Ragnar T. sendi mér póst með eftirfarndi viðtali, sem var sent út í franska ríkisútvarpinu. Viðtalið er við Philippe Bovet, franskan blaðamann, sem hefur dvalið á Íslandi.
Ég ákvað að birta þetta hérna, þar sem mér fannst þetta gríðarlega athyglisvert viðtal. Hann fjallar þarna um þessar biluðu virkjanaframkvæmdir á hálendi Íslands. Ég hvet alla til að lesa þetta og sérstaklega þá, sem telja að stóriðja leysi öll varndamál Austurlands og alls Íslands.
*Viðtal við Philippe Bovet, blaðamann.
Flutt í franska ríkisútvarpinu, France Culture, í þættinum Terre à terre, 5. nóvember 2004.*
**Spyrill**: Philippe Bovet, þú ert blaðamaður, þú hefur haft möguleika á því í starfi þínu fyrir Le Monde Diplomatique að fara til Íslands. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan við Hönnu Þorleifsdóttur, þ .e.a.s. hvað Frakkar eru hissa á því að heyra að á einu Norðurlandanna gangi hlutirnir fyrir sigá þann máta sem búið er að lýsa fyrir okkur [Hanna hefur áður sagt frá
því hvernig ákvarðanataka um Kárahnjúkavirkjun gekk fyrir sig, höfnun Skipulagsstofnunnar, úrskurði Umhverfisráðherra, mótmælum og gagnrýnt Íslendinga fyrir slöpp mótmæli].
**Philippe Bovet**: Það kemur í raun ekki svo mjög á óvart. Það er rétt að við Frakkar og aðrir í Vestur-Evrópu ímynda sér oft að Ísland sé nokkurs konar paradís, land þar sem mikil áhersla er lögð á náttúruna. Þetta er ímynd sem Íslendingar vilja gjarnan gefa af sér og landi sínu, en í raun er
þetta alls ekki svona. Það er rétt að Íslendingar búa í mjög sérstöku landslagi, þetta er vindbarin eyja og veðurfarið fremur óblítt. Landið býr yfir miklum auðæfum í jarðhita. Nærvera náttúrunnar á Íslandi er mjög mikil og það kemur fram í bókmenntunum, allt frá fornritunum til verka Laxness.
En það er mín skoðun að Íslendingar njóti almennt ekki náttúru sinnar. Íslendingar eru fyrst og fremst Vesturlandabúar. Meirihluti þeirra er ekki í sterkum tengslum við náttúruna. Tengsl þeirra við náttúruna komu mér aldrei neitt sérstaklega á óvart. Íslendingar eru Vesturlandabúar og þar ríkir mikil neysluhyggja. Þeir hrífast af veraldlegum gæðum, eins og tækjum og tólum af ýmsu tagi. Þeir sinna tveimur eða þremur störfum til að ná endum saman á mánaðarmótum. Og þeir njóta ekkert sérstaklega náttúrunnar sem þeir búa í.
Þarna ríkir mikil neysluhyggja. Fólk keyrir um landið á stórum bílum og af öllum þeim
sem ég hitti er aðeins lítill hluti sem þekkir landið sitt vel og hefur ferðast um það. Á sumrin má sjá fólk ganga um hálendið. Þetta eru oft útlendingar, Englendingar og Þjóðverjar. Við þekkjum skopmyndina af fólki að hjóla um Ísland. Þetta er auðvitað ýkt skopmynd, en samt er eitthvað til í henni. En þeir sem hjóla um landið eru Þjóðverjar, það eru afar sjaldan
Íslendingar.
Til að öðlast betri skilning á því af hverju Íslendingar eru svona sólgnir í nútímann verður að minnast þess að landið hlaut ekki sjálfstæði fyrr en 1944. Á milli 1380 og 1944 var landið dönsk nýlenda og laut danskri stjórn. Sjálfstæðið færði Íslendingum nútímann og landið opnaðist fyrir heiminum á 6. og 7. áratugnum. Þetta voru tímar nútímavæðingar. Í flestum bæjum á Íslandi og jafnvel í miðborg Reykjavíkur má aðeins finna örfá gömul timburhús. Flest þeirra hafa verið rifin. Nú sjá menn svolítið eftir því en það er aðeins of seint.
