Aftur af stað!

Vegna ýmissra ástæða í mínu lífi hef ég ekki farið í frí mjög langan tíma. Síðasta ár var ár mikils uppgangs hjá Serrano og ákveðin starfsmannamál þar gerðu mér ómögulegt um að fara í frí. Fyrir utan stuttar ferðir til Liverpool og Edinborgar, þá má segja að ég hafi ekki farið í frí síðan ég fór í ferðina til [Suð-Austur Asíu](http://eoe.is/ferdalog/#sud-a-asia) í september-október 2006.

Sú ferð var bæði góð og slæm. Ég var nýkominn útúr mjög erfiðum sambandsslitum og ég var að reyna að ná mér af þeim mestalla ferðina – og í raun má segja að ferðin hafi verið farin til að komast yfir þau. Það reyndist hins vegar oft erfitt. Ég var jú einn á ferðalagi og ég veiktist nokkrum sinnum illa og því var partur af ferðinni uppfullur af sjálfsvorkunn, ælandi inná einhverjum ódýrum hótelum í Phom Penh og öðrum álíka borgum.

En ferðin var líka æðisleg. Ég sá Bangkok, hið stórkostlega Angkor og Ha Long Bay í Víetnam. Ég borðaði hundakjöt, stakk mér til sunds í Tonkin flóa og lét [apa ráðast á mig](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274461853/in/set-72157594326242587/). Ég djammaði í Vientiane, Bangkok, Phnom Penh og Saigon, kynntist fulltaf fólki og fræddist um ótrúlega sögu þessara landa.

En ég var líka ákveðinn í því að fara ekki aftur í svona ferð einn. Allavegana ekki ef að öll mín mál væru jafn óleyst og þau voru þá.

* * *

En núna 18 mánuðum síðar er ég á leið út aftur.

Ég ætla að ferðast einn í 6 vikur en ég tel samt að mín mál séu í miklu betri stöðu núna og ég geti einbeitt mér að því að njóta lífsins í ókunnugu landi án þess að hafa áhyggjur af því sem er að gerast heima á Íslandi.

líbanskar stelpurEftir 10 daga mun ég fljúga til London og þaðan til Beirút í Líbanon. Ég ætla svo að eyða 6 vikum á ferðalagi um Líbanon, Sýrland, Jórdan og Ísrael. Upphaflega planið mitt var að fara til Mið-Ameríku, en fyrir tveimur vikum ákvað ég að mæta niðrí Eymundson með opnum hug og ákveða þar hvert mig langaði að fara. Þegar ég tók upp bókina um Ísrael og Palestínu fékk ég strax fiðring í magann og síðan þá hef ég vart hugsað um annað en þessi lönd.

Ég hef lengi haft gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum á þessu svæði og þá sérstaklega í Líbanon og Ísrael. En það er ekki bara stjórnmálin, sem gera þessi lönd heillandi því þau eiga sér gríðarlega merkilega sögu og fyrir ferðamenn er ótrúlegur fjöldi merkra staða til að sjá. Nægir þar að nefna Baalbek í Líbanon, Damascus í Sýrlandi, Jerúsalem og Petra í Jórdaníu.

Einsog áður hef ég ekki ákveðið nákvæmlega hvernig ferðin á að vera, en þó er beinagrindin tilbúin. Þá á bara eftir að ákveða hversu lengi ég verð á hverjum stað og hvaða staði utan helstu staðanna ég fer á. Þegar ég er á þessum bakpokaferðalögum mínum vil ég geta breytt áætlunum á staðnum eftir því hvort ég kann vel við staðina eða ekki.

Allavegana, ég ætla að byrja í Beirút. Samkvæmt áætlun ætti ég að lenda í Beirút á föstudagsmorgni 2.maí og get því vonandi kynnt mér hið fræga næturlíf í Beirút. Svo er planið að sjá allavegana Tyre, Tripoli, Byblos og Baalbek í Líbanon. Þaðan yfir til Sýrlands, til Damascus og upp til Aleppo áður en ég fer svo suður til Bosra og þaðan yfir til Jórdaníu. Þar ætla ég að stoppa sutt í Amman og skoða svo Dauða Hafið og svo auðvitað niður til Petra og Wadi Rum. Þaðan svo yfir til Eilat í Ísrael og baða mig í Rauða Hafinu. Svo upp til Jerúsalem, Tel Aviv og Haifa. Svo vil ég líka reyna að ferðast eitthvað um Vesturbakkann, en ég veit ekki almennilega hvernig ástandið er fyrir ferðamenn þar. Það er sennilega eitthvað sem ég mun skoða þegar ég kem til Jerúsalem.

