Skortur á góðum drykkjum

Eitt, sem getur hugsanlega talist gott við veikindi er að ég losna við allt samviskubit sem tengist áti. Ef mig langar í kex með mjólk í morgunmat, popp í hádegismat og nammi í eftirmiðdagskaffi, þá fæ ég nákvæmlega ekkert samviskubit yfir því. Ég er veikur og á því að geta leyft mér slíkt.

Ég hef hins vegar komist að því að það er enginn einn drykkur í á þessu landi, sem mér finnst æðislega góður. Dags daglega drekk ég mjólk og vatn og svo sódavatn. Ég hætti fyrir nokkrum árum að drekka kók og því fæ ég mér aðeins Pepsi Max einstaka sinnum (eftir djamm aðallega).

Í þessari veikindapásu langaði mig í eitthvað ofboðslega gott að drekka og hollustan var engin fyrirstaða. Fékk mér því Coca Cola, sem eftir margra ára bindindi bragðast bara hreint ekki vel. Það sama á við um Pepsi fyrir mig og í raun Pepsi Max líka. Ég varð því eiginlega bara að gefast upp eftir smá tíma og biðja um að keypt yrði handa mér Sítrónu Kristall.

Það þykir mér magnað. Að í veikindum, þá gat ég ekki fundið neinn óhollan drykk sem mig langaði meira í en kolsýrt vatn með sítrónubragði. Það er e-ð hálf sorglegt við það.Þegar ég fór að tala um þetta við kærustuna mína, þá gat ég bara rifjað upp tvo drykki, sem (í minningunni allavegana) mig myndi langa í akkúrat núna.

1. Fanta með Greip bragði. Venjulegt Fanta er einhver allra versti gosdrykkur á jörðinni. Hins vegar þegar ég var skiptinemi í Venezuela fyrir nokkrum árum þá fór ég með vini mínum í dagsferð yfir til Kólumbíu. Þar í einhverjum litlum landamærabæ settumst við inná veitingastað og sáum Fanta í gulum og fjólubláum umbúðum, sem hét “Fanta Toronja” eða Fanta Greip.

Kannski var það hitinn og uppbyggður þorsti, en okkur fannst við aldrei hafa bragðað jafn góðan drykk. Við enduðum á að drekka 4-5 dósir yfir þá nokkru klukkutíma sem við vorum í Kólumbíu og tókum svo með okkur fullt aftur til Venezuela.
2. Fanta með Greip bragði kemst þó ekki nálægt uppáhaldsdrykknum mínum, hinu [brasilíska Guaraná](http://en.wikipedia.org/wiki/Guaran%C3%A1_Antarctica). Guaraná er búið til úr samnenfdri jurt og hefur því örvandi áhrif. Það varð sennilega ekki til að minnka aðdáun mína á drykknum, en aðallega var það bragðið sem gerði mig algjörlega háðan drykknum á ferðalagi mínu um Brasilíu. Ég drakk allavegana 3-4 glös á dag í Brasilíu og þegar ég nálgaðist landamæri Paragvæ þá byrjaði ég að auka neysluna umtalsvert, því ég gerði mér ekki grein fyrir því að drykkurinn væri líka til þar.

Frá þeirri ferð hef ég aldrei séð Guaraná til sölu. Ég leitaði talsvert að drykknum í Bandaríkjunum, en fann ekki (fann hins vegar fullt af búðum sem seldu perúska viðbjóðinn [Inca Cola](http://en.wikipedia.org/wiki/Inca_Cola)). Það hefur sennilega gert Guaraná ennþá betra í minningunni.

Þannig að niðurstaðan úr þessum gosdrykkjapælingum hjá mér í dag var sú að mig langaði ótrúlega mikið í tvo Suður-Ameríska gosdrykki, en nákvæmlega ekkert í drykkina sem voru til útí Melabúð. Ég fékk mér því bara sítrónubragðbætt sódavatn.

Oooga Chaka

Eruði ekki að grínast með þetta veður? Sól og yndislegheit. ÞEGAR. ÉG. ER VEIKUR! Ó óréttlætið í þessum heimi.

En hvað er betra þegar maður er inni en að horfa á myndbönd með David Hasselhoff.

Fyrst: Jump in My Car

og svo Hooked on a Feeling.

Bæði myndböndin eru tímalaus meistaraverk.

2GB

Vó vó vó vó vó!!!

