Túristast um Varsjá

Leigubílstjórinn, sem keyrði mig að Kastalatorginu í morgun var ekki beinlínis yfirsig ástfanginn af Varsjá. Óspurður sagði hann að Varsjá væri “depressing city” og að þar væri ekkert að sjá. Ég veit ekki hvort ég er sammála honum, en þó hefur borgin yfir sér einkennilegan brag. Ég myndi sennilega ekki eyða mörgum dögum hérna sem túristi, en hún hefur vissulega uppá fullt af áhugaverðum hlutum að bjóða fyrir stutt ferðalag líkt og mitt.

Ég vann í morgun en var kominn út um hádegið. Fékk leigubíl til að keyra mig uppað gamla miðbænum. Sá miðbær var algjörlega eyðilagður eftir Varsjár uppreisnina við lok Seinni Heimsstyrjaldarinnar, en borgarbúar tóku sig til og endurbyggðu bæinn í sinni gömlu mynd eftir stríð. Sú endurbygging tókst svo vel að bærinn [er á lista Unesco](http://whc.unesco.org/pg.cfm?cid=31&id_site=30).

Miðbærinn er mjög heillandi. Ekki ósvipaður gamla miðbænum í Prag, þrátt fyrir að vissulega sé hann ekki jafn tilkomumikill. En byggingarnar bera þess engin merki að vera eftirlíkingar af þeim byggingum, sem þarna stóðu fyrir 200 árum.

Ég labbaði þarna um í góðan tíma, tók myndir og fylgdist með mannlífinu.


Labbaði því næst nokkur hundruð metra að minnismerki um [Varsjár uppreisnina](http://www.warsawuprising.com/) (Síðan, sem ég bendi á inniheldur mikið af góðum upplýsingum um uppreisnina, þar með talið myndefni. Mæli með henni ([The Pianist](http://www.thepianist-themovie.com/), sem er *frábær* bíómynd fjallar einnig um þessa atburði)). Uppreisnin fór fram 1944 þegar illa búnir Varsjárbúar réðust á þýska herliðið í borginni. Upphaflega gekk uppreisnin vel og bjuggust Varsjárbúar við að Sovétmenn, sem voru staðsettir í rétt fyrir utan borgina myndu hjálpa þeim. En Sovétmennirnir komu aldrei til hjálpar, heldur biðu þeir á meðan að Þjóðvernarnir drápu yfir 250.000 borgarbúa.

Pólverjarnir gáfust að lokum upp og voru sendir í fangabúðir. Eftir að allir Varsjárbúar voru farnir hófu Þjóðverjarnir kerfisbundna eyðileggingu borgarinnar. Engin bygging fékk að standa.

Því er dálítið merkilegt að labba þarna um miðbæinn. Varsjárbúar notuðust við allt, sem þeir gátu, til að endurbyggja borgina. Þannig að í húsunum sem standa þar í dag eru notaðir múrsteinar, sem voru grafnir uppúr rústunum eftir alla eyðilegginguna. Magnað til þess að hugsa. Það verður ekki hjá því komist að dást að dást að Pólverjum þegar maður hugsar til þess hvað þeir hafa gengið í gegnum.


Eftir að hafa labbað um miðbæinn rölti ég tilbaka í átt að hótelinu. Skoðaði minnismerki, sem hafði verið reist um Páfann og rölti meðfram aðalverslunargötunni.

Eldsnemma fyrramálið á ég flug til Stokkhólms, þar sem ég verð fram á sunnudagskvöld. Ætla að fá mér einn bjór á barnum á 40. hæð fyrir svefninn.

*Skrifað í Varsjá, Póllandi klukkan 21.11*

Hótelherbergi í Varsjá

Ég veit ekki hvað það nákvæmlega er, en ég elska að gista á góðum hótelum! Sumir kvarta endalaust yfir því að þurfa að dvelja á hótelum, en mér finnst það alveg yndislegt. Sumir geta ekki sofið í hótelrúmum, en ég sef aldrei eins yndislega vært og í góðum hótelrúmum.