Og öll gömul merki úr fortíðinni sem tengd eru náttúrunni hafa smám saman verið endurskoðuð og leiðrétt af íslenskri menningu. Þar til á 8. eða 9. áratugnum, ég er ekki alveg viss um ártalið, voru u.þ.b. ein milljón sauðfjár í landinu, sem er mjög mikið. Smám saman hefur sauðfjárstofninn svo verið skorinn niður í 500 þúsund dýr og svo 300 þúsund. Þetta var
gríðarleg breyting á íslenskum landbúnaði.
Svo er það sjávarútvegurinn. Sjávarútvegurinn er mjög mikilvægur en þetta er ekki alls ekki matarframleiðsla fyrir þjóðina, þetta er risaframleiðsla. Íslenskir útgerðamenn eru í öllum heimshornum. Þeir reka nú útgerðir í Afríku, t.d. í Namibíu og í Suður-Ameríku. Þeir þróa hátækni í fiskiðnaði þannig að nýting sjávarauðlindarinnar er gríðarlega mikilvæg. Hafið
verður að framleiða. Ég rek allt þetta til að útskýra að tengsl Íslendinga við náttúruna eru mjög tengd nútímavæðingunni.
Og ef við snúum okkur að umfjöllunarefni okkar, stíflum, þá eru í raun fáir Íslendingar efast um stífluframkvæmdir fyrir þróun áliðnaðar í landi þeirra.
**Spyrill**: Þú lýsir landi sem er mjög vestrænt, ég hafði notað orðið skandinavískt. Þetta er mjög ólíkt þeirri Skandinavíu sem maður ímyndar sér, Skandinavíu sem er mjög lýðræðisleg og þar sem umræður eru hluti af daglegu pólitísku lífi. Ég velti fyrir mér hvort það séu yfir höfuð einhverjar umræður (débat) um þessar spurningar [þe. um virkjarnir/stíflur].
**Philippe Bovet**: Ég geri ráð fyrir að umræðurnar séu ekki ýkja mikilvægar. Ísland er lítið og gegnsætt land eins og önnur Norðurlönd. Það verður að minna á að Íslendingar eru aðeins 270 þúsund og þeir eiga menningu útaf fyrir sig. Það má aldrei gleyma því að það eru aðeins 270 þúsund manneskjur í heiminum sem tala íslensku.
Það er ólíkt hinum Norðurlöndunum. Og eins og í öllum litlum löndum fyrirfinnst fólk sem á auðvelt með að kippa í spotta, pólitíska spotta, spotta í hagkerfinu, spotta í fjármálaheiminum, alls konar spotta. Þegar Ísland var að byggjast upp sem sjálfstætt ríki á 6. og 7. áratugnum var fólk sem stóð í innflutningi, t.d. bílainnflutningi, í stöðu hálfgerðrar einokunnar. Sá sem, til að mynda, flutti inn japanska bíla á Íslandsmarkað einokaði markaðinn og varð á því gríðarlega ríkur. Ef þú máttir flytja inn amerískt morgunkorn varðstu gríðarlega ríkur. Þú hafðir mikið fjárhagslegt vald.
Svo þarna má finna nokkra einstaklinga, nokkrar fjölskyldur sem stjórna ýmsum „geirum” og það er mjög erfitt að gagnrýna þá í þessu litla landi þar sem allir þekkja alla. Á Íslandi er sagt að maður sé skyldur helmingi þjóðarinnar og að maður eigi hinn helminginn að vini. Allir þekkjast og ef þú gagnrýnir aðeins kerfið er mjög auðvelt að sýna þér hvar Davíð keypti ölið. Svo að ef einhver er opinberlega á móti stíflum þá er mjög auðvelt að ýta viðkomandi til hliðar og gera honum skiljanlegt að hann syngi ekki í takt við alla hina.
