Ég er svona smám saman að reyna að koma mér inní stjórnmálin hérna heima eftir að hafa misst af öllum látunum á meðan ég var erlendis. Ég horfði á Silfur Egils í gær og hef verið að vinna mig í gegnum bunka af Morgunblöðum frá síðustu dögum. Það er í raun magnað að lesa og horfa á margt.
Fyrir það fyrsta, þá er félögum mínum í UJ gerð upp sú sök að þeir hafi skipulagt mótmæli til þess að reyna að láta heilsu hins nýja borgarstjóra hraka. Hvernig nokkrum andstæðingum okkar í pólitík getur dottið í hug að slík ómenni fylli minn flokk er með hreinum ólíkindum.
Og þó er það kannski ekki skrýtið að sumum detti þetta í hug. Morgunblaðið hefur nefnilega lengi staðið fyrir ótrúlegum áróðri gegn Samfylkingunni. Blaðinu tekst illa að finna eitthvað gagnrýnivert við stefnu flokksins og því grípur það til tveggja ráða til að fá útrás fyrir andúð sína á flokknum. Annars vegar að gefa í skyn að flokkurinn hafi enga stefnu og með því að nær þriðjungur þjóðarinnar séu villuráfandi sauðir, sem sjái ekki stefnuleysið. Hitt ráðið er svo að ráðast persónulega að forystufólki flokksins.
Þær árásir hafa náð hámarki nú síðustu daga þegar gefið er í skyn að helstu forystumenn flokksins breiði út óhróðri um veikindi Ólafs F. Magnússonar. Þessa línu endurtaka svo margir Moggabloggarar og Kjartan Magnússon hélt þessu líka fram í Silfrinu í gær. Þrátt fyrir þetta geta þessir aðilar ekkert dæmi um slíkan óhróður nefnt. Eina dæmið sem að hinn reiði Kjartan Magnússon gat nefnt fyrir þessum “rætnustu árásum á seinni tímum” var það að Björk Vilhelmsdóttir nefndi víst í einhverju viðtali að Ólafur F. mætti ekki fá hita og þá væri meirihlutinn fallinn. Einhvern veginn geta Sjálfstæðismenn fundið útúr þessu eitthvað mynstur rætinna árása á geðheilsu Ólafs.
Þetta er með miklum ólíkindum.
Mogginn og aðdáendur hans vita nefnilega að veikindi Ólafs skipta engu máli þegar að kemur að hneykslun fólks yfir atburðum síðustu daga í borginni. Þeir vilja hins vegar láta einsog svo sé og munu eflaust halda áfram staðhæfa það að gagnrýni á nýjan meirihluti tengist á einhvern hátt meintum fordómum okkar vinstrimanna gagnvart geðsjúkdómum. Það er ómerkilegur málflutningur og til þess gerður að reyna að draga athyglina frá því stórkostlega klúðri sem þessi nýji meirihluti íhaldsins er.
* * *
Ég rakst þó í dag á algjörlega frábæra grein um þessar nýju Moggalygar: Styrmir býr til Strámann – (Ég mæli með greininni fyrir alla – og hún inniheldur m.a. tilvitnanir í þessa leiðara Moggans)
Höfundurinn rekur það hvernig Mogginn hefur gert Samfylkingarfólki upp skoðanir og hittir svo algjörlega á naglann á hausinn hér:
Því verður loks að halda til haga að enginn hefur talað fjálglegar eða velt sér meira upp úr veikindum Ólafs F. Magnússonar en ritstjóri Morgunblaðsins og hans lagsbræður. Enginn hefur nýtt sér veikindi Ólafs í pólitískum tilgangi nema einmitt þeir sjálfir.
Þetta er einmitt mergur málsins. Björgvin Valur bendir líka á þetta á sinni síðu. Þar eru nokkrir bláir pennar að gagnrýna einhverja óskilgreinda vinstri menn fyrir það að ráðast að heilsufari Ólafs. Með þessu eru þeir að reyna að slá pólitískar keilur.
Varðandi Moggann, þá veit ekki hvort ég get réttlætt það lengur að vera áskrifandi að blaðinu. Er það virkilega eitthvað vit í því að kaupa á hverjum degi blað, sem telur mig vera meðlim í flokki sem sé nánast rót alls hins illa á Íslandi? Á ég að borga fyrir það á hverjum degi að ekki sé bara gert lítið úr skoðunum mínum, heldur gefið í skyn að ég, sem og aðrir meðlimir í mínum flokki, hafi engar skoðanir nema þá lífssýn að haga seglum eftir vindi. Á ég að borga á hverjum degi fyrir blað, sem ræðst með svona óvægnum hætti gegn flokksfélögum mínum?