Kannski er það vegna þess að frá fyrri ferðalögum mínum er ég vanur að dvelja á alveg einstaklega viðbjóðslegum hótelherbergjum. Allt frá því að gista í fyrrum fangelsi í Perú til kakkalakkabæla í Venezuela og því að lenda í mýfluguárás í St. Pétursborg. Kannski að allt þetta fái mig til að meta góð hótel svo mikils og njóta verunnar á þeim.

Ég elska sápur í litlum pökkum. Ég elska að það sé tekið til eftir mig og ég elska að geta sett skyrturnar mínar í poka og fengið þær svo nokkrum tímum hreinar og straujaðar. Það er einhver sérstök tilfinning við að vera á hótelum.

Ég er semsagt núna á Marriott hótelinu í Varsjá. Nánar tiltekið á 21. hæð með stórkostlegt útsýni yfir Varsjá og “[Palace of Culture](http://travel.yahoo.com/p-travelguide-2788553-palace_of_culture_warsaw-i)”. Þrátt fyrir að Pólverjum þyki sú bygging hræðileg (sennilega vegna tengingarinnar við Sovétríkin) þá þykir mér hún æðisleg. Kannski hef ég svona skrítinn smekk, en mér þykja þó líka [systurnar hans Stalíns í Moskvu](http://www.architecture.about.com/library/weekly/aa090501k.htm) vera ótrúlega sjarmerandi byggingar.


Stundum getur lífið verið ótrúlega skrítið og fullt af einkennilegum tilviljunum, sem beina manni á ákveðna staði á ákveðnum tímum. Aldrei hefði mér til dæmis dottið í hug að ég myndi eyða miðvikudagskvöldi á pólskum sportbar, styðjandi Manchester United. En þetta gerðist í gær.

Ég kom hingað til Varsjár með flugi frá Svíþjóð (eftir að hafa látið mér leiðast á flugvellinum í Stokkhólmi í *7 klukkutíma*). Þegar ég kom uppá hótelherbergi sá ég að það var sportbar á neðstu hæðinni, sem var að sýna frá enska boltanum. Þannig að ég hljóp auðvitað niður og fékk mér bjór yfir boltanum. Ég treysti á sigur Manchester United, þar sem það hefði komið vonum Liverpool um Evrópufótbolta vel. En auðvitað, loksins þegar ég hélt með viðbjóðinum í Man U, þá töpuðu þeir. Alveg gjörsamlega típískt og óhætt að segja að óbeit mín á því liði hafi ekki farið minnkandi við þetta.


Er búinn að sinna vinnunni í mest allan dag. Fyrst útí bæ og svo hérna heima á hótelherbergi, þar sem ég er með net aðgang. Held að ég sé kominn nógu langt svo ég megi eiga von á því að geta aðeins túristast á morgun.

*Skrifað í Varsjá, Póllandi klukkan 22:15*

Til útlanda

Er að fara út í fyrramálið vegna vinnu. Byrja á því að fara til Varsjár í gegnum Stokkhólm. Verð þar í tvo daga. Annan daginn þarf ég að vinna, en hinn ætla ég að nýta í labb um borgina, sem ég gat ekki skoðað mjög vel síðast.

Þaðan fer ég svo á laugardaginn til Stokkhólms, þar sem ég ætla að eyða helginni. Fer svo á sunnudagskvöld til Gautaborgar, þar sem ég fer á fund. Þaðan aftur til Stokkhólms á tveggja daga ráðstefnu og svo heim þarnæsta föstudag.

Á morgun þarf ég sennilega að bíða á flugvellinum í Stokkhólmi í 6 tíma. Það er *eins gott* að þar sé eitthvað almennilegt hægt að gera.

Veit því ekki hversu algengar uppfærslur verða hérna næstu daga.

Mögnuð skrif á Pólitík.is

Svo ég spyrji svona útí loftið: Er engin ritstjórn á Pólitík.is? Ég veit að ég gæti hringt í einn mann og fengið svar við spurningunni, en ég verð bara að fá að hneykslast opinberlega.