**Spyrill**: Og hvernig fer það fram í svona litlu landi þar sem allir þekkja alla þegar alþjóðlegur risi eins og Alcoa kemur inn í landið? Það er áhugavert að vita hvernig þetta tvennt passar saman?
**Philippe Bovet**: Með því að notfæra sér tengsl sín við einhverja ákveðna fjölskyldu eða einstakling getur stórfyrirtæki auðveldlega komið sér fyrir í landinu og eftir það er það ekki gagnrýnt. Áliðnaðurinn hefur nú þegar komið sér fyrir á Austurlandi og hefur verið þar um nokkun tíma. Það hefur lengi verið til staðar sú hugmynd að áliðnaðurinn gæti stöðvað brottflutning íbúa Austurlands, en um 2/3 íbúa landsins búa á stór-Reykjavíkur-svæðinu. Þannig að litið var á áliðnað sem leið til að stöðva brottflutning utan af landi, því landbúnaður er að hverfa og smábátaútgerð einnig. Og þarna getur álrisinn stjórnast með atvinnumarkaðinn og sagt að byggðin í landinu séundir honum komin.
**Spyrill**: Ég hef einnig lesið að þeir búi við einkar góðar aðstæður vegna þess að þeir geta farið vel yfir losunarkvóta á gróðurhúsalofttegundum sem samið hafi verið um í Evrópu.
**Philippe Bovet**: Og allt þetta sýnir að Íslendingar, sem ávallt leggja áherslu á að kynna og sýna náttúruna, eru svo bara tilbúnir til að selja hana á gjafverði. Þetta er sláandi. Fyrir nokkru voru íslenskir dagar í París og þá var gefið út tímarit þar sem líta mátti fallegar myndir af landinu á
nánast hverri síðu. Í þessu tímariti var „Ísland – lifandi land” lofað í tíma og ótíma. Þar var meira að segja að finna grein um afskekkt stöðuvatn sem fer undir lónið. Þar var ekki að finna neina iðrun. Og aftast í tímaritinu var opna þar borið var lof á áliðnaðinn á Íslandi. Þetta var mjög sláandi.
**Spyrill**: Hvaða skemmdum getur stíflan valdið? Þá erum við að tala um áliðnaðinn.
**Philippe Bovet**: Áliðnaðurinn er sá iðnaður sem veldur hvað mestri mengun, bæði sjálfframleiðslan og endurnýting áls. Iðnaðurinn sem heild veldur mikilli mengun og eyðir mikilli orku. Það er sláandi að heyra álglugga auglýsta og svo er bent á það í lok auglýsingarinnar að svo megi endurnýta álið. En endurnýtingin mengar gríðarlega. Það virðist mun einfaldara að gera
góða viðarglugga þar sem við finnum gnótt viðar í frönskum skógum. Í sumum löndum, á Norðurlöndum eða í Þýskalandi eru viðargluggar mun meira notaðir en álgluggar því þar vita menn að framleiðsla áls hefur víðtækar afleiðingar. Það eru meira að segja til stórmarkaðir í Sviss sem selja ekki áldósir af þessum ástæðum.
**Spyrill**: Verður álið sem framleitt verður á Íslandi notað á þar?
**Philippe Bovet**: Álið verður flutt út og selt á lægra verði, vegna þess að það er auðvelt að verða sér úti um orku á Íslandi. Áliðnaðurinn þarfnast gríðarlega mikillar orku. Ef hægt er að framleiða ódýra orku er sömuleiðis hægt að framleiða ódýrt ál. Það er svona einfalt. Og svo flytur Ísland bara
álið út til allra heimshorna.
