Þegar maður er veikur í fimm daga verður maður að finna sér eitthvað til dundurs. Ég ákvað að taka saman þennan lista yfir uppáhaldsborgirnar mínar.
Ég vona svo innilega að þessi listi muni breytast á næstu árum og ég finni nýjar borgir, sem heilli mig meira en þær á listanum.
- Chicago: Auðvitað er ég sérstaklega hrifinn af Chicago vegna þess hversu miklum tíma ég eyddi þar. En borgin er æði. Fyrir það fyrsta er hún fallegasta borg Bandaríkjanna. San Fransisco er á fallegri stað, en Chicago er fallegri borg. Fallegri byggingar, hreinni og svo framvegis. Chicago hefur allt, sem maður þarf á að halda. Bestu veitingastaðir, sem ég hef farið á, frábært næturlíf, strönd og svo framvegis. Og það, sem mestu skiptir, hún hefur æðislegasta íþróttavöll í heimi, Wrigley Field. Ég get ekki nefnt margt, sem mér hefur fundist skemmtilegra um ævina en að eyða eftirmiðdegi í sólinni á Wrigley Field, drekkandi bjór og horfandi á baseball. Það er ógleymanleg lífsreynsla.
- Buenos Aires: Besta næturlíf í heimi. PUNKTUR! Ég var með þremur vinum mínum í þrjár vikur í Buenos Aires og við gerðum nánast ekkert nema að djamma þar. Næturlífið er á fullu, sama hvort það er á mánudegi eða laugardegi. – Vissulega er borgin skítug, ekkert alltof heillandi á köflum, umferðin er sturlun og svo framvegis. En það er eitthvað við þessa borg, sem heillaði mig alveg uppúr skónum þegar ég var þar. Borgin hefur einhvern sjarma, sem erfitt er að lýsa.
- Moskva: Frábær borg. Einhver ótrúlegur kraftur og geðveiki tengd þessari blöndun á leifum kommúnismans og brjálæðis kapítalismans, sem hefur gripið borgina. Fólkið æði, stelpurnar eru í pilsum sama hvernig veðrið er, frábært næturlíf og endalaust af ferðamannastöðum til að heimsækja.
- Mexíkóborg: Margir, sem hafa komið til Mexíkóborgar eru ekki hrifnir. Mengunin er fáránleg, borgin er ótrúlega stór og virkar kannski ekki heillandi við fyrstu sýn. En ég varðástfanginn þegar ég bjó þar. Besti matur í heimi, án nokkurs vafa, yndislegt fólk og einstakt næturlíf. Jafnast ekkert á við það að drekka tequila og bjór fram eftir allri nótt og fá sér svo tacos á 500 manna veitingastað, sem er troðfullur klukkan 6 að morgni. Í Mexíkóborg upplifði ég í fyrsta sinn umferðaröngþveiti klukkan 4 að morgni. Það segir ansi mikið um þessa borg, bæði næturlífið og umferðina.
- Caracas: Svipað og með Mexíkóborg. Margir, sem hafa komið þangað fíla borgina ekki. En ég bjó þarna náttúrulega í ár og hef séð ansi margt. Sennilega fáar borgir, sem ég tengi jafn skemmtilegum minningum og Caracas. Æðisleg borg. Já, og þar býr líka fallegasta kvenfólk í heimi.
- Las Vegas: Af borgunum á listanum hef ég dvalið styst í Las Vegas. En borgin er ótrúleg. Það er í raun ekki hægt að lýsa henni fyrir fólki. En eftir að ég kvaddi borgina leið varla dagur án þess að mig langaði ekki aftur.
- Barcelona: Fallegasta borg, sem ég hef komið til. Ótrúlegur arkítektúr, frábær matur, frábært næturlíf og einstakt götulíf. Ein af þessum borgum, sem mig hefur alltaf langað til að verða eftir í.