Á sú síða ekki að vera málefnalegt pólitískt vefrit á vegum Ungra Jafnaðarmanna? Ef svo er, af hverju fá þá svona greinar: [Dvergur hittir dverg](http://politik.is/?id=1182) að komast í gegn?

Greinin fjallar um átökin í Ísrael og Palestínu og það þarf engan speking til að sjá hverrar skoðunnar greinarhöfundur er. Hann er fullkomlega sannfærður um að Ísrael og Bandaríkin hafi ekki neitt nema slæmt fram að færa og því skrifar hann af þvílíkri fyrirlitningu fyrir leiðtogum og skoðunum þessara landa.

Greinin byrjar svona (feitletranir mínar):

>Í gær hitti **líkamlegi dvergurinn** Ariel Sharon **andlega dverginn** George W. Bush í arfaskógi þess síðarnefnda í Texas.

Í fyrsta lagi, hvað græðir greinarhöfundur á að gera lítið úr stærð Ariel Sharon eða gáfnafari George Bush? Varla er það ætlun hans að reyna að sannfæra þá óákveðnu í þessu máli, þar sem slík ummæli gefa varla í skyn að það sem á eftir fylgi sé skrifað af hlutleysi. Enda eru ummælin, sem fylgja í kjölfarið, ekki mikið málefnalegri eða til þess fallinn að efla málstað greinarhöfundar:

>Bush virtist gefa Sharon autt landakort og segja ,,gjörðu svo vel, taktu það sem þú vilt”.

>…

>Geta menn, sem hafa sannfært heimsbyggðina að þeir séu **geðveikir stríðsæsingamenn** (nú veit ég að **Gísli Marteinn og klíkan** er ekki sammála mér, en það er ekki hægt að gera öllum til geðs)

>…

>Af hverju er Bush allt í einu að banna **dvergunum frá Ísreal** að byggja meira og íta þar með undir ófriðarbálið?

>…

>Bandaríkin hafa það að mörgu leyti í hendi sér að koma á skikkanlegu ástandi milli Ísrael og Palestínu. Ég vona að þegar **dvergarnir** taka upp símann og hringja upp (**annar í gegnum Jesú, hinn er með beina línu**) þá verði þeim tilkynnt að ef þeir ekki hlusti í þetta skipti þá verði afleiðingarnar skelfilegar. **Guð kunni nefnilega líka dvergakast!**

Pólítísk vefrit eiga ekki að þurfa að sökkva oní slíkar lægðir að uppnefna andstæðinga sína. Það eru nóg málefnaleg rök til gegn stefnu Ísraelsríkis án þess að það þurfi að grípa til svona barnalegra ummæla. Ef þetta á að líðast á þessu vefriti, þá er ekki nokkur ástæða til þess að búast við öðru en að það muni hér eftir teljast gjaldgengt að gera grín að stærð eða ummáli íslenskra stjórnmálamanna í stað þess að nýta skrifin til þess að gagnrýna skoðanir þeirra á málefnalegan hátt.

[Þetta](http://politik.is/?id=1182) er ekki fyndið, þetta er ekki málefnalegt og þetta hæfir ekki opinberu vefriti Ungra Jafnaðarmanna!

Petals around the rose

Yeesss!!! Ég rakst á [þessa þraut](http://www.borrett.id.au/computing/petals-j.htm) á síðunni hans [Halla](http://www.icomefromreykjavik.com/halli/archives/000214.html). Í gær glímdi ég við þetta í hálftíma en áttaði mig ekki á lausninni. Svo áðan datt mér eitt í hug og prófaði það og það virkaði! Þannig að ég er semsagt búinn að fatta lausnina (sönnunargagn). Mikið er ég stoltur! Mæli með að fólk [prófi](http://www.borrett.id.au/computing/petals-j.htm)


Annars var ég með starfsmannapartí á Serrano heima hjá mér í gærkvöldi. Það stóð yfir til klukkan 3 með tilheyrandi fjöri. Íbúðin mín er öll í drasli, en ég er kominn hálfa leið með þrifin.

