iPhone forrit, sem ég nota

Ég hef lengi ætlað að skrifa smá um þau forrit, sem ég nota á iPhone símanum mínum.

iPhone er auðvitað stórkostlegasta tæki veraldarsögunnar. Ég gæti ekki lifað án þessa síma. Allavegana, ég ætlaði að taka saman þau forrit, sem ég er með á tveimur fremstu skjáunum mínum (eiginlega allt sem ég nota). Ég nenni ekki að finna til linka, en það ætti að vera auðvelt að google-a öll þessi forrit, eða að finna þau með leit í App Store.

Á fyrstu síðunni er slatti af Apple forritum sem allir, sem eiga iPhone, eiga. Þarna er auvitað sms forritið, klukka, myndavél, Google maps, reiknivél, dagatal og Apple remote, sem ég nota til að stjórna Apple TV og tölvunni minni heima.

(smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu).

Einnig eru þarna **Skype**, **Facebook** og **Twitter**, sem að allir ættu að þekkja. Skype forritið er snilld og ég nota það mikið. Facebook forritið er í lagi og Twitter forritið er mjög gott og ég nota það mikið. Ég hef prófað að nota önnur Twitter forrit, en enda alltaf í þessu.

**OmniFocus** er mikilvægasta forritið í mínu lífi. Allt, sem ég geri í vinnunni, byrjar sem færsla í OmniFocus. Forritið á iPhone er verulega gott. Það syncar við Mac forritið mitt og í þessu forriti skrifa ég (eða tala inn) allar hugmyndir, sem ég fæ.

**Evernote** nota ég til að halda utanum öll skjölin mín. Þar safna ég saman úrklippum, skönnuðum skjölum og minnispunktum. Syncar líka við Evernote á tölvunni minni.

**Translator** forritið tengist Google Translate og ég nota það til að þýða sænsk orð.

**Podcaster** er nokkuð nýtt þarna. Ég hlusta mikið á podcast þætti. Allt frá kvöldfréttum á RÚV til morgunfrétta hjá Svenska Radio og bandarískra þátta. Ég notaði áður Podcast fídusinn í iTunes, en var orðinn þreyttur á að þurfa alltaf að tengja símann við tölvuna til að fá nýja þætti. Podcaster tékkar á nýjum þáttum á ákveðnum tímum og hleður þeim niður á símann. Forritið er ekki fullkomið, en það er margfalt þægilegra en iTunes lausnin.

**Reeder** er svo langsamlega besta RSS forritið á iPhone. Ég hef prófað þau mörg, en Reeder ber af. Ég nota það til að fylgjast með öllum bloggum, sem ég les.

Á næstu síðu eru forrit, sem ég nota aðeins minna.

**Instapaper** er snilld – bæði á iPhone og iPad. Með því forriti getur maður vistað texta á vefsíðum og lesið þær eftir hentugleika á símanum eða iPad. Ég les nánast allar lengri greinar á netinu í Instapaper.

**Tada** notum við Margrét til að halda utanum innkaupalista fyrir matarinnkaup.

Svo eru þarna möppur með Serrano tenglum og tölvuleikjum. Af leikjunum get ég mælt með Astronut *(sic)*, The Incident, Doodle Jump, Plants vs Zombies og Angry Birds. Það eru allt leikir, sem ég hef elskað.

**1Password** nota ég til að halda utanum öll mín lykilorð og viðkvæmar upplýsingar bæði á tölvunni minni og símanum.

**ScoreCenter** frá ESPN nota ég til að fylgjast með stöðunni í fótbolta og NBA.

**Convert** nota ég til að reikna út gengi, þyngdir og slíkt. **Dropbox** og Notes þarf svo sem ekki að kynna.

**Gowalla** nota ég af einhverjum furðulegum ástæðum. Ekki spyrja mig af hverju.

**Yr.no** er betra veðurforrit en Apple veður forritið. **WOD** nota ég til að skrá CrossFit árangurinn minn.

**Screens** er frábært VNC forrit, sem ég get notað til að stýra tölvunni minni úr símanum. Og að síðustu er það **Momento**, sem tekur twitter statusana mína, Facebook statusana mína, Gowalla tékk-inn og aðra punkta, sem ég set inn og býr til nokkurs konar dagbók. Mjög sniðugt.

Þetta er það sem ég nota langmest á símanum. Af forritum, sem ég nota minna þá get ég mælt með **Runkeeper** (ég er ekki að hlaupa úti núna, þannig að það er ekki á fremstu síðunum) sem er algjörlega frábært forrit til að halda utanum hlaup eða hjólaferðir).

Ef þið eruð með einhverjar sniðugar tillögur að öðrum forritum, sem ég á að kíkja á, þá endilega setjið inn komment

Vefsíður fyrir iPhone og Android

Ég er aðeins að grúska í vefmálum fyrir Serrano og fór að spá í hvort við ættum að halda áfram að styðja við sérstaka farsíma útgáfu af heimasíðunni okkar. Þetta er nokkuð mikilvægt, sérstaklega hérna í Svíþjóð þar sem að stór hluti okkar kúnna kemur inná heimasíðuna okkar í gegnum síma.

Continue reading Vefsíður fyrir iPhone og Android

Aftur af stað… Indland, Nepal, Bútan og Bangladess

Þá er komið að því að við Margrét ætlum á langt ferðalag á ný. Ég tók mér nánast ekkert frí á síðasta ári. Tók að ég held 5 frídaga, en restin af ferðalögunum voru öll til Íslands þar sem ég vann allan tímann. Þannig að núna eigum við inni slatta af fríi og ætlum að byrja að nýta okkur það. Margrét er í utanskóla námi á þessari önn og getur því tekið sér frí.