Nei, segja Björgvin, Oddný Sturlu, Dofri og fleiri – og ég hlýt að velta þessu fyrir mér líka.
Nei.
Ef þú ert eins og annað fólk þá færðu væntanlega tvo frí dagblöð heim til þín á hverjum morgni. Er ekki bara hægt að láta þau duga, hvers vegna að borga fyrir það þriðja?
Ritstjóri Morgunblaðsins er einn helsti andstæðingur núverandi ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Auk þess að vera almennt andsnúinn Samfylkingunni hefur það verið sérstakt markmið ritstjórans að reka fleyg(a) á milli ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Ætti þetta ekki að hafa farið framhjá neinum og hljóta skrif hans síðustu daga að skoðast sem tilraun til að gera samskipti flokkanna erfiðari.
Miðað við hversu hatrömm umræðan er orðin, og þá sérstaklega vegna skrifa Morgunblaðsins, verður ekki annað séð en eitthvað gangi hjá ritstjóranum.
Held að Björk hafi ekkert rætt um hita heldur að Ólafur gæti ekki setið heilan borgarstjórnarfund slíkt væri eirðarleysið. Er ekki endilega sammála Styrmi að um skipulagðar árásir séu í gangi til þess að sparka Ólafi í veikindi. Hins vegar þótti mér framganga fólksins á pöllunum ekki beint glæsileg. “þú ert engin fokking borgarstóri” og “heim með hann”!
Ertu ekki endilega sammála Styrmi, Hafrún?
Já, fólk notaði “fokking” – ég nota það orð í annari hverri setningu, en sjaldan býst ég við eða vona að það komi niður á heilsu fólks. Fólk er reitt yfir þessum hálfvitaskap í Íhaldinu og fádæma hugsjónaútsölu þess, en geðheilsa Ólafs hefur ekkert með það að gera. (eða hversu niðurdreginn hann var víst)
Og þetta er vissulega rétt, Gunnar Páll. Ég þarf oft að segja sjálfum mér að það séu ekki allir Sjálfstæðismenn með jafn einkennilegar skoðanir einsog Mogginn.
Ég skammaðist míni niður í tær fyrir að hafa kosið Samfylkinguna í seinustu kosningum eftir að sjá hvernig fólkið hegðaði sér á pöllunum. Ef þetta lið er það PAKK sem mun síðan stjórna Samfylkingunni þegar þar að kemur þá hef ég engan áhuga á að kjósa þann flokk lengur. Þetta var ekki málefnalegt, frekar barnalegt og fyrir neðan virðingu flokksins.
uhh ok. Umorða þetta. Ég er ekki sammála Styrmi í því að Samfylkingin sé í hernaði gegn Ólafi í þeirri von að hann veikist. Ég er alls ekki á því að Dagur stjórni því…. og það sem meira er að þótt ég hafi kostið xd þá tel ég Styrmi stundum fara overbord. Það er ekki þannig að Styrmir sé að tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins hvað þá allra þeirra sem kusu hann.
Ég nota fokking líka oft. Tala aðalega um fokking Man Utd 🙂 En það er eitt að nota það í almennu tali en allt annað að garga á fólk að það sé fokking eitthvað. Ég stór efast samt um að drengurinn sem sagði þetta hafi haft það að markmiði að draga Ólaf niður í þunglyndi. Held að markmið hans hafi verið að láta óánægju sína í ljós.
Semsagt ég tel að Samfylkingin sé ekki að reyna að gera Ólaf veikan/niðurdreginn aftur.
Mér fannst mótmælin fara yfir strikið en ég held þó að planið hjá krökkunum hafi ekki veirð að senda Ólaf á geðdeild heldur einfaldlega bara að mótmæla.
En hvað fannst þér um þessi mótmæli?
Miðað við það sem ég sá í þessari frétt, þá finnst mér (fyrir utan það kannski þetta eina kall um “fokking borgartsjóra”) afskaplega lítið athugavert við það að mótmæla þessu kjaftæði Íhaldsins.
Ég skil allavegna afskaplega vel þessa reiði sem sást á pöllunum, enda hefur valdagræðgi flokksins aldrei verið jafn augljós og síðustu viku. Það má vel vera að Hanna skammist sín fyrir að hafa kosið flokk sem inniheldur fólk sem mótmælir svona valdagræðgi. Ég er hins vegar stoltur af því.
Já, og svo bendi ég á góðan pistil frá Guðrúnu Birnu á ujr.is