Spurningalisti

Jæja, þá er síðan með Ungfrú Reykjavík komin upp. Ég get nú lítið talað um að sú keppni sé sponsor-uð, nema þá að K sé eitthvað að [styrkja](http://ungfruisland.is/fullmynda.php?lang=is&idcategory=9&id=27) keppnina.

En allavegana, hver keppandi fær þennan líka ljómandi skemmtilega [spurningalista](http://www.ungfruisland.is/fullmynda.php?lang=is&idcategory=9&id=32), sem þær svara misvel. Þar sem ég hef ekki skrifað inn neitt af viti undanfarna daga ætla ég að spreyta mig á [listanum](http://www.ungfruisland.is/fullmynda.php?lang=is&idcategory=9&id=21):


**Foreldrar:** Einar Kristinsson & Ólöf Októsdóttir

**Nám-Vinna:** Markaðsstjóri

**Áhugamál:** Fótbolti, Ferðalög, tónlist, aðrar íþróttir

**Draumastarfið:** Forstjóri míns eigin risafyrirtækis

**Draumabíllinn:** Skiptir ekki máli, bara að ég verði með einkabílstjóra svo ég sleppi við að keyra sjálfur. Það er mikilvægast

**Uppáhaldsmaturinn:** Burrito á Serrano, hvað annað? Jú, og nautasteik. Já, og hamborgari á Johnny Rockets. Já, og BBQ Chicken Pizza á California Pizza Kitchen. Já, og Arroz con Pollo auðvitað. Já, og ekta mexíkóskar tacos á taqueria í Mexíkó.

**Er Ísland ævintýraland?**: Eflaust.

**Hvað er tíska?** Kræst, næsta spurning.

**Hvernig er fullkominn laugardagur:** Hmmm… þetta er erfitt. En ok: [Natalie](http://netstorm.pwp.blueyonder.co.uk/wallpapers/Natalie%20Portman%20-%20Portrait%20Desktop%20Wallpaper.jpg) vekur mig um morguninn og vill ólm sofa hjá mér. Hvað getur maður gert?

Ég fer svo framúr og kveiki á sjónvarpinu. Horfi þar á Liverpool vinna Manchester United 6-0. Milan Baros skoraði þrennu og Roy Keane tvö sjálfsmörk. Alex Ferguson gleypir tyggjó. Fæ mér bjór.

Ákveð svo að skella mér í göngutúr um [nágrennið](http://www.cityofsydney.nsw.gov.au/). Kíki á ströndina, þar sem allar stelpurnar dást að ótrúlega lögulegum líkama mínum. Verð að afþakka nokkur boð um “guilt-free” kynlíf, þar sem ég og Natalie eru jú par. Hitti vini mína og við spilum fótbolta saman.

Um kvöldið förum við Natalie svo saman útað borða á ástralskt steikhús og borðum æðislegar steikur og drekkum rauðvín. Öllum á óvart, þá mætir Frank Sinatra á svæðið og tekur nokkur lög, bara fyrir okkur tvö.

Við kíkjum svo útá næturlífið og endum með okkar vinum á salsa stað, þar sem við dönsum stanslaust salsa og merengue langt fram á morgun.

**Hvernig ætlar þú að slá í gegn?**: Með því að skrifa um sjálfan mig á netinu. Já, eða verða þekktur fyrir mikið viðskiptavit.

**Hver er þekktasta persónan sem þú hefur séð?** Ok, ég hef séð ansi marga. Sá páfann í Venezuela, Fujimori í Venezula, Bob Dylan í Kansas og Bono í Chicago. En ef það er átt við hvort maður hafi heilsað viðkomandi, þá myndi ég segja Lauryn Hill og Wyclef þegar ég sat og spjallaði við þau á leið til New York. Og Luke Wilson, sem ég sat með í leigubíl.

**Hver er besta bíómynd, sem þú hefur séð?** Ya llego la feria, 110 mínútur af stórkostlegum tékkneskum leiðindum frá 1960, sem ég sá á Kúbu. Ah, ok, *besta* myndin. Ok, það er Pulp Fiction.

**Er eldhúsið staður fyrir konur?** Jammm, alveg eins. Þær mega samt líka alveg vera á fleiri stöðum.

**Lístu sjálfum þér með einu orði**: Magnaður!


Annars þá hlýtur [þessi stelpa](http://ungfruisland.is/fullmynda.php?lang=is&idcategory=9&id=27) að vinna.

Aukinn hraði

Fyrir ykkur, sem nota Firefox á PC þá er [þetta algjör snilld](http://rc3.org/cgi-bin/less.pl?arg=6887). Þetta jók hraðann á Firefox umtalsvert hjá mér.

Fyrir ykkur, sem notið Explorer á PC, í Guðanna bænum skiptið yfir í [Firefox](http://www.mozilla.org/products/firefox/). (via [A.wholeloattanothing](http://a.wholelottanothing.org/))

Svartasti dagurinn í sögu Liverpool

Á þriðjudaginn mætast Liverpool og Juventust í 8-liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu. Ég skrifaði [pistil](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/04/03/13.36.25/) á Liverpool bloggið um þennan leik, en þetta er í fyrsta skipti sem liðin mætast [eftir hörmungarnar á Heysel fyrir 20 árum](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/04/03/13.36.25/).

