Ferdinand, Campbell og Hyppia

Þá er Manchester United búið að kaupa nýjan varnarmann á 30 milljónir punda og allir eru farnir að spá þeim titlinum. Menn gleyma oft að hinir þrír mennirnir í vörninni, Neville, Silvestre og Brown eru ekki nema meðalleikmenn og markvörðurinn Barthez er trúður, sem gerir alltof mörg mistök.

Philip Cornwall á Football365 ber saman þrjá bestu varnarmennina í enska boltanum: Sami Hyppia, Sol Campbell og Rio Ferdinand. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Hyppia sé besti varnarmaðurinn í enska boltanum og er ég honum hjartanlega sammála. Þess má geta að Hyppia kostaði tíu sinnum minna en Ferdinand.

Þess má einnig geta að öll vörnin hjá Liverpool (sem var sú besta á Englandi í fyrra) kostaði helmingi minna en bara Ferdinand. Dudek (besti markvörður í enska boltanum) kostaði 5 milljónir punda, Henchoz og Hyppia samtals 6 milljónir, Babbel var ókeypis og Riise kostaði 4 milljónir. Samtals gerir þetta 15 milljónir punda, sem er sama og hálfur Ferdinand.

Ég er orðinn mjög spenntur fyrir enska boltanum en hann byrjar að rúlla eftir nokkrar vikur. Ég er ánægður með nýju mennina hjá Liverpool (Diouf gæti verið svakalega góð kaup) en enn vantar, að mínu mati, mann á hægri vænginn. Ég hefði verið til í að sjá Lee Bowyer þar, en ekkert varð úr því. Fyrir utan hægri vænginn þá er ég ánægður með liðið. Danny Murphy er þó sterkur og eins hef ég alltaf haft trú á Smicer, þrátt fyrir að hann sé afskaplega óáreiðanlegur.

Mugabe

Þeir í ritstjórn The Economist eru ekki ýkja sáttir við það að fréttaritara þeirra var vikið frá Zimbabwe. The Economist reynir að bjóða uppá hlutlausan fréttaflutning, sem útskýrir allar hliðar, en það er erfitt þegar um Robert Mugabe er að ræða. Einn af leiðurum blaðsins byrjar á þessum orðum:

FOR the sake of balance, here are some of Robert Mugabe’s virtues. He dresses stylishly. He is sincerely fond of cricket. His government is less crooked than Liberia’s, and less murderous than Sudan’s. After 22 years under Mr Mugabe, Zimbabwe is in better shape than Congo or Angola. But there ends the list, and also the part of this article that could be published in Zimbabwe without fear of prosecution.

Hermenn og hamborgarar

Síðustu dagar hérna í Evanston eru búnir að vera góðir. Veðrið er frábært og ég er ekkert alltof busy í vefmálum, þannig að ég hef haft mikið af frítíma. Annars fer þessu nú að ljúka og ég er sennilega á leið heim til Íslands í næstu viku.

Helgin var góð. Á föstudaginn vorum við Dan með grillveislu, þar sem Dave og Daria komu ásamt fleira fólki. Dave þessi er nýkominn aftur til Evanston, en hann var með okkur í Northwestern fyrsta árið. Síðustu þrjú ár hefur hann verið í ísraelska hernum. Dave er fæddur í Bandaríkjunum en pabbi hans, sem er mjög trúaður flutti með honum til Ísraels þegar hann var á menntaskólaaldri. Dave ákvað að taka upp tvöfaldan ríkisborgararétt, þrátt fyrir að hann hafi vitað að það myndi þíða að hann gæti þurft að ganga í herinn.

Við spjölluðum aðeins um veru hans í hernum og ástandið í Ísrael, en þær samræður voru þó hálf brenglaðar vegna bjórdrykkju. Dave er nokkuð vinstrisinnaður (hver í ósköpunum er ekki vinstrisinnaður í þessum blessaða skóla) en hann kaus samt Ariel Sharon í síðustu kosningum. Það er dálítið skrítið að tala við hann um þessi málefni, þar sem ég veit augljóslega harla lítið um Ísrael og Palestínu og því erfitt fyrir mig að fara mikinn í röksemdafærslu fyrir palestínsku ríki.

Allavegana, þá var Dave heppinn að vera klár, því honum tókst að mestu að forðast bardaga, því klárari hermenn eru oftast settir í stöður, sem henta þeim betur.

Á laugardaginn gerði ég nú ekki mikið. Við Katie kíktum smá í Old Orchard, sem er verslunarmiðstöð hér rétt hjá og keypti ég mér eitthvað af fötum. Á sunnudag fórum við svo í grillveislu heim til systur Katie, þar sem var boðið uppá hamborgara og steikur og læti. Ég er búinn að borða yfir mig af grilluðum hamborgurum síðustu daga.