Hérna mitt í ömurlegu flensukasti með fylgjandi leiðindum fékk ég sendingu með nýjum minniskubb í [tölvuna mína](http://www.lowendmac.com/imacs/g5-2005.html). Ég gat því aukið minnið úr 1GB í 2GB. Munurinn er stórkostlegur! Yndislegur! Ótrúlegur! Magnaður! Ég get kveikt á öllum forritunum í dock-inu og samt sé ég aldrei fokking djöfulsins andskotans strandboltann. Þetta er svo æðislegt að ég trúi því ekki.

Svo þarf líka ekki mikið til að gleðja mig eftir að hafa legið hérna heima í 4 daga í sjálfsvorkunn.


Og vá vá vá vá! Vissuði að Paris Hilton er búin að gefa út plötu? Mér finnst þetta alveg magnað. Hvaða útúrkókuðu geðsjúklingar eyða pening í svona vitleysu.

Magnað.

Já, og fyrir áhugamenn um bandarísk stjórnmál, þá er þetta [magnað myndbrot](http://mediamatters.org/items/200607060011). Það er ekki oft sem maður sér fyrirlitninguna skína jafn augljóslega úr augum þáttastjórnenda.

Fáar og lélegar færslur

Ég hef að undanförnu verið í talsverðum efa um innihald og framhald á þessari ágætu bloggsíðu. Þeir, sem hafa fylgst með henni í langan tíma, hljóta að hafa tekið eftir því að færslum á þessari síðu hefur fækkað og innihaldið rýrnað. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

– Ég hef haldið þessari síðu út í rúmlega 6 ár. Hún hefur fylgt mér í gegnum góða og slæma hluti í mínu einkalífi. Bæði þegar ég hef verið á föstu og lausu og í þeim tilfellum þegar ég hef verið hamingjusamur eða ekki. Það sem hefur hins vegar einkennt skrif mín er að ég hef skrifað meira þegar ég er óhamingjusamur og þegar ég er á lausu. Sumir hafa eflaust fengið þá hugmynd að ég væri alltaf á lausu og alltaf eitthvað fúll útí heiminn. Staðreyndin er hins vegar sú að ég hef ávallt minnkað skrifin þegar ég hef verið á föstu eða þegar mér hefur liðið vel, bæði vegna þess að þá leita ég minna á netið og vegna þess að mér þykir óþægilegt að skrifa um líf mitt þegar önnur manneskja er svo nátengd því.

Það er nefnilega ekkert mál að skrifa um persónulega hluti þegar þeir varða að mestu leyti mig sjálfan. Hins vegar þegar ég er á föstu, þá er önnur manneskja ávallt tengd þeim skrifum og það gerir það að verkum að ég er ekki eins tilbúinn að opna mitt einkalíf.

– Varðandi pólitísk og önnur almenn skrif á þessa síðu þá lendi ég sífellt oftar í því að ritskoða sjálfan mig. Aðalástæðan fyrir því er að ég á veitingastað og það er alltaf möguleiki á því að ákveðin skrif komi illa við ákveðinn hóp viðskiptavina.

Ég hef skrifað eitthvað af pistlum um íslenska pólitík eða dægurmál, en þeir eru talsvert mildari heldur en skrif mín voru áður. Ég er alltaf hræddur um að pirra einhverja eða skemma að einhverju leyti fyrir rekstrinum mínum. Þetta veldur því að ég sleppi því að gera grín að sjónvarpsþáttum á Sirkus eða framsóknarmönnum eða jeppaeigendum (ó, hvað mig langar að skrifa um samtök pallbílaeigenda, sem kvarta undan álagningu í Hvalfjarðargöngunum) því ég veit að hlutar af þessu fólki eru núverandi eða væntanlegir kúnnar á veitingastaðnum mínum. Það er því spurning hvort það borgi sig fyrir mig að hella úr skálum reiði minnar á netinu þegar það kann að hafa slæm áhrif á reksturinn.

Kannski eru þetta ranghugmyndir hjá mér. Kannski ekki. En þetta eru allavegana ástæður fyrir skorti á góðum færslum hérna að undanförnu.

– Mér finnst líka á stundum einsog þessi síða sé að koma í stað venjulegra samskipta við vini mína og vandamenn. Ein vinkona mín, sem býr erlendis, sagðist ekki vilja setja upp bloggsíðu þar sem að hún væri hrædd um að fá ekki tölvupósta frá vinum sínum. Ég held að margir hafi treyst á að fá fréttir af mínu lífi í gegnum þessa síðu í stað þess að hringja eða senda mér tölvupóst. Og að vissu leyti hef ég gert ráð fyrir því að það sé að gerast, svo að ég hef ósjálfrátt minnkað samskiptin. Það er ekki gott. Og því vil ég breyta.