Held að margt af því, sem ég bendi á í pistlinum, sé áhugavert fyrir fólk, sem ekki endilega fylgist mikið með fótbolta.

Í boði?

Glöggir lesendur þessarar síðu komu fyrir nokkrum vikum auga á það að keppnin um Ungfrú Vesturland [var í boði Diet Coke](https://www.eoe.is/gamalt/2005/03/19/19.41.33)

[En](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=2&pos=23
) [hvaða](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=2&pos=21
) [fyrirtæki](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=2&pos=19
) [ætli](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=2&pos=17
) [styrki](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=2&pos=1
) [fegurðarsamkepppni](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?pid=117&fullsize=1
) [Norðurlands](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=1&pos=14
)?
[Mér](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?album=3&pos=5
) [dettur](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?pid=14&fullsize=1) [ekkert](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?pid=135&fullsize=1
) í [hug](http://www.vaxak.is/modules/Coppermine/displayimage.php?pid=127&fullsize=1
)!


Annars var ég að horfa á Liverpool leik í dag með tveim vinum mínum. Helminginn af seinni hálfleikinn hafði ég áhyggjur af því hvað ég yrði í hræðilega vondu skapi ef Liverpool myndi bara ná jafntefli. En svo kom Igor Biscan og [reddaði](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/04/02/16.08.13/) deginum fyrir mér.

Það getur stundum verið með ólíkindum mikill léttir að koma hjartans efnum frá sér til vina. Gerði það nú í vikunni og líður talsvert betur eftir það.

Ég er byrjaður að drekka grænt te. Ég hélt að geðveiki mín hefði náð hámarki þegar ég byrjaði að drekka sódavatn, en þetta er án efa nýr toppur. Mér hefur alltaf þótt te vera viðbjóður. Verst var coca teið, sem mér var gert að drekka í Bólivíu.

Ég fór nefnilega ásamt vinum mínum í flugvél frá Asuncion í Paragvæ beint til La Paz Bólívíu, sem er eitthvað um 3000 metrum hærra yfir sjávarmáli en Asuncion. Því fékk ég hrikalegan hausverk, enda á hausinn minn oft erfitt með að jafna sig eftir miklar hæðabreytingar. Innfæddir sögðu mér að te úr kókaín laufum væri það eina, sem myndi virka á hausverkinn. Ég píndi þann óþverra oní mig og reyndi að tyggja kókaín laufin, en án árangurs.

Síðan þá hef ég haft óbeit á te-i, en er nokkurn veginn kominn yfir það skeið núna.

Einnig fékk ég mér fisk í matinn í vikunni. Það er þriðja stig geðveiki að mínu mati og mamma myndi ábyggilega tárast við að heyra þetta, hún væri svo stolt. Reyndar sagði vinur minn, sem kom í heimsókn, að öll blokkin mín angaði af fiskifýlu. Sem er ekki gott. En vissulega ákveðin hefnd fyrir fólkið, sem er alltaf að djúpsteikja kjúklinga í blokkinni.

Fyrir utan gluggann minn í Vesturbænum er snjór. Einsog ég hef sagt áður, þá er þetta veður á þessu landi fáránlegt. Hreinlega fáránlegt.

7 í röð

Ég vildi bara benda áhugasömum á þetta:

[Bulls win 7th straight](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/basketball/bulls/cs-050330bullsgamer,1,2122759.story?coll=cs-home-headlines).

Gaman gaman!

Hvernig væri nú ef að Sýn myndi taka sig til og sýna einn leik með Bulls, ha? Chicago eru núna í 4. sæti í Austurdeildinni. Magnað!

Stórkosleg uppfinning!

[Þetta](http://bicillin.media.mit.edu/clocky/) er einhver magnaðasta uppfinning seinni tíma.

Starfsmaður hjá MIT hefur hannað nýja tegund af vekjaraklukku. Klukkan inniheldur hjól og nemur hreyfingar. Hún virkar þannig að þegar þú ýtir á Snooze takkann, þá rúllar klukkan sér af náttborðinu og rúllar sér svo um herbergið. Þegar hún svo hringir í annað skiptið, þá er hún kominn á allt annan stað og þú þarft að standa upp og leita að henni til að slökkva á henni.

Snilld! Ég *þarf* eintak. (via [MeFi](http://www.metafilter.com/mefi/40797))

Gyðingar og Nasistar

Ég veit að ég er í minnihluta á Íslandi og er sennilega ósammála flestum lesendum þessarar síðu, en mér ofbauð þessi [ummæli](http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=35740) gagnvart Ísraelsríki:

>”Jónína segir mjög sláandi og óhugnanlegt að sjá múrinn sem Ísraelsmenn hafi reist. Hann sé 8-12 metra hár með varðturnum, myndavélum og inng?önguleiðum fyrir skriðdreka. Hún segist taka undir með Magnúsi Þór: **þetta minni á gettóin á tímum nasista.**”

Ríkisstjórn Ísraels hefur ansi margt á samviskunni. Landið hefur frá upphafi þurft að þola nágranna, sem vilja útrýma landinu. Undir þessum kringumstæðum hefur Ísraelslríki oft á tíðum brugðist við með alltof mikilli hörku. En að líkja aðferðum Ísraela við aðferðir Nasista er hins vegar óþolandi og á ekki að eiga sér stað í siðmenntaðari umræðu um málefni Ísraels og Palestínu. Ég hélt að íslenskir stjórnmálamenn væru nógu skynsamir til að sneiða hjá slíkum ummælum.