Ýmislegt

Klukkan er hálf tíu og þetta föstudagskvöld fer eitthvað rólega af stað. Dan og David Cohen eru eitthvað í PS2 frammi í stofu. David Cohen er einmitt nokkuð merkilegur maður. Meira um það síðar. Við erum að bíða eftir því að stelpurnar komi hingað, en þær eru allar grænmetisætur og vildu því ekki borða hamborgara með okkur.

Hérna eru góðir tenglar í boði (flestir í boði Metafilter).

Minnnsta vefsíða í heimi
Hvað er CBDTPA?
Webplayer
Apple auglýsing
Cubs unnu í dag
Liverpool unnu í dag
Já, og Apple notendur eru víst klárari en PC notendur
Ooooog, Metafilter er byrjaður að nota Trackback. Rokk!!

Leiðbeiningar fyrir Movabletype

Það virðist vera sem að margir séu að skipta yfir í Movabletype, sem er mjög gott mál. Nú þegar hafa Froskur, Erna & Möddi, Ragnar, Heiða og Gummijóh hafa skipt. (Uppfært : einnig Litlar Bloggstelpur og Guðmundur Daði.) Sennilega munu margir fylgja í kjölfarið, en það er ekki nema rúmur mánuður síðan ég byrjaði að nota forritið.

Allavegana, þá var Gummijóh með nokkrar spurningar, sem ég held að fleiri kunni að hafa þegar þeir skipta yfir í MT.

  1. Varðandi íslenskar dagsetningar, þá var ég búinn að senda fyrirspurn um þá og ætla hönnuðir MT að bæta íslensku við í næstu útgáfu. Fyrir þá, sem eru óþolinmóðir þá er einfalt að bæta þeim inn. Hérna eru leiðbeiningar fyrir að bæta inn finnsku. Sambærilegur texti fyrir íslensku er að finna hér.
  2. Varðandi broskallana í kommentunum hjá mér, þá þarf aðeins að fikta við eina skrá til að koma þeim inn. Til að hafa þá einsog hjá mér þá þarf fyrst að fylgja þessum leiðbeiningum og svo þessum leiðbeiningum
  3. Ef einhver nennir ekki að íslenska allt comment-dótið og slíkt, þá ætla ég að láta fylgja með mín template. Öllum er velkomið að nota template-in mín. Það eina, sem ég bið um er að þú annaðhvort minnist á það á síðunni þinni, sendir mér póst eða skrifir ummæli við þessa færslu um að þú hafir notað þau.
    • Comment listing (Ég hef ekkert Comment preview, af því að ég býð ekki uppá þann möguleika á síðunni minni.)
    • Comment error
    • Trackback listing
    • Individual archive template – Athugið að Individual archive template-ið mitt notar PHP fyrir nokkra eiginleika. Ef þú hefur ekki PHP á servernum þínum, þá mæli ég með því að þú setir það upp, því það býður uppá fullt af skemmtilegu dóti fyrir MT.
    • Það er nokkuð erfitt að útskýra Trackback kerfið en ég hvet alla til að setja það upp, þó að þeir viti ekki alveg hvernig á að nota það til að byrja með. Ég reyndi að skýra út kerfið í þessari færslu

Endilega ef einhverjir eru í vandamálum með MT, sendið þá inn ummæli hér og vonandi get ég hjálpað eitthvað. Gott væri að hafa smá umræður hér um vandamál og lausnir á MT tengdum málum. Ef þú finnur eitthvað sniðugt tengt MT sendu þá líka endilega inn ummæli.

Að lokum vil ég hvetja alla, sem nota MT til að gefa endilega smá pening til þeirra, sem skrifuðu forritið, því þau eiga það svo sannarlega skilið.

Glæpur og refsing

Í fríinu mínu tókst mér loksins að klára að lesa Glæp og refsingu eftir Fyodor Dostoevsky. Þetta er kannski ekki ýkja merkilegt nema fyrir það að ég byrjaði að lesa þessa bók fyrir fjórum árum.

Ég keypti bókina fyrst á götumarkaði í Buenos Aires. Þar, í einhverju brjálæði, hélt ég að ég myndi fljúga í gegnum spænska þýðingu á bókinni, en ég gafst upp eftir um 100 blaðsíður og byrjaði að lesa styttri spænskar bækur, svo sem Animal Farm.

Ég var þó alltaf hálf svekktur yfir því að hafa gefist uppá bókinni. Fyrir um tveim árum las ég svo í Northwestern dagblaðinu viðtal við uppáhaldsprófessorinn minn, Irwin Weil, sem kenndi mér sögu Sovétríkjanna fyrir nokkrum árum. Í viðtalinu sagði Weil frá því hvernig hann heillaðist fyrst af Rússlandi. Hann var nemandi við University of Chicago þegar hann keypti sér á föstudegi bókina Glæp og refsingu. Hann tók hana með sér heim á heimavistina og byrjaði að lesa hana um kvöldið. Hann var svo heillaður af bókinni að hann hætti ekki að lesa fyrr en hann var búinn með bókina en það var á laugardagseftirmiðdegi. Eftir að hafa lesið bókina var hann svo staðráðinn í að læra rússnesku og hefur hann helgað ævi sinni rússneskri sögu.

