Bíldshöfði, morgunmatur og Sigur Rós

Jæja! Serrano staður númer 5 er þá opinn. Opnuðum klukkutíma of seint í morgun, sem skýrðist á því að einhver af fjölmörgum eftirlitsaðilum skilaði ekki sínu áliti nógu fljótt, þannig að við þurftum að hinkra með opnun þó að allur matur væri tilbúinn. Þetta tókst þó að lokum og það er búið að vera frábært að gera í allan dag.

Einn kosturinn við það að vera að opna fimmta staðinn er að við lærum alltaf eitthvað nýtt í hverri opnun og við erum alltaf að bæta staðina örlítið. Afgreiðsluborðið, sem að Frostverk smíðar, er gott dæmi um þetta því í hvert skipti sem við hittum þá fyrir nýjan stað þá erum við með nýja hluti, sem við viljum fá inní borðið. Lea Galgana, sem hefur hannað staðina í Smáralind og Dalshrauni hannaði líka fyrir okkur nýtt útlit á frontinum, sem er talsvert ólíkt (og flottara) en útlitið á N1 Hringbraut.

Allavegana, ég tók slatta af myndum síðustu vikuna sem við höfðum til að byggja upp staðinn inná stöðinni og þær eru komnar hingað inn. Ég tímasetti myndirnar miðað við opnun og það er magnað að hugsa til þess að þetta hafi verið staðurinn 6 dögum fyrir opnun og þetta staðurinn 17 klukkutímum fyrir opnun.

* * *

Staðurinn er semsagt tilbúinn, en þó munum við bæta við hann á næstu vikum. Fyrir það fyrsta mun bílalúgann vonandi opna fljótlega, sem ætti að vera skemmtileg nýjung þótt að hún skapi vissulega ákveðin vandræði þegar kemur að skipulagningu. En það er eitthvað sem við munum leysa.

Einnig ætlum við að byrja með morgunmat á Bíldshöfðanum seinna í sumar eða haust. Við erum búin að vera að gera tilraunir með morgunmat síðustu vikur og þær lofa góðu. Ef að einhver hefur áhuga á að vera með í rýnihóp fyrir morgunverðar-burrito og quesadilla, sendið mér þá endilega póst.

* * *

Núna er ég nett þreyttur, það verður alltaf mikið spennufall eftir svona opnanir. Þannig að ég ætla að eyða kvöldinu í að klára að horfa á þá Lost þætti, sem ég á inni. Jibbí jei!

* * *

Mikið afskaplega er nýji Sigur Rósar diskurinn frábær. Ég er búinn að vera sönglandi Gobbedigook og Inní mér syngur vitleysingur og Við Spilum endalaust nánast án þess að stoppa síðustu daga. Þessi hljómsveit er ótrúleg. Verst að þeir gerðu ekki heilan disk með hressum lögum. Þá hefði sá diskur einangrað sumarhlustunina mína.

5 thoughts on “Bíldshöfði, morgunmatur og Sigur Rós”

 1. Ég dáist að kraftinum í ykkur félögum. Til hamingju með nýja staðinn.
  kv.
  Svana

 2. Takk, Svana.

  Ég veit ekki alveg hvernig mér fannst síðustu þættirnir. Miðað við endinn á síðustu seríu (sem var svakalegur) þá fannst mér þeir aðeins missa dampinn. Ég var samt eiginlega búinn að sjá fyrir þetta lokatwist með manninn í líkkistunni, þannig að það var ekki jafn svakalegt og endirinn á síðustu seríu þegar að Jack og Kate sáust saman í Bandaríkjunum og Jack var að tala um að fara aftur á eyjuna.

  Samt fannst mér lokaþátturinn vera með bestu þáttum sem ég hef séð, en þættirnir þar á undan voru ekki nógu góðir.

  Heilt yfir fannst mér þessi fjórða sería vera sú þriðja besta (á eftir þeirri fyrstu og þriðju). Smá vonbrigði miðað við það hvað síðasta sería var góð, en samt frábær.

 3. Já, ég held að ég hafi bloggað um þessa síðu fyrir einhverjum mánuðum síðan. Hún verður athyglisverðari með tímanum.

Comments are closed.