Ég ætla svo sennilega að fljúga til London aftur frá Tel Aviv.

* * *

Einsog áður, þá væri frábært að heyra frá fólki, sem hefur farið á þessa staði og getur mælt með því hvað ég eigi að gera.

24 thoughts on “Aftur af stað!”

 1. Mjög spennandi.. einhverra hluta vegna er ég ótrúlega spenntur fyrir Líbanon og Sýrlandi.

  Í Sýrlandi gefst tækifæri á að kynna sér betur menningu Kúrda, en hluti af 44 milljónum Kúrda býr þar. Þessir 44 milljónir Kúrda eru minnihlutahópar í Sýrlandi, Tyrklandi, Íran og Írak. Mannréttindi þeirra eru iðulega virt að vettugi og þeirra draumur er að stofna ríkið Kúrdistan!

 2. Algerlega óskylt færslunni, biðst forláts.

  Les þessa síðu reglulega og hef séð að þú ert mikill Apple maður (thumbs up). Vildi bara vita nokkur atriði varðandi það að kaupa iphone. Datt í hug að spurja þig út í þau. Spurningin er, verður maður að nota amerískt kreditkort til að versla hann á netinu og hvernig er það, þeir segja á apple-síðunni að til að nota iPhone verður maður að skrá sig hjá AT&T. Hvernig virkar það þá upp á að nota símann á Íslandi, þ.e. er cracka hann.

 3. Biðst aftur afsökunar á off-topicinu, vona að þú sjáir þér fært að svara mér.

 4. Ég hef komið til Jerúsalem og það var meiriháttar upplifun.

  Að sjálfsögðu er gamli bærinn þar það sem allt snýst um þar, grátmúrinn osfrv. en það sem mér fannst skemmtilegast var einfaldlega að ganga þar um. Það var eitthvað rosalega sérstakt við það að labba þessar þröngu götur, sjá háldraða menn tefla í kuflunum sínum og það var nánast eins og tíminn hafði staðið í stað í hundruði ára þarna. Þú fattaðir síðan að svo var ekki þegar 13 ára unglingar með hríðskotabyssur gengu framhjá þér.
  Eitt augnablik sem ég gleymi aldrei er þegar ég settist á kaffihús sem var staðsett upp á þaki á húsi og horfði yfir gamla bæinn og eina sem maður heyrði voru bænir í kallkerfi yfir borgina. Mjög sérstök upplifun.

  Síðan er frábært að fara í Dauðahafið. Það er svakalegt. Þar má ekki synda vegna þess að ef að höfuð þitt fer í kaf þá muntu ekki ná því uppúr aftur vegna saltsins í vatninu. Einnig getur þú legið ofan á því eins og dýnu. Ef að Jesú gekk á vatni, þá var það þarna. Mjög gaman að prófa þetta en ekkert gamaldags neitt þar sem þetta er orðið mjög túristavænt.

  En ég mæli hiklaust með Jerúsalem.

 5. Ég þekki þessa staði nokkuð vel enda bjó ég í Ísrael í 2 ár og fór þangað 1-2 á ári næstu árin eftir það. Það er af nógu að taka og kannski of mikið í komment hér.

  Tékkaðu á mér á msn eða bjallaðu í mig ef þú vilt…

  kv, tobs

 6. Brúsi, skoðaðu allt um iPhone á Maclantic (á íslensku).

  Einar, þetta er í fyrsta sinn sem ég hálf svitna við að lesa um ferðaáætlanir þínar. Þú ert hugaðri en ég, mér dytti ekki í hug að fara til lands þar sem ég get drepist á kaffihúsi á hvaða stundu sem er. En allavega, gangi þér vel og ég vona að við gungurnar sem heima sitjum fáum jafn magnaðar myndir og frásagnir og venjulega þegar þú ferðast. 🙂

 7. mér dytti ekki í hug að fara til lands þar sem ég get drepist á kaffihúsi á hvaða stundu sem er.