Það að bendla Ísraelsríki við Nasisma er mjög algengt bragð hjá þeim, sem verja málstað Palestínu af blindni. Þarna eru einstakar þjáningar Gyðinga notaðar gegn þeim og gefið í skyn að þeir séu í dag lítt skárri en Nasistarnir, sem stefndu að útrýmingu þeirra fyrir 60 árum.

Fyrir það fyrsta, þá hefur Jónína Bjartmarz ekki komið í nasistagettó og hefur því engan samanburð við heimastjórnarsvæðin nema úr bókum eða bíómyndum. Ég hef auðvitað komið á hvorugan staðinn. Hins vegar þá er það, að bera ástandið í gettóum nasista í seinni heimsstyrjöldinni saman við ástandið á sjálfstjórnarsvæðum Palestínu, hræðileg móðgun við alla Gyðinga. Það ber kannski ekki vott um gyðingahatur, en það ber svo sannarlega vott um ákveðna vanþóknun í garð Gyðinga.

Í Seinni Heimsstyrjöldinni þá vildu Nasistar *útrýma* Gyðingum. Fólkið úr gettóunum var sent í dauðabúðir, þar sem milljónir voru drepnir. Ástandið á sjálfstjórnarvæðum Palestínu er örugglega slæmt, en það kemst einfaldlega ekkert nálægt því ástandi, sem var undir stjórn Nasista.

Gleymum því ekki að það hefur ávallt verið yfirlýst markmið flestra nágrannaríkja að útrýma Ísraelsríki. Allar árásir Múslima á Ísrael hafa byggst á því að ráðast á venjulegt fólk til að reyna að drepa sem flesta. Þetta á bæði við hryðjuverk dagsins í dag, sem og árásir Arabaríkjanna í stríðunum eftir stofnun Ísraelsríkis. Ísrael hefur aftur á móti ráðist fyrst og fremst á hryðjuverkamenn og aðra, sem reyna að skaða ríkið. Framferði Ísraelsmanna í stríðum nágrannaríkjanna hefur best undirstrikað þennan mun.

Langflestir leiðtogar Arabaríkjanna vilja ekki sjá tvö ríki í Ísrael og Palestínu. Nei, þeir vilja sjá Palestínu, þar sem *Gyðingarnir hafa verið hraktir á brott*. Á því hefur enginn vafi leikið. Palestínumenn og þá sérstaklega Arafat hafa hafnað friðarumleitunum Ísraela og Bandaríkjamanna og hafa þess í stað efnt til hryðjuverka. Því að Arafat vissi vel að ef að hann myndi senda hryðjuverkamann til að sprengja upp diskótek fullt af ungmennum, þá gæti hann bókað að viðbrögð Ísraela yrðu mikil og hann gæti nýtt sér afleiðingar viðbragðanna til að auka stuðning við sitt fólk í Evrópu.

Íslenskir stjórnmálamenn, sem og aðrir (þar á meðal ég), mega gagnrýna Ísraelsríki en sú gagnrýni verður að vera byggð á einhverri sanngirni. Samanburðurinn við Nasista getur aldrei fallið undir það.

Nasistar stefndu að útrýmingu allra Gyðinga!
Enginn getur haldið því fram að það sama eigi við um Ísrael og Palestínu í dag. Því er allur samanburður úr lausu lofti gripinn.

Gyðingarnir í gettóunum fengu ekki að kjósa sér forseta. Þeir höfðu engin réttindi. Þeir stóðu ekki í friðarviðræðum við Nasistana. Það er ekki yfirlýst markmið Ísraelsmanna að útrýma Palestínumönnum og Palestínumenn eru ekki fluttir í útrýmingabúðir í þúsundatali. Hættum því að líkja Ísrael við Nasista! Það er ósmekklegt með eindæmum. Íslenskir stjórnmálamenn ættu ekki að leggjast svo lágt.

Já, Ísraelsríki hefur gert MÖRG mistök. Aðferðir þeirra, svo sem við byggingu múrsins og viðbrögð við hryðjuverkum, hafa oft á tíðum verið mjög slæmar. Ég hef mjöööög oft verið ósáttur við aðgerðir og orð Ísraela, alveg einsog ég var á móti Arafat og hans liði. Harðlínumenn á báðum hliðum eru slæmir.

EN, það gefur okkur *ekki* leyfi til að gera lítið úr þjáningum Gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni, með því að líkja því við ástandið í Palestínu í dag. *Það gerir lítið úr voðaverkum Nasista* og þeim Gyðingum, sem þoldu þau og *hjálpar ekki málstað Palestínumanna*.