- Havana: Draumur minn er að ég verði sjötugur og geti þá flutt til Havana. Þar myndi ég svo eyða eftirmiðdögunum drekkandi romm, reykjandi vindla og spilandi dominos við vini mína. Það væri indælt. Havana er æði. Það slæma við hana er hversu óheppnir Kúbverjar eru með leiðtoga, en það er líka auðvitað viðskiptabanninu að hluta til að þakka hversu sjarmerandi borgin er í dag.
- New York: Sú borg, sem mig langar hvað mest að búa í. Það er eitthvað yndislega heillandi við allan mannfjöldann, allar byggingarnar og alla geðveikina.
- New Orleans: Ef að Buenos Aires er með besta næturlíf í heimi, þá er New Orleans ekki langt undan. Ég eyddi þarna spring break með vinum mínum og því djammi mun ég seint gleyma. Áfengi er selt á götum úti einsog svaladrykkir og það eru allir í brjáluðu stuði, hvort sem það er útá götum eða inná stöðum í franska hlutanum. Ótrúlegt að þessi borg skuli vera í Bandaríkjunum, vo ótrúlega ólík öllu öðru í landinu.
Aðrar borgir, sem komu til greina: Rio de Janeiro – Brasilía, Salvador de Bahia – Brasilíu, San Fransisco – USA, St. Pétursborg – Rússland, Montreal – Kanada. Ég hef ekki komið til Asíu, Afríku og Eyjaálfu auk þess sem ég hef ekki heimsótt evrópskar borgir einsog Prag, París, Róm og Berlín.
p.s. látið mig vita ef þið lendið í vandræðum með að kommenta. einarorn (@) gmail.com – ég er nefnilega að prófa nýtt til að verjast kommenta spami.
Skv. listanum virðistu vart hafa komið til Evrópu heldur. Ein borg af tíu. Hvernig væri að nýta sér lággjaldaflugfélögin innan Evrópu og reyna að af-ameríkansera þennan lista þinn 😉
Svo ertu velkominn í heimsókn til Kaíró fram á vorið.
Svo er það náttúrulega skandall að þú hefur enn ekki komið til Ítalíu. Skamm, Einar. Og hafðu það! 🙂
vá hvað ég er sammála þér með Las Vegas… þessi borg er bara VÁ og ég er búin að vera alveg *miglangartilLVmiglangartilLV* í bráðum 6 ár núna 🙁 ég ÆTLA aftur…
showið í kringum borgina eitt og sér er VÁ 😉
Heldur ameríkusinnaður listi svo þú verður að drífa til að skoða evrópu og asiu. Reyndar hef eg bara skoðað NY, Barca og Havana af listanum og þær eru allar a toppnum hjá mér sem og Rio (enda var ég þar á Carnivalinu, ekki hægt annað en að elska hana), Prag, Vínarborg, Granada (spánn) og Hong Kong.
Engin afrísk borg kemst á listann minn þó það sé uppáhalds heimsálfan mín.
Góður listi, skrapp vonandi til Moskvu og St. Pétur í sumar.
Jamm, ég skal vel viðurkenna að þetta er með Ameríku-ívafi, enda hef ég ferðast mun betur um þá heimsálfu en Evrópu. Einnig hef ég búið í þrem af Ameríkuborgunum, Chicago, Mexíkó og Carcas en hef hins vegar aldrei búið í annarri borg í Evrópu en Reykjavík.
Af þessum borgum, sem eru nefndar hef ég reyndar komið örstutt til Vínar þegar ég var lítill en það telst varla með. Ágúst, eru ekki 2 borgir af 10 í Evrópu? Ég hefði nú talið Moskvu vera Evrópuborg líka.
Og já, auðvitað er það skandall að ég hafi ekki komið til Ítalíu. Ég væri til í að nýta einhvern tímann allt fríið mitt og ferðast sæmilega vítt um landið.
Varðandi Rio, þá var ég ekki þar á meðan carnival var. Hins vegar var ég miklu hrifnari af Salvador de Bahia. Fannst það miklu skemmtilegri borg og stemningin miklu betri. Ekki jafnmikil stórborg og Rio.
Moskva er ekki í Evrópu, hún er í Pútínlandi 😉