Hugmyndin er sú að fara til Suður-Asíu. Grunn hugmyndin er að heimsækja flest/öll þessi lönd: Indland, Nepal, Bútan og Bangladess. Við höfum annaðhvort 6 vikur eða 8 vikur – það fer aðeins eftir því hvort okkur finnst við ná öllu á þeim tíma.

Við erum búin að skoða þetta talsvert, en ég hef mikinn áhuga á að lesa reynslusögur frá fólki, sem hefur farið til þessara landa og fá þeirra hugmyndir.

Okkar grunnhugmynd var svona: Byrja í Mumbai, færa okkur svo upp til Udaipur, Jaipur, Agra (Taj Mahal), svo uppí Norð-Vestur hlutann – Amritsar, Dharamsala og svo einhvern veginn koma okkur austur til Varanasi. Koma okkur svo upp til Nepal, þar sem við myndum skoða svæðið í kringum Kathmandu. Við höfum sennilega ekki tíma fyrir lengri gönguferðir í Nepal, þannig að við látum Annanpurna bíða til betri tíma (ég er vongóður um að við munum aftur fara þangað). Svo aftur inn til Indlands og þaðan í stutta ferð til Bútan (kannski 4-5 dagar – við þyrftum þó að fljúga þangað samkvæmt því sem ég hef lesið). Þaðan í gegnum Indland inní Bangladess, þar sem við myndum skoða Dhaka og Sundabans. Síðan var hugmyndin að fljúga annaðhvort frá Kalkútta eða Dhaka yfir til vesturstrandar Indlands og eyða einhverjum tíma í Goa og Kerala.

Eftir megni viljum við forðast stórborgir, nema þær sem hafa eitthvað spennandi uppá að bjóða.

Það eru nokkrar spurningar í þessu, sem við erum að velta fyrir okkur.

1. Ættum við að fara til Norð-Vestur Indlands? Ég veit að sumir hlutar þar eru ófærir á þessum tíma árs – við verðum í mars (t.d. Leh, Dal vatnið í Kasmír og svo framvegis) Það tæki talsverðan tíma, en ég veit ekki hvort það sé þess virði. Maður þyrfti kannski að blanda inn heimsókn til Pakistan, sem ég er óviss um að sé sniðugt. Semsagt, eigum við að heimsækja eitthvað fyrir norðan Delhi?
2. Ég tel bara upp helstu borgirnar og túristastaðina, en ef einhver veit um góða staði á milli (við munum sennilega taka mun þéttara plan – ekki bara þessi higlight), þá er það frábært.
3. Hefur einhver reynslu af Bútan?
4. Erum við að sleppa einhverju augljósu? Ég veit að maður gleymir alltaf einhverju þegar maður byrjar að skipuleggja og plön breytast þegar maður kemur á staðinn.
5. Er þetta of þétt plan miðað við tíma?

Áramótaávarp 2010

Klukkutími í áramótapartí og ég hef ekki skrfað á þessari bloggsíðu síðan að ég kom heim.

Jólin hafa verið snilld. Ég og Margrét eigum frábærar fjölskyldur og bestu vini í fokking heimi. Þrátt fyrir að Margrét hafi verið með pestina þá höfum við gert eitthvað skemmtilegt á hverjum einasta degi. Ótal heimboð, kvöldmatarboð, útifótbolti, hádegismatarboð, kaffiboð, Alias spilakvöld, dinnerar á veitingastöðum, snilldar jólapartí, jólaboð, jólabrunchar, tónleikar, trylltur dans útá Granda, póker og Fifa með vinunum og svo framvegis. Þetta hefur verið frábært. Yndislegt.

Þetta ár er líka búið að vera frábært. Þetta er árið, sem við Margrét trúlofuðum okkur á hliðargötu í Róm. Árið sem að okkur leið loksins einsog Serrano myndi meika það í Svíþjóð – við opnuðum þrjá glæsilega staði og unnum virt verðlaun.

Við Margrét eignuðumst köttinn Torres. Við fórum til Egyptalands, sáum píramídana og köfuðum í Rauða Hafinu. Ég bauð Margréti til Íslands á 25 ára afmælinu hennar, sem við fögnuðum með vinum okkar á Kaffibarnum. Við komum líka heim í 70 ára afmæli mömmu og til að labba á Norðurlandi. Við vorum líka í Brekkusöngnum á Þjóðhátíð.

Ótrúlega margir vinir okkar heimsóttu okkur í Stokkhólmi og við ferðuðumst líka um Svíþjóð – fórum í útilegu í Skerjagarðinum, keyrðum til Malmö og heimsóttum vini okkar í Lundi. Keyrðum svo til Köben og hvöttum vin okkar á CrossFit móti.

Á næsta ári ætlum við að fara í langt ferðalag og næsta sumar ætlum við Margrét að gifta okkur. Lífið er fokking frábært og maður áttar sig á því þegar maður kemur heim til Íslands hversu ótrúlega heppin við erum með fólkið í kringum okkur.

Gleðilegt ár.

Bestu plöturnar og lögin 2010

Já, og svo að ég klikki ekki alveg svona korter í áramót. Til að halda við áramótahefðinni á þessu bloggi, þá verður þetta stutt og einfalt.

Bestu plöturnar 2010:

1. Kanye West – My Beautiful dark twisted fantasy
2. Beach House – Teen Dream
3. Joanna Newsom – Have one on me
4. Jónsi – Go
5. Arcade Fire – The Suburbs

Og bestu lögin:

1. Arcade Fire – Ready to start
2. Robyn – Dancing on my own (Robyn aðdáandi númer eitt á heiðurinn að þessu).
3. Jónsi – Around Us