Útvarpsleysi

Vá, ég hélt að það kæmi mér ekkert á óvart á þessum blessaða fjölmiðlamarkaði, en samt á ég bágt með að trúa því að þær þrjár útvarpsstöðvar, sem ég gat hlustað á, Radio Reykjavík, Skonrokk og X-ið, séu allar hættar.

Í fyrsta lagi er mögnuð sú snilld að ÍÚ hafi sett upp Skonrokk beinlínis til að koma Radio Reykjavík á hausinn og þegar það tókst, þá hættir Skonrokk líka. Það er fokking magnað. Einnig á ég bágt með að trúa því að X-ið skuli ekki geta gengið. Ég hef bæði hlustað og auglýst talsvert á þessari stöð og fannst mér auglýsingarnar vera að skila góðum árangri hjá þeim hóp, sem maður var að sækjast eftir.

Það að þessar stöðvar hætta þýðir líka að nú er ég búinn að missa þrjá af þeim fjórum þáttum, sem ég hlusta á í útvarpi. Ég hlustaði alltaf á Tvíhöfða á morgnana, svo íþróttaþáttinn í hádeginu og loks Freysa á leið heim úr vinnu. Fjórði þátturinn er svo Spegillinn, sem er enn varinn af skattpeningunum mínum.

En mikið er þetta ömurlegt að við skulum sitja eftir með ÞRJÁR ömurlegar eighties stöðvar (Létt, Bylgjan og Mix) og tvær snargeðveikar froðu stöðvar (FM og Kiss) en enga stöð, sem spilar rokk, alvöru hip-hop eða aðra framsækna tónlist. Ég er í vinnunni þegar Poppland er á Rás 2, þannig að ég hef ekki tækifæri til að hlusta á það.

Þetta er ömurlegt ástand. Þrátt fyrir að ég eigi iPod og mikið af tónlist, þá hlusta ég mikið á útvarp. Alveg er ég viss um að þessi nýja talmálsstöð Norðurljósa mun setja Útvarp Sögu á hausinn og svo muni þeir stuttu síðar hætta með þá stöð. Ég vona bara að einhverjir (kannski Kiss, Mix liðið) taki hjá sér og stofni nýja rokkstöð. Ég trúi ekki öðru en að það sé nægilega stór markhópur fyrir Tvíhöfða og Freysa í útvarpi.

AF HVERJU GÁTU ÞEIR EKKI LOKAÐ EFF EMM? AF HVEEEEERJU?

Fleiri skoðanur á málinu hjá [Dr. Gunna](http://www.this.is/drgunni/gerast.html), [Pezus](http://www.pezus.blogspot.com/2005_01_01_pezus_archive.html#110561075441885875) og [Gulla](http://www.hi.is/~gullikr/digitalbomb/2005_01_01_archive.html#110560237620771732)

9 thoughts on “Útvarpsleysi”

  1. Ég mun aldrei átta mig á því hvernig FM & Kiss geta verið svona ótrúlega vinsælar. Playlistarnir eru 10-15 lög á hverjum gefnum tíma, tónlistin er oftast frekar slöpp og útvarpsmennirnir tilgerðarlegir og hafa ekkert fram að færa annað en hversu langt er í næstu “flöskudag” (enda kannski ekki ætlast til annars af þeim).

    Án þess að ég viti það fyrir víst, þá held ég bara að íslenskir útvarpshlustendur séu það fáir að útvarpsrekstur verður alltaf tæpur nema þetta sé stórt batterí eins og Norðurljós.

    Lausnin er að mínu mati bara að temja sér þá þrælslund að vera þakklátur fyrir það sem að manni er rétt, og vera alltaf viss um að góðar stöðvar hætti eftir ekkert svo langan tíma. Ætli það geri mig að anti-neytanda?

  2. Ég er svooo sammála (nema með Tvíhöfða og Freysa, fíla þá ekki)! Var sjokkeruð í gærkvöldi að frétta með X-ið og Skonrokk og fékk enn meira áfall er ég las í dag að Radíó Reykjavík væri líka hætt!!! Ég bíð eftir nýrri rokkstöð!!!

  3. Ég átta mig ekki almennilega á vinsældum Kiss og FM heldur.

    Ég hreinilega neita að trúa því að það séu fleiri sem hlusta á SÚPER á FM, heldur en Tvíhöfða. Ég NEITA að trúa því, því ef ég þyrfti að trúa því myndi ég missa alla mína trú á íslenskt samfélag.

