Ok, árið um það bil að klárast. Þarf maður þá ekki að skoða sitt líf?
Þetta er búið að vera furðulegt ár. Ég hef lent í hlutum sem mig hefði aldrei grunað í byrjun árs, flesta þá ræði ég ekki hér. Ég lenti í frábæru en ótrúlega furðulegu sambandi, ferðaðist til Asíu, hætti í vinnunni minni eftir þriggja ára starf, sat ástfanginn fyrir framan Eiffel turninn, kynntist skemmtilegu fólki, sá Evrópuleiki á Anfield og á Camp Nou, áttaði mig betur á því hvað ég vil gera í framtíðinni og ferðaðist til ellefu landa: Tælands, Dubai, Víetnam, Kambódíu, Laos, Slóveníu, Frakklands, Spánar, Þýskalands, Svíþjóðar og Englands.
Á endanum var þetta ekki jafnmikið ár breytinga einsog ég [átti von á](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/30/20.21.23). Aðalástæðan var sú að ég samdi um að vera lengur í vinnunni minni en mig langaði upphaflega til. Þannig að meirihluta ársins eyddi ég í starfi, sem mér fannst hvorki spennandi né krefjandi lengur. En það var þó ákvörðun sem ég tók sjálfur og lítið yfir því að kvarta.
Þegar ég var útí Asíu hafði ég mikinn tíma með sjálfum mér og eyddi tíma í að hugsa hvað ég vildi gera varðandi sjálfan mig, bæði varðandi vinnu og einkalíf. Einhvern veginn hef ég verið of upptekinn eftir að ég kom heim til að koma einhverju af því í verk. Ef ég verð á Íslandi um næstu áramót þá ætla ég að vera sáttur við að vera hérna. Núna hef ég ekki lengur hluti sem binda mig og því þarf ég að gera upp við sjálfan mig hvar ég vil vera.
—
Eitt af því sem er þó breytt frá síðust áramótum er að ég er sáttur við og kann nokkuð vel við að vera single. Kannski var það eitthvað við þessi sambönd á árinu eða þá við Asíuferðina eða eitthvað annað. En ég hef haft lúmskt gaman af þessu lífi að undanförnu.
Það sem mig vantar hins vegar núna eru fleiri vinir. Ég er nefnilega í þeirri aðstöðu að eiga fulltaf vinum, sem eru á allt öðrum stað í lífinu en ég. Þeir eru að eignast börn, hugsa um fjölskylduna sína og slíkt. Eflaust fínt fyrir þá, en þetta eru hlutir sem ég hef engan áhuga á akkúrat núna. Þetta er ekki gagnrýni á þá, heldur frekar viðurkenning á þeirri staðreynd að við eigum minna sameiginlegt nú en fyrir nokkrum árum.
Og ég hef uppgötvað að það er líklegra til árangurs að kynnast nýju fólki heldur en að reyna að breyta fólkinu í kringum mig. Ég þarf að kynnast fólki, sem er single eða sem nennir að djamma og fara útúr húsi. Þetta hljómar kannski skringilega sorglega, en svona er þetta bara. Ég er nýhættur á vinnustað þar sem mínir helstu samstarfsmenn voru allir komnir yfir fertugt og vinn núna á vinnustað þar sem flestir starfsmennirnir eru undir tvítugt. Því eru ekki margir staðir þar sem maður getur kynnst nýju fólki. Ég fór líka í háskóla í Bandaríkjunum og því eru margir af mínum bestu vinum einfaldlega búsettir í öðrum löndum. Og svo hefur það æxlast þannig að allir mínir bestu vinir hérna heima hafa verið í samböndum í langan, langan tíma.
Þannig að við þessi áramót ég er sáttur við sumt, en ósáttur við annað.
—
En ég ætla að breyta mörgu á næsta ári. Ég held að það ár verði spennandi þegar að kemur að atvinnumálum mínum. Ég hef tekið mér ákveðinn tíma í ákveðið verkefni og það verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast. Svo veit ég vel að ferðalöngunin á eftir að koma yfir mig þegar að tekur að vora og þá er ég einna helst að líta til suður hluta Mið-Ameríku, eða þá til Indlands.
2007 skal vera gott ár.
Gleðiðlegt ár. Takk fyrir að lesa.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir skemmtilegt blogg 🙂
gleðilegt nýtt ár.
Takk fyrir það liðna og hafðu það gott. Hef fulla trú á að árið 2007 verði gott ár 🙂
Gleðilegt ár, Einar minn. Takk fyrir allt gamalt og gott.
kv., Sandra
Gleðilegt nýtt ár! Mundu bara að þótt allt annað í lífi þínu breytist eru ég og þrír aðrir gaurar þarna úti með vefsíðu sem er algjör máttarstólpi í þínu lífi. Við vitum að án Liverpool bloggsins gætirðu átt á hættu að missa fótfestu í lífinu … :laugh:
Já, takk Kristján. Þið eruð kletturinn í mínu lífi 🙂
Og takk, Maja, Maja og Sandra! þetta komment hjá þér, Majae breytti nú ansi miklu á árinu 2006. Eiginlega bara öllu. 🙂