluti. Ég ætla heldur ekki að fara að byrja á því núna.