  Ef ég ætti alltaf að hugsa svona, þá myndi ég aldrei ferðast. Það er til að mynda mun meiri hætta á því að lenda í flugslysi þegar maður er á ferðalögum heldur en ef maður liggur uppí sófa heima hjá sér. Það er samt frekar ólíklegt og ég þarf alltaf að komast yfir smá flughræðslu þegar ég er á ferðalagi.

  Ég er ekki að segja að slæmir hlutir geti ekki komið fyrir, en ég held að fólk hafi samt of neikvæða ímynd á þessum löndum. Það er allavegana tilfinningin sem ég fæ þegar ég les það sem að aðrir túristar hafa skrifað.

  Tobbi, ég hef örugglega samband.

 8. Frábær ákvörðun um að heimsækja þessi lönd en ég fór í mjög svipað ferðalag, fór þó til Egyptalands í stað Ísraels. Það er spurning um að bæta við Palmyra í Sýrlandi og heimsækja Kastala riddaranna (Crac des Chevaliers).. Tyre og Byblos fannst mér ekkert sérstaklega spennandi að koma til þótt saga þeirra sem vissulega heillandi.

 9. Það er ekkert smávegis sem Einar Valur hefur ferðast….

  Gangi þér vel Einar Örn og góða skemmtun í þessu spennandi ferðalagi!

  Vonandi sérðu Liverpool vinna meistaradeildina á pöbb í Sýrlandi eða einhverstaðar á þeim slóðum 🙂

 10. Einar, ég er ekki að segja að óttinn stjórni því hvort ég ferðast eða ekki. Ég veit að ég er líklegri til að verða fyrir strætó fyrir utan heima hjá mér en ég er að lenda í sprengjuárás á kaffihúsi í Tel Aviv rétt á meðan maður er þar.

  Ég er bara að segja að lönd sem eru eitt mesta bardaga- og átakasvæði heims um þessar mundir væru ekki efst á lista hjá mér þegar kæmi að því að velja mér frí. Ekki það að ég sé týpan sem vilji alltaf fara á sömu ströndina á Benidorm, en ég myndi frekar vilja fara og sjá heimsborgirnar en að reyna að troðast inná Vesturbakkann.

 11. Vá en frábært plan!! Ég dáist að þessari framtakssemi … að ég tali nú ekki um hugrekkið sem þarf til þess að fara einn í svona ferð 🙂

  Góða ferð, hlakka til að lesa ferðafærsluna!

 12. Takk, Margrét og Sandra.

  Og Kristján, ég skil þig vel. En ég er ekki að fara á þessa staði útaf einhverri spennu, heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum löndum.

 13. Nosh, hvað þetta verður magnað en hafðu augu og eyru opin þar sem ástandið er ansi óstabílt þessa dagana, allavega í Beirút. Ég hafði hugsað mér að fara og heimsækja fjölskylduna en pabbi sagði mér að bíða með það þangað til lægði. Þaaaannig góða skemmtun og farðu varlega!

 14. fallega myndskreytt hjá þér;-)
  farðu varlegaaaaaaaaaa & vertu duglegur að taka myndir og henda inn á flickr á meðan ferðalaginu stendur 🙂
  lýsingin hjá DT lætur mig allavegana mikið langa til að fara til Jerúsalem..
  þetta verður bara æðislegt hjá þér..

 15. Ég er með stórkostlegar fréttir handa þér: Það eru fjórir kvenmenn á hvern karlmann í líbanon. Dammdamm…..

 16. Hvernig stendur á því? En þetta hlutfall hljómar vel. Plús það að ég hef heyrt fleiri en einn segja að líbanskt kvenfólk sé það fallegasta í heimi. 🙂

  En víst þú átt fjölskyldu þarna, hverju mælirðu með að ég sjái?

 17. Mér skilst að útflutningur karlmanna sé hár og konurnar sitja eftir með sárt ennið!

  Ef ég gæti bara sagt þér hvað þú átt að sjá……skömm að segja frá því að ég hef aldrei farið en það er á planinu! Jiiii, hryllingur að ég sé að viðurkenna þetta á netinu! Þannig þú skellir þér og segir mér svo hvað ég á að sjá…..

  Mega góða ferð

Comments are closed.