Eftir að hafa lesið viðtalið varð ég aftur órólegur og fannst mér að ég ætti nú að drífa mig í að lesa bókina. Um jólin gaf Hildur mér svo eintak af enskri þýðingu bókarinnar. Ég byrjaði strax að lesa hana en einhvern veginnn tókst mér aldrei að klára hana… þangað til í fríinu fyrir um þrem vikum.

Allavegana, þá er bókin hrein snilld. Hún fjallar um Raskolnikov, sem er stúdent í St. Pétursborg. Hann er sannfærður um að allir merkustu menn mannkynssögunnar hafi þurft að fórna öðrum lífum til að ná sinni stöðu sem merkismenn sögunnar. Hann er sannfærður um að hann þurfi að taka líf annarra til þess að hann geti talist meðal þeirra manna, sem hann lítur upp til.

Snilligáfa Dostoevskys er augljós af því hvernig hann lýsir tilfinningum Raskolnikovs, hvernig hann reynir að sannfæra sjálfan sig um réttmæti glæpsins og hvernig hann glímir við sektina og hvernig ástin fær hann til að viðurkenna það að hann hafi gert eitthvað rangt.

Bahamas

Þessar ferðasögur hjá mér eru komnar í algjört rugl. Ég hafði alltaf ætlað að skrifa smá um Bahamas en einhvern veginn gerðist það aldrei.

Allavegana, þá fór ég á sunnudeginum eftir útskrift með mömmu og pabba til Bahamas. Þessi ferð var mjög skemmtileg og róandi eftir allt, sem hafði verið að gerast síðustu daga fyrir ferðina.

Við gistum á fínu hóteli á Cable Beach, sem er á í höfuðborginni Nassau, sem er á New Providence eyjunni. Mestalla vikuna lá ég við sundlaugina, þar sem ég brann og las bækur. Á kvöldin fórum við svo ávallt útað borða á veitingastöðum í nágrenninu og svo var oft kíkt í casino-ið, þó við hefðum verið meira fyrir að fylgjast með öðrum heldur en að eyða okkar eigin pening.

Við kíktum þó einn daginn í sýnisferð um eyjuna, þar sem við fórum um nokkur hverfi í Nassau og svo útá Paradise Island, þar sem Atlantis hótelið er en það er einmitt flottasta hótel, sem ég hef á ævi minni séð.

Bahamas eru merkilegar eyjar. Ferðamannaiðnaðurinn var ekki stór fyrr en að Fidel Castro komst til valda á Kúbu og Bandaríkjamenn settu viðskiptabann á Kúbu. Þegar það gerðist vantaði Bandaríkjamönnum einhvern stað til að eyða peningum, þannig að klárir Kanar fluttu sig yfir á Bahamas, þar sem þeir byggðu fullt af hótelum og spilavítum. Í dag er ferðamannaiðnaðurinn mikilvægasta atvinnugreinin (ásamt því að eyjarnar eru skattaparadís).

St. Louis

Helgin í St. Louis var góð. Við lögðum af stað á laugardagsmorgun í MiniVan, sem mamma Katie á. St. Louis er um 6 tíma akstur suður af Chicago. Við vorum komin þangað um 6 leytið. Við byrjuðum á því að labba um miðbæinn og horfðum á einhverja útitónleika, sem innflytjendur frá Jamaica stóðu fyrir. Því næst fórum við svo niður að gömlu höfninni við Mississippi, þar sem við borðuðum kvöldmat og sátum á bar fram eftir kvöldi.

Á laugardeginum fórum við svo niður að Gateway Arch, sem var byggður um miðja síðustu öld, sem minnismerki um landnema, sem héldu í vestur, en St. Louis var nokkurs konar miðstöð fyrir þá, sem hugðust halda til vesturríkjanna. Allavegana, þá er þetta hæsta minnismerki í Bandaríkjunum og nokkuð merkileg sjón. Við ákváðum að fara ekki uppí bogann, þar sem Katie hafði farið áður og var ekkert sérstaklega spennt. Við fórum því niður að Mississippi, þar sem við fórum í klukkutíma bátsferð um ána.

Eftir bátsferðina fórum við svo og kíktum á Busch Stadium, sem er heimavöllur St. Louis Cardinals, erkifjenda míns uppáhaldsliðs. Um kvöldið eyddum við svo dágóðum tíma að finna veitingahús en veitangastaðir í St. Louis eru ekki beinlínis hannaðir fyrir grænmetisætur einsog Katie.

Í gær fórum við svo í Anheuser Busch ölgerðina, þar sem við fórum í smá túr um staðinn, þar sem mest seldi bjór í heimi er búinn til og var það nokkuð fróðlegt. Síðan var endað inná bar, þar sem maður fékk ókeypis Michelob Light og Bud Light.

Eftir það keyrðum við svo aftur heim til Chicago.