Ég fór með þrem vinkonum mínum í bíó á sunnudag. Þær voru búnar að velja myndina og fékk ég að fljóta með. Við sáum The importance of being Earnest, sem er byggð á leikritinu eftir Oscar Wilde.
Þessi mynd var nokkuð góð en hún minnti mig náttúrulega á Þorstein Marínósson, enskukennara í Verzló. Allir nemendur í mínum árgangi voru látnir lesa þetta skemmtilega leikrit. Þorsteinn átti oft erfitt með að skilja áhugaleysi nemenda enda fannst honum, réttilega, þetta mjög fyndið leikrit. Þorsteinn átti því til að leika öll hlutverkin í leikritinu með miklum tilþrifum. Alltaf þegar ég sá Judi Dench í myndinni minnti hún mig á leikræna tilburði Þorsteins þegar hann las hlutverk Lady Bracknell.
Annars finnst mér alltaf hæpið að gera kvikmyndir eftir leikritum. Mig minnir að Dial M for Murder hafi verið gerð eftir leikriti og var það alltaf frekar augljóst, þar sem allir atburðirnir áttu sér stað á sama staðnum. Samt tókst þessari mynd að gera nokkuð vel úr leikriti Wilde.