    Ég er eiginlega ekki búinn að átta mig almennilega á því að Tvíhöfði er að hætta. Þetta er ömurlegt. Þessi þáttur hefur algerlega komið mér af stað á morgnana. Ég vil heyra tal á morgnana og núna get ég því valið um Morgunvaktina (sem myndi valda því að ég sofnaði aftur við stýrið), Ísland í Bítið eða Súper, sem er versta froða sem ég hef á ævinni heyrt.

    Þetta er hræðilegt ástand. Tvíhöfði voru búnir að vera fáránlega góðir núna að undanförnu (eftir að þeir höfðu verið slappir í talsverðan tíma áður en þeir hættu saman). Þvílík hörmung að missa þá yfir í einhverja vikulega sjónvarpsþættti.

  4. Allt mjög athyglisvert.

    Annars finnst mér nú góð tónlist á þessum útvarpsstöðvum sem voru lögðar niður frekar stórt statement. Ég hlusta alla vega ekki mikið á útvarpið til að hlusta á tónlist, Ipodinn kemur nú mun sterkari inn þar.

    Annars er fátt sem ég mun sakna af þessum stöðvum, þó að X-ið og Skonrokk hafi verið ágætar. Tvíhöfði var ágætur á leiðinni í vinnuna og Doktor doktor var fínn (þó maður hafi misst of oft af honum en lagalistarnir eru alla vega á Netinu).

    Ef þú skoðar það sem eftir stendur er nú margt gott eftir (gríðarlega jákvæður).

    Á Rás 2 ertu næstum með daglega rokktónleika, Rokkland er góður þáttur, Poppland fínt í amstri hversdagsins og Geymt en ekki gleymt er afbragðs kvöldþáttur. Svo er hægt að nefna metnaðarfulla þætti eins og Óskalög sjúklinga og Spegilinn (og jafnvel Party Zone).

    Á Rás 1 er svo alls konar snilld, Samfélagið í Nærmynd til dæmis. Sáðmenn söngvanna er þáttur með Herði Torfason um söngvaskáld, svo er sex þátta röð um sögu James Bond (hversu mikil snilld er það?), Orð skulu standa og svo að sjálfsögðu þátturinn Íslenskt mál – hvað er betra?

    Ég segi því, hlustið á tónlist á góðum vefútarpsstöðvum (eða bara á http://last.fm) eða í tölvunni/ipod. Skonrokk/Xið var sama playlista draslið og Bylgjan og allt hitt þó að playlistinn hafi verið þolanlegri.

    …já þetta var langloka.

  5. Já, auðvitað er gott efni þótt þessar stöðvar hætt. Mér er þó nokk sama um þessa tónlistarþætti. Finnst ég vera fullfær um að redda mér tónlist sjálfur.

    En ég sakna vissulega talmálsins, sérstaklega Tvíhöfða og Íþróttaþáttarins. Ég sæki aðallega í útvarp fyrir talað mál, ekki tónlist.

  6. Jú, reyndar.

    Og Doktorinn segir að Freysi og þeir verði á nýrri stöð, XFM sem kemur í stað fyrir Mix.

    En Tvíhöööööööfði! Tvíhöfðinn er farinn. Það á eftir að sjást verulegur munur á mér þegar ég kem í vinnuna á morgnana 😡

  7. Ef ekki væru til ríkisreknar stöðvar mundi á endanum bara verða ein útvarpsstöð og hún mundi heita Bylgjan. Fólkið fær það sem fólkið vill (eða sættir sig við) og langflestir kjósa sér eitthvað sem þeir þekkja (en ekki eitthvað nýtt), eitthvað sem ekki krefst hugsunar og hvað er þá eftir nema froðusnakk og britney (með fullri virðingu..) ??

    X-ið var eina útvarpsstöðin sem ég hlustaði á þegar hún varð til, seinna þegar hún var orðin commercial neyddist maður til að tékka á rás eitt og seinna kom skonrokk sterkt inn. Núna er bara rás eitt eftir. Lúxus. Skattarnir fara amk í eitthvað vitrænt.

  8. Tvíhöfði var náttúrlega snilld en þegar playlistarnir voru farnir að ráða ríkjum líka á X-inu, sama Rammsteinlagið 5 sinnum á klst og 100 sinnum á dag etc. þá var ballið búið. Í upphafi X-ins voru hlustendur að leita eftir tónlist sem þeir höfðu ekki heyrt annars staðar, alternative – rokk, tónlist sem hafði verið bönnuð á rás 2 fór loks í loftið. Hlustendur vildu eitthvað nýtt og Sýrði rjóminn á rás 2 var bara ekki nóg. Nú, þegar X-ið missti originalityið þá skipti litlu máli hversu sniðugur Tvíhöfði var, hlustendur slökktu þegar þátturinn var búinn. Þegar poppið er búið þá er bíóið búið.

Comments are closed.