**Spyrill**: Philippe Bovet, þú talaðir áðan um hvernig stórfyrirtækin stjórnast með atvinnumarkaðinn, til dæmis þetta fyrirtæki sem er að koma sér fyrir á Íslandi getur lokað álverum í Bandaríkjunum og aukið þannig atvinnuleysi þar.
**Philippe Bovet**: Það gerir þeim kleift að loka án nokkurrar iðrunar annars staðar og opna mikilvæga framleiðslu á Íslandi. Það er alltaf betra að framleiða í litlum einingum. Ef við höldum okkur t.d. við álið, þá er betra að opna litlar einingar sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, svolítið í
Bandaríkjunum, svolítið í Frakklandi, svolítið á Íslandi sem nægir þörfum Íslands. Það gildir það sama fyrir allar þarfir, hvort sem það er landbúnaður eða iðnaður hvar sem er í heiminum.
**Spyrill**: Ef við drögum saman það sem við höfum rætt, í hverju eru hagsmunir Íslands, eða einhverra einstaklinga á Íslandi, fólgnir þegar verið er að laða svona iðnað að landinu?
**Philippe Bovet**: Hagsmunir þeirra er eins og í öðrum löndum, að ná tímabundnum markmiðum, að skapa eitthvað nýtt. Næstu tíu eða tuttugu árin geta stjórnmálamenn hreykt sér af því að hafa komið á nýjum iðnaði, að yfirgefið fábreytileika landbúnaðar og sjávarútvegs. En þeir, eða aðrir, munu líka geta minnt á að þeir hafa fórnað hluta af landi sínu handan steyptra stíflna.
Glöggt er gests…
Fær mig til að roðna af blygðun og skömm…
Já þetta eru frekar athyglisverð ummæli, komandi frá aðila sem stendur fyrir utan okkar þjóðfélag. Food for thought…
Æi ég veit það ekki. Þegar útlendingar segja að hér á landi sé spilling minnst í heimi eru þeir blindir en þegar þeir fullyrða að við séum spilltir bjánar er gests augað glöggt.
Ég tek öllu svona með fyrirvara þó þetta geti verið áhugaverð lesning. Hver er þessi maður, hvar stendur hann í pólitík, umhverfismálum og svo framvegis.
T.d. eru orð hans um að álfyrirtæki nýti sér tengsl við nokkrar fjölskyldur í landinu til að koma sér fyrir alveg dæmalaust vitlaus – eða eru menn búnir að gleyma því að ríkisstjórnin fór með grátstafina á milli álfyrirtækja og bað þau um að koma. Einnig er furðulegt að heyra talað um að betra sé að framleiða ál í litlum einingum nálægt markaði. Hann horfir ekkert á hvernig orkan er framleitt, hvergi er hægt að sjá í viðtalinu að hann geri sér grein fyrir að það er miklu minni mengun við álframleiðslu hér á landi en t.d. þar sem orkan er fengin úr kolaverum.
Sjálfsagt að gagnrýna glórulausar virkjunarframkvæmdir og uppbyggingu áliðnarar, en ég sé ekki að þessi franski blaðamaður sé að koma með nokkuð nýtt (eða satt) í þeim efnum!
Já, Matti, kannski var lítið nýtt í þessu og kommentið um álfjölskyldurnar var býsna skrítið. En þetta er samt gott viðtal. Hann dregur saman marga góða punkta um þetta skrítna viðhorf Íslendinga til náttúrunnar.
Til að mynda að landið skuli vera auglýst sem “unspoilt”, en svo vilja allir fá stóriðju í sitt hérað til að leysa einhver vandamál. Einnig það að snerting flestra Íslendinga við náttúruna komi í gegnum glugga á risajeppa.
Það er líka oft, sem að gestir gera sér betur grein fyrir hverju við erum að fórna. Það sést vel á því að það var ekkert alltof mikil umræða í Paragvæ þegar [fallegustu fossum heims var sökkt fyrir risavirkjun](http://www.eoe.is/gamalt/2003/01/12/22.45.55/index.php).