Allt frá því að ég var 18 ára gamall hefur Pink Floyd verið mín uppáhaldshljómsveit. Vissulega hef ég síðustu ár ekki hlustað jafn ofboðslega mikið á sveitina og ég gerði áður. Sennilega vegna þess að ég hef hlustað á allar plöturnar alltof oft.
Þegar ég settist niður fyrir einhverjum 10 árum og gerði lista yfir það sem mig langaði að gera yfir æfina, þá voru á honum fjölbreyttir hlutir. Ég ætlaði að sjá Liverpool spila (helst úrslitaleik í Evrópukeppni, sem rættist á ótrúlegan hátt í Istanbúl), ég ætlaði að dansa tangó á götum Argentínu og gera fjölmarga aðra hluti.
Og ég ætlaði að sjá Pink Floyd spila á tónleikum. Sá hluti hefur ræst að hluta til, því tvisvar hef ég séð Roger Waters spila á tónleikum – bæði í Houston og í Reykjavík. En draumurinn var alltaf að sjá þá fjóra saman aftur, Gilmour, Wright, Waters og Mason. Það er þó ljóst að af því verður aldrei, því að Richard Wright dó í dag. Hann var 65 ára gamall og hafði barist í nokkur ár við krabbamein.
Wright var auðvitað aldrei jafn mikilvægur meðlimur einsog Waters og Gilmour, en hann samdi nokkur góð lög, þar á meðal tvö ómissandi lög á Dark Side of the Moon – Great Gig in the Sky og Us and them. Einnig var hann að sögn mikilvægur hlekkur í nokkrum frábærum lögum einsog Echoes og Atom Heart Mother.
Það er því ljóst að Live 8 tónleikarnir árið 2005 voru þeirra síðustu tónleikar saman. Ein besta hljómsveit rokksögunnar mun því aldrei spila aftur saman.