Ég er vanalega ekki mikill svartsýnismaður, en þetta veður hefur alveg stórkostleg áhrif á mig. Veðrið fer nær aldrei í taugarnar á mér á veturna. Mér er alveg sama þótt að veturnir séu harðir. Hins vegar vil ég hafa almennilegt sumarveður, þar sem ég get verið úti á stuttermabol, get labbað um bæinn án þess að fjúka og get grillað án þess að blotna.
Ég lýsti í síðustu færslu eftir hugmyndum að því hvort það væri eitthvað land í heimi, sem þyrfti að þola jafn ömurlega leiðinlegt sumarveður og við Íslendingar. Einhverjar tillögur komu, til dæmis Grænland, Falklandseyjar, Bhútan og Mongólía.
Ég ákvað að skoða þetta aðeins betur og fletta upp veður-upplýsingum frá þessum stöðum og bera saman við Reykjavík. Það er auðvitað ekki hægt að bera saman veðurfar í heilum löndum, þannig að ég miða við höfuðborgir. Niðurstöðurnar eru magnaðar:
Hérna er meðalhitinn í Reykjavík. Meðalhitinn í besta mánuðinum, Júlí, er Júlí með heilar 13 gráður.
Ok, hvaða staðir koma þá til greina sem kandídatar fyrir leiðinlegasta sumarveður í heimi? Prófum höfuðborgina í Mongólíu. Nei, meðalhitinn þar í besta mánuðinum er 22 gráður. Hvað með Moskvu? Nei, hitinn er líka 22 gráður í heitasta mánuðinum þar, langt yfir Íslandi. Wellington á Nýja Sjálandi? Neibbs, hitinn er 19 gráður í bestu mánuðinum. En Alaska (teygjum þetta aðeins, líkt og Alaska væri sér land)? Veðrið hlýtur að vera verra þar! Ha? Neibbs, hitinn í besta mánuðinum þar er 18 gráður.
Í örvæntingunni minni þá ákvað ég að prófa Grænland og leitaði uppi meðalhitann í Narsarsuaq (það eru ekki til upplýsingar um Nuuk). Og vitiði hvað?
MEÐALHITINN Í NARSARSUAQ Á GRÆNLANDI ER HÆRRI EN Í REYKJAVÍK!!!
Meðalhitinn í Narsarsuaq í júlí er 14 gráður, eða 1 gráðu hærri en í Reykjavík. Þetta er hreinasta sturlun!
Þannig að með öðrum orðum, þá get ég ekki fundið land með verra sumarveður en Ísland!
Hvernig getum við mögulega verið hamingjusamasta þjóð í heimi þegar að við erum með leiðinlegasta sumarveður í heimi? Eru allir nema ég á prozac?
Uppfært (EÖE): Ágúst Fl. er með svipaðar pælingar á sinni heimasíðu og hann kemst að sömu niðurstöðu og ég.
Einu sinni hitti ég stúlku sem var mjög uppveðruð yfir þjóðerni mínu. Hún vissi það tvennt um Ísland að við værum hamingjusamasta þjóð í heimi og að við værum netvæddasta þjóð í heimi. Hún var algjörlega sannfærð um að það væru bein tengsl þar á milli. Hallast samt frekar að prósakinu …
[dmi.dk](http://www.dmi.dk/dmi/index/faroerne/vejrarkiv-fa.htm)
Það er líklegast best fyrir þig að vera ekkert að fara í sumarfrí til Færeyja. 10,3 gráður er meðalhitinn í Þórshöfn í júlí…
Versta sumarveður höfuðborgar í heimi:
[semsagt.net](http://www.semsagt.net/s/2005/07/11/22.40.56.html)
Amen, bróðir. Mér líður ekkert betur fyrir að veðrið í Þórshöfn sé verra.
Það hljóta að koma nokkrir dagar í ágúst, auda ekki um helgi eða neitt svoleiðis, en samt.
nótabene… það snjóar svona á 10 ára fresti í Wellington…
Ég er farin að taka þetta veður persónulega enda hefur rigningin elt mig hvert sem ég fer undanfarin tvö sumur. En ég fer af landi brott eftir tvær vikur þannig að það lítur út fyrir sólríkan og heitan ágúst á klakanum.
Þetta eru skemmtilegar pælingar. Var á Norðfirði um síðustu helgi í 25 stiga hita og mollu. Stórkostlegt er lýsingarorð sem kemst næst því sem manni fannst.
En veður er algjört aukaatriði. Það er eins og punt. Þeir sem verða of uppteknir af því hafa ekki nóg við að vera. Það er verðug pæling einnig 🙂
akkúrat – búin að vera í sumarfríi í júlí og það hefur verið rok og rigning mest allan tímann og jú kalt líka. Svo um leið og maður stefnir erlendis í eina litla helgi að þá á að koma gott veður í höfuðborgina – SVINDL! 😡
Þetta minnir mann bara á að Ísland er fínt til að heimsækja en ekki endilega búa.
Ég lýsi yfir 32 gráðum í Svíþjóð. Ísland var aldrei ætlað til byggðar.
Jammm, ég er líka alvarlega að spá í því að flytja til Stokkhólms.
þúrt amk ekki sveittur og klístraður allan daginn eins ég hérna í 28°..
úff ég gat ekki sofnað í fyrrakvöld fyrir hita..
annars virðist góða veðrið elta mig.. var heima í júní og þá var geggjað veður, kom svo til danmerkur og það er varla búið að rigna hérna.. :biggrin2:
Hey, ég vorkenni þér ekki baun, Katrín 🙂
Ég þoli ansi mikinn hita, hef búið í Mexíkóborg, Chicago og Caracas og kann vel við mig í mjög miklum hita.
En ég hata hins vegar þennan sumarkulda hérna á Íslandi.
Rétt að benda þessari stúlku þarna á að á seinast ári var það niðurstaða viðamikillar könnunnar að Danmörk væri besttengda landið í heiminum og Svíþjóð hafi verið það þar á undan, svo ég veit ekki hvaðan öll þessi hamingja átti að hafa komið.
besttengda? ég skil ekki…
Væntanlega landið með flestar internet tengingar á haus. Eða flestar breiðbandstengingar á mann. Ætli það sé ekki gerður greinarmunur á þessu tvennu.
Prufadu 34 gradur og 90% raka herna i Toronto, og i ibud med engri loftkaelingu, tha kys eg frekar 13 gradur a klakanum 😡
Ég bjó reyndar þannig útí Chicago. Í íbúð með einni viftu og engri kælingu. Fannst það fínt, fyrir utan eina nótt þar sem rafmagnið fór af.
Í því veðri gat maður verið úti á stuttbuxum og gert alla þá hluti, sem maður nennir ekki að gera útí rigningu.
Ég veit að það er fulltaf fólki, sem finnst kuldi skemmtilegur og þolir illa hita. Ég er bara ekki einn af þeim 🙂
Já, en er jafnmikil rigning og rok á hinum stöðunum eins og hjá okkur? Persónulega finnst mér það miklu verra en kuldinn… :confused: