Fjölmiðlafrumvarps- kjaftæðisendalok

Við unnum!

[Davíð tapaði](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1094261).

Ég veit að ég ætti að vera glaðari nú þegar Davíð hefur þurft að viðurkenna fullkominn ósigur. Algjörlega fullkominn ósigur!

En þessa þrjá mánuði í lífi mínu fæ ég ekki tilbaka. Davíð er búinn að valda stríðsástandi í þjóðfélaginu bara af því að hann þolir ekki Baug. Og núna er Davíð búinn að viðurkenna ósigur, en samt viðurkennir hann auðvitað ekki neitt. Einhvern veginn er það ekki ósigur í hans augum að við stöndum núna í nákvæmlega sömu sporum og fyrir þrem mánuðum.


Davíð kvartar um að völd færist á færri hendur, en gleymir að minnast á það að hann og Halldór eru búnir að taka öll völd í sínar hendur. Mikið er það nú samt illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum þegar að *Framsóknarmenn eru orðnir rödd skynseminnar*.

Finnst ykkur, sem eruð sæmilega frjálslynd og enn í Sjálfstæðisflokknum, það ekki vera sorglegt?

Ég bara skil ekki þetta unga fólk í flokknum. Hvernig getur það stutt Davíð og þessa vitleysu alla? Finnst því þetta allt vera í fínasta lagi?

Ég var að spá í þessu þegar ég var að lesa þennan [pistil Járnskvísunnar ](http://www.jarnskvisan.com/archives/003362.html) og áttaði mig á að þetta er allt saman kjaftæði. Ég er ábyggilega miklu nær ungum Sjálfstæðismönnum í skoðunum en þeir eru Davíð. Samt verja þau hann og alla hans menn. En þegar Össur kemur í sjónvarpið og bendir á hina augljósu vitleysu í ríkisstjórninni, þá fer hann alveg hræðilega í taugarnar á Sjálfstæðisfólki.

Er það kannski eini munurinn á okkur? Hverjir fara í taugarnar á okkur. Ég er nánast með ofnæmi fyrir Einari Guðfinns, en líkar ágætlega við Össur. Ungu Sjálfstæðismennirnir fyrirlíta hins vegar Össur og eru með mynd af Einari Guðfinns uppá vegg. Er munurinn á okkur bara einhverjar tilfinningar gagnvart einstaklingum?

Ég hef heyrt fulltaf fólki segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf því að Össur sé þetta eða hitt. Það skil ég ekki, því stjórnmálaflokkar eiga umfram allt að snúast um málefni en ekki skemmtilega leiðtoga. Er það kannski bara rugl hjá mér?

Ég hef nánast aldrei heyrt hægri-sinnað-ungt-fólk segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf stefnu flokksins, heldur kvartar það bara yfir Össuri og Ingibjörgu.

Látum við virkilega skoðanir okkar stjórnast af því hvort okkur líkar vel eða illa við einhverja fimmtuga kalla?

Er það ekki dálítið skrítið?


En það er svosem ágætt að þetta er búið, þrátt fyrir að mér finnist rosalega gaman að fylgjast með pólitík og það verður dauft núna þegar ekki er hægt að rífast um þetta.

7 thoughts on “Fjölmiðlafrumvarps- kjaftæðisendalok”

  1. “Ég hef nánast aldrei heyrt hægri-sinnað-ungt-fólk segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf stefnu flokksins, heldur kvartar það bara yfir Össuri og Ingibjörgu.

    Látum við virkilega skoðanir okkar stjórnast af því hvort okkur líkar vel eða illa við einhverja fimmtuga kalla?”

    Menn eða málefni?

  2. Snýst þetta kannski um það hvort við metum lífið útfrá peningum eða manngildi? Sumir fastir á öðrum hvorum enda skalans en flest okkar stödd einhversstaðar á milli þessara öfga?

    En auðvitað hafa persónurnar áhrif, það er til lítils að setja traust okkar á einhvern sem segist hafa svipaðar skoðanir og við ef við treystum viðkomandi ekki til að standa við það sem hann segir.

    P.S: Ég held að það sé mikill misskilningur að þessu sé lokið, nú tekur við baráttan til að tryggja að við höfum einhverskonar öryggisventil á Alþingi, einhverja leið til að knýja fram þjóðaratkvæði þegar þörf krefur.

  3. Hmmmmmm – er það sem mér sýnist að í byrjun bloggsins sértu fyrst og fremst að bölva Davíði og kannski Halldóri smá, en í lokin sértu almennt að hneykslast á því að við látum viðhorf okkar á persónum stjórna skoðunum okkar?;)

  4. Jamm, Svansson, ég sagði aldrei að ég væri undanskilinn þessu. Ég var samt ekki að bölsóttast útí persónur þeirra Davíðs og Halldórs (allavegana ekki í þessum pistli), heldur að þeir ráða öllu hér. Þingflokkarnir eru bara einsog strengjabrúður (eða allavegana þinflokkur íhaldsins) í þeirra höndum.

    Og góður pistill, sem þú bendir á, Birgir. Ég tel mig reyndar vera hægri mann, en ég sé mig samt ekki fylgja einum leiðtoga í þvílíkri blindni og ans margir hægri menn á Íslandi eða í Bandaríkjunum gera. Ég hef aaaansi oft verið ósammála og aaaansi oft gagnrýnt jafnvel þá stjórnmálamenn, sem ég hef mest álit á.

    Og ég er sammála þér, Gunnar. Undirstaðan í bandarísku stjórnkerfi er t.d. þetta “checks & balances”, það er að öll völd geti ekki færst á eins manns hendur. Núna þegar Davíð er hálf grátandi yfir illri meðferð þjóðarinnar (já, og “auðhringjanna illu”) , þá er hann líklegur til að reyna hvað hann getur til að takmarka vald forsetans og um leið þjóðarinnar.

  5. ég held að íslendingar séu bara of latir við að kynna sér málefni flokka (allavegna þeirra sem þeir styðja ekki) til að nenna að meta hversu góður flokkurinn er af öðrum forsendum en hvernig formenn (og talsmenn) koma fram í fjölmiðlum…

  6. Sjálfstæðismenn koma bara einfaldlega svo vel út í flennistórri mynd uppi á vegg. Ég er t.d. að safna pósterum af Halldóri Blöndal – enda myndast maðurinn með eindæmum vel og þykir fallegur á að líta.
    Hafandi Ingibjörgu ofan við rúm mitt ylli að öllum líkingum svefntruflunum og jafnvel martröðum til langs tíma 🙂

    En öllu gríni sleppt, þá held ég að allt of fáir skoði stefnur flokkanna … og ég mun fús viðurkenna að flokkurinn minn hefur rétt í þessu verið að ljúka döpru þingi. En það kemur dagur eftir þennan.

  7. Þú hefur greinlega athyglisverðan smekk á karlmönnum. Sjálfur er ég með mynd af Hillary Clinton fyrir ofan rúmið mitt. 🙂

    Og já, flestir flokkar hafa átt betri þing en þinn flokkur núna í ár. :confused:

Comments are closed.