Það er hreint magnað hvernig hlustun mín á tónlist og annað útvarpsefni hefur breyst á undanförnum árum. Í stað þess að hlusta á útvarp allan daginn þá hlusta ég nú mestmegnis á iPod-ana mína.
Í stað þess að treysta á útvarpsstöðvar fyrir uppgötvun á nýrri tónlist þá leita ég nú aðallega á netmiðla og treysti meðmælum frá vinum og bloggurum sem ég treysti.
En ég get ekki bara hlustað á tónlist allan daginn. Ég eyði allavegana um klukkutíma á dag í líkamsrækt og auk þess talsverðum tíma í bílnum mínum. Ég er hins vegar löngu búinn að komast að því að íslenskt útvarp hentar mér ekki. Ég get hlustað á nokkra þætti, en líkurnar á að ég sé í bílnum á þeim tíma sem þeir eru í gangi, eru litlar. Einu þættirnir sem ég hlusta reglulega á eru Spegillinn á Rás 2 og svo morgunþátturinn á FM957, sem er mjög krefjandi útvarpsefni fyrir mig klukkan 7 á morgnana.
En í staðinn fyrir íslenskt útvarp nota ég gríðarlega mikið netvarps-þætti (podcast) í iTunes. iTunes forritið sér um að ná reglulega í nýjustu þættina sem ég er áskrifandi að og svo færi ég þá yfir á iPod-ana mína þegar ég uppfæri efnið á þeim. Það er gríðarlegt magn af efni þarna úti sem er þess virði að hlusta á. Þetta eru þættirnir sem ég er áskrifandi að (tenglar eru yfir á iTunes síðu fyrir viðkomandi þátt)
[This American Life](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=201671138). Ég get hreinlega ekki ímyndað mér að það sé búinn til betri útvarpsþáttur í þessum heimi en This American Life. Ira Glass (sjá mynd) og félagar hjá Chicago Public Radio senda einu sinni í viku út þennan þátt. Í hverjum þætti er tekið fyrir ákveðið þema og sagðar sögur af fólki sem tengist þemanu. Þættirnir geta verið fyndnir, sorglegir, spennandi eða fræðandi. **Mæli með þessum þáttum fyrir alla.**
[Real Time with Bill Maher](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=98746009). Áður var ég ávallt að baksa við að downloada ólöglegum útgáfum af þessum sjónvarpsþætti. En svo sá ég að þátturinn gefur út hljóðið á netvarpi ókeypis. Þátturinn virkar nánast alveg jafn vel sem útvarpsþáttur. Hinn vinstri sinnaði Bill Maher tekur á bandarískum stjórnmálum á gamansaman hátt. Frábær þáttur og nauðsynlegur fyrir þá sem hafa áhuga á bandarískum stjórnmálum.
[Left, Right & Centre](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=73329771). Vikulegur útvarpsþáttur þar sem nokkrir spekingar spjalla um bandarísk stjórnmál. Þessi þáttur ásamt This Week með George Stephanopoulos halda manni aðeins inní bandarískum stjórnmálum.
[MacBreak Weekly](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=179237749). Ég er Apple nörd og þetta er þáttur fyrir Apple nörda. Fínar samræður milli nokkra sérfræðinga um allt sem tengist Apple.
[The Football phone-in 606](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=129584472). Umræður um enska boltann.
[From our own correspondents](http://phobos.apple.com/WebObjects/MZStore.woa/wa/viewPodcast?id=73331209) er frábær þáttur á BBC þar sem að fréttaritarar stöðvarinnar útum allan heim senda inn sögur af reynslu sinni í löndum þar sem þeir eru staddir. Frábær þáttur til að fá fréttir af hlutum sem rata ekki inní hefðbundna fréttatíma.
—
Þetta er það sem ég hlusta á. Enn sem komið er standa íslenskir aðilar sig illa í að senda út netvörp, en það er vonandi að það batni með tímanum. Með því gætu þeir náð miklu betri útbreiðslu en bara með því að treysta á að fólk stilli inná stöðina þeirra á ákveðnum tíma á ákveðnum dögum.
Kemur á óvart að þú hlustar ekki á neinn þátt um Amerískar íþróttir. Beautiful Game er að mínu viti líka gott podcast um enska boltann ef þú hefur ekki heyrt það og svo er PTI alger nauðsyn á hverjum degi.
Sko, ég reyndi PTI – en ég gafst uppá því eftir smá tíma. Þar var of mikið um háskóla-íþróttir, sem ég hef takmarkaðan áhuga á (fyrir utan náttúrulega Big Ten) – allavegana í þeim þáttum, sem ég hlustaði. Ef þeir fjölluðu bara um Bears, Big Ten, NBA og MBL þá gæti það verið í lagi.
Hef ekki hlusta á Beautiful Game
Auðvitað skylda þín að skoða Peel , http://www.getpeel.com og taka nettan mp3blog rúnt.
Sæll nafni,
ég hlustaði á This American Life í dag, snilldarþáttur. Veistu hvort/hvernig maður geti nálgast eldri þætti?
Þú getur keypt þá fyrir iPod á Audible.com – eða þú getur streamað þá á [heimasíðu þáttanna](http://www.thislife.org/)
Takk, tékka á þessu.