Er gríðarlega stoltur af því að ég vaknaði klukkan 8 til að fara á fund hjá [framtíðarhópnum](http://www.framtid.is/). Óhófleg kaffidrykkja varð þess valdandi að ég komst vel frá þeim fundi og er núna gríðarlega hress eftir að hafa fengið mér búllu hamborgara í hádegismat.

Horfði svo á [mest frúestrerandi knattspyrnulið í heimi](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/04/16/16.16.36/) og er nú að reyna að safna krafti til þess að fara útí matvörubúð til að klára undirbúning fyrir matarboð í kvöld. En mikið djöfull getur gengi Liverpool dregið úr mér allan kraft.

Damn shit

Ég verð að játa að mér finnst þetta dálítið fyndið. Einhver gaur [tók sig til og fjarlægði](http://www.blog.ni9e.com/archives/2005/03/explicit_conten_1.html) allt úr laginu Straight outta Compton með N.W.A. *nema* blótsyrðin. Þannig að [þessi úrklippa](http://ni9e.com/nwa/straight_outta_compton_EDITED.mp3) er samansafn af öllum blótsyrðum í laginu. Nokkuð gott.


Annars mæli ég með piparsteikinni á Vegamótum. Fékk mér svoleiðis í kvöld. Það væri að ég held ágætis regla að fá sér alltaf steik á fimmtudögum. Af hverju datt mér þetta ekki fyrr í hug?

Fyrir utan það, þá veit ég hreinlega ekki hvað ég á að skrifa um. Er alveg stopp þessa dagana.

Jú, ég á að halda matarboð á laugardaginn, en veit ekkert hvað ég á að elda. Einhverjar hugmyndir?

Punktar um pólitík

Á leið úr ræktinni í hádeginu hlusta á oftast á Ingva Hrafn á Talstöðinni. Ég veit ekki almennilega af hverju. Gæti verið vegna þess að “Fólk og Fyrirtæki” með Jörundi á Sögu er sennilega lélegasta útvarpsefni mannkynssögunnar og ég finn aldrei nein lög á hinum stöðvunum.

Allavegana, ég er nær ávallt ósammála Ingva Hrafni, en samt hef ég gaman af því að hlusta. Hann má líka eiga það að hann er óspar á yfirlýsingar. Einsog t.d. í dag þegar hann talaði um forsætisráðherra:

>örflokkksormaðurinn Halldór Ásgrímsson, sem stal forsætisráðherrastólnum!

Jammm!

Annars er skondið að ímynda sér Ingva Hrafn, sólbrunninn á svölum í Flórída, gasprandi í síma um vandamál okkar hérna á Íslandi. En hann getur verið skemmtilegur.


Og já. Húrra fyrir Gunnari Birgissyni! Af hverju er hann sá eini, sem [ver hagsmuni borgarbúa](http://servefir.ruv.is/dagskra/streaming/default.asp?channel=0&date=2005-04-12&file=4208309/3) á Alþingi?


Og já, ég vil fá [Ágúst Ólaf í varaformanninn](http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=37751)!!!

Gúrka?

Hversu mikil gúrka er í fréttum á Íslandi þegar [aðalviðtalið](http://media.gagna.net/uskefnistod2/clips/2005_04/2015/islidag2.wmv) í næst-vinsælasta fréttaþættinum á Íslandi er við tvo stráka úr Keflavík, sem stjórna sjónvarpsþætti á keflvískri sjónvarpsstöð, þar sem þeir mynda fulla Keflvíkinga strippandi á djamminu?


[Þessi færsla](http://abuse.is/web/majae/?p=699) hjá Maju er snilld!

Annars bætti ég tveim bloggum inná RSS listann minn um helgina. Bæði eru snilld. [Anna.is](http://www.anna.is/weblog/) og [Halli](http://www.icomefromreykjavik.com/halli/).