En allavegana núna þegar ég er að hætta í 9-5 vinnunni minni, þá er ég að undirbúa langt ferðalag. Ferðasagan úr því ferðalagi ætti væntanlega að lífga uppá þessa síðu.

HM – Breyttar áherslur

Í kjölfar [atburða dagsins](http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/world_cup_2006/4991602.stm) og árangurs [síðustu umferðar](https://www.eoe.is/gamalt/2006/06/27/21.28.03/) hef ég ákveðið að breyta um áherslur á HM.

Á einstakan hátt hefur mér tekist að breyta því með hvaða liðum ég held.

Núna held ég því með Ítalíu, Portúgal og Frökkum. Ég vona sérstaklega að C.Ronaldo, Figo, Totti og Henry leiki frábærlega. Þeir eru allir æði!

Endurhönnun pólitík.is

Vefrit Ungra Jafnaðarmanna, [Pólitík.is](http://www.politik.is) fór í gegnum andlitslyftingu nokkru fyrir kosningu. Svosem ágæt breyting að sumu leyti, en ekki nógu góð að öðru leyti.

Það sem verst var við þessa breytingu er að greinatexti á síðunni varð algjörlega óhæfur til aflestrar á tölvuskjá. Finnst einhverjum t.d. þægilegt að lesa [þessa grein](http://dev7.wds.is/at.php?i=15&b=5,140&expand=1)?

Ég tók mig til og breytti aðeins til í CSS skjalinu og býð nú algerlega ókeypis uppá nýtt útlit á pólitík.is:

[FYRIR](http://dev7.wds.is/at.php?i=15&b=5,140&expand=1)
[EFTIR breytingar EÖE](https://www.eoe.is/politik_redesign)

Er þetta ekki betra svona? Eða er þetta kannski bara í hausnum á mér?

(Á meðan að ég var að grúska í þessu rifjaðist það upp fyrir mér hversu æðislegur diskur [David Byrne](http://www.amazon.com/gp/product/B000002MPU/ref=pd_sim_m_6/102-4225515-7330518?%5Fencoding=UTF8&v=glance&n=5174) með David Byrne er. Já, Byrne er snillingur!)

16 liða úrslitin

Þetta eru leikirnir, sem eru búnir í 16 liða úrslitum HM.

Þýskaland – Svíþjóð: Einar Örn hélt með Svíþjóð
Mexíkó – Argentína: Einar Örn hélt með Mexíkó
England – Ekvador: Einar Örn hélt með Englandi
Portúgal – Holland: Einar Örn hélt með Hollandi
Ástralía – Ítalía: Einar Örn hélt með Ástralíu
Sviss – Úkraína: Einar Örn hélt með Sviss
Brasilía – Ghana: Einar Örn hélt með Ghana
Spánn – Frakkland. Einar Örn hélt með Spáni

Ég er búinn að fylgjast með 8 leikjum í 16 liða úrstlum. Í þessum leikjum hafa mín lið unnið **EINU SINNI**! 1 leikur af 8. 12,5% vinningshlutfall! Það er hreint magnað.

Reyndar hélt ég líka með Argentínu, en ég hafði samt meiri taugar til Mexíkó og óskaði þess að þeir myndu vinna. Núna eru bara tvö lið eftir, sem ég fylgist með. Ég styð aðvitað Argentínu og svo á ég eflaust eftir að halda með Englandi ef að Peter Crouch verður inná.

Life during the World Cup

Ég hef ekki mikið að segja á þessari síðu. Flest, sem vekur upp reiði mína og gleði er rætt á [þessari síðu](https://www.eoe.is/liverpool/), þar sem ég hef ákveðið að halda öllum HM skrifum mínum.

En það má alveg koma því fram að mér finnst það verulega illa af knattspyrnuguðunum gert að fella bæði Mexíkó OG Holland (tvö uppáhaldsliðin mín) úr keppni á einni og sömu helginni. Það þóttu mér grimm örlög.

Jú, svo má líka koma því að að núna held ég með Argentínu í keppninni (það var lið númer 3 hjá mér). Einnig held ég með Spáni og Englandi, en þá með því skilyrði að í þeim liðum séu Liverpool menn að spila. Annars mega þau lið grotna niður og falla úr keppni ekki seinna en strax.

Já, og svo hata ég Portúgal. Og Luis Figo.