Já, og [þetta mynddband](http://movies.collegehumor.com/media/movies/b-ball-e-mail.mov) er helvíti magnað. Minnir óneitanlega á þau tilþrif, sem ég er vanur að sýna í Sporthúsinu á fimmtudögum.

Hvað á barnið að heita?

Það má segja að gærkvöldið hafi markað ákveðin tímamót í mínu lífi. Í fyrsta skiptið var ég staddur í strákapartýi með vinum mínum, þar sem talað var um barnanöfn!!! Þegar þetta rann upp fyrir mér bað ég viðkomandi vinsamlegast að hætta og reyndi að skipta um umræðuefni. Í partýinu var líka gerð tillaga að ferðalagi, sem átti að fara í eftir 15 ár, það er *eftir* að börnin eru vaxin úr grasi.

Er ég orðinn svona gamall? Eða eru vinir mínir bara orðnir svona gamlir? Ég veit ekki. En samt, þá var gærkvöldið frábært. Fékk góða vini í heimsókn, við grilluðum og drukkum til miðnættis þegar við fórum niður í bæ. Enduðum á Vegamótum, þar sem var verulega fínt. Ég var kominn ágætlega í glas fyrir Vegamót en inni á staðnum var verið að hella Captain Morgan í allt fólkið, svo það varð ekki til að bæta ástandið. En samt frábært. Alltof langt síðan ég hef farið í bæinn. Alltof langt! Það var þó greinilegt að prófin eru að byrja því það var lítið af fólki og sætum stelpum á Vegmótum. Held þó alveg örugglega að [þessi gaur](http://www.imdb.com/name/nm0000579/) hafi verið á efri hæðinni í gær.


Annars barst talið að Suður-Ameríku í gær. Ég man að á Vegamótum fékk ég alveg einstaka löngun til að fara á ekta Suður-Amerískt djamm. Sat á Vegamótum mestallan tímann. Ég elska djammið einsog það var í Suður-Ameríku, þar sem var dansað allt kvöldið. Og ekki bara þessi hópdans, sem er stundaður á íslenskum stöðum, heldur bauð maður stelpum upp til að dansa salsa. Allt kvöldið. Ég verð að finna mér kærustu, sem finnst gaman að dansa og helst að búa í borg, sem er nógu stór til að geta haldið uppi almennilegum salsa klúbb.

Fór skyndilega að hugsa um gamalt djamm, veit ekki nákvæmlega af hverju, en skyndilega fannst mér Vegamót ekki vera spennandi í samanburðinum. Djammið, sem ég rifjaði upp var þegar ég hélt uppá tvítugsamfmælið mitt í Mexíkó. Ég og kærastan mín á þeim tíma, Gabriela, ákváðum að eyða afmælishelginni í Acapulco, sem er um 6 tíma keyrslu frá Mexíkóborg, þar sem ég bjó á þeim tíma.

Kvöldið, sem ég átti afmæli fórum við á stærsta klúbbinn í Acapulco. Við tókum leigubíl þangað og þegar við stigum útúr leigubílnum var lengsta röð, sem ég hef séð fyrir utan skemmtistað á ævinni. Við vorum þó varla stigin útúr bílnum þegar að dyraverðir staðarins veifuðu á okkur og hleyptu okkur fram fyrir alla. Ástæðan var sennilega blanda af því að Gaby var sæt og að ég var ljóshærður. Það að vera ljóshærður getur gert ýmsa hluti fyrir mann í þessari heimsálfu.

Staðurinn sjálfur var algjört æði með útsýni yfir Acapulco frá dansgólfinu. Einsog á flestum skemmtistöðum í Mexíkó voru allir drykkir innifaldir í miðaverðinu. Við fengum okkur því bara sæti, gáfum þjónustustelpu smá þjórfé og eftir það kom hún með eins mikið tekíla og við gátum í okkur látið. Síðan dönsuðum við allt kvöldið.

Það var það eina, sem þurfti uppá hið fullkomna djamm; góður skemmtistaður, æðisleg stelpa, smá